Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fáeinir næra fjöldann

Fáeinir næra fjöldann

„[Jesús] braut brauðin og gaf lærisveinunum en þeir fólkinu.“ – MATT. 14:19.

1-3. Lýstu hvernig Jesús mettaði mikinn mannfjölda í grennd við Betsaídu. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

HUGSAÐU þér að þú sért staddur úti í óbyggðum ekki fjarri þorpinu Betsaídu við norðurströnd Galíleuvatns. (Lestu Matteus 14:14-21.) Þetta er rétt fyrir páska árið 32. Jesús er þarna ásamt lærisveinum sínum, en auk þess er þar mikill fjöldi fólks, um 5.000 karlmenn auk kvenna og barna.

2 Jesús kennir í brjósti um fólkið þegar hann horfir yfir mannfjöldann. Hann læknar sjúka og kennir fólkinu margt varðandi ríki Guðs. Þegar líður að kvöldi hvetja lærisveinarnir Jesú til að láta fólkið fara svo að það geti náð til þorpanna í grennd og keypt sér eitthvað til matar. En Jesús segir lærisveinunum: „Gefið því sjálfir mat.“ Þeir eru trúlega hissa því að birgðirnar eru ekki miklar – aðeins fimm brauð og tveir fiskar.

3 Í umhyggju sinni vinnur Jesús kraftaverk. Þetta er eina kraftaverkið sem allir fjórir guðspjallamennirnir segja frá. (Mark. 6:35-44; Lúk. 9:10-17; Jóh. 6:1-13) Jesús biður lærisveinana að segja fólkinu að setjast í grasið í 50 og 100 manna hópum. Síðan fer hann með bæn og tekur að brjóta brauðið og skipta fiskunum. En Jesús fór ekki sjálfur með matinn til fólksins heldur „gaf lærisveinunum en þeir fólkinu“. Vegna kraftaverks er meira en nóg til að metta alla. Taktu eftir að Jesús mettar þúsundir manna en aðeins fáeinir sjá um að dreifa fæðunni, það er að segja lærisveinar hans. *

4. (a) Hvers konar fæðu var Jesú mest í mun að gefa fylgjendum sínum, og hvers vegna? (b) Um hvað er fjallað í þessari námsgrein og þeirri næstu?

4 Jesú var þó enn meira í mun að gefa fylgjendum sínum andlega fæðu. Hann vissi að þeir gætu hlotið eilíft líf með því að neyta andlegrar fæðu, það er að segja sannleikans í orði Guðs. (Jóh. 6:26, 27; 17:3)  Jesús eyddi löngum stundum í að kenna fylgjendum sínum, knúinn af sömu umhyggju og bjó að baki þegar hann mettaði mannfjöldann með brauði og fiski. (Mark. 6:34) Hann vissi hins vegar að hann yrði ekki lengi á jörð heldur myndi hann fara aftur til himna. (Matt. 16:21; Jóh. 14:12) Hvernig ætlaði Jesús að sjá fylgjendum sínum á jörð fyrir andlegri fæðu eftir að hann væri farinn þangað? Hann myndi nota sömu aðferð og áður og fela fáeinum það verkefni að næra fjöldann. En hverja myndi hann útvelja til að annast þetta? Við skulum kanna hvernig Jesús notaði fáeina til að næra alla andasmurða fylgjendur sína á fyrstu öld. Í næstu grein er svo fjallað um spurningu sem skiptir okkur öll miklu máli: Hvernig vitum við hverjir þessir fáeinu eru sem Kristur notar til að næra okkur nú á dögum?

Jesús fól fáeinum það verkefni að metta þúsundir manna. (Sjá 4. grein.)

JESÚS ÚTVELUR FÁMENNAN HÓP

5, 6. (a) Hvaða mikilvægu ákvörðun tók Jesús til að sjá fylgjendum sínum fyrir staðgóðri andlegri fæðu eftir að hann væri dáinn? (b) Hvernig bjó Jesús postulana undir mikilvægt hlutverk eftir að hann væri dáinn?

5 Ábyrgur fjölskyldufaðir gerir ráðstafanir til að séð verði um fjölskylduna ef hann skyldi falla frá. Jesús átti eftir að verða höfuð kristna safnaðarins og gerði sömuleiðis ráðstafanir til að sjá fyrir andlegum þörfum fylgjenda sinna eftir dauða sinn. (Ef. 1:22) Hann tók til dæmis mikilvæga ákvörðun þar að lútandi um tveim árum áður en hann dó. Þá valdi hann þá fyrstu sem áttu síðar að næra fjöldann. Lítum nánar á það.

