Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva

Þjónaðu Jehóva

„Verið ekki hálfvolg í áhuganum ... Þjónið Drottni.“ – RÓMV. 12:11.

1. (a) Hvað sjá margir fyrir sér þegar minnst er á þræla? (b) Hvað þýðir það að „þræla fyrir Jehóva“ eins og talað er um í Rómverjabréfinu 12:11?

Í BIBLÍUNNI er stundum talað um kristna menn sem þræla. Það er þó harla ólíkt því hlutskipti sem margir ímynda sér. Þegar minnst er á þræla sjá margir fyrir sér kúgun, ranglæti og illa meðferð. Í Biblíunni er hins vegar talað um að kristnir þrælar þjóni kærleiksríkum húsbónda af fúsu geði. Þegar Páll postuli hvatti kristna menn á fyrstu öld til að „þræla fyrir Jehóva“, eins og það er orðað í frummálinu, átti hann við að þeir ættu að þjóna Jehóva af því að þeir elskuðu hann. (Rómv. 12:11) Hvað felst í því að þræla fyrir Jehóva? Hvernig getum við komið í veg fyrir að Satan og heimurinn hneppi okkur í þrælkun? Og hvaða umbun fylgir því að þjóna Jehóva dyggilega sem þræll hans?

„MÉR ÞYKIR VÆNT UM HÚSBÓNDA MINN“

2. (a) Af hvaða hvötum gat ísraelskur þræll ákveðið að afsala sér frelsinu? (b) Hvaða þýðingu hafði það að stinga al gegnum eyra þræls sem vildi þjóna húsbónda sínum áfram?

2 Í lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, má lesa hvað sé fólgið í þeirri þrælkun sem Jehóva ætlast til af okkur. Hebreskur þræll átti að fá frelsi á sjöunda árinu sem hann var þræll. (2. Mós. 21:2) En Jehóva gerði athyglisverða ráðstöfun handa þræli sem þótti innilega vænt um húsbónda sinn og vildi fá að þjóna honum áfram. Húsbóndinn átti að fara með þrælinn að dyrunum eða dyrastafnum og stinga al gegnum eyra hans. (2. Mós. 21:5, 6) Það hefur ákveðna þýðingu að eyrað skyldi koma hér við sögu. Í hebresku er notað sama orð um að hlýða og að heyra og hlusta. Þrælinn langaði til að hlýða og þjóna húsbónda sínum áfram. Í ljósi þessa skiljum við betur hvað er fólgið í því að vígjast Jehóva. Við viljum hlýða honum af því að við elskum hann.

3. Hvers vegna vígjumst við Guði?

3 Áður en við létum skírast vorum við búin að ákveða að þjóna Jehóva og vera þrælar hans.  Við vígðumst honum af því að okkur langaði til að hlýða honum og gera vilja hans. Enginn neyddi okkur til þess. Þegar stálpuð börn og unglingar láta skírast er það ekki bara til að þóknast foreldrunum heldur eru þau búin að víga sig Jehóva af fúsum og frjálsum vilja. Við vígjumst Jehóva, húsbónda okkar á himnum, vegna þess að við elskum hann. „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans,“ skrifaði Jóhannes postuli. – 1. Jóh. 5:3.

FRJÁLS EN SAMT ÞRÆLAR

4. Hvað er nauðsynlegt til að við getum orðið ,þrælar réttlætisins‘?

4 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að gera okkur kleift að vera þrælar sínir. Þar sem við trúum á lausnarfórn Krists getum við verið laus undan oki syndarinnar. Við erum enn ófullkomin en höfum gengist fúslega undir yfirráð Jehóva og Jesú. Páll skýrði þetta vel í einu af innblásnum bréfum sínum: „Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.“ Síðan sagði hann: „Vitið þið ekki að ef þið gerist ánauðug þý einhvers eruð þið nauðbeygð að hlýða honum? Annaðhvort hlýðið þið syndinni sem leiðir til dauða eða Guði sem leiðir til lífs í réttlæti. En þökk sé Guði. Þið, sem voruð þrælar syndarinnar, urðuð af hjarta hlýðin þeirri kenningu sem ykkur var gefin. Nú eruð þið leyst frá syndinni og bundin réttlætinu.“ (Rómv. 6:11, 16-18) Við tökum eftir að Páll talar um að vera „af hjarta hlýðin“. Já, með því að vígjast Jehóva erum við „bundin réttlætinu“ eða þrælar þess eins og það er orðað í frummálinu.

5. Í hvaða innri baráttu eigum við öll og hvers vegna?

5 En það er ekki alls kostar auðvelt að halda vígsluheit sitt. Við eigum í baráttu á tvennum vígstöðvum. Í fyrsta lagi erum við í sömu aðstöðu og Páll. „Í hjarta mínu hef ég mætur á lögmáli Guðs,“ skrifaði hann, „en ég sé annað lögmál í limum mínum og það stríðir gegn lögmáli hugar míns, hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ (Rómv. 7:22, 23) Við eigum líka við arfgengan ófullkomleika að glíma. Þess vegna eigum við í stöðugri baráttu við langanir holdsins. Pétur postuli skrifaði: „Þið eruð frjálsir menn. Notið frelsið til að þjóna Guði en ekki til að hylja vonsku.“ – 1. Pét. 2:16.

