„Þetta er arfleifð þjóna Jehóva.“ – JES. 54:17, Byington.

1. Hvað hefur Jehóva varðveitt til góðs fyrir mennina?

JEHÓVA er eilífur og hefur sagt okkur hvað við þurfum að gera til að lifa að eilífu. Fyrirmæli hans hafa ekki breyst í aldanna rás því að „orð Drottins varir að eilífu“. (1. Pét. 1:23-25) Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli í kærleika sínum hafa varðveitt þennan mikilvæga boðskap í orði sínu, Biblíunni.

2. Hvað hefur Guð varðveitt í Biblíunni?

2 Í Biblíunni hefur Guð varðveitt nafnið sem hann gaf sjálfum sér, og hann vill að þjónar sínir noti það. Nafnið kemur fyrst fyrir í frummálinu í ,sögunni um uppruna himins og jarðar‘. (1. Mós. 2:4) Jehóva skráði nafn sitt nokkrum sinnum á steintöflurnar með boðorðunum tíu. Fyrsta boðorðið hefst til dæmis með þessum orðum: „Ég er Drottinn [„Jehóva“, NW], Guð þinn.“ (2. Mós. 20:1-17) Satan hefur reynt að útrýma Biblíunni svo að fólk gæti ekki kynnst Guði og nafni hans. En Jehóva hefur ekki leyft honum það.

3. Hvað hefur Guð varðveitt þó að margir aðhyllist alls konar villukenningar?

3 Jehóva hefur einnig séð til þess að sannleikurinn varðveittist í orði hans, Biblíunni. Um allan heim aðhyllist fólk ýmiss konar villukenningar en Jehóva hefur gefið okkur ljós sannleikans. Við megum vera innilega þakklát fyrir það. (Lestu Sálm 43:3, 4.) Við göngum fagnandi í ljósinu frá Guði þó að myrkur grúfi yfir þorra mannkyns. – 1. Jóh. 1:6, 7.

VIÐ EIGUM VERÐMÆTA ARFLEIFÐ

4, 5. Hvaða heiðurs höfum við notið síðan 1931?

4 Þegar talað er um arfleifð þjóðar er átt við þá eiginleika, hefðir og lífshætti sem ganga í arf frá kynslóð til kynslóðar. Við sem erum vottar Jehóva Guðs eigum okkur líka dýrmæta arfleifð. Hún er  fólgin í því að við höfum nákvæma þekkingu á orði Guðs og skiljum sannleikann um hann og vilja hans. Við höfum einnig hlotið þann mikla heiður að mega kenna okkur við nafn hans.

Við tókum fagnandi við nafninu Vottar Jehóva á móti árið 1931.

5 Nafnið Vottar Jehóva er orðið hluti af trúararfleifð okkar. Við tókum okkur það árið 1931 á móti í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum. Bókstafirnir „JW“ stóðu framan á mótsdagskránni. „Það voru miklar vangaveltur um hvað þeir merktu,“ sagði systir nokkur. Við höfðum verið nefnd Biblíunemendurnir en nú tókum við okkur nafnið vottar Jehóva (Jehovah’s Witnesses á ensku). Það var gert með yfirlýsingu sunnudaginn 26. júlí 1931. Það var mikill fögnuður meðal viðstaddra að fá þetta nýja nafn sem sótt var í Biblíuna. (Lestu Jesaja 43:12.) „Ég gleymi aldrei fagnaðarlátunum sem fóru um salinn,“ segir bróðir nokkur. Ekkert annað trúfélag í heiminum vildi kenna sig við nafn Guðs, en við höfum fengið að bera það í meira en 80 ár. Það er ólýsanlegur heiður að mega vera vottur Jehóva.