6 Eftir að Jesús hafði beðist fyrir heila nótt safnaði hann lærisveinunum saman og valdi 12 postula úr hópnum. (Lúk. 6:12-16) Næstu tvö árin átti hann sérstaklega náið samband við postulana 12 og kenndi þeim bæði í orði og verki. Hann vissi að þeir áttu margt ólært og reyndar var haldið áfram að kalla þá „lærisveina“. (Matt. 11:1; 20:17, Biblían 1912) Hann leiðbeindi þeim öllum og þjálfaði þá í að boða fagnaðarerindið. (Matt. 10:1-42; 20:20-23; Lúk. 8:1; 9:52-55) Hann var greinilega að búa þá undir að fara með mikilvægt hlutverk eftir að hann væri dáinn og farinn aftur til himna.

7. Hvernig gaf Jesús vísbendingu um hvert yrði aðalverkefni postulanna?

7 Hvaða hlutverk áttu postularnir að hafa með höndum? Þegar nálgaðist hvítasunnu árið 33 var ljóst að postularnir áttu að gegna ákveðnu umsjónarstarfi. (Post. 1:20) En hvert yrði verkefni þeirra öðru fremur? Jesús gaf vísbendingu um það í samtali sem hann átti við Pétur postula eftir að hann reis upp frá dauðum. (Lestu Jóhannes 21:1, 2, 15-17.) Hann sagði við Pétur í áheyrn nokkurra af postulunum: „Gæt þú sauða minna.“ Jesús gaf þannig til kynna að postularnir tilheyrðu þeim fámenna hópi sem hann myndi nota til að dreifa andlegri fæðu til fjöldans. Er þetta ekki lýsandi dæmi um umhyggju Jesú fyrir sauðum sínum? *

ÞEIR NÆRÐU FJÖLDANN FRÁ OG MEÐ HVÍTASUNNU

8. Hvernig sýndu þeir sem tóku trú á hvítasunnu að þeir vissu upp á hár hvaða boðleið Kristur notaði?

8 Hinn upprisni Jesús fól postulunum það verkefni að miðla andlegri fæðu til annarra andasmurðra lærisveina frá og með hvítasunnu árið 33. (Lestu Postulasöguna 2:41, 42.) Gyðingar, sem tóku kristna trú og hlutu andasmurningu á hvítasunnu, voru ekki í neinum vafa um að postularnir miðluðu andlegu fæðunni. Þeir „ræktu trúlega uppfræðslu  postulanna“ án þess að hika. Fræðimaður segir að gríska sögnin, sem er þýdd „ræktu trúlega“, geti merkt „að helga sig ákveðnu málefni af einbeitni og festu“. Þeir sem tóku trú þennan dag þráðu að fá andlega næringu og þeir vissu upp á hár hvar hana var að fá. Þeir treystu postulunum skilyrðislaust til að skýra orð og verk Jesú og varpa nýju ljósi á ritningarnar sem fjölluðu um hann. * – Post. 2:22-36.

9. Hvernig sýndu postularnir að þeir misstu ekki sjónar á því hve mikilvægt væri að næra sauði Jesú?

9 Postularnir misstu ekki sjónar á því hve mikilvægt var að næra sauði Jesú. Tökum sem dæmi hvernig þeir tóku á viðkvæmu máli sem hefði getað valdið klofningi í hinum unga söfnuði. Það er hálfpartinn broslegt að deilan skyldi snúast um mat – bókstaflegan mat. Grískumælandi ekkjur í hópnum urðu út undan við daglega matarúthlutun en þær hebreskumælandi fengu sinn skammt. Hvernig leystu postularnir þetta vandmeðfarna mál? „Hinir tólf“ völdu sjö hæfa bræður til að annast „þetta starf“, það er að segja að úthluta mat. Postularnir höfðu án efa flestir tekið þátt í að dreifa mat meðal fjöldans sem Jesús mettaði með kraftaverki, en þeir gerðu sér grein fyrir að þeir áttu að einbeita sér að því að miðla andlegri fæðu. Þeir helguðu sig því „þjónustu orðsins“. – Post. 6:1-6.

