Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2013

Njótum verndar í fjalldal Jehóva

Njótum verndar í fjalldal Jehóva

„Þá mun Drottinn fara og berjast við þessar þjóðir eins og hann gerir á orrustudegi.“ – SAK. 14:3.

1, 2. Hvaða stríð er í uppsiglingu og hvað þurfa þjónar Guðs ekki að gera þegar það brestur á?

KVÖLDIÐ 30. október 1938 hlustuðu milljónir Bandaríkjamanna á vinsælan útvarpsþátt þar sem venja var að flytja leikrit. Þetta kvöld var flutt leikrit sem byggt var á vísindaskáldsögunni Innrásin frá Mars. Leikarar léku þar fréttamenn sem lýstu því að innrásarher frá Mars hefði lent á jörðinni og búast mætti við tortímingu og dauða. Þótt tilkynnt hefði verið að um leikrit væri að ræða héldu margir að innrásin væri raunveruleg og fylltust skelfingu. Sumir gerðu jafnvel ráðstafanir til að verjast hinum ímynduðu geimverum.

2 Núna er alvörustríð í uppsiglingu en fólk lætur sem ekkert sé. Þetta stríð er engin vísindaskáldsaga heldur er sagt frá því í innblásnu orði Guðs, Biblíunni. Þetta er stríðið við Harmagedón – stríð Guðs gegn þessum illa heimi. (Opinb. 16:14-16) Í þessu stríði þurfa þjónar Guðs á jörð ekki að verja hendur sínar gegn geimverum. Þeir verða aðeins áhorfendur að ógnarmætti Guðs og þeim ótrúlegu atburðum sem þá eiga sér stað.

3. Um hvaða spádóm ætlum við að fjalla og af hverju er hann áhugaverður?

3 Í 14. kafla Sakaríabókar er að finna spádóm sem segir okkur frá ýmsu varðandi stríðið við Harmagedón. Hann hefur mikla þýðingu fyrir okkur þó að liðin séu meira en 2.500 ár síðan hann var skrifaður. (Rómv. 15:4) Í spádóminum segir frá mörgu sem hefur drifið á daga þjóna Guðs síðan ríki Messíasar var stofnað á himnum árið 1914, og þar má lesa um spennandi  atburði sem eru rétt fram undan. Af meginatriðum spádómsins má nefna að til verður „firnavíður dalur“ og talað er um „lifandi vötn“ sem streyma fram. (Sak. 14:48, Biblían 1981) Við ætlum nú að kanna hvað dalurinn táknar og hvernig hann veitir þjónum Jehóva vernd. Og þegar við gerum okkur grein fyrir hvaða þýðingu lifandi vötnin hafa áttum við okkur á að við þurfum að drekka af þeim og okkur langar líka til þess. Við skulum því kynna okkur þennan spádóm nánar. – 2. Pét. 1:19, 20.

„DAGUR KEMUR FRÁ DROTTNI“

4. (a) Hvenær hófst ,dagurinn frá Drottni‘? (b) Hvað höfðu þjónar Jehóva boðað um áratugaskeið fyrir 1914 og hvernig brugðust leiðtogar heims við því?

4 Fjórtándi kafli Sakaría hefst á því að sagt er að ,dagur komi frá Drottni‘, það er að segja Jehóva. (Lestu Sakaría 14:1, 2.) Hvaða dagur er það? Hér er átt við ,dag Drottins‘ sem hófst þegar Jehóva og Jesús fengu „valdið yfir heiminum“. (Opinb. 1:10; 11:15) Það gerðist árið 1914 þegar ríki Messíasar var stofnsett á himnum. Þjónar Jehóva höfðu boðað um áratugaskeið að „tímar heiðingjanna“ enduðu það ár og þá tækju við erfiðleikar sem heimurinn hefði ekki kynnst áður. (Lúk. 21:24) Hvernig brugðust þjóðir heims við? Leiðtogar trúmála og stjórnmála fyrirlitu þessa ötulu boðbera, hunsuðu viðvörun þeirra og ofsóttu þá. Þar með gerðu þeir gys að alvöldum Guði því að andasmurðir boðberar Guðsríki eru erindrekar þess, „hinnar himnesku Jerúsalem“. – Hebr. 12:22, 28.