6. Hvaða upplýsingar tilheyra trúararfleifð okkar?

6 Trúararfleifð okkar felur einnig í sér mikinn sjóð nákvæmra og verðmætra upplýsinga um þjóna Guðs forðum daga. Tökum ættfeðurna Abraham, Ísak og Jakob sem dæmi. Þeir og fjölskyldur þeirra hljóta að hafa rætt oft um það hvernig þau gætu þóknast Jehóva. Það er því ekkert undarlegt að Jósef skyldi vera ráðvandur og neita að drýgja hór og „syndga á móti Guði“. (1. Mós. 39:7-9) Kristnir menn á fyrstu öld lærðu einnig hver af öðrum og fengu leiðbeiningar munnlega. Þar á meðal má nefna sitthvað um kvöldmáltíð Drottins sem Páll postuli flutti kristnu söfnuðunum. (1. Kor. 11:2, 23) Allt er þetta varðveitt í Biblíunni þannig að við getum tilbeðið Guð „í anda og sannleika“. (Lestu Jóhannes 4:23, 24.) Biblían er fræðandi fyrir alla menn en við sem erum þjónar Jehóva kunnum sérstaklega að meta hana.

7. Hvaða loforð er hluti af arfleifð okkar?

7 Frásögur, sem birst hafa í ritum okkar á síðustu árum og áratugum, eru líka hluti af trúararfleifð okkar. Þær sanna að Jehóva er með okkur. (Sálm. 118:7) Það veitir okkur öryggiskennd, jafnvel þegar við erum ofsótt. Eftirfarandi loforð er ákaflega uppörvandi og það er einnig þáttur í arfleifð okkar: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt og sérhverja tungu, sem mælir gegn þér, skaltu dæma seka. Þetta er hlutskipti [„arfleifð“, Byington] þjóna Drottins og sá réttur sem þeir fá frá mér, segir Drottinn.“ (Jes. 54:17) Satan á ekkert í vopnabúri sínu sem getur valdið okkur varanlegu tjóni.

8. Um hvað er fjallað í þessari grein og þeirri næstu?

 8 Satan hefur reynt að útrýma Biblíunni, afmá nafn Guðs og fela sannleikann. En Jehóva er margfalt máttugri en Satan og hefur ónýtt allar tilraunir hans. Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við (1) hvernig Jehóva hefur varðveitt Biblíuna, (2) hvernig hann hefur séð til þess að fólk þekki hann með nafni og (3) hvernig hann hefur varðveitt sannleikann og gert okkur kleift að þekkja hann.

JEHÓVA HEFUR VARÐVEITT BIBLÍUNA

9-11. Hvaða dæmi sýna að Biblían hefur varðveist þótt reynt hafi verið að útrýma henni?

9 Jehóva hefur varðveitt orð sitt Biblíuna þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að útrýma henni. Í Enciclopedia Cattolica (Kaþólsku alfræðibókinni) segir: „Árið 1229 bannaði kirkjuþingið í Toulouse leikmönnum að nota [Biblíuna á þjóðtungunum] og tók þá mið af baráttunni gegn Albígensum og Valdensum . . . Áþekkt bann var gefið út á þingi sem haldið var árið 1234 í Tarragona á Spáni undir forystu Jakobs fyrsta . . . Páfastóllinn lét fyrst til sín taka árið 1559 þegar tekið var fram í bannlista Páls páfa fjórða að ekki mætti prenta Biblíuna á þjóðtungum og fólk mætti ekki eiga hana án leyfis páfastólsins.“

10 Biblían hefur varðveist þótt reynt hafi verið að útrýma henni. John Wycliffe og samstarfsmenn hans gáfu út fyrstu ensku biblíuþýðinguna árið 1382. William Tyndale var annar biblíuþýðandi en hann var tekinn af lífi árið 1536. Hann var bundinn við staur, kyrktur og brenndur á báli. Sagt er að rétt fyrir andlátið hafi hann hrópað: „Drottinn, opnaðu augu Englandskonungs.“

11 Árið 1535 kom Biblían út í enskri þýðingu sem Miles Coverdale stóð fyrir. Hann notaði þýðingu Tyndales á Nýja testamentinu og fyrsta hluta Gamla testamentisins, frá 1. Mósebók til Kroníkubókanna. Hitt þýddi hann ýmist úr latínu eða þýskri biblíu Marteins Lúters. Nú er til Nýheimsþýðing heilagrar ritningar. Margir meta hana mikils sökum þess að hún er skýr, trú biblíutextanum og kemur að góðum notum við að boða fagnaðarerindið. Það gleður okkur að hvorki menn né illir andar geta komið í veg fyrir að orð Jehóva varðveitist.

JEHÓVA VARÐVEITIR NAFN SITT

Menn eins og Tyndale fórnuðu lífinu fyrir orð Guðs.

