Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Brautryðjendur í hálfa öld norður við heimskautsbaug

Brautryðjendur í hálfa öld norður við heimskautsbaug

„Það er ekkert mál fyrir þig að vera brautryðjandi. Báðir foreldrar þínir eru í trúnni og geta stutt við bakið á þér.“ Þetta sögðum við vinkonu okkar sem þjónaði Jehóva í fullu starfi. Hún svaraði á móti: „Sjáið nú til, við eigum öll sama föður.“ Það var mikill lærdómur fólginn í þessum orðum. Himneskur faðir okkar annast þjóna sína vel og styrkir þá. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir því gegnum ævina.

 VIÐ systkinin vorum tíu og ólumst upp í bændafjölskyldu í norðurhluta Austurbotns í Finnlandi. Síðari heimsstyrjöldin setti mark sitt á bernskuár okkar. Þó að við byggjum hundruð kílómetra frá víglínunni mótuðu hörmungar stríðsins líf okkar að vissu leyti. Ekki langt frá heimili okkar sáum við rauðan bjarma lýsa upp næturhimininn yfir borgunum Oulu og Kalajoki þegar varpað var sprengjum á þær. Foreldrar okkar sögðu okkur börnunum að þegar við sæjum herflugvélarnar nálgast yrðum við að flýja í skjól. Við vorum því snortnar þegar Tauno, elsti bróðir okkar, sagði okkur frá paradís þar sem óréttlæti yrði liðin tíð.

Þegar Tauno var 14 ára lærði hann sannleika Biblíunnar af ritum frá Biblíunemendunum. Hann hafði því ekki samvisku til að gegna herskyldu þegar síðari heimsstyrjöldin hófst og var sendur í fangelsi þar sem illa var farið með hann. En þetta gerði hann bara ákveðnari í að þjóna Jehóva og þegar hann var látinn laus var hann enn ákafari í þjónustunni. Gott fordæmi hans hvatti okkur til að sækja samkomurnar sem vottarnir héldu í nærliggjandi þorpi. Við fórum einnig á mót þó að við þyrftum að leggja mikið á okkur til að safna fyrir ferðinni þangað. Við saumuðum föt á nágranna okkar, ræktuðum lauk og tíndum ber. Þar sem bústörfin voru mörg gátum við yfirleitt ekki farið saman á mótin, svo að við skiptumst á.

Frá vinstri: Matti (faðir okkar), Tauno, Saimi, Maria Emilia (móðir okkar), Väinö (ungbarn), Aili og Annikki árið 1935.

Það sem við lærðum um Jehóva og fyrirætlun hans styrkti kærleika okkar til hans og við ákváðum að vígja honum líf okkar. Árið 1947 létum við báðar skírast til tákns um vígsluheit okkar. Við vorum þá 15 ára (Annikki) og 17 ára (Aili). Þetta sama ár skírðist svo Saimi systir. Önnur systir okkar, Linnea, fékk líka kennslu hjá okkur í Biblíunni. Hún var þá gift en þau fjölskyldan urðu einnig vottar Jehóva. Eftir skírnina settum við okkur það markmið að gerast brautryðjendur og vorum frítímabrautryðjendur (aðstoðarbrautryðjendur) af og til.

VIÐ GERÐUMST BRAUTRYÐJENDUR

Frá vinstri: Eeva Kallio, Saimi Mattila-Syrjälä, Aili, Annikki og Saara Noponen árið 1949.

Árið 1955 fluttum við norður til bæjarins Kemi. Þó að við værum báðar í fullri vinnu vildum við verða brautryðjendur en vorum hræddar um að geta ekki séð fyrir okkur. Okkur fannst við þurfa að safna smá sjóði áður en við gætum gert það. Það var þá sem við ræddum við brautryðjandasysturina eins og sagt var frá í byrjun. Hún gerði okkur grein fyrir því að brautryðjandastarf sé ekki háð ákveðnum aðstæðum hjá okkur né því að hljóta stuðning fjölskyldunnar. Það mikilvægasta er að treysta himneskum föður okkar Jehóva.

Á leið á mót í Kuopio árið 1952. Frá vinstri: Annikki, Aili og Eeva Kallio.

