Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júní 2013

Jehóva er örlátur og sanngjarn

Jehóva er örlátur og sanngjarn

„Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.“ – SÁLM. 145:9.

1, 2. Hvað geta vinir Jehóva gert um alla eilífð?

„VIÐ höfum verið gift í tæp 35 ár,“ segir Monika en hún er vottur Jehóva. „Við hjónin þekkjum hvort annað býsna vel. En samt erum við að kynnast nýjum hliðum hvort á öðru eftir öll þessi ár.“ Eflaust má segja hið sama um ótal önnur hjón og um marga góða vini.

2 Við höfum ánægju af því að kynnast ástvinum okkar betur. En af öllum vináttusamböndum, sem við getum átt, er þó ekkert mikilvægara en sambandið við Jehóva. Við eigum aldrei eftir að þekkja hann til hlítar. (Rómv. 11:33) Við getum haldið áfram að kynnast Jehóva um alla eilífð og lært að meta eiginleika hans æ betur. – Préd. 3:11.

3. Um hvað er rætt í þessari grein?

3 Í greininni á undan vorum við minnt á hve alúðlegur Jehóva er og hve auðvelt er að nálgast hann. Einnig var sýnt fram á að hann fer ekki í manngreinarálit. Í þessari grein er fjallað um tvo aðra aðlaðandi eiginleika Jehóva, það er að segja hve örlátur hann er og sanngjarn. Það ætti að sannfæra okkur enn betur um að Jehóva er „öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans“. – Sálm. 145:9.

JEHÓVA ER ÖRLÁTUR

4. Hvað er örlæti?

4 Hvað merkir það að vera örlátur? Svarið er að finna í orðum Jesú sem eru skráð í Postulasögunni 20:35: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Með þessum einföldu orðum lýsir Jesús í hverju raunverulegt örlæti sé fólgið. Örlát manneskja gefur fúslega af tíma sínum,  kröftum og fjármunum í þágu annarra og hefur ánægju af því. Örlæti er ekki fólgið í því að gefa sem dýrastar gjafir heldur að gefa af réttum hvötum. (Lestu 2. Korintubréf 9:7.) Jehóva er ,hinn sæli Guð‘ og enginn er örlátari en hann. – 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.

5. Hvernig sýnir Jehóva örlæti?

5 Hvernig sýnir Jehóva örlæti? Hann sér fyrir þörfum allra manna, einnig þeirra sem tilbiðja hann ekki enn þá. Jehóva er „öllum góður“, segir í Biblíunni. Hann „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. (Matt. 5:45) Þess vegna talaði Páll postuli um ,velgjörðir Guðs‘ í ræðu sem hann flutti í áheyrn fólks sem trúði ekki á Jehóva. Hann bætti við: „Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt ykkur fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ (Post. 14:17) Það er deginum ljósara að Jehóva er örlátur við alla. – Lúk. 6:35.

6, 7. (a) Hverja annast Jehóva af sérstakri ánægju? (b) Lýstu með dæmi hvernig Jehóva sér fyrir trúum þjónum sínum.

6 Jehóva hefur sérstakt yndi af því að annast trúa þjóna sína. Davíð konungur sagði: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálm. 37:25) Margir trúir þjónar Guðs hafa fundið greinilega fyrir umhyggju hans. Lítum á dæmi.

7 Nancy var brautryðjandi. Hún var í vanda stödd því að hún átti að greiða húsaleiguna næsta dag en vantaði 66 dollara til að geta staðið í skilum. „Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að verða mér úti um þessa peninga,“ segir hún. „Ég lagði málið fyrir Jehóva í bæn og fór síðan í vinnuna. Ég vann sem þjónn á veitingahúsi en bjóst ekki við að fá mikið í þjórfé þetta kvöld vegna þess að það var yfirleitt lítið að gera þennan dag vikunnar. Mér til undrunar komu allmargir að borða þetta kvöld. Þegar vaktinni lauk og ég lagði saman hve mikið ég hafði fengið í þjórfé var það samanlagt 66 dollarar.“ Nancy er sannfærð um að Jehóva hafi í örlæti sínu séð henni fyrir nákvæmlega þeirri upphæð sem hana vantaði. – Matt. 6:33.

8. Hver er mesta gjöfin sem Jehóva hefur gefið?

8 Allir geta notið góðs af mestu gjöfinni sem Jehóva hefur gefið, það er að segja lausnarfórn Jesú. Sjálfur sagði hann: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Orðið ,heimur‘ merkir í þessu samhengi mannkynið.  Mesta gjöf Jehóva stendur öllum til boða sem þiggja hana. Þeir sem trúa á Jesú hljóta líf í fyllstu gnægð, það er að segja eilíft líf. (Jóh. 10:10) Er hægt að hugsa sér sterkari sönnun fyrir því að Jehóva sé örlátur?

LÍKJUM EFTIR ÖRLÆTI JEHÓVA

Ísraelsmenn voru hvattir til að líkja eftir örlæti Jehóva. (Sjá 9. grein.)