12. Hvaða hlutverki hefur Nýheimsþýðingin gegnt í því að varðveita nafn Guðs?

12 Jehóva Guð hefur séð til þess að nafn hans varðveittist í Biblíunni. Þar gegnir Nýheimsþýðingin veigamiklu hlutverki. Í formálsorðum þýðingarnefndar  segir: „Helsta einkenni þessarar þýðingar er að nafn Guðs endurheimtir þann sess sem því ber í enska textanum. Það hefur verið gert með því að nota hið útbreidda enska form ,Jehovah‘ 6.973 sinnum í Hebresku ritningunum og 237 sinnum í Grísku ritningunum.“ Nýheimsþýðingin er nú til í heild eða að hluta á meira en 116 tungumálum og prentuð hafa verið rösklega 178.545.800 eintök.

13. Hvernig vitum við að fólk hefur þekkt nafn Guðs allt frá sköpun mannsins?

13 Fólk hefur þekkt nafn Guðs allt frá sköpun mannsins. Adam og Eva þekktu það og vissu nákvæmlega hvernig átti að bera það fram. Þegar Kam sýndi Nóa, föður sínum, óvirðingu eftir flóðið sagði Nói: „Lofaður sé Drottinn [„Jehóva“, NW], Guð Sems. Kanaan [sonur Kams] sé þræll Sems.“ (1. Mós. 4:1; 9:26) Guð notaði sjálfur nafn sitt þegar hann lýsti yfir: „Ég er Drottinn [„Jehóva“, NW], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég ekki öðrum.“ Hann sagði einnig: „Ég er Drottinn [„Jehóva“, NW] og enginn annar, enginn er Guð nema ég.“ (Jes. 42:8; 45:5) Jehóva hefur séð til þess að nafn sitt varðveittist og væri kunngert fólki um víða veröld. Það er mikill heiður að mega nota nafnið Jehóva og vera vottar hans. Það er rétt eins og við lýsum yfir: „Þá munum vér . . . hefja upp fánann í nafni Guðs vors.“ – Sálm. 20:6.

14. Hvar má finna nafn Guðs annars staðar en í Biblíunni?

14 Nafn Guðs er að finna víðar en í Biblíunni. Móabítasteinninn er dæmi um það en hann fannst í Dhiban (Dibon) sem er 21 kílómetra austur af Dauðahafi. Í áletrun á steininum er minnst á Omrí Ísraelskonung og sögð útgáfa Mesa, konungs í Móab, af uppreisn hans gegn Ísrael. (1. Kon. 16:28; 2. Kon. 1:1; 3:4, 5) En Móabítasteinninn er sérlega áhugaverður vegna þess að þar er nafn Guðs að finna ritað með fjórum hebreskum bókstöfum. Fjórstafanafnið kemur einnig margsinnis fyrir á leirtöflubrotum sem fundist hafa í Ísrael og eru kölluð Lakísbréfin.

15. Hvað er Sjötíumannaþýðingin og hvernig kom hún til sögunnar?

15 Biblíuþýðendur til forna áttu sinn þátt í að varðveita nafn Guðs. Margir Gyðingar sneru ekki heim til Júda og Ísraels eftir útlegðina í Babýlon á árunum 607 til 537 f.Kr. Á þriðju öld f.Kr. bjó fjöldi Gyðinga í Alexandríu í Egyptalandi, og þá vantaði gríska þýðingu á Hebresku ritningunum enda var gríska alþjóðmál á þeim tíma. Þýðingin var fullgerð á annarri öld f.Kr. og er kölluð Sjötíumannaþýðingin. Í sumum eintökum hennar er nafn Guðs að finna, ritað með hebreskum bókstöfum.

16. Nefndu dæmi um hvernig nafn Guðs var notað í bók sem kom fyrst út árið 1640.

16 Fyrsta bókin, sem gefin var út í ensku nýlendunum í Ameríku, var ensk þýðing á Sálmunum í Biblíunni. Hún var þýdd úr hebresku og er kölluð „Bay Psalm Book“. Í upphaflegri útgáfu hennar (prentuð árið 1640) er nafn Guðs notað í versum eins og Sálmi 1:1, 2. Þar segir að guðrækinn maður fari ekki að ráðum óguðlegra heldur hafi yndi af lögmáli „Iehovah“ eins og nafnið er stafsett. Nánari upplýsingar um nafn Guðs má finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu.

