Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Breyttu í samræmi við innilega bæn Jesú

Breyttu í samræmi við innilega bæn Jesú

„Faðir ... ger son þinn dýrlegan til þess að sonurinn geri þig dýrlegan.“ – JÓH. 17:1.

1, 2. Hvað gerði Jesús fyrir trúa postula sína eftir að þeir höfðu haldið páska árið 33?

ÞAÐ er síðla kvölds hinn 14. nísan árið 33. Jesús og félagar hans eru búnir að halda páskahátíðina en hún minnir þá á hvernig Guð frelsaði forfeður þeirra úr þrælkun í Egyptalandi. Trúir fylgjendur Jesú eiga þó eftir að hljóta ,eilífa lausn‘ sem er miklu stórfenglegri. Daginn eftir verður syndlaus leiðtogi þeirra tekinn af lífi. En þetta grimmdarverk óvina hans verður til blessunar því að úthellt blóð Jesú frelsar mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. – Hebr. 9:12-14.

2 Til að tryggja að við gleymdum ekki þessu kærleiksverki Guðs stofnaði Jesús til nýrrar hátíðar sem halda skyldi árlega í stað páskanna. Hann tók ósýrt brauð, braut það, gaf 11 trúum postulum sínum og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Síðan rétti hann þeim bikar með rauðu víni og sagði við þá: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.“ – Lúk. 22:19, 20.

3. (a) Hvaða mikla breyting varð með dauða Jesú? (b) Hverju ættum við að velta fyrir okkur varðandi bæn Jesú í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls?

3 Gamli lagasáttmálinn milli Guðs og Ísraelsmanna var í þann mund að líða undir lok. Í staðinn myndi Jehóva gera nýjan sáttmála við andasmurða fylgjendur Jesú. Jesú var ákaflega annt um velferð fylgjenda sinna. Ísraelsþjóðin var illa sundruð, bæði félagslega og trúarlega, og kastaði þar af leiðandi rýrð á heilagt nafn Guðs. (Jóh. 7:45-49; Post. 23:6-9) Jesús þráði hins vegar að fylgjendur sínir yrðu fullkomlega sameinaðir svo að þeir gætu unnið saman sem einn maður að því að heiðra nafn Guðs. Hvað gerir Jesús? Hann ber fram einhverja fegurstu  bæn sem nokkur maður hefur fengið tækifæri til að lesa. (Jóh. 17:1-26, sjá mynd í byrjun greinar.) Við getum horft til baka og velt fyrir okkur hvort Guð hafi bænheyrt Jesú. Við ættum líka að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort við lifum í samræmi við þessa bæn.

ÁHERSLUR JESÚ

4, 5. (a) Hvað lærum við af inngangsorðum bænarinnar sem Jesús bað? (b) Um hvað bað Jesús í eigin þágu og hvernig var hann bænheyrður?

4 Jesús ræðir við lærisveinana langt fram á nótt og miðlar þeim dýrmætri þekkingu frá Guði. Síðan horfir hann til himins og biður: „Faðir, stundin er komin. Ger son þinn dýrlegan til þess að sonurinn geri þig dýrlegan. Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum að hann gefi eilíft líf öllum þeim sem þú hefur gefið honum ... Ég hef gert þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk sem þú fékkst mér að vinna. Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá þér áður en heimur var til.“ – Jóh. 17:1-5.

5 Við skulum taka eftir áherslum Jesú í inngangsorðum bænarinnar. Fyrst biður hann þess að hann megi gera föður sinn á himnum dýrlegan. Það var líka það fyrsta sem hann nefndi í faðirvorinu: „Faðir, helgist þitt nafn.“ (Lúk. 11:2) Þessu næst biður Jesús þess að faðirinn gefi lærisveinunum öllum „eilíft líf“. Síðan minnist hann á sínar eigin þarfir og biður þess að faðirinn veiti honum sömu dýrð og hann hafði áður en heimurinn var skapaður. Jehóva bænheyrir trúan son sinn og veitir honum meira en hann biður um. Hann gefur honum „ágætara nafn“ en nokkur af englunum hefur. – Hebr. 1:4.

AÐ ÞEKKJA HINN EINA SANNA GUÐ

6. Hvað þurftu postularnir að gera til að hljóta eilíft líf og hvernig vitum við að þeim tókst það?

6 Jesús nefnir líka í bæn sinni hvaða skilyrði við sem erum syndug þurfum að uppfylla til að Guð gefi okkur eilíft líf. (Lestu Jóhannes 17:3.) Hann segir að við þurfum „að þekkja“ Guð og Krist. Við gerum það meðal annars með því að nota augu og eyru til að fræðast um Jehóva og son hans. Við lærum líka að þekkja Guð þegar við kynnumst gleðinni sem fylgir því að fara eftir því sem við lærum. Postularnir höfðu gert þetta tvennt og Jesús tók það fram í bæn sinni: „Ég hef flutt þeim þau orð sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim.“ (Jóh. 17:8) En til að hljóta eilíft líf þurftu þeir að halda áfram að hugleiða orð Guðs og fara eftir þeim í daglega lífinu. Tókst postulunum að gera það þangað til jarðlífi þeirra lauk? Já. Við vitum það vegna þess að nöfn þeirra allra eru skráð til eilífðar á 12 undirstöðusteina hinnar nýju Jerúsalem á himnum. – Opinb. 21:14.

