Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þið eruð helguð

Þið eruð helguð

„Þið létuð laugast, létuð helgast.“ – 1. KOR. 6:11.

1. Hvaða uggvænlega ástand uppgötvar Nehemía þegar hann kemur aftur til Jerúsalem? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÍBÚUM Jerúsalem er tíðrætt um ástandið í borginni. Illræmdur útlendingur dvelst í einu af herbergjum musterisins. Levítar eru að hverfa frá störfum. Öldungarnir stunda verslun á hvíldardeginum í stað þess að taka forystu í tilbeiðslunni. Margir Ísraelsmenn ganga að eiga erlendar konur. Þetta eru aðeins dæmi um það uggvænlega ástand sem Nehemía uppgötvar þegar hann kemur aftur til Jerúsalem einhvern tíma eftir 443 f.Kr. – Neh. 13:6.

2. Hvernig urðu Ísraelsmenn heilög þjóð?

2 Ísraelsmenn voru vígðir Guði. Árið 1513 f.Kr. var þjóðinni mikið í mun að fara eftir vilja hans. „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið,“ sögðu þeir. (2. Mós. 24:3) Jehóva helgaði því þjóðina, það er að segja útvaldi hana. Það var mikill heiður. Móse minnti þjóðina á þetta 40 árum síðar og sagði: „Þú ert heilög þjóð fyrir Drottni Guði þínum. Drottinn valdi þig til að verða eignarlýður hans meðal allra þjóða sem búa á yfirborði jarðar.“ – 5. Mós. 7:6.

3. Hvernig voru Gyðingar á vegi staddir þegar Nehemía kom til Jerúsalem öðru sinni?

3 Þessi áhugi þjóðarinnar á að vera heilög entist því miður ekki lengi. Þótt alltaf hafi einhverjir Gyðingar þjónað Jehóva af heilum hug virtist þjóðin almennt hafa meiri áhuga á að sýnast heilög og guðrækin en að gera vilja Guðs. Þegar Nehemía kom til Jerúsalem öðru sinni voru liðin um hundrað ár frá því að guðræknir Gyðingar höfðu snúið heim frá Babýlon til að endurreisa sanna tilbeiðslu. Þá var áhugi þjóðarinnar á andlegu málunum farinn að dvína á nýjan leik.

4. Hvað getur hjálpað okkur að vera heilög í augum Guðs?

4 Jehóva Guð hefur helgað votta sína nú á tímum sem heild, líkt og hann helgaði Ísraelsmenn. Bæði hinir andasmurðu og ,múgurinn mikli‘ eru heilagir eða útvaldir til að veita heilaga þjónustu. (Opinb. 7:9, 14, 15; 1. Kor. 6:11) Ekkert okkar vill missa  hið helga samband við Guð eins og Ísraelsmenn gerðu með tímanum. Hvernig getum við komið í veg fyrir að það gerist? Hvernig getum við haldið áfram að vera heilög í augum Guðs og hæf til að þjóna honum? Í þessari námsgrein lítum við á fernt sem læra má af 13. kafla Nehemíabókar: (1) Að forðast vondan félagsskap, (2) styðja starfsemi safnaðarins, (3) láta andlegu málin ganga fyrir og (4) gleyma aldrei að við erum vottar Jehóva. Við skulum nú skoða þetta lið fyrir lið.

FORÐIST VONDAN FÉLAGSSKAP

Hvernig sýndi Nehemía hollustu sína gagnvart Jehóva? (Sjá 5. og 6. grein.)

5 Lestu Nehemíabók 13:4-9Við getum orðið fyrir spillandi áhrifum úr öllum áttum þannig að það er ekki auðvelt fyrir okkur að vera heilög. Hvaða lærdóm má draga af þeim Eljasíb og Tobía? Eljasíb var æðsti prestur og Tobía var Ammoníti og trúlega lágt settur embættismaður Persa í Júdeu. Tobía og félagar hans höfðu beitt sér gegn Nehemía þegar hann lét endurreisa múra Jerúsalem. (Neh. 2:10) Ammonítum var bannað að koma inn á musterissvæðið. (5. Mós. 23:3) Af hverju skyldi þá æðsti presturinn hafa látið manni eins og Tobía í té matsal í musterinu?

5, 6. Hverjir voru Eljasíb og Tobía og hver kann að vera ástæðan fyrir því að Eljasíb umgekkst hann?