JEHÓVA VARÐVEITIR SANNLEIKANN

17, 18. (a) Skilgreindu hugtakið sannleikur. (b) Hvað er ,sannleikur fagnaðarerindisins‘?

17 Við höfum yndi af því að þjóna Jehóva, Guði sannleikans. (Jes. 45:23) Sannleikur er „frásögn sem skýrir frá því  sem gerðist í raun og veru, það sem er satt og rétt“, samkvæmt Íslenskri orðabók. Hebreska orðið, sem oft er þýtt sannleikur í Biblíunni, lýsir því sem er satt, rétt og áreiðanlegt. Gríska orðið, sem er þýtt sannleikur, er notað um það sem samræmist staðreyndum eða er viðeigandi og rétt.

18 Jehóva hefur varðveitt sannleikann og séð til þess að við getum aflað okkur þekkingar jafnt og þétt. (2. Jóh. 1, 2) Við fáum stöðugt gleggri skilning á sannleikanum. Það er í samræmi við Orðskviðina 4:18 þar sem segir: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi.“ Við erum að sjálfsögðu sammála Jesú sem sagði í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóh. 17:17) Í Biblíunni finnum við „sannleika fagnaðarerindisins“, það er að segja kenningar kristninnar í heild sinni. (Gal. 2:14) Þetta er meðal annars sannleikurinn um nafn Jehóva, drottinvald hans, lausnarfórn Jesú, upprisuna og ríki Guðs. Við skulum nú kanna hvernig Guð hefur varðveitt sannleikann þrátt fyrir að Satan hafi reynt að fela hann.

JEHÓVA KEMUR Í VEG FYRIR AÐ SATAN FELI SANNLEIKANN

19, 20. Hver var Nimrod og hvaða fyrirætlun fór út um þúfur meðan hann var uppi?

19 Eftir flóðið var haft að máltæki: „Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod.“ (1. Mós. 10:9) Nimrod var andstæðingur Jehóva Guðs og tilbað í rauninni Satan. Hann var eins og andstæðingarnir sem Jesús ávarpaði með þessum orðum: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist . . . í honum finnst enginn sannleikur.“ – Jóh. 8:44.

20 Nimrod réð yfir Babel og öðrum borgum milli fljótanna Efrat og Tígris. (1. Mós. 10:10) Hugsanlega átti hann frumkvæðið að því að menn hófu að reisa Babel og turninn mikla. Það mun hafa verið árið 2269 f.Kr. Jehóva hafði sagt mönnunum að dreifa sér um jörðina en þarna sögðu menn hið gagnstæða: „Komum nú, byggjum okkur borg og turn sem nái til himins. Þar með verðum við frægir en tvístrumst ekki um alla jörðina.“ En þeir urðu að hætta verkinu þegar Guð „ruglaði . . . tungumál allrar jarðarinnar“ og tvístraði þeim sem höfðu ætlað að reisa turninn. (1. Mós. 11:1-4, 8, 9) Hafi Satan haft í hyggju að koma á einni trú og fá alla til að tilbiðja sig fór ráðagerð hans algerlega út um þúfur. Jehóva hefur verið tilbeðinn alla sögu mannkyns og þeim fjölgar dag frá degi sem gera það.

21, 22. (a) Hvers vegna hefur sannri trú aldrei stafað veruleg ógn af falstrú? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

21 Sannri trú hefur aldrei stafað veruleg ógn af falstrú vegna þess að Jehóva, kennari okkar, hefur varðveitt Biblíuna, séð til þess að menn þekktu nafn hans og haldið sannleikanum á lofti. (Jes. 30:20, 21) Við höfum ómælda ánægju af því að tilbiðja Jehóva í samræmi við sannleikann en það útheimtir að við höldum vöku okkar, treystum á Jehóva í einu og öllu og fylgjum handleiðslu heilags anda.

22 Í næstu grein könnum við hvernig vissar falskenningar komu til sögunnar. Við komumst að raun um að þær standast engan veginn þegar þær eru skoðaðar í ljósi Biblíunnar. Og við sjáum að Jehóva, verndari sannleikans, hefur séð til þess að við þekktum sannleikann sem er sterkur þáttur í arfleifð okkar.