10. Hvaða hlutverk fól Kristur postulunum og öldungunum í Jerúsalem?

10 Árið 49 höfðu þeir af postulunum, sem eftir voru, fengið liðsauka. (Lestu Postulasöguna 15:1, 2.) Postularnir og öldungarnir í Jerúsalem störfuðu þá saman sem stjórnandi ráð safnaðarins. Kristur, höfuð safnaðarins, notaði þennan fámenna hóp hæfra karlmanna til að skera úr ágreiningi um kenningar og hafa umsjón með boðun fagnaðarerindisins og kennslunni. – Post. 15:6-29; 21:17-19; Kól. 1:18.

11, 12. (a) Hvað sýnir að Jehóva blessaði þá aðferð sem sonur hans notaði til að næra söfnuðina á fyrstu öld? (b) Hvernig vissu kristnir menn hverjir höfðu það hlutverk að miðla andlegri fæðu frá Kristi?

11 Blessaði Jehóva þá aðferð sem sonur hans notaði til að miðla andlegri fæðu til safnaðanna á fyrstu öld? Svo sannarlega. Hvernig vitum við það? Í  Postulasögunni er að finna eftirfarandi greinargerð: „Þeir [Páll og félagar hans] fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt og buðu að varðveita þær. En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ (Post. 16:4, 5) Við tökum eftir að söfnuðirnir döfnuðu vegna þess að þeir störfuðu dyggilega með hinu stjórnandi ráði í Jerúsalem. Sannar það ekki að Jehóva hafi blessað þá aðferð sem sonur hans notaði til að næra söfnuðina? Höfum hugfast að enginn getur dafnað andlega nema hann njóti blessunar Jehóva. – Orðskv. 10:22; 1. Kor. 3:6, 7.

12 Við höfum nú séð að Jesús beitti ákveðinni aðferð til að næra fylgjendur sína. Hann notaði fáeina til að næra fjöldann. Það var auðséð hverja hann notaði til að sjá fyrir andlegri fæðu. Postularnir, sem mynduðu hið stjórnandi ráð í upphafi, gátu fært sönnur á að þeir hefðu stuðning af himni ofan. „Fyrir hendur postulanna gerðust mörg tákn og undur meðal fólksins,“ segir í Postulasögunni 5:12. * Þeir sem tóku kristna trú þurftu því ekki að velkjast í vafa um hverjir hefðu það hlutverk að miðla andlegri fæðu til sauða Krists. En það breyttist við lok fyrstu aldar.

Á fyrstu öld var augljóst hverja Jesús notaði til að gefa söfnuðinum andlega fæðu. (Sjá 12. grein.)

ÞEGAR ILLGRESIÐ YFIRGNÆFÐI HVEITIÐ

13, 14. (a) Hvernig varaði Jesús við árásum og hvenær tók það að rætast? (b) Úr hvaða tveim áttum yrði ráðist á söfnuðinn? (Sjá aftanmálsgrein.)

13 Jesús sagði að kristni söfnuðurinn myndi sæta árásum. Við munum eftir spádómlegri dæmisögu hans um hveitið og illgresið. Þar segir frá manni sem sáði hveiti í akur sinn en óvinur sáði síðan illgresi í sama akur. Hveitið táknar andasmurða kristna menn en illgresið falskristna. Jesús sagði að hvort tveggja fengi að vaxa óhindrað saman fram að ,endi veraldar‘, það er að segja uppskerutímanum. (Matt. 13:24-30, 36-43) Ekki leið á löngu áður en orð hans tóku að rætast. *

14 Fráhvarfið gerði vart við sig strax á fyrstu öld en trúir postular Jesú stóðu í vegi fyrir því svo að falskenningar náðu ekki að spilla söfnuðinum. (2. Þess. 2:3, 6, 7) En eftir að síðasti postulinn dó festi fráhvarfið rætur og dafnaði svo um munaði á aldalöngu vaxtarskeiði. Illgresið varð yfirgnæfandi og hveitistráin harla fá. Enginn dreifði andlegri fæðu með formlegum og skipulegum hætti. Það átti þó eftir að breytast. En hvenær?

HVERJIR MYNDU ÚTBÝTA FÆÐUNNI Á UPPSKERUTÍMANUM?

15, 16. Hvaða árangri náðu Biblíunemendurnir með námi sínu og hvaða spurning vaknar?