6, 7. Hvað gerir Satan til að láta heiminn virðast aðlaðandi?

6 Í öðru lagi eigum við í stríði við heiminn en hann er undir áhrifum illra anda. Satan, höfðingi heimsins, miðar skeytum sínum á okkur í von um að fá okkur til að vera Jehóva og Jesú ótrú. Hann reynir að spilla okkur til að geta hneppt okkur í þrælkun. (Lestu Efesusbréfið 6:11, 12.) Hann reynir meðal annars að freista okkar með því að láta heiminn virðast aðlaðandi og heillandi. „Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn,“ skrifaði Jóhannes postuli. „Því að allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum.“ – 1. Jóh. 2:15, 16.

7 Heimurinn er gegnsýrður þeirri hugmynd að velgengni felist í efnislegum gæðum. Satan ýtir undir þá trú að hamingjan sé fólgin í peningum. Stórverslanir eru út um allt. Auglýsendur hampa lífsstíl sem snýst um eignir og frístundir. Ferðaskrifstofur bjóða upp á ferðir til framandi staða, yfirleitt í félagsskap fólks með veraldleg viðhorf. Úr öllum áttum erum við hvött til að „bæta“ hlutskipti okkar – en alltaf eftir viðmiðum heimsins.

8, 9. Hvaða hætta steðjar að okkur og hvers vegna?

 8 Í kristna söfnuðinum á fyrstu öld voru menn sem höfðu tileinkað sér sjónarmið heimsins. Pétur skrifaði um þá: „Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán þegar þeir blekkja ykkur og neyta máltíða með ykkur og svalla. Þeir láta klingja innantóm diguryrði og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá sem eru í þann veginn að sleppa frá þeim sem ganga í villu. Þeir heita þeim frelsi þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar því að sérhver verður þræll þess sem hann hefur beðið ósigur fyrir.“ – 2. Pét. 2:13, 18, 19.

9 Það frelsar ekki manninn að hlaupa eftir því „sem glepur augað“. Öllu heldur verður hann þræll Satans djöfulsins sem er ósýnilegur húsbóndi þessa heims. (1. Jóh. 5:19) Hættan á að verða þræll efnishyggjunnar steðjar að okkur öllum og það er erfitt að losna úr þeirri þrælkun.

AÐ VELJA SÉR STARFSGREIN

10, 11. Hverjir eru eitt helsta skotmark Satans og hvernig gæti menntun valdið þeim erfiðleikum?

10 Satan reynir að klófesta þá sem eru óreyndir, rétt eins og hann gerði í Eden. Unga fólkið er eitt helsta skotmark hans. Satan er ekki skemmt þegar ung manneskja, né reyndar hver sem er, býður sig fram til að þjóna Jehóva. Helst vill óvinurinn að allir sem vígjast Jehóva bregðist honum og verði ótrúir.

11 Snúum okkur nú aftur að dæminu um þrælinn sem valdi að láta stinga sig með al gegnum eyrað. Það hlýtur að hafa verið sárt fyrir hann um stutta stund. En það leið fljótt hjá og eftir stóð varanlegt merki um að hann væri þræll. Það getur líka verið erfitt eða jafnvel sársaukafullt fyrir ungan mann eða konu að velja sér öðruvísi lífsbraut en jafnaldrarnir. Satan heldur því á lofti að það veiti lífsfyllingu að finna sér gott starf í heiminum en kristnir menn ættu að hafa hugfast hve mikilvægt það er að fullnægja andlegu þörfunum. „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ sagði Jesús. (Lúk. 11:28) Vígðir þjónar Guðs helga sig því að gera vilja hans en ekki vilja Satans. Þeir hafa yndi af lögmáli Jehóva og hugleiða það dag og nótt. (Lestu Sálm 1:1-3.) Margar af þeim námsbrautum, sem menntakerfi okkar tíma býður upp á, eru þess eðlis að þjónn Jehóva  hefur lítinn tíma aflögu til að hugleiða og fullnægja andlegum þörfum sínum.

12. Um hvað þarf margt ungt fólk að velja?

12 Það gat verið þrautin þyngri fyrir kristinn þræl að vera í þjónustu húsbónda sem var ekki í söfnuðinum. Páll spurði í fyrra bréfinu til Korintumanna: „Varst þú þræll er þú varst kallaður?“ Síðan segir hann: „Set það ekki fyrir þig en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.“ (1. Kor. 7:21) Það var æskilegt að vera ekki þræll. Víða um lönd er skólaskylda upp að vissum aldri. Þá er nemendum boðið að velja. Ef maður velur að halda áfram námi til að finna sér gott starf í heiminum getur það dregið úr möguleikunum á að þjóna Guði í fullu starfi. – Lestu 1. Korintubréf 7:23.

Hvaða húsbónda ætlarðu að þjóna?

ÆÐRI MENNTUN EÐA ÆÐSTA MENNTUN?

13. Hvers konar menntun er gagnlegust fyrir þjóna Jehóva?

13 Páll varaði kristna menn í Kólossu við ákveðinni hættu sem þeir voru í. Hann skrifaði: „Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum en ekki frá Kristi.“ (Kól. 2:8) Málflutningur menntamanna einkennist gjarnan af „marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum“. Þeir halda á lofti þeim hugsunarhætti sem er algengur í heiminum. Æðri menntun leggur áherslu á bókleg fræði en að námi loknu er algengt að fólk kunni lítið eða ekkert til verka og sé alls ekki undir það búið að takast á við veruleika lífsins. Þjónar Jehóva reyna hins vegar að afla sér kunnáttu sem gerir þeim kleift að lifa einföldu lífi í þjónustu hans. Þeir fara eftir leiðbeiningum Páls til Tímóteusar. Hann skrifaði: „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ (1. Tím. 6:6, 8) Í stað þess að afla sér háskólagráðu og titlum leggja þjónar Guðs áherslu á að fá „meðmælabréf“ sem byggist á því að taka sem mestan þátt í að boða fagnaðarerindið. – Lestu 2. Korintubréf 3:1-3.

14. Hvernig leit Páll á það að mega vera þræll Guðs og Krists, samkvæmt því sem hann segir í Filippíbréfinu 3:8?

14 Við getum dregið lærdóm af Páli postula. Hann hlaut menntun við fætur Gamalíels sem var virtur lögmálskennari. Menntun hans var sambærileg  við háskólamenntun eins og hún gerist núna. En hvernig leit Páll á menntun sína í samanburði við þann heiður að mega vera þræll Guðs og Krists? Hann skrifaði: „Meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn.“ Hann bætti síðan við: „Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist.“ (Fil. 3:8) Þetta sjónarmið Páls getur hjálpað kristnum ungmennum og guðræknum foreldrum þeirra að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi menntun. (Sjá myndir.)

ÞIGGÐU ÆÐSTU MENNTUN SEM VÖL ER Á

15, 16. Hvaða menntun býður söfnuður Jehóva upp á og í hvaða tilgangi?

15 Hvernig er andrúmsloftið við margar af æðri menntastofnunum þessa heims? Er ekki kynferðislegt siðleysi og drykkjuskapur algengur meðal nemenda? Og halda ekki þessar stofnanir þróunarkenningunni á lofti? (Ef. 2:2) Söfnuður Jehóva býður hins vegar upp á æðstu menntun sem völ er á og hún er veitt í friðsælu umhverfi. Við getum öll notfært okkur Boðunarskólann sem haldinn er vikulega. Einnig eru í boði sérhæfð námskeið handa einhleypum bræðrum sem eru brautryðjendur (Biblíuskóli fyrir einhleypa bræður) og handa hjónum sem eru brautryðjendur (Biblíuskóli fyrir hjón). Menntun af þessu tagi hjálpar okkur að hlýða Jehóva, húsbónda okkar á himnum.

16 Við getum notað efnisskrána Watch Tower Publications Index og geisladiskinn Watchtower Library til að finna dýrmæta andlega fjársjóði. Markmiðið með menntuninni, sem söfnuðurinn stendur fyrir, er að efla tilbeiðsluna á Jehóva. Við lærum að hjálpa öðrum að sættast við Guð. (2. Kor. 5:20) Þeir verða síðan færir um að kenna öðrum. – 2. Tím. 2:2.

UMBUN ÞRÆLSINS

17. Hvaða umbun fylgir því að afla sér æðstu menntunar sem er í boði?

17 Í dæmisögu Jesú um talenturnar voru tveir trúir þjónar sem fengu hrós frá húsbónda sínum og gengu inn í fögnuð hans þegar hann trúði þeim fyrir meiri verkefnum. (Lestu Matteus 25:21, 23.) Við uppskerum gleði og umbun ef við veljum bestu menntunina sem er í boði. Michael er dæmi um það. Hann stóð sig svo vel í skóla að kennarar hans boðuðu hann á fund til að ræða möguleika hans á að fara í háskóla. Þeim til undrunar kaus Michael hins vegar að fara í stutt verknám sem gerði honum fljótlega kleift að sjá fyrir sér sem brautryðjandi. Sér hann eftir þessari ákvörðun? „Ég hef fengið ómetanlega menntun í söfnuðinum, bæði sem brautryðjandi og síðar sem öldungur,“ segir hann. „Blessunin og heiðurinn, sem ég hef hlotið, er margfalt verðmætari en peningarnir sem ég hefði getað unnið mér inn. Ég er ánægður með að hafa ekki aflað mér æðri menntunar.“

18. Hvers vegna ættum við að velja bestu menntunina sem er í boði?

18 Ef við veljum bestu menntunina, sem völ er á, lærum við að gera vilja Jehóva og vera þrælar hans. Við eigum þá í vændum að ,verða leyst úr ánauð okkar undir hverfulleikanum‘ og fá að lokum „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. (Rómv. 8:21) Síðast en ekki síst er það besta leiðin til að sýna að við elskum Jehóva, húsbónda okkar á himnum. – 2. Mós. 21:5.