5, 6. (a) Hvað gerðu þjóðir heims gagnvart borginni og þegnum hennar? (b) Hverja táknar „sá hluti þeirra sem eftir verður í borginni“?

5 Sakaría sagði fyrir hvað þjóðir heims myndu gera og skrifaði: „Borgin [Jerúsalem] verður tekin.“ „Borgin“ táknar ríki Guðs og andasmurðir kristnir menn á jörð eru þegnar þess. (Fil. 3:20) Borgin var „tekin“ í fyrri heimsstyrjöldinni þegar bræður, sem fóru með forystuna í söfnuði Jehóva, voru handteknir og þeim varpað í fangelsi í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Þeir og aðrir saklausir þjónar Guðs máttu þola ranglæti og illa meðferð. Hinir andasmurðu voru rændir þeim áhrifum sem þeir höfðu haft. Rit þeirra voru bönnuð og reynt var að stöðva boðun fagnaðarerindisins. Það var eins og ,húsin hefðu verið rænd‘.

6 Enda þótt þjónar Guðs ættu við ofurefli að etja, logið væri upp á þá sökum og þeir væru ofsóttir var ekki hægt að útrýma sannri tilbeiðslu. „Ekki verður upprættur sá hluti þeirra sem eftir verður í borginni,“ segir í spádóminum, það er að segja hinir andasmurðu sem neituðu að láta ,uppræta sig úr borginni‘.

7. Hvernig eru andasmurðir vottar Jehóva okkur öllum til fyrirmyndar?

7 Uppfylltist þessi spádómur að fullu í fyrri heimsstyrjöldinni? Nei, þjóðirnar héldu áfram árásum sínum á hina andasmurðu og trúa félaga þeirra sem höfðu jarðneska von. (Opinb. 12:17) Það sýndi sig í síðari heimsstyrjöldinni. Trúfesti hinna andasmurðu er okkur öllum hvatning til að standast hvaða prófraunir  sem verða á vegi okkar. Gildir þá einu hvort andstaðan kemur frá nánum ættingjum sem eru ekki í trúnni, eða frá vinnu- og skólafélögum sem gera gys að trú okkar. (1. Pét. 1:6, 7) Þjónar Guðs um heim allan eru ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að ,standa stöðugir í einum anda‘ og ,láta aldrei mótstöðumenn skelfa sig í neinu‘. (Fil. 1:27, 28) En hvar geta þjónar Jehóva fundið öruggt skjól í heimi sem hatar þá? – Jóh. 15:17-19.

JEHÓVA MYNDAR ,FIRNAVÍÐAN DAL‘

8. (a) Hvað eru fjöll oft látin tákna í Biblíunni? (b) Hvað táknar „Olíufjallið“?

8 „Borgin“ – Jerúsalem – táknar hina himnesku Jerúsalem eins og fram hefur komið. ,Olíufjallið austur af Jerúsalem‘ hlýtur þar af leiðandi líka að vera táknrænt. Hvað táknar það? Hvernig ,klofnar það í miðju‘ svo að úr verða tvö fjöll? Samkvæmt frummálinu kallar Jehóva þau ,fjöll sín‘. Af hverju eignar hann sér fjöllin? (Lestu Sakaría 14:3-5.) Í Biblíunni eru fjöll oft látin tákna ríki eða stjórnir. Og það er gjarnan talað um að blessun og vernd fylgi fjalli Guðs. (Sálm. 72:3; Jes. 25:6, 7) Olíufjallið, sem Jehóva stendur á austur af Jerúsalem, táknar því drottinvald hans yfir öllum alheimi.