7. Hvað merkir það „að þekkja“ Guð og hvers vegna er það afar mikilvægt?

7 Grískufræðingar benda á að orðið, sem er þýtt „að þekkja“ í Jóhannesi 17:3, megi einnig þýða „halda áfram að þekkja“. Þessar tvær þýðingar mynda eina merkingarlega heild og báðar skipta máli. Til að þekkja Guð þurfum við sem sagt að halda áfram jafnt og þétt að afla okkur þekkingar um hann. En að þekkja æðstu tignarpersónu alheims er miklu meira en að hafa skilning á eiginleikum hennar og markmiðum. Til að þekkja Jehóva þurfum við að eiga náið vináttusamband við hann. Við þurfum að elska hann og trúsystkini okkar. „Sá sem ekki elskar þekkir  ekki Guð,“ segir í Biblíunni. (1. Jóh. 4:8) Við þurfum að hlýða Guði til að þekkja hann. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:3-5.) Það er ólýsanlegur heiður að tilheyra þeim hópi manna sem þekkir Jehóva. En það er hægt að glata þessu dýrmæta sambandi eins og sýndi sig hjá Júdasi Ískaríot. Við skulum leggja okkur fram um að viðhalda sambandinu. Þá gefur Jehóva okkur þá óverðskulduðu gjöf að hljóta eilíft líf. – Matt. 24:13.

„Í ÞÍNU NAFNI“

8, 9. Hvað var mikilvægast af öllu í huga Jesú meðan hann þjónaði hér á jörð og hvaða erfðavenju hlýtur hann að hafa haft andstyggð á?

8 Þegar við lesum bæn Jesú í Jóhannesi 17. kafla er augljóst hve annt honum var um postula sína sem voru með honum og um þá sem áttu eftir að gerast lærisveinar hans. (Jóh. 17:20) En við þurfum samt að átta okkur á að Jesús var ekki fyrst og fremst að hugsa um hjálpræði okkar. Allt frá því að hann hóf þjónustu sína á jörð var það æðsta markmið hans að helga og heiðra nafn föður síns. Þegar Jesús upplýsti í samkunduhúsinu í Nasaret hvers vegna hann hefði verið sendur til jarðar las hann upp úr Jesajabók þar sem segir: „Andi Drottins [„Jehóva“, NW] er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap.“ Við megum vera viss um að Jesús bar nafn Guðs skýrt fram þegar hann las þetta. – Lúk. 4:16-21.

9 Löngu áður en Jesús kom til jarðar voru trúarleiðtogar Gyðinga farnir að letja fólk þess að nefna nafn Guðs. Við getum verið viss um að Jesús var eindregið á móti þessari óbiblíulegu erfðavenju. Hann sagði við andstæðinga sína: „Ég er kominn í nafni föður míns og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni tækjuð þér við honum.“ (Jóh. 5:43) Nokkrum dögum áður en Jesús dó nefndi hann í bæn hvað væri honum allra mikilvægast. Hann sagði: „Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ (Jóh. 12:28) Það er því ekkert  undarlegt að umhyggja Jesú fyrir nafni föður síns skuli birtast aftur og aftur í bæninni sem við erum að skoða.

10, 11. (a) Hvernig opinberaði Jesús nafn föður síns? (b) Að hvaða markmiði eiga lærisveinar Jesú að vinna?

10 „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum sem þú gafst mér úr heiminum,“ sagði Jesús. „Þeir voru þínir og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.“ – Jóh. 17:6, 11.

11 Að opinbera lærisveinunum nafn Guðs fólst ekki aðeins í því að segja það upphátt. Jesús sýndi þeim líka fram á hvað nafnið stæði fyrir, það er að segja háleita eiginleika Guðs og kærleika hans í samskiptum við þjóna sína. (2. Mós. 34:5-7) Jesús er konungur á himnum núna og heldur áfram að hjálpa lærisveinum sínum að kunngera nafn Jehóva út um allan heim. Markmiðið er það að enn fleiri gerist lærisveinar hans áður en þessi illi heimur líður undir lok. Þegar það gerist bjargar hann trúum vottum sínum og allir munu þá þekkja hið mikla nafn Jehóva. – Esek. 36:23.

