Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styrkið hjónabandið með góðum tjáskiptum

Styrkið hjónabandið með góðum tjáskiptum

„Gullepli í silfurskálum, svo eru vel valin orð.“ – ORÐSKV. 25:11.

1. Hvaða áhrif hafa góð tjáskipti á hjónabandið?

„ÉG VIL frekar eiga stundir með konunni minni en nokkrum öðrum,“ segir bróðir í Kanada. „Gleðin margfaldast og sérhver sorg helmingast þegar ég segi henni frá.“ Eiginmaður í Ástralíu skrifar: „Við hjónin höfum verið gift í 11 ár og það hefur aldrei liðið sá dagur að ég talaði ekki við konuna mína. Við treystum hvort öðru í hvívetna og hjónabandið stendur á traustum grunni. Ástæðan er fyrst og fremst sú hve oft við eigum innihaldsríkar samræður.“ Systir í Kostaríka segir: „Góð tjáskipti hafa bæði auðgað hjónaband okkar, styrkt tengslin við Jehóva, verndað okkur fyrir freistingum, sameinað okkur og nært ástina.“

2. Hvað getur tálmað góðum tjáskiptum hjóna?

2 Hafið þið hjónin ánægju af að tala saman eða finnst ykkur erfitt að eiga innihaldsríkar samræður? Það getur stundum verið þrautin þyngri vegna þess að hjónaband er sambúð tveggja ólíkra og ófullkominna einstaklinga, auk þess sem menning þeirra og uppeldi hefur sitt að segja. (Rómv. 3:23) Hjón tjá sig líka stundum með ólíkum hætti. John M. Gottman og Nan Silver hafa stundað áralangar rannsóknir á eðli hjónabandsins. Það er ekki að ástæðulausu að þau segja: „Það þarf hugrekki, einbeitni og þolgæði til að láta sambandið endast.“

3. Hvað hefur hjálpað hjónum að styrkja hjónabandið?

3 Farsælt hjónaband kostar mikla vinnu en það er erfiðisins virði. Hjón, sem elska hvort annað, geta uppskorið mikla hamingju. (Préd. 9:9) Ísak og Rebekka eru dæmi um það. (1. Mós. 24:67) Ekkert bendir til þess að ástin milli þeirra hafi dvínað með árunum. Hið sama má segja um mörg hjón nú á dögum.  Hver er leyndardómurinn? Þau hafa lært að tjá hugsanir sínar og tilfinningar hreinskilnislega en hlýlega með því að vera skilningsrík, ástrík og auðmjúk og með því að virða hvort annað. Ef hjón læra að temja sér þessa góðu eiginleika eiga þau aldrei í vandræðum með að tjá sig hvort við annað. Lítum nánar á málið.

VERIÐ SKILNINGSRÍK

4, 5. Á hverju þurfa hjón að átta sig til að skilja hvort annað betur? Nefndu dæmi.

4 „Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju,“ segir í Orðskviðunum 16:20(Biblían 1981) Það eru orð að sönnu þegar hjónaband og fjölskyldulíf eiga í hlut. (Lestu Orðskviðina 24:3.) Orð Guðs veitir okkur visku og skilning sem fæst ekki með öðrum hætti. Í 1. Mósebók 2:18 segir að Guð hafi ekki skapað konuna sem eftirmynd af manninum heldur sem „meðhjálp við hans hæfi“. Það sýnir sig í því hvernig hún tjáir sig. Fólk er auðvitað misjafnt en almennt séð tala konur gjarnan um tilfinningar sínar, samskipti og annað fólk. Þær kunna vel að meta hlýlegar og innilegar samræður því að þá finna þær að þær eru elskaðar. Margir karlar eru lítið gefnir fyrir að tala um tilfinningar sínar en fúsari til að ræða um atburði, vandamál og lausnir. Og þeir vilja njóta virðingar.

