Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Mars 2013

Misstu aldrei vonina

Misstu aldrei vonina

Hefurðu verið vottur Jehóva árum saman og þráir að maki þinn þjóni Jehóva með þér?

Eða hefurðu orðið fyrir vonbrigðum þegar biblíunemandi þinn tók ekki afstöðu með sannleikanum þótt hann virtist mjög áhugasamur í byrjun?

 Nokkrar frásögur frá Bretlandi sýna fram á að þú ættir aldrei að missa vonina. Þú sérð einnig hvernig hægt er að ,varpa brauði sínu út á vatnið‘, ef þannig má að orði komast, til að hjálpa þeim sem hafa ekki enn tekið á móti sannleikanum. – Préd. 11:1.

ÞRAUTSEIGJA ER MIKILVÆG

Eitt það mikilvægasta, sem þú getur gert, er að sýna þrautseigju. Þú verður að halda þér fast við sannleikann og vera Jehóva trúr. (5. Mós. 10:20) Það gerði Georgina. Þegar hún hóf biblíunám árið 1970 með aðstoð votta Jehóva varð Kyriacos, eiginmaður hennar, fokreiður. Hann reyndi að koma í veg fyrir biblíunám hennar, hleypti vottunum ekki inn á heimilið og fjarlægði öll rit þeirra sem hann fann.

Þegar Georgina fór að sækja safnaðarsamkomur varð Kyriacos enn reiðari. Einn daginn fór hann í ríkissalinn og ætlaði að koma af stað deilum. Þegar systir nokkur áttaði sig á að Kyriacos væri betri í grísku en ensku hringdi hún í grískan bróður í öðrum söfnuði og bað hann að koma og aðstoða. Kyriacos tók þessum vingjarnlega bróður vel og leyfði honum meira að segja að fræða sig um Biblíuna í nokkra mánuði. En svo hætti hann náminu.

Næstu þrjú árin mætti Georgina mikilli andstöðu. Kyriacos hótaði að fara frá henni ef hún léti nokkurn tíma skírast. Daginn sem Georgina ætlaði að láta skírast lagðist hún á bæn til Jehóva og bað þess heitt og innilega að Kyriacos myndi ekki fara frá henni. Þegar vottarnir komu að sækja hana til að aka henni á mótið sagði Kyriacos: „Farið þið á undan, við fylgjum á eftir á okkar bíl.“ Hann hlustaði á alla morgundagskrána og horfði á þegar konan hans skírðist.

Næstum 40 árum eftir að Georgina hitti vottana fyrst lét maðurinn hennar skírast.

Eftir þetta var Kyriacos ekki eins andsnúinn og áður. Hann breyttist mikið með tímanum. Næstum 40 árum eftir að Georgina hitti vottana fyrst lét maðurinn hennar skírast. Hvað hjálpaði Kyriacosi að breyta sér? Hann segir: „Ég var svo ánægður með Georginu því að hún var svo staðföst.“ Og Georgina bætir við: „Ég var ákveðin í að hætta ekki að þjóna Guði þótt maðurinn minn væri mikið á móti. Ég bað alltaf til Jehóva og missti aldrei vonina.“

GILDI KRISTINNA EIGINLEIKA

Til að geta hjálpað maka sínum er líka mjög mikilvægt að tileinka sér kristna eiginleika. Pétur postuli sagði við kristnar eiginkonur: „Eins skuluð þið, eiginkonur, vera eftirlátar eiginmönnum ykkar til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna.“ (1. Pét. 3:1) Christine fylgdi þessum leiðbeiningum þótt það tæki mörg ár að vinna John, eiginmann hennar, til fylgis við trúna. John fann enga þörf hjá sér fyrir Guð þegar hún gerðist vottur fyrir rúmlega 20 árum. Hann vildi ekki hafa neitt með trúarbrögð að gera, en sá samt hvað Christine var ánægð með sína nýju trú. Hann sagði: „Ég sá hvað trúin gerði hana glaða. Hún varð heilsteyptari og traustari, og það auðveldaði mér oft að takast á við erfiðleika.“

Christine reyndi aldrei að þröngva trúnni upp á eiginmann sinn en hann segir: „Christine áttaði sig á því frá byrjun að það væri best að láta mig í friði. Hún var mjög þolinmóð og leyfði mér að læra á mínum hraða og á minn hátt.“ Þegar Christine sá greinar í Varðturninum eða Vaknið! sem hún hélt að John hefði áhuga á, svo sem greinar um náttúru og vísindi, benti hún honum á þær og sagði: „Ég held að þú hefðir gaman af að lesa þetta.“

Þegar fram liðu stundir fór John á eftirlaun og tók að sér svolítil garðyrkjustörf. Hann hafði nú meiri tíma til að hugsa um stóru spurningarnar í lífinu og fór að velta fyrir sér hvort mennirnir hefðu orðið til vegna eintómra tilviljana eða hvort þeir hefðu verið skapaðir í ákveðnum tilgangi. Dag nokkurn spurði bróðir, sem var að spjalla við John, hvernig honum litist á biblíunámskeið. „Þar sem ég var farinn að trúa á Guð þáði ég boðið,“ segir John.