„TIL ÞESS AÐ HEIMURINN TRÚI“

12. Hvað þrennt er nauðsynlegt til að ljúka verkinu sem Jesús hóf?

12 Meðan Jesús var á jörð lagði hann sig fram um að hjálpa lærisveinunum að sigrast á veikleikum sínum. Það var nauðsynlegt til að þeir gætu lokið því verki sem hann hafði hleypt af stokkunum. „Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn,“ sagði hann í bæninni. Jesús leggur áherslu á að þrennt sé nauðsynlegt til að þeim takist að gera þessu verkefni skil. Í fyrsta lagi biður hann þess að lærisveinarnir tilheyri ekki vanheilögum heimi Satans. Í öðru lagi biður hann þess að þeir helgist, það er að segja að þeir haldi sér heilögum með því að fara eftir sannleikanum í orði Guðs. Í þriðja lagi biður Jesús þess ítrekað að lærisveinarnir séu sameinaðir sömu kærleiksböndum og hann og faðir hans. Við þurfum því öll að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort við breytum í samræmi við þessar þrjár beiðnir Jesú. Jesús treystir ,að heimurinn trúi að Guð hafi sent hann‘ og bendir á það með því að beina athygli að þessu þrennu. – Lestu Jóhannes 17:15-21.

Kristnir menn á fyrstu öld varðveittu einingu safnaðarins með hjálp heilags anda. (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig var bæn Jesú svarað á fyrstu öld?

13 Þegar við skoðum Postulasöguna, sem fylgir guðspjöllunum fjórum, sjáum við að Jesús var bænheyrður. Í frumkristna söfnuðinum voru Gyðingar og fólk af öðrum þjóðum, ríkir og fátækir ásamt þrælum og þrælaeigendum. Hugsaðu þér sundrungina sem það bauð upp á. Samt var söfnuðurinn svo sameinaður að það mátti líkja honum við einn líkama sem átti sér Jesú fyrir höfuð. (Ef. 4:15, 16) Hvílíkt afrek í sundruðum heimi Satans. Þetta var auðvitað Jehóva að þakka sem beitti máttugum heilögum anda sínum til að skapa þessa einingu. – 1. Kor. 3:5-7.

Þjónar Jehóva um allan heim eru sameinaðir. (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig hefur bæn Jesú verið svarað á okkar tímum?

14 Því miður entist einingin ekki til langframa. Eins og spáð hafði verið varð mikið fráhvarf eftir dauða postulanna og af því spruttu hinir margklofnu sértrúarhópar kristna heimsins. (Post. 20:29, 30) En árið 1919 leysti Jesús andasmurða fylgjendur sína úr fjötrum  falstrúarbragða og sameinaði þá í „elskunni sem bindur allt saman“. (Kól. 3:14) Hvaða áhrif hefur boðun þeirra haft á heiminn? Meira en sjö milljónum ,annarra sauða‘ hefur verið safnað saman í eina hjörð ásamt hinum andasmurðu. (Jóh. 10:16) Þeir eru „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“. (Opinb. 7:9) Hvílíkt svar við bæn Jesú þegar hann sagði: „Til þess að heimurinn viti að þú [Jehóva] hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.“ – Jóh. 17:23.

HLÝLEG NIÐURLAGSORÐ

15. Hvernig biður Jesús fyrir andasmurðum lærisveinum sínum?

15 Fyrr þetta sama kvöld, 14. nísan, veitti Jesús postulum sínum „dýrð“ eða heiður með því að gera við þá sáttmála um að ríkja með sér á himnum. (Lúk. 22:28-30; Jóh. 17:22) Jesús biður því núna fyrir öllum sem eiga eftir að fylgja honum og hljóta andasmurningu: „Faðir, ég vil að þeir sem þú gafst mér séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.“ (Jóh. 17:24) Aðrir sauðir Jesú finna ekki fyrir öfund heldur samgleðjast hinum andasmurðu yfir laununum sem þeir hljóta. Það er enn eitt merkið um eininguna sem ríkir meðal allra sannkristinna manna á jörðinni nú á tímum.

16, 17. (a) Hvað ætlaði Jesús sér að gera samkvæmt niðurlagsorðum bænarinnar? (b) Hvað ættum við að gera?

16 Flestir í heiminum láta sem þeir sjái ekki hin skýru merki þess að Jehóva eigi sér sameinaðan söfnuð sem þekkir hann. Sumpart er það trúarleiðtogum þeirra að kenna. Hið sama var uppi á teningnum á dögum Jesú. Hann lýkur því bæninni með þessum hlýlegu orðum: „Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki en ég þekki þig, og þessir vita að þú sendir mig. Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ – Jóh. 17:25, 26.

17 Því verður ekki móti mælt að Jesús hefur starfað í samræmi við bæn sína. Hann er höfuð safnaðarins og hjálpar okkur að kunngera nafn og vilja föður síns. Við skulum lúta forystu hans með því að boða fagnaðarerindið af kappi og kenna fólki í samræmi við fyrirmæli hans. (Matt. 28:19, 20; Post. 10:42) Leggjum okkur líka fram um að varðveita eininguna sem er okkur svo dýrmæt. Ef við gerum það breytum við í samræmi við bæn Jesú, nafni Jehóva til dýrðar og sjálfum okkur til eilífrar gæfu.