9. Hvað merkir það að „Olíufjallið“ klofnar?

9 Hvað merkir það að Olíufjallið skuli klofna í miðju? Fjallið, sem er austur af Jerúsalem, klofnar í þeirri merkingu að Jehóva setur á fót aðra stjórn sem gegnir sérstöku hlutverki. Þessi stjórn tilheyrir líka Jehóva, og Jesús Kristur er konungur hennar. Það er þess vegna sem Jehóva kallar fjöllin tvö, sem verða til þegar „Olíufjallið“ klofnar, fjöllin sín. (Sak. 14:4) Bæði tilheyra honum.

10. Hvað táknar hinn firnavíði dalur milli fjallanna tveggja?

10 Þegar hið táknræna fjall klofnar og helmingurinn færist í norður en hinn í suður stendur Jehóva styrkum fótum á þeim báðum. „Firnavíður dalur“ myndast undir fótum hans. Þessi dalur táknar vernd Jehóva þar sem þjónar hans eru óhultir undir drottinvaldi hans og undir stjórn sonar hans. Jehóva sér til þess að hreinni tilbeiðslu verði aldrei útrýmt. Hvenær klofnaði Olíufjallið? Það gerðist þegar ríki Messíasar var stofnsett árið 1914 og tímum heiðingjanna lauk. Í spádóminum segir að þjónar Jehóva flýi í fjalldal hans. Hvenær hófst þessi flótti?

FLÓTTINN Í FJALLDALINN HEFST

11, 12. (a) Hvenær hófst flóttinn í hinn táknræna fjalldal? (b) Hvað sannar að Jehóva verndar þjóna sína með máttugri hönd sinni?

11 „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns,“ sagði Jesús við fylgjendur sína. (Matt. 24:9) Þetta hatur hefur magnast verulega á síðustu dögum þessa heims sem hófust árið 1914. En þótt hinir andasmurðu hafi sætt grimmilegum árásum af hendi óvina sinna í fyrri heimsstyrjöldinni tókst ekki að útrýma þeim. Árið 1919 voru þessir trúu þjónar Guðs leystir úr klóm Babýlonar hinnar miklu en hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinb. 11:11, 12) * Það var þá sem flóttinn í fjalldal Jehóva hófst.

 12 Síðan 1919 hafa þjónar Jehóva um heim allan notið verndar í fjalldal hans. Á liðnum áratugum hefur boðunarstarf Votta Jehóva sætt takmörkunum víða um lönd og rit þeirra og starfsemi verið bönnuð. Enn eru hömlur á starfi þeirra í sumum löndum. En ríkisstjórnum tekst aldrei að útrýma sannri tilbeiðslu hvað sem þær reyna. Jehóva verndar þjóna sína með máttugri hönd sinni. – 5. Mós. 11:2.

13. Hvernig getum við haldið okkur í fjalldal Jehóva og af hverju er það mikilvægara en nokkru sinni fyrr?

13 Ef við erum Jehóva trú og erum staðföst í sannleikanum njótum við verndar hans og sonar hans, Jesú Krists. Hann leyfir engum að ,slíta okkur úr hendi sinni‘. (Jóh. 10:28, 29) Jehóva er tilbúinn til að veita okkur alla þá hjálp sem við þurfum til að geta hlýtt honum sem Drottni alheims og verið dyggir þegnar sonar hans. Stuðningur hans verður enn mikilvægari fyrir okkur í þrengingunni miklu sem er í nánd. Það skiptir því öllu máli að við höldum okkur í fjalldal Jehóva þar sem við njótum verndar hans.

,ORUSTUDAGURINN‘ HEFST

14, 15. Hvernig fer fyrir þeim sem eru ekki í fjalldal Jehóva á orustudegi hans?

