Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2013

Kanntu að meta trúararfleifð okkar?

Kanntu að meta trúararfleifð okkar?

„Guð sá til þess . . . að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans.“ – POST. 15:14.

1, 2. (a) Hvað var „tjaldbúð Davíðs“ og hvernig átti að endurreisa hana? (b) Hverjir starfa saman sem þjónar Jehóva nú á tímum?

LÆRISVEINNINN Jakob sagði á tímamótafundi hins stjórnandi ráðs árið 49: „Símon [Pétur] hefur skýrt frá hvernig Guð sá til þess í fyrstu að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans. Í samræmi við þetta eru orð spámannanna svo sem ritað er: Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gera hana upp aftur svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir sem nafn mitt hefur helgað, segir Drottinn, sem gerir þetta kunnugt frá eilífð.“ – Post. 15:13-18.

2 „Tjaldbúð Davíðs“, það er að segja konungsætt hans, féll þegar Sedekía konungur var settur af. (Amos 9:11) Þessi „tjaldbúð“ yrði síðan endurreist þegar Jesús, afkomandi Davíðs, tæki við sem konungur til frambúðar. (Esek. 21:32; Post. 2:29-36) Eins og Jakob benti á á hinum sögulega fundi myndi spádómur Amosar rætast þegar samerfingjum Krists að ríkinu yrði safnað, bæði meðal Gyðinga og heiðingja. Hinir andasmurðu og milljónir ,annarra sauða‘ Jesú starfa saman að því að útbreiða sannleika Biblíunnar. – Jóh. 10:16.

ÞJÓÐ JEHÓVA Í ÚTLEGÐ

3, 4. Hvernig héldu þjónar Jehóva trú sinni lifandi í útlegðinni í Babýlon?

3 Þegar Gyðingar voru fluttir í útlegð til Babýlonar var ljóst að „tjaldbúð Davíðs“ var fallin. Falstrú var allsráðandi í Babýlon. Hvernig tókst þjóð Guðs að vera honum trú þau 70 ár sem hún var þar í útlegð, á árunum 607 til 537 f.Kr.? Með sama hætti og  okkur tekst að þjóna Jehóva í trúfesti í heimi undir stjórn Satans. (1. Jóh. 5:19) Það er verðmæt trúararfleifð sem gerir þjónum Jehóva kleift að vera honum trúir.

4 Orð Guðs Biblían er hluti af trúararfleifð okkar. Gyðingarnir í Babýlon höfðu ekki alla Biblíuna en þeir þekktu Móselögin með boðorðunum tíu. Þeir kunnu „Síonarljóð“, mundu marga orðskviði og vissu hvað þjónar Jehóva höfðu afrekað fyrr á tímum. Útlagarnir grétu þegar þeir minntust Síonar og þeir gleymdu ekki Jehóva. (Lestu Sálm 137:1-6.) Þetta hélt trú þeirra lifandi, jafnvel þó að þeir væru umkringdir falstrúariðkunum og -kenningum í Babýlon.

KENNINGIN UM ÞRENNINGU ER EKKI NÝ

5. Hvað er vitað um guðaþrenningar í trú Babýloníumanna og Egypa til forna?

5 Guðaþrenningar voru áberandi í trúarlífi manna í Babýlon. Í einni þeirra voru tunglguðinn Sin, sólguðinn Samas og frjósemis- og stríðsgyðjan Ístar. Í Egyptalandi til forna var oft litið svo á að guð væri giftur gyðju sem ól honum son. Þau „mynduðu þrenningu þar sem faðirinn var ekki í öllum tilvikum höfðinginn heldur gerði sér stundum að góðu að vera ,drottningarmaður‘ en gyðjan var æðsti guðdómur staðarins“. (New Larousse Encyclopedia of Mythology) Í einni af guðaþrenningum Egypta voru guðinn Ósíris, gyðjan Ísis og sonurinn Hórus.

6. Hvernig hljóðar þrenningarkenning kristna heimsins og af hverju trúum við henni ekki?

6 Kristni heimurinn á sér sína guðaþrenningu. Kennimenn segja að faðirinn, sonurinn og heilagur andi séu einn og sami guðinn. En það er aðför að drottinvaldi Jehóva að halda því fram að hann sé ekki nema þriðjungur guðdómsins. Þjónar Jehóva hafa ekki látið blekkjast til að trúa þessari villukenningu því að þeir eru sammála innblásnum orðum Biblíunnar: „Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.“ (5. Mós. 6:4) Jesús vitnaði í þessi orð. Getur nokkur sannkristinn maður andmælt honum? – Mark. 12:29.

7. Hvers vegna getur sá sem trúir á þrenningu ekki látið skírast til tákns um að hann sé vígður Guði?

7 Þrenningarkenningin stangast á við fyrirmæli Jesú þegar hann sagði: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“ (Matt. 28:19) Sá sem vill skírast sem sannkristinn maður og vottur Jehóva þarf að trúa að Jehóva, faðirinn, sé æðstur allra. Hann þarf að viðurkenna stöðu og vald Jesú, sonar hans. Hann þarf einnig að trúa að heilagur andi sé starfskraftur Guðs en ekki hluti af þrenningu. (1. Mós. 1:2) Sá sem trúir á þrenningu getur ekki látið skírast til tákns um að hann sé vígður Jehóva Guði. Við erum innilega þakklát fyrir trúararfleifð okkar því að hennar vegna vitum við að þrenningarkenningin er ósönn og móðgun við Guð.

ANDATRÚIN SKÝTUR UPP KOLLINUM

8. Hvaða hugmyndir höfðu Babýloníumenn um guði og illa anda?

8 Í trúarlífi Babýloníumanna var mikið svigrúm fyrir falskenningar og alls kyns guðdóma ásamt illum öndum og andatrú. Í biblíuhandbók segir: „Næstæðstir guðunum í trú Babýloníumanna eru illu andarnir sem höfðu þann mátt að geta slegið mennina alls konar andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Trúarlífið virðist að miklu leyti hafa falist í  angistarfullri baráttu gegn illu öndunum, og guðirnir voru alls staðar ákallaðir um að liðsinna mönnunum í þessari baráttu.“ – The International Standard Bible Encyclopaedia.

9. (a) Hvernig tileinkuðu margir Gyðingar sér falstrúarhugmyndir eftir útlegðina í Babýlon? (b) Hvað veitir okkur vernd gegn illu öndunum?

9 Margir Gyðingar tileinkuðu sér óbiblíulegar hugmyndir í útlegðinni í Babýlon. Seinna tóku þeir að aðhyllast gríska hugmyndafræði og hún var meðal annars á þá lund að andarnir gætu ýmist verið illir eða góðir. Þessir Gyðingar urðu þar með berskjalda fyrir áhrifum illra anda. Trúararfleifð okkar er okkur til verndar vegna þess að við vitum að það er hættulegt að setja sig í samband við illa anda og Guð fordæmdi andatrúariðkanir Babýloníumanna. (Jes. 47:1, 12-15) Við höfum afstöðu Guðs til andatrúar að leiðarljósi. – Lestu 5. Mósebók 18:10-12; Opinberunarbókina 21:8.

10. Hvað má segja um kenningar og trúariðkanir Babýlonar hinnar miklu?

10 Margir leggja stund á andatrú nú á dögum ekki síður en gert var í Babýlon til forna. Það er engin furða að heimsveldi falskra trúarbragða skuli í Biblíunni vera kallað Babýlon hin mikla. (Opinb. 18:21-24) Í biblíuhandbók segir: „Babýlon [hin mikla] nær yfir meira en eitt heimsveldi eða menningarsamfélag. Hún afmarkast af ríkjandi skurðgoðadýrkun frekar en af tíma eða landfræðilegum mörkum.“ (The Interpreter’s Dictionary of the Bible, 1. bindi, bls. 338) Babýlon hin mikla stendur enn og er undirlögð andatrú, skurðgoðadýrkun og öðrum syndum. En hún á ekki langt eftir. – Lestu Opinberunarbókina 18:1-5.

11. Hvaða viðvaranir höfum við birt varðandi andatrú?

11 Jehóva sagði við þjóð sína: „Þið skuluð hvorki stunda spásagnir eftir fyrirboðum né galdur.“ (3. Mós. 19:26) Andatrúnni óx mjög fiskur um hrygg á 19. öld. Því stóð í Zion’s Watch Tower í maí 1885: „Sú trú að látnir lifi á öðru tilverusviði eða í öðru formi er ekki ný af nálinni. Hún var þáttur í trúarbrögðum fornmanna og undirrót allrar goðafræði.“ Í blaðinu sagði enn fremur að sú óbiblíulega hugmynd að látnir ættu í samskiptum við hina lifandi „hafi gert illu öndunum kleift að sigla undir fölsku flaggi með því að þykjast vera andar framliðinna. Þeir hafa notfært sér þessa blekkingu út í ystu æsar til að ráða yfir hugsunum og lífi margra“. Svipaðar viðvaranir voru gefnar í bæklingnum What Say the Scriptures About Spiritism? (Hvað er sagt í Biblíunni um andatrú?) sem kom út rétt fyrir aldamótin 1900, og sömuleiðis í nýrri ritum.

KVELJAST SÁLIR LÁTINNA Í UNDIRHEIMUM?

12. Hvað var Salómon innblásið að segja um eðli dauðans?

12 „Allir sem þekkja sannleikann“ geta svarað þessari spurningu. (2. Jóh. 1) Við erum sammála því sem Salómon sagði: „Lifandi hundur er betri en dautt ljón. Þeir sem lifa vita að þeir eiga að deyja en hinir dauðu vita ekki neitt . . . Allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það, því að í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ – Préd. 9:4, 5, 10.

13. Hvaða áhrif hafði grísk trú og menning á Gyðinga?

13 Gyðingar áttu að vita sannleikann um dauðann. Þegar Grikkland skiptist  milli hershöfðingja Alexanders mikla var hins vegar reynt að nota gríska trú og menningu til að sameina Júda og Sýrland. Gyðingar tóku að aðhyllast þá falskenningu að mannssálin væri ódauðleg og að til væru undirheimar þar sem sálir látinna kveldust. Grikkir voru þó ekki fyrstir manna til að trúa á kvalir í undirheimum því að Babýloníumenn trúðu á „skelfilega undirheima . . . undir ægivaldi grimmra guða og anda“. (The Religion of Babylonia and Assyria) Babýloníumenn trúðu greinilega að sálin væri ódauðleg.

14. Hvað vissu Job og Abraham um dauðann og upprisuna?

14 Hinn réttláti Job hafði ekki Biblíuna en vissi þó sannleikann um eðli dauðans. Hann vissi einnig að Jehóva er kærleiksríkur Guð sem myndi þrá að reisa hann upp frá dauðum. (Job. 14:13-15) Abraham trúði líka á upprisu. (Lestu Hebreabréfið 11:17-19.) Þessir guðhræddu menn trúðu ekki að mannssálin væri ódauðleg því að það er ekki hægt að reisa manneskju upp frá dauðum ef hún getur ekki dáið. Andi Guðs hefur eflaust hjálpað þeim Job og Abraham að skilja eðli dauðans og trúa á upprisuna. Þessi sannleikur er líka hluti af trúararfleifð okkar.

„ENDURLAUSN . . . Í KRISTI JESÚ“

15, 16. Hvernig erum við leyst undan synd og dauða?

15 Við erum Guði þakklát fyrir að segja okkur hvernig hann ætli að leysa okkur undan syndinni og dauðanum sem við erfðum frá Adam. (Rómv. 5:12) Við vitum að Jesús kom „ekki . . . til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Mark. 10:45) Það er verðmætt að vita af ,endurlausninni í Kristi Jesú‘. – Rómv. 3:22-24.

 16 Gyðingar og aðrir á fyrstu öld þurftu að iðrast synda sinna og trúa á lausnarfórn Jesú. Annars gátu þeir ekki fengið fyrirgefningu. Það hefur ekki breyst. (Jóh. 3:16, 36) Lausnargjaldið nýtist ekki þeim sem ríghalda í falskenningar um þrenningu og ódauðleika sálarinnar, svo dæmi séu tekin. En við njótum góðs af lausnarfórn Jesú. Við þekkjum sannleikann um elskaðan son Guðs. „Í honum eigum við endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar.“ – Kól. 1:13, 14.

HÖLDUM ÓTRAUÐ ÁFRAM Í NAFNI JEHÓVA

17, 18. Hvernig getum við kynnt okkur sögu safnaðarins og hvaða gagn höfum við af því?

17 Hægt væri að segja margt fleira um sannleikann sem Jehóva hefur kennt okkur, reynslu okkar sem þjóna hans og þá andlegu og efnislegu blessun sem við njótum. Áratugum saman hafa birst hrífandi frásögur í blöðunum okkar af starfinu víða um heim og ævisögur trúsystkina okkar. Á mörgum tungumálum er til meira sögulegt efni, svo sem árbækur, bókin Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom og mynddiskarnir Faith in Action.

18 Við höfum mikið gagn af því að kynna okkur sögu safnaðarins, rétt eins og Ísraelsmenn rifjuðu oft upp fyrir sér hvernig Guð hafði frelsað þjóðina úr ánauðinni í Egyptalandi. (2. Mós. 12:26, 27) Sem aldraður maður gat Móse vitnað um þau stórvirki sem Jehóva hafði unnið. Hann sagði við Ísraelsmenn: „Minnstu fyrri tíða, hygg að árum genginna kynslóða. Spyrðu föður þinn, hann fræðir þig, öldungana, þeir segja þér frá.“ (5. Mós. 32:7) Við sem erum ,lýður Jehóva og gæsluhjörð‘ höfum yndi af því að lofa hann og segja öðrum frá máttarverkum hans. (Sálm. 79:13) Við skulum kynna okkur sögu safnaðarins, læra af henni og hugleiða hvernig við getum þjónað Jehóva sem best.

19. Hvað ættum við að gera þar sem við göngum í ljósi sannleikans frá Guði?

19 