6 Tobía og Eljasíb voru góðir vinir. Tobía og Jóhanan, sonur hans, voru giftir Gyðingakonum og margir Gyðingar höfðu miklar mætur á Tobía. (Neh. 6:17-19) Einn sonarsonur Eljasíbs var tengdasonur Sanballats en hann var landstjóri í Samaríu og einn nánasti vinur Tobía. (Neh. 13:28) Þessi tengsl skýra ef til vill hvers vegna Eljasíb æðsti prestur leyfði heiðnum andstæðingi að hafa áhrif á sig. En Nehemía sýndi Jehóva hollustu með því að henda öllum húsgögnum Tobía út úr matsalnum.

7. Hvernig geta öldungar og aðrir forðast spillandi áhrif?

7 Við sem erum vígð Guði þurfum fyrst og fremst að sýna honum hollustu. Við getum ekki verið heilög í augum Guðs nema við fylgjum réttlátum mælikvarða hans. Við megum ekki víkja frá meginreglum Biblíunnar til að þóknast fjölskyldunni og tengdafólki. Safnaðaröldungar láta sjónarmið Jehóva ráða ferðinni en ekki eigin skoðanir eða tilfinningar. (1. Tím. 5:21) Þeir gæta þess vandlega að gera ekki neitt sem myndi skaða samband þeirra við Guð. – 1. Tím. 2:8.

8. Hvað ættu allir vígðir þjónar Jehóva að hafa hugfast varðandi félagsskap?

8 Við skulum hafa hugfast að „vondur félagsskapur spillir góðum siðum“. (1. Kor. 15:33) Vera má að einstaka ættingjar hafi ekki sérlega jákvæð áhrif á okkur. Eljasíb hafði verið þjóðinni góð fyrirmynd með því að styðja Nehemía heilshugar þegar hann endurbyggði múra Jerúsalem. (Neh. 3:1) En óheilnæm áhrif Tobía og annarra virðast hafa orðið til þess að Eljasíb braut síðar gegn boðum Jehóva og var því ekki hreinn í augum hans. Góðir félagar hvetja okkur til að temja okkur góða siði eins og að lesa í Biblíunni, sækja safnaðarsamkomur og boða fagnaðarerindið. Við kunnum vel að meta ættingja sem hvetja okkur til að gera rétt.

STYÐJIÐ STARFSEMI SAFNAÐARINS

9. Hvers vegna fór starfsemi musterisins úr skorðum og hverjum kenndi Nehemía um það?

9 Lestu Nehemíabók 13:10-13Þjóðin virðist að mestu leyti hafa verið hætt að gefa framlög til musterisins þegar Nehemía kom aftur til Jerúsalem. Þar sem  Levítarnir höfðu ekki lengur þennan stuðning hættu þeir að starfa í musterinu til að vinna á ökrum sínum. Nehemía kenndi embættismönnunum um. Þeir virðast ekki hafa sinnt skyldum sínum. Annaðhvort söfnuðu þeir ekki tíundinni frá fólkinu eða skiluðu henni ekki til musterisins eins og þeim bar. (Neh. 12:44) Nehemía gerði því ráðstafanir til að láta safna tíundinni. Hann skipaði trausta menn til að sjá um birgðageymslur musterisins og úthlutun úr þeim.

10, 11. Hvernig geta allir þjónar Guðs stutt sanna tilbeiðslu?

10 Getum við dregið lærdóm af þessu? Já, það minnir okkur á að við getum öll tignað Jehóva með eigum okkar. (Orðskv. 3:9) Þegar við gefum eitthvað til að styðja starfsemi safnaðarins erum við einungis að gefa Jehóva það sem hann á hvort eð er. (1. Kron. 29:14-16) Við hugsum kannski sem svo að við eigum ekki mikið til að gefa en ef löngunin er fyrir hendi getum við öll lagt eitthvað af mörkum. – 2. Kor. 8:12.

11 Hjón með átta börn buðu rosknum hjónum, sem voru sérbrautryðjendur, að borða með fjölskyldunni einu sinni í viku árum saman. „Það munar ekkert um tvo diska til viðbótar við tíu manna borð,“ var móðirin vön að segja. Það virðast engin ósköp að bjóða öðrum í mat einu sinni í viku en brautryðjendurnir kunnu vel að meta gestrisnina. Og hún reyndist líka til blessunar fyrir gestgjafana. Hvetjandi frásögur brautryðjendanna urðu börnunum hvatning til að taka framförum í trúnni. Öll þjónuðu Guði í fullu starfi þegar þau uxu úr grasi.