Við vorum búnar að safna nægilega miklu í maí 1957 til að geta séð fyrir okkur í tvo mánuði. Við vorum hálfhikandi en sóttum samt um að starfa sem brautryðjendur næstu tvo mánuðina. Við störfuðum í Pello sem er sveitarfélag í Lapplandi norðan við heimskautsbaug. Tveimur mánuðum síðar höfðum við ekki hreyft sjóðinn sem  við höfðum safnað svo að við sóttum um tvo mánuði í viðbót. Sama sagan endurtók sig og sjóðurinn var óhreyfður. Þá skildum við að Jehóva ætlaði sér að sjá um okkur. Eftir 50 ára brautryðjandastarf er sjóðurinn okkar enn óhreyfður! Þegar við lítum til baka er það eins og Jehóva hafi gripið í hönd okkar og sagt: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“ – Jes. 41:13.

Eftir 50 ára brautryðjandastarf er sjóðurinn okkar enn óhreyfður!

Kaisu Reikko og Aili í boðunarstarfinu.

Árið eftir hvatti farandhirðirinn okkur til að verða sérbrautryðjendur og flytja til Sodankylä í Lapplandi. Eini votturinn, sem bjó á svæðinu, var systir sem hafði kynnst sannleikanum með svolítið athyglisverðum hætti. Sonur hennar hafði farið í skólaferðalag til höfuðborgarinnar Helsinki. Hópurinn var á göngu um borgina og roskin systir hafði þá rétt drengnum, sem var aftastur í hópnum, eintak af Varðturninum og beðið hann að gefa móður sinni blaðið. Drengurinn gerði það og móðir hans skynjaði strax að þetta væri sannleikurinn.

Við leigðum herbergi á efri hæð sögunarmyllu og héldumsamkomur þar. Til að byrja með voru systirin og dóttir hennar þær einu sem komu og við lásum námsefnið saman. Síðar kom maður til að vinna hjá sögunarmyllunni en hann hafði verið í biblíunámi hjá vottunum áður. Hann og fjölskylda hans byrjuðu að mæta á samkomurnar. Með tímanum létu þau hjónin skírast og eftir það stýrði hann samkomunum. Fleiri menn, sem unnu hjá sögunarmyllunni, fóru að sækja samkomurnar og tóku svo við sannleika Biblíunnar. Á fáeinum árum óx hópurinn svo mikið að stofnaður var söfnuður.

AÐSTÆÐUR REYNA Á

Miklar vegalengdir gerðu okkur stundum erfitt fyrir í boðunarstarfinu. Á sumrin gengum við, hjóluðum og rérum jafnvel árabát til að komast til fólks á svæðinu. Hjólin komu sér sérstaklega vel. Við notuðum þau líka þegar við fórum á mót og heimsóttum foreldra okkar sem bjuggu í hundruð kílómetra fjarlægð. Á veturna fórum við með rútu snemma á morgnana til bæjar á svæðinu og gengum svo hús úr húsi. Þegar við höfðum heimsótt alla gengum við til næsta bæjar. Snjórinn var djúpur og það var ekki alltaf búið að ryðja vegina. Oft gengum við í slóð sem myndaðist eftir hestasleða en stundum hafði snjóað yfir öll spor. Snemma á vorin sukkum við í blautan snjóinn þegar við gengum milli staða.

Saman í boðunarstarfinu á köldum vetrardegi.

Kuldinn og snjórinn kenndi okkur að klæða okkur vel. Við vorum í háum ullarsokkum og  tvennum til þrennum sokkum til viðbótar undir háum stígvélunum. Oft komst þó snjór ofan í stígvélin svo að þegar við komum að tröppunum á næsta húsi þurftum við að hrista snjóinn úr þeim. Faldurinn á síðum vetrarkápunum blotnaði líka þegar við óðum snjóinn og þegar síðan kólnaði fraus hann og varð eins og járnplata. Kona, sem við heimsóttum, sagði: „Þið hljótið að hafa sterka trú fyrst þið farið út af fúsum og frjálsum vilja í svona veðri.“ Við höfðum gengið rúmlega 10 kílómetra til að komast að húsinu hennar.

Vegna vegalengdanna fengum við oft að gista hjá fólki sem bjó á svæðinu þar sem við vorum staddar. Þegar leið á kvöldið fórum við að spyrjast fyrir um gististað. Húsin voru einföld og látlaus en fólkið var vingjarnlegt og gestrisið og bauð okkur bæði mat og gistingu. Oft sváfum við á hreindýra- eða elgjarfeldi eða jafnvel bjarnarfeldi. Af og til nutum við líka svolítils munaðar eins og þegar kona í stóru húsi bauð okkur gestaherbergi á efri hæðinni en þar beið okkar fallegt rúm með blúndulökum. Það gerðist margoft að við ræddum við heimilisfólkið um Biblíuna fram eftir öllu. Á einum stað gistum við í sama herbergi og hjónin sem bjuggu í húsinu. Við sváfum öðrum megin í herberginu og þau hinum megin. Við héldum áfram að ræða um Biblíuna í myrkrinu langt fram á nótt. Hjónin skiptust á að spyrja, einnar spurningar á fætur annarri.