5 „Maðurinn minn vill leysa málin í snatri í stað þess að hlusta á það sem ég hef að segja,“ segir systir sem býr í Bretlandi. „Það getur verið mjög svekkjandi þegar ég þrái ekkert annað en ást og umhyggju.“ Eiginmaður skrifar: „Þegar við giftumst reyndi ég að flýta mér að finna lausn á öllum vandamálum sem konan mín átti við að glíma. En ég áttaði mig fljótlega á að hana langaði bara til að ég hlustaði á sig.“ (Orðskv. 18:13; Jak. 1:19) Skilningsríkur eiginmaður er vakandi fyrir tilfinningum konu sinnar og reynir að bregðast við í samræmi við það. Hann fullvissar hana jafnframt um að tilfinningar hennar og skoðanir skipti hann máli. (1. Pét. 3:7) Hún reynir líka að skilja sjónarmið hans. Það ríkir mikil fegurð yfir hjónabandi þar sem hjónin skilja hvaða hlutverk Jehóva hefur falið þeim og rækja það vel. Og þá geta þau í sameiningu tekið viturlegar og yfirvegaðar ákvarðanir og komið þeim í verk.

6, 7. (a) Hvernig getur Prédikarinn 3:7 hjálpað hjónum að vera skilningsrík? (b) Hvað gerir skynsöm eiginkona og hvað ætti eiginmaður að leggja sig fram við?

6 „Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ (Préd. 3:1, 7) Skilningsrík hjón gera sér grein fyrir að það er hverju orði sannara. „Ég er búin að átta mig á að það hentar ekki að ræða málin hvenær sem er,“ segir systir nokkur sem hefur verið gift í áratug. „Ef maðurinn minn er að drukkna í vinnu eða öðrum verkefnum bíð ég með að vekja máls á ákveðnum hlutum. Tjáskipti okkar eru miklu auðveldari fyrir vikið.“ Skynsöm eiginkona er viðfelldin í tali. Hún veit að vel valin orð „í tíma töluð“ eru bæði aðlaðandi og vel metin. – Lestu Orðskviðina 25:11. *

Ótal smáatriði næra ástina og styrkja hjónabandið.

7 Kristinn eiginmaður ætti ekki aðeins að hlusta á konuna sína heldur einnig að leggja sig fram um að tjá henni tilfinningar sínar opinskátt. Öldungur, sem á 27 ára hjónaband að baki, segir: „Það kostar mig áreynslu að segja konunni minni hvernig mér líður innst inni.“ Bróðir, sem hefur verið giftur í 24 ár, segir: „Ég hef tilhneigingu til að bæla niður tilfinningarnar og hugsa sem svo að vandamálið hverfi ef ég tala ekki um það. En ég hef áttað mig á að það er ekki veikleikamerki að tala um tilfinningar sínar. Þegar ég á erfitt með að tjá mig bið  ég Jehóva um hjálp til að finna réttu orðin og segja þau á réttan hátt. Síðan dreg ég djúpt andann og byrja að tala.“ Það er líka mikilvægt að velja réttu stundina, til dæmis þegar þið hjónin eruð tvö saman að ræða dagstextann eða lesa í Biblíunni.

8. Hvað getur hjálpað hjónum að bæta tjáskipti sín og gera hjónabandið farsælt?

8 Það getur verið þrautin þyngri fyrir hjón að bæta tjáskipti sín. Þau þurfa bæði að biðja um anda Guðs og langa til að bæta sig. Ef þau elska Jehóva og líta á hjónabandið sem heilagt ýtir það undir þessa löngun. Systir, sem hefur verið gift í 26 ár, segir: „Við hjónin reynum að sjá hjónabandið sömu augum og Jehóva þannig að það hvarflar ekki að okkur að slíta samvistum. Þess vegna leggjum við okkur fram um að leysa vandamál okkar með því að ræða saman um þau.“ Slík hollusta og guðrækni gleður Jehóva og veitir hjónunum blessun hans. – Sálm. 127:1.

HLÚIÐ AÐ ÁSTINNI

9, 10. Hvernig geta hjón hlúð að ástinni?