9. Hvernig getum við líkt eftir örlæti Jehóva?

 9 Hvernig getum við líkt eftir örlæti Jehóva? Hann „lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst“. Við ættum þess vegna að vera ,fús að miðla öðrum‘ til að gleðja þá. (1. Tím. 6:17-19) Við gefum vinum og ættingjum fúslega af því sem við eigum, og sömuleiðis þeim sem skortir eitthvað. (Lestu 5. Mósebók 15:7.) Hvernig getum við minnt okkur á að vera örlát? Sumir leita færis að gefa öðrum eitthvað í hvert sinn sem þeir fá sjálfir gjöf. Í söfnuðinum er fullt af örlátum bræðrum og systrum.

10. Hver er ein besta leiðin til að sýna örlæti?

10 Einhver besta leiðin til að sýna örlæti er að gefa af sjálfum sér. Hvernig gerum við það? Með því að nota tíma okkar og krafta til að hjálpa öðrum og hvetja þá. (Gal. 6:10) Sýnirðu örlæti með þessum hætti? Þú gætir spurt sjálfan þig eftirfarandi spurninga: Skynja aðrir að ég sé fús til að gefa af sjálfum mér og hlusta á þá þegar þeim liggur eitthvað á hjarta? Er ég alltaf boðinn og búinn ef einhver biður mig að aðstoða sig við eitthvað eða snúast fyrir sig? Hvað er langt síðan ég hrósaði trúsystkini eða einhverjum í fjölskyldunni? Við styrkjum tengslin við Jehóva og vini okkar ef við erum gjafmild. – Lúk. 6:38; Orðskv. 19:17.

11. Hvað getum við gefið Jehóva?

 11 Við getum líka verið örlát í garð Jehóva. „Tignaðu Drottin með eigum þínum,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 3:9)  Þessar eigur eru tími okkar, kraftar og fjármunir sem við getum notað í þjónustu hans. Börn geta lært á unga aldri að færa Jehóva gjafir. „Við látum börnin okkar setja framlag fjölskyldunnar í baukinn í ríkissalnum,“ segir Jason. „Þau hafa ánægju af því vegna þess að þá eru þau að færa Jehóva gjöf.“ Ef börn kynnast frá unga aldri gleðinni sem fylgir því að færa Jehóva gjafir er líklegt að þau verði örlát þegar þau vaxa úr grasi. – Orðskv. 22:6.

JEHÓVA ER SANNGJARN

12. Hvað er fólgið í því að vera sanngjarn?

12 Annað sem gerir Jehóva aðlaðandi er að hann er sanngjarn. Hvað merkir það að vera sanngjarn? Frummálsorðið, sem oft er þýtt þannig í Biblíunni, merkir bókstaflega ,eftirgefanlegur‘. (Tít. 3:1, 2) Sanngjarn maður er hvorki strangur né kröfuharður og hann heimtar ekki að bókstaf laganna sé alltaf fylgt út í ystu æsar. Hann er nærgætinn og tekur tillit til aðstæðna fólks. Hann er fús til að hlusta, slaka á kröfum sínum og fara að óskum annarra þegar það á við.

13, 14. (a) Hvernig sýnir Jehóva sanngirni? (b) Hvað má læra um sanngirni af samskiptum Guðs við Lot?

13 Hvernig sýnir Jehóva að hann er sanngjarn? Hann tekur tillit til þess hvernig þjónum hans er innanbrjósts og kemur oft til móts við óskir þeirra. Tökum sem dæmi samskipti hans við hinn réttláta Lot. Þegar Jehóva ákvað að eyða borgunum Sódómu og Gómorru sagði hann Lot að flýja til fjalla. En einhverra orsaka vegna bað Lot um leyfi til að flýja á annan stað. Hugsaðu þér! Lot bað Jehóva beinlínis að breyta fyrirmælum sínum. – Lestu 1. Mósebók 19:17-20.

14 Fljótt á litið gætum við ímyndað okkur að Lot hafi verið óhlýðinn eða veikur í trúnni. Jehóva var auðvitað fær um að vernda Lot hvar sem var þannig að hann hafði enga ástæðu til að óttast um líf sitt. En Lot var hræddur engu að síður. Jehóva tók tillit til þess og leyfði honum að flýja til þorps sem hann hafði ætlað sér að eyða. (Lestu 1. Mósebók 19:21, 22.) Það er greinilegt að Jehóva er hvorki strangur né ósveigjanlegur heldur er hann eftirgefanlegur og sanngjarn.

15, 16. Hvernig vitna Móselögin um að Jehóva sé sanngjarn? (Sjá mynd í byrjun greinar.)

15 Lítum á annað dæmi sem vitnar um að Jehóva sé sanngjarn. Í Móselögunum var ákvæði þess efnis að Ísraelsmaður mætti fórna tveim turtildúfum eða tveim dúfum ef hann hefði ekki efni á lambi eða geit. Væri hann svo fátækur að hann hefði ekki einu sinni efni á tveim dúfum mátti hann færa lítið eitt af mjöli að fórn. En tökum eftir einu mikilvægu atriði: Þetta þurfti að vera ,fínt mjöl‘ eins og notað var þegar virta gesti bar að garði. (1. Mós. 18:6) Hvernig sýnir þetta ákvæði fram á að Jehóva er sanngjarn? – Lestu 3. Mósebók 5:7, 11.