Það hafði vissulega mikið að segja að Christine skyldi ekki missa vonina. Í 20 ár hafði hún beðið til Guðs um að John tæki á móti sannleikanum og loks lét hann skírast. Nú þjóna þau Jehóva saman af kappi. John segir: „Það var einkum tvennt sem fékk mig til að skipta um skoðun. Góðvild og vinsemd vottanna. Og þar sem ég er giftur votti Jehóva á ég trúan, traustan og fórnfúsan maka.“ Já,  Christine fór eftir orðunum í 1. Pétursbréfi 3:1 og það bar árangur.

FRÆIÐ VEX UPP LÖNGU SEINNA

En hvað um biblíunemendur sem missa áhugann af einhverri ástæðu? „Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi,“ skrifaði Salómon konungur, „því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott.“ (Préd. 11:6) Stundum tekur það frækorn sannleikans mörg ár að spíra. En með tímanum getur fólk séð hvað það er áríðandi að nálægjast Guði. (Jak. 4:8) Það er aldrei að vita nema þú eigir eftir að sjá það gerast.

Tökum Alice sem dæmi en hún flutti til Englands frá Indlandi. Hún þáði biblíunámskeið árið 1974. Alice talaði hindí en vildi bæta enskukunnáttuna. Hún kynnti sér Biblíuna í nokkur ár með hjálp Stellu og sótti nokkrar samkomur í enskumælandi söfnuði. Alice gerði sér grein fyrir því að þetta væri sannleikur sem hún var að læra en leit á námið sem eins konar tómstundagaman. Auk þess lagði hún mikið upp úr að eignast peninga og var dugleg að stunda skemmtanalífið. Að lokum hætti Alice biblíunáminu.

Næstum 30 árum seinna fékk Stella bréf frá Alice. Í því stóð: „Ég er viss um að það gleður þig að heyra að biblíunemandi þinn frá árinu 1974 lét skírast á nýliðnu umdæmismóti. Þú hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Þú sáðir frækorni sannleikans í hjarta mér og þótt ég hafi ekki verið tilbúin til að vígjast Guði á þeim tíma hef ég ætíð geymt þetta frækorn sannleikans í huga mér og hjarta.“

Í bréfinu, sem Stella fékk frá Alice, stóð: „Ég er viss um að það gleður þig að heyra að biblíunemandi þinn frá árinu 1974 lét skírast á nýliðnu umdæmismóti.“

Hvað hafði gerst í millitíðinni? Alice segist hafa orðið mjög niðurdregin eftir að hún missti manninn sinn árið 1997. Hún bað þá til Guðs. Áður en tíu mínútur voru liðnar bönkuðu upp á hjá henni tveir vottar, sem töluðu punjabí, og gáfu henni smáritið Hvaða von er um látna ástvini? Alice fannst hún hafa verið bænheyrð og ákvað að hafa samband við Votta Jehóva. En hvar gat hún fundið þá? Hún rakst á gamla dagbók og í henni var heimilisfang á punjabímælandi söfnuði sem Stella hafði sagt henni frá. Alice fór þangað og fékk hlýjar móttökur hjá punjabímælandi bræðrum og systrum. Hún segir: „Ég fann stöðugt fyrir þessari hlýju og það hjálpaði mér að losna við depurðina.“

Alice fór að sækja safnaðarsamkomur, hóf aftur biblíunám og lærði að tala og lesa punjabí reiprennandi. Árið 2003 lét hún skírast. Bréfið, sem hún sendi Stellu, endaði á þessum orðum: „Þakka þér innilega fyrir að sá þessum frækornum fyrir 29 árum og fyrir að vera mér frábært fordæmi.“

„Þakka þér innilega fyrir að sá þessum frækornum fyrir 29 árum og fyrir að vera mér frábært fordæmi.“ – Alice

Hvað má læra af þessum frásögum? Jehóva lætur sannleikann dafna í hjörtum réttsýnna og auðmjúkra einstaklinga sem vilja raunverulega kynnast honum, þótt það taki stundum miklu lengri tíma en við bjuggumst við. Rifjum upp það sem Jesús sagði í einni dæmisögu sinni: „Sæðið grær og vex, [sáðmaðurinn] veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.“ (Mark. 4:27, 28) Þessi vöxtur er hægfara en gerist „sjálfkrafa“. Hver einstakur boðberi Guðsríkis veit ekki hvernig þetta gerist. Haltu þess vegna áfram að sá ríkulega. Þú gætir uppskorið ríkulega.

Gleymdu ekki hvað bænin er þýðingarmikil. Georgina og Christine héldu stöðugt áfram að biðja til Jehóva. Haltu því áfram að biðja og misstu aldrei vonina því að „þegar margir dagar eru liðnir“ getur vel verið að þú finnir ,brauðið sem þú varpaðir út á vatnið‘. – Rómv. 12:12; Préd. 11:1.