9 Kærleikurinn er mikilvægasti eiginleiki hjóna því að hann „bindur allt saman og fullkomnar allt“. (Kól. 3:14) Sönn ást vex þegar hjón ganga saman í gegnum gleði og sorgir. Þau verða nánir vinir og hafa ánægju af að vera saman. Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum halda hjón ástinni lifandi með því að gera af og til eitthvað stórt og mikið hvort fyrir annað. Í veruleikanum eru það hins vegar ótal smáatriði sem næra ástina – faðmlag, hlýleg orð, hugulsemi, blítt bros eða einlæg spurning eins og: „Hvernig var dagurinn hjá þér?“ Það má með sanni segja að margt smátt geri eitt stórt í hjónabandinu. Hjón, sem hafa búið í hamingjuríku hjónabandi í 19 ár, hringja eða senda hvort öðru smáskilaboð yfir daginn „bara til að heyra hvernig gengur“, eins og maðurinn orðar það.

10 Ástin er hjónum hvatning til að kynnast æ betur. (Fil. 2:4) Og því betur sem þau þekkja hvort annað þeim mun sterkari verður ástin, þó að þau hafi bæði sína galla. Farsælt hjónaband styrkist með árunum. Það er því gott að spyrja sig hve vel maður þekki maka sinn. Skilurðu hvernig hann hugsar og hvað honum finnst um tiltekin mál? Hve oft hugsarðu um maka þinn, til dæmis hvað það var sem laðaði þig að honum á sínum tíma?

 VIRÐIÐ HVORT ANNAÐ

11. Hvers vegna er mikilvægt að hjón virði hvort annað? Lýstu með dæmi.

11 Ekkert hjónaband er fullkomið og hjón eru ekki alltaf sammála þó að þau elski hvort annað. Abraham og Sara voru ekki alltaf á sömu skoðun. (1. Mós. 21:9-11) En skoðanamunurinn varð ekki til þess að þau fjarlægðust hvort annað. Hvers vegna? Vegna þess að þau báru virðingu hvort fyrir öðru. Þegar Abraham talaði við Söru notaði hann stundum orð sem lýsti hæverskri beiðni. (1. Mós. 12:11, 13, NW) Hún var honum eftirlát og leit á hann sem „herra“ sinn. (1. Pét. 3:6) Ef hjón virða ekki hvort annað heyrist það yfirleitt á raddblæ þeirra eða á því hvernig þau tala hvort við annað. (Orðskv. 12:18) Ef þau ráðast ekki að rótum vandans er óvíst að hjónabandið verði langlíft. – Lestu Jakobsbréfið 3:7-10, 17, 18.

12. Hvers vegna ættu nýgift hjón að gera sér far um að vera hlýleg og vingjarnleg í tali hvort við annað?

12 Nýgift hjón ættu sérstaklega að gera sér far um að vera hlýleg og vingjarnleg í tali hvort við annað. Það auðveldar þeim að vera hreinskilin og opinská. Eiginmaður segir: „Þó að fyrstu hjúskaparárin séu ánægjuleg getur maður stundum verið svekktur og pirraður, ekki síst meðan maður er að kynnast tilfinningum, venjum og þörfum maka síns. En það kemur sér vel fyrir bæði hjónin að hafa gott skopskyn, vera sanngjörn, auðmjúk og þolinmóð og treysta á Jehóva.“ Það er hverju orði sannara.

VERIÐ AUÐMJÚK

13. Hvers vegna er auðmýkt mikilvægur þáttur í hamingjuríku hjónabandi?

13 Góð tjáskipti í hjónabandi eru eins og lækur sem liðast létt um engi. Við eigum drjúgan þátt í að láta lækinn renna óhindrað ef við erum auðmjúk. (1. Pét. 3:8) „Að sýna auðmýkt er besta leiðin til að setja niður ágreining vegna þess að þá biðst maður fyrirgefningar,“ segir bróðir sem hefur verið giftur í 11 ár. Öldungur, sem á að baki 20 ára hamingjuríkt hjónaband, segir: „Stundum er mikilvægara  að biðjast afsökunar en segja: ,Ég elska þig.‘“ Hann bætir síðan við: „Bænin er besta hjálpin til að tileinka sér auðmýkt. Þegar við hjónin biðjum saman til Jehóva erum við minnt á ófullkomleika okkar og óverðskuldaða gæsku Guðs. Þessi áminning hjálpar mér að sjá hlutina í réttu ljósi.“

Eigið góð samskipti alla ævi.