16 Hugsaðu þér að þú sért bláfátækur Ísraelsmaður. Þú kemur til tjaldbúðarinnar til að fórna svolitlu mjöli. Þar sérðu efnaðri samlanda þína koma með búpening og ferð kannski hjá þér af því að þér finnst fórn þín svo ómerkileg. En þá verður þér hugsað til þess að fórnin er verðmæt í augum Jehóva. Hvernig þá? Meðal annars gerði Jehóva þá kröfu að mjölið væri fínt. Það var rétt eins og hann segði við fátæka þjóna sína: Ég veit að þú getur ekki fórnað eins miklu og aðrir en ég veit líka að þú  gefur mér það besta sem þú átt. Jehóva er mjög sanngjarn að taka tillit til aðstæðna þjóna sinna og ólíkra möguleika þeirra. – Sálm. 103:14.

17. Á hvers konar þjónustu hefur Jehóva velþóknun?

 17 Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva er sanngjarn og ánægður ef við þjónum honum af heilum huga. (Kól. 3:23) Roskin ítölsk systir, sem heitir Constance, segir: „Ekkert hefur veitt mér meiri ánægju gegnum tíðina en að segja fólki frá skapara mínum. Þess vegna held ég áfram að boða trúna og halda biblíunámskeið. Mér þykir miður að stundum get ég ekki gert meira heilsunnar vegna. En ég veit að Jehóva þekkir takmörk mín og að hann elskar mig og kann að meta það sem ég get gert.“

LÍKJUM EFTIR SANNGIRNI JEHÓVA

18. Hvernig geta foreldrar meðal annars líkt eftir fordæmi Jehóva?

18 Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og verið sanngjörn? Hugsum aftur til samskipta hans og Lots. Jehóva hafði vissulega vald til að segja Lot fyrir verkum en hlustaði samt vinsamlega á hann þegar hann bar fram óskir sínar og varð við þeim. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva? Geturðu hlustað á óskir barnanna og komið til móts við þær eftir því sem við á? Komið var inn á þetta í Varðturninum 1. október 2007. Bent var á að foreldrar geti haft börnin með í ráðum varðandi þær reglur sem eiga að gilda á heimilinu. Segjum að foreldrarnir ákveði að börnin eigi að vera komin heim á ákveðnum tíma á kvöldin. Það er vissulega í verkahring þeirra að setja slíka reglu. En það gæti verið ágætt að heyra hvað börnin hafa til málanna að leggja áður en tímasetningin er ákveðin. Í sumum tilfellum gætu foreldrarnir ákveðið að vera sveigjanlegir varðandi útivistartímann, svo framarlega sem það gengur ekki gegn meginreglum Biblíunnar. Ef foreldrarnir hlusta á börnin áður en þeir setja heimilisreglur er líklegra að börnin skilji þær og fylgi þeim.

19. Hvernig geta öldungarnir reynt að líkja eftir sanngirni Jehóva?

19 Öldungar safnaðarins reyna að vera sanngjarnir líkt og Jehóva með því að taka tillit til aðstæðna trúsystkina sinna. Höfum hugfast að Jehóva kunni vel að meta fórnir fátækra í Ísrael. Sumir í söfnuðinum geta ekki tekið mikinn þátt í boðunarstarfinu sökum heilsubrests eða aldurs. Stundum eru þessi ástkæru trúsystkini okkar niðurdregin vegna þess. Þá geta öldungarnir fullvissað þau um að Jehóva elski þau og kunni að meta að þau skuli gera sitt besta. – Mark. 12:41-44.

20. Hvað merkir það að gera sanngjarnar kröfur til sjálfs sín í þjónustu Guðs?

20 Við gerum auðvitað greinarmun á því að vera sanngjörn og að hlífa okkur þannig að við gerum ekki eins mikið og við getum í þjónustu Guðs. (Matt. 16:22) Við viljum ekki taka það rólega og afsaka okkur með því að við séum bara sanngjörn. Við þurfum öll að vera kostgæfin í þjónustu Guðsríkis. (Lúk. 13:24) Við þurfum að finna hinn gullna meðalveg. Annars vegar þurfum við að gera okkar allra besta og hlífa okkur ekki í þjónustu Jehóva. Hins vegar höfum við hugfast að Jehóva ætlast aldrei til meira af okkur en við getum gert. Við getum treyst að hann sé ánægður ef við gefum honum það besta sem við eigum. Er ekki yndislegt að eiga svona þakklátan og sanngjarnan húsbónda? Í greininni á eftir er fjallað um tvo aðra aðlaðandi eiginleika Jehóva. – Sálm. 73:28.

„Tignaðu Drottin með eigum þínum.“ – Orðskv. 3:9. (Sjá 11. grein.)

„Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga.“ – Kól. 3:23. (Sjá 17. grein.)