15 Undir lok vaxtarskeiðsins vaknaði mikill áhugi á sannleika Biblíunnar. Eins og þú manst tók lítill hópur einlægra og auðmjúkra manna að leita sannleikans upp úr 1870. Þeir stofnuðu biblíunámshópa án tengsla við illgresið, það er að segja falskristna menn í kirkjum og sértrúarflokkum kristna heimsins. Þeir kölluðu sig Biblíunemendur, leituðu leiðsagnar Guðs í bænum sínum og rannsökuðu Biblíuna með opnum huga. – Matt. 11:25.

16 Þetta einlæga fólk var iðið við biblíunámið og það skilaði sér. Biblíunemendurnir afhjúpuðu falskenningar og útbreiddu sannleikann með því að gefa út biblíuskýringarrit og dreifa þeim vítt og breitt. Margir, sem hungraði og þyrsti eftir sannleika Biblíunnar, létu sannfærast.  Þetta vekur upp áhugaverða spurningu: Voru Biblíunemendurnir á árunum fram að 1914 sá hópur sem Kristur hafði valið til að næra sauði sína? Nei. Vaxtarskeiðinu var enn ekki lokið og boðleiðin, sem átti að nota til að miðla andlegri fæðu, var enn í mótun. Það var enn ekki kominn tími til að aðgreina illgresið frá hveitinu, það er að segja falskristna menn frá þeim sönnu.

17. Hvaða merkisatburðir tóku að gerast árið 1914?

17 Eins og fram kom í greininni á undan hófst uppskerutíminn árið 1914. Merkir atburðir tóku að gerast það ár. Jesús var krýndur konungur og síðustu dagar hófust. (Opinb. 11:15) Frá 1914 fram til fyrri hluta ársins 1919 fylgdi Jesús föður sínum til andlega musterisins til að kanna ástand þess og hreinsa það eins og þörf var á. * (Mal. 3:1-4) Árið 1919 var tímabært að byrja að safna hveitinu saman. Var nú stundin runnin upp að Kristur skipaði einn ákveðinn hóp til að dreifa andlegri fæðu? Já, stundin var komin.

18. Hvað sagðist Jesús myndu gera og hvaða mikilvægu spurningu var ósvarað við upphaf hinna síðustu daga?

18 Í spádómi sínum um endalokatímann sagðist Jesús myndu skipa hóp manna til að bera fram andlegan „mat á réttum tíma“. (Matt. 24:45-47) Hvaða hóp ætlaði hann að nota? Líkt og á fyrstu öldinni ætlaði Jesús aftur að nota fáeina til að næra fjöldann. En því var enn ósvarað við upphaf hinna síðustu daga hvaða fámenni hópur þetta væri. Þeirri spurningu og fleirum varðandi spádóm Jesú verður svarað í næstu grein.

 

^ gr. 3 3. grein: Síðar vann Jesús það kraftaverk að metta 4.000 karlmenn auk kvenna og barna. Þá fór hann eins að og gaf „lærisveinunum en lærisveinarnir fólkinu“. – Matt. 15:32-38.

^ gr. 7 7. grein: Allir ,sauðirnir‘, sem þurfti að næra meðan Pétur var uppi, höfðu himneska von.

^ gr. 8 8. grein: Að nýju lærisveinarnir skuli hafa ,rækt trúlega uppfræðslu postulanna‘ gefur til kynna að postularnir hafi kennt á reglulegum grundvelli. Sumt af því sem þeir kenndu var skráð í innblásnar bækur sem eru núna hluti af Grísku ritningunum.

^ gr. 12 12. grein: Postularnir voru ekki þeir einu sem gátu gert kraftaverk. Í flestum tilfellum virðist fólk þó hafa fengið náðargjafir andans fyrir atbeina postulanna eða í návist einhvers þeirra. – Post. 8:14-18; 10:44, 45.

^ gr. 13 13. grein: Af orðum Páls postula í Postulasögunni 20:29, 30 má sjá að ráðist yrði á söfnuðinn úr tveim áttum. Annars vegar myndu falskristnir menn („illgresi“) lauma sér inn í söfnuðinn. Hins vegar myndu sumir hinna sannkristnu gera fráhvarf og „flytja rangsnúna kenningu“.

^ gr. 17 17. grein: Sjá greinina „Sjá, ég er með yður alla daga“ í þessu tölublaði, bls. 11, grein 6.