14. Hvaða áhrif getur stolt haft á hjónaband?

14 Stolt stuðlar hins vegar ekki að sáttum. Stolt manneskja þorir ekki að biðjast fyrirgefningar eða er treg til þess. Hún viðurkennir ekki veikleika sína heldur afsakar gerðir sínar og beinir athyglinni að því sem miður fer í fari annarra. Hún reynir ekki að friðmælast heldur móðgast og svarar annaðhvort hranalega eða með ískaldri þögn. (Préd. 7:9) Stolt getur gert út af við hjónaband. Það er gott að hafa hugfast að „Guð stendur í gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. – Jak. 4:6.

15. Hvernig geta leiðbeiningarnar í Efesusbréfinu 4:26, 27 hjálpað hjónum að leysa ágreiningsmál sín?

15 Það væri auðvitað barnalegt að halda að stolt láti aldrei á sér kræla. Við þurfum að horfast í augu við það og taka á því sem fyrst þegar það gerist. Páll skrifaði trúsystkinum sínum: „Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) Við getum kallað yfir okkur óþarfa vanlíðan með því að fara ekki eftir orði Guðs. „Stundum höfum við hjónin ekki farið eftir Efesusbréfinu 4:26, 27,“ segir systir nokkur. „Ég hef sjaldan sofið jafn illa.“ Það er miklu betra að ræða málin strax með það að markmiði að sættast. Stundum þurfa hjón auðvitað að gefa sér smá tíma til að róa sig. Þau ættu líka að biðja Jehóva að hjálpa sér að komast í rétt hugarástand, meðal annars að vera auðmjúk. Það hjálpar þeim að taka á vandamálinu í stað þess að hugsa mest um eigin tilfinningar sem myndi aðeins gera illt verra. – Lestu Kólossubréfið 3:12, 13.

16. Hvernig getur auðmýkt auðveldað hjónum að sjá hæfileika maka síns í réttu ljósi?

16 Auðmýkt og hógværð auðvelda hjónum að viðurkenna hæfileika hvort annars og góða eiginleika. Tökum dæmi: Eiginkona býr kannski yfir ákveðnum hæfileikum sem hún notar til góðs fyrir fjölskylduna. Ef eiginmaðurinn er auðmjúkur og hógvær finnst honum ekki að stöðu sinni sé ógnað heldur hvetur hann konuna til að nota þessa hæfileika. Þannig sýnir hann að hann metur hana mikils. (Orðskv. 31:10, 28; Ef. 5:28, 29) Auðmjúk og hógvær kona flíkar ekki hæfileikum sínum né gerir lítið úr manninum. Þau eru nú einu sinni „einn maður“ þannig að það sem særir annað þeirra særir líka hitt. – Matt. 19:4, 5.

17. Hvað er hægt að gera til að hjónabandið sé hamingjuríkt og Jehóva til lofs?

17 Þig langar eflaust til að hjónaband þitt sé hamingjuríkt, traust og Jehóva til lofs – eins og hjá Abraham og Söru og hjá Ísak og Rebekku. Sjáðu þá hjónabandið sömu augum og Jehóva. Sæktu þér visku og skilning í orð hans. Þegar þið hugsið um hið góða í fari maka ykkar hlúið þið að ástinni svo að hún verður eins og „skíðlogandi eldur“. (Ljóðalj. 8:6) Og temjið ykkur auðmýkt. Sýnið hvort öðru virðingu. Ef þið gerið þetta verður hjónabandið hamingjuríkt og gleður hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) Þá er þér kannski innanbrjósts eins og eiginmanninum sem sagði eftir 27 ára hjónaband: „Ég get ekki hugsað mér lífið án konunnar minnar. Hjónaband okkar styrkist dag frá degi. Það er vegna þess að við elskum Jehóva og ræðum oft og mikið saman.“

^ gr. 6 Orðskviðirnir 25:11 (Biblían 1981): „Gullepli í skrautlegum silfurskálum – svo eru orð í tíma töluð.“