GEFANDI STARF

Lappland er hrjóstrugt en fallegt og það tekur á sig ólíkar myndir eftir árstíma. Mesta fegurðin í okkar augum var þó að sjá fólkið sem var þakklátt fyrir að kynnast Jehóva. Meðal þessara einlægu einstaklinga, sem við vitnuðum fyrir, voru skógarhöggsmenn sem komu til að vinna í Lapplandi. Stundum voru tugir manna í einum skála þegar við, tvær lágvaxnar systur, stigum inn fyrir. Þessir þrekvöxnu menn tóku vel á móti boðskap Biblíunnar og þáðu fúslega rit hjá okkur.

Margt spennandi gerðist á þessum tíma. Einn daginn var klukkan á rútustöðinni fimm mínútum of fljót svo að við misstum af rútunni. Við ákváðum því að taka rútu í annan bæ en þar höfðum við aldrei starfað áður. Í fyrsta húsinu hittum við unga konu sem sagði: „Jæja stelpur, þið eruð þá komnar eins og ég bjóst við.“ Systir hennar hafði verið í biblíunámi hjá okkur og unga konan hafði beðið hana að sjá til þess að við kæmum í heimsókn einmitt þennan dag. Málið var bara að við höfðum ekki fengið skilaboðin. Bæði konan og ættingjar hennar, sem bjuggu í næsta húsi, fóru að kynna sér Biblíuna með aðstoð okkar. Fljótlega ákváðum við að kenna þeim öllum samtímis en þá mættu rúmlega tíu manns í biblíunámið. Margir úr þessari fjölskyldu hafa með tímanum orðið vottar Jehóva.

 Árið 1965 vorum við aftur beðnar um að flytja og þá til safnaðarins þar sem við störfum núna. Hann er í Kuusamo sem er rétt fyrir sunnan heimskautsbaug. Á þeim tíma voru bara fáeinir boðberar í söfnuðinum. Nýja starfssvæðið virtist vera frekar erfitt til að byrja með. Fólk var strangtrúað og hafði fordóma gagnvart okkur. En margir virtu Biblíuna og það var grundvöllur að góðum samræðum. Smátt og smátt reyndum við að kynnast fólkinu og eftir svona tvö ár var orðið auðveldara að hefja biblíunámskeið.

ENN ÞÁ Í BOÐUNARSTARFINU

Nokkrir af þeim sem við vorum með í biblíunámi.

Við höfum ekki lengur orku til að vera heilu dagana í boðunarstarfinu, en við tökum samt þátt í því nánast á hverjum degi. Það varð talsvert auðveldara fyrir okkur að boða fagnaðarerindið eftir að Aili fékk ökuréttindi árið 1987. Bróðursonur okkar hvatti hana til þess svo að hún fór í ökutíma og lærði að keyra 56 ára að aldri. Þegar nýr ríkissalur var byggður fengum við að flytja inn í íbúð sem fylgdi húsinu og það gerði okkur líka auðveldara fyrir.

Það er mikil ánægja að hafa fengið að fylgjast með hvernig boðberum hefur fjölgað. Þegar við byrjuðum að starfa sem brautryðjendur í Norður-Finnlandi voru aðeins fáeinir boðberar þar, dreifðir um þetta víðáttumikla svæði. Núna eru nógu margir söfnuðir þar til að mynda heilt farandsvæði. Það hefur oft gerst á mótum að einhver hefur komið og kynnt sig fyrir okkur og spurt hvort við munum eftir honum. Við höfðum kannski haldið biblíunámskeið á heimili hans þegar hann var barn. Sæðið, sem sáð hafði verið mörgum árum eða jafnvel áratugum áður, hafði borið ávöxt. – 1. Kor. 3:6.

Við prédikum með ánægju þótt vætusamt sé í veðri.

Árið 2008 höfðum við systurnar verið sérbrautryðjendur í 50 ár. Við þökkum Jehóva fyrir að hafa getað hvatt hvor aðra til að halda út í þessu dýrmæta starfi. Við höfum lifað einföldu lífi en okkur hefur aldrei skort neitt. (Sálm. 23:1) Það var alger óþarfi að hafa áhyggjur af því eins og við höfðum í upphafi. Við gleðjumst yfir því að Jehóva skuli hafa styrkt okkur öll þessi ár eins og hann lofar í Jesaja 41:10: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“