14 Satan gerir æ harðari árásir á þjóna Jehóva eftir því sem nær dregur endalokum þessa heims. En bráðlega hefur hann gert sína síðustu árás. Orustudagurinn, þegar Jehóva berst við óvini sína, rennur upp. Á þeim degi vinnur Drottinn alheims dýrlegri sigur en í nokkurri annarri orustu sem hann hefur háð. – Sak. 14:3.

15 Hvernig fer fyrir þeim sem njóta ekki verndar Jehóva í fjalldalnum á orustudegi hans? Hjá þeim verður „hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin“ því að þeir njóta ekki velþóknunar Guðs. Í spádóminum er talað um „hesta, múldýr, úlfalda, asna og allar skepnur“. Þau tákna hergögn þjóðanna sem verða gagnslaus og ónothæf á orustudeginum. Jehóva sendir einnig „plágu“ yfir andstæðingana. Hvort sem plágan verður bókstafleg eða ekki þaggar hún niður allar hótanir. Augu andstæðinganna „morkna í augnatóttunum“ svo að þeir geta aðeins barið frá sér í blindni. Tungan mun „visna í munni þeirra“ svo að þeir geta ekki lengur ögrað Guði. (Sak. 14:6, NW; 14:7, 12, 15) Hersveitir Satans verða ógurlega fjölmennar. En óháð því hvar á jörðinni þær eru staddar kemst enginn undan. (Opinb. 19:19-21) „Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina.“ – Jer. 25:32, 33.

16. Hverju ættum við að velta fyrir okkur og hvað þurfum við að gera í þrengingunni miklu?

16 Hernaði fylgja alltaf þjáningar, jafnvel fyrir þá sem bera að lokum sigur úr býtum. Lífsgæðum getur hrakað. Fólk getur þurft að þola matarskort, eignatjón og frelsisskerðingu. Hvað gerum við ef við lendum í einhverju slíku? Missum við stjórn á okkur af hræðslu? Afneitum við trúnni ef þjarmað er að okkur? Missum við vonina og örvæntum? Í þrengingunni miklu verðum við að treysta að Jehóva verndi okkur og halda okkur í fjalldal hans. – Lestu Habakkuk 3:17, 18.

 LIFANDI VATN STREYMIR FRAM

17, 18. (a) Hver eru hin „lifandi vötn“? (b) Hvað tákna „austurhafið“ og „vesturhafið“? (c) Hvað ættum við að gera í ljósi þess sem framtíðin ber í skauti sér?

17 Eftir Harmagedón streymir „ferskt vatn“ eða „lifandi vötn“ frá ríki Messíasar. (Biblían 1981) Þessi „lifandi vötn“ tákna allt sem Jehóva gefur mönnunum til að þeir geti lifað að eilífu. „Austurhafið“ er Dauðahafið og „vesturhafið“ er Miðjarðarhaf og eru bæði notuð til að tákna fólk. Dauðahafið táknar þá sem sofa dauðasvefni í gröfinni. Miðjarðarhafið er kvikt af lífi og táknar múginn mikla sem lifir af Harmagedón. (Lestu Sakaría 14:8, 9; Opinb. 7:9-15) Báðir hóparnir slökkva þorstann með því að drekka úr „móðu lífsvatnsins“ og losna úr fjötrum dauðans sem þeir erfðu frá Adam. – Opinb. 22:1, 2.

Vertu staðráðinn í að halda þig í dalnum þar sem þú nýtur verndar Jehóva.

18 Undir verndarhendi Jehóva lifum við af þegar þessi illi heimur líður undir lok og fáum að ganga inn í nýjan réttlátan heim. Þótt allar þjóðir hati okkur skulum við vera staðráðin í að vera trúir þegnar Guðsríkis og halda okkur í fjalldal Jehóva þar sem hann verndar þjóna sína.

^ gr. 11 Sjá Revelation – Its Grand Climax at Hand! bls. 169-170.