12. Hvernig eru öldungar og safnaðarþjónar til fyrirmyndar?

12 Við getum lært annað af frásögu Biblíunnar af Nehemía: Öldungar og safnaðarþjónar eiga að taka góða forystu í starfi safnaðarins. Aðrir í söfnuðinum njóta þá góðs af fordæmi þeirra. Öldungarnir líkja einnig eftir Páli postula að þessu leyti. Hann studdi starfsemi safnaðarins og gaf góðar leiðbeiningar þar að lútandi. Til dæmis gaf hann ýmis ráð í sambandi við framlög til safnaðarins. – 1. Kor. 16:1-3; 2. Kor. 9:5-7.

LÁTIÐ ANDLEGU MÁLIN GANGA FYRIR

13. Að hvaða leyti virtu sumir Gyðingar ekki hvíldardaginn?

13 Lestu Nehemíabók 13:15-21Ef efnislegir hlutir eiga hug okkar allan er hætt við að það komi niður á okkar  andlega manni. Samkvæmt 2. Mósebók 31:13 átti vikulegur hvíldardagur að minna Ísraelsmenn á að þeir væru heilög þjóð. Fjölskyldan átti að nota daginn til að tilbiðja Guð, hugleiða lögmál hans og biðjast fyrir. En hjá sumum samtíðarmönnum Nehemía var hvíldardagurinn orðinn eins og hver annar dagur. Þeir sinntu daglegum störfum og létu tilbeiðsluna sitja á hakanum. Nehemía sá hvers kyns var. Hann lét loka borgarhliðunum þegar fór að skyggja á sjötta deginum og rak burt erlenda kaupmenn áður en hvíldardagurinn hófst.

14, 15. (a) Hvað getur gerst ef við erum of upptekin af vinnu eða viðskiptum? (b) Hvernig getum við gengið inn til hvíldar Guðs?

14 Hvaða lærdóm getum við dregið af Nehemía? Meðal annars að við ættum ekki að vera of upptekin af vinnu eða viðskiptum. Að öðrum kosti gæti svo farið að við þjónuðum ekki Jehóva heilshugar, sér í lagi ef okkur finnst vinnan skemmtileg. Mundu hvernig Jesús varaði við því að þjóna tveim herrum. (Lestu Matteus 6:24.) Nehemía var vel stæður en hvernig notaði hann tímann meðan hann var í Jerúsalem? (Neh. 5:14-18) Hann reyndi ekki að stofna til viðskipta við Týrverja eða aðra heldur einbeitti sér að því að hjálpa samlöndum sínum og vera nafni Jehóva til sóma. Öldungar og safnaðarþjónar einbeita sér sömuleiðis að því að þjóna söfnuðinum, og trúsystkinum þeirra þykir vænt um þá. Fyrir vikið ríkir kærleikur, friður og öryggi meðal þjóna Guðs. – Esek. 34:25, 28.

15 Kristnum mönnum er ekki skylt að halda vikulegan hvíldardag. Páll segir samt: „Enn stendur ... til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.“ Hann bætir við: „Sá sem gengur inn til hvíldar hans fær hvíld frá verkum sínum eins og Guð hvíldist eftir sín verk.“ (Hebr. 4:9, 10) Við sem erum þjónar Guðs getum gengið inn til hvíldar hans með því að hlýða honum og starfa í samræmi við vilja hans og fyrirætlun. Látið þið biblíunám fjölskyldunnar, samkomur og boðunina ganga fyrir öðru í lífi ykkar? Við þurfum ef til vill að vera ákveðin við vinnuveitanda eða viðskiptafélaga, ekki síst ef þeir virða ekki að við látum þjónustuna við Jehóva ganga fyrir. Það er ekki ósvipað og Nehemía gerði þegar hann rak burt kaupmenn frá Týrus og lokaði borgarhliðunum til þess að hægt væri að sinna andlegu málunum. Þar sem við erum helguð ættum við að spyrja okkur hvort við lifum í samræmi við það að við erum útvalin til að þjóna Jehóva. – Matt. 6:33.

GLEYMDU ALDREI AÐ ÞÚ ERT VOTTUR JEHÓVA

16. Hvers vegna var hætta á að Gyðingar á dögum Nehemía gleymdu að þeir væru útvalin þjóð Guðs?

16 Lestu Nehemíabók 13:23-27. Ísraelskir karlmenn voru farnir að taka sér erlendar konur á dögum Nehemía. Í fyrra sinnið, sem Nehemía kom til Jerúsalem, lét hann alla öldungana undirrita skriflegan samning um að giftast ekki heiðnum konum. (Neh. 10:1; 10:30) Fáeinum árum síðar uppgötvaði hann að sumir Gyðingar höfðu gifst erlendum konum og voru við það að gleyma að þeir tilheyrðu heilagri þjóð Guðs. Börn þessara útlendu kvenna voru hvorki læs né talandi á hebresku. Var þá líklegt að þau myndu líta á sig sem Ísraelsmenn þegar þau yrðu fullorðin? Eða myndu þau telja sig vera Asdódíta, Ammóníta eða Móabíta? Ef þessi börn skildu ekki hebresku voru ekki miklar líkur á að þau gætu skilið lögmál Guðs. Hvernig gátu þau kynnst Jehóva og ákveðið að þjóna honum í stað falsguðanna sem  mæður þeirra dýrkuðu? Það þurfti að taka á málinu og Nehemía gerði það tafarlaust. – Neh. 13:28.

Hjálpaðu börnunum að mynda náin tengsl við Jehóva. (Sjá 17. og 18. grein.)

17. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að eiga náið samband við Jehóva?

17 Við þurfum að gera það sem gera þarf til að börnin okkar læri að líta á sig sem votta Jehóva. Foreldrar ættu að velta fyrir sér hve vel börnin tali hið hreina tungumál sannleikans. (Sef. 3:9) Enduróma orð þeirra áhrif anda Guðs eða áhrif heimsins? Misstu ekki móðinn þó að þú áttir þig á að börnin þurfi að bæta sig. Það tekur sinn tíma að læra tungumál, ekki síst ef truflanir eru margar. Það er þrýst á börnin úr öllum áttum að óhlýðnast Guði. Verið þolinmóð og notið námsstundir fjölskyldunnar og önnur tækifæri til að hjálpa börnunum að eignast náið samband við Jehóva. (5. Mós. 6:6-9) Minntu þau á hvers vegna það sé gott að vera ólíkur heimi Satans. (Jóh. 17:15-17) Leggðu þig fram um að ná til hjartans.

18. Hvers vegna eru kristnir foreldrar í bestu aðstöðunni til að búa börnin undir að vígjast Jehóva?

18 Fyrr eða síðar þurfa börnin að ákveða hvert um sig hvort þau ætli að þjóna Jehóva. En foreldrarnir geta haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra, meðal annars með því að vera þeim góð fyrirmynd, setja þeim skýr mörk og sýna þeim fram á að ákvarðanir hafi afleiðingar. Þið foreldrarnir eruð í bestu aðstöðunni til að búa börnin undir að vígjast Jehóva. Þau þurfa á hjálp ykkar að halda til að líta á sig sem votta Jehóva og gleyma því ekki. En við þurfum auðvitað öll að halda vöku okkar til að varðveita táknræn „klæði“ okkar, það er að segja þá eiginleika og lífsreglur sem sýna að við fylgjum Kristi. – Opinb. 3:4, 5; 16:15.

JEHÓVA MINNIST OKKAR FYRIR ÞAÐ GÓÐA SEM VIÐ GERUM

19, 20. Hvað getum við gert til að Jehóva minnist okkar?

19 Malakí spámaður var samtíðarmaður Nehemía. Hann opinberaði að frammi fyrir Guði væri „skrifuð bók til að minna á alla sem óttast Drottin og virða nafn hans“. (Mal. 3:16, 17) Jehóva gleymir þeim aldrei sem bera lotningu fyrir honum og elska nafn hans. – Hebr. 6:10.

20 Nehemía bað: „Guð minn, minnstu þessa mér til góðs.“ (Neh. 13:31) Við getum fengið nöfn okkar rituð í bók Guðs eins og Nehemía ef við forðumst vondan félagsskap, styðjum starfsemi safnaðarins, látum andlegu málin ganga fyrir og gleymum aldrei að við erum vottar Jehóva. Við skulum kanna reglulega ,hvort við erum í trúnni‘. (2. Kor. 13:5, Biblían 1981) Ef við gerum okkar ýtrasta til að vera heilög frammi fyrir Jehóva mun hann minnast okkar fyrir það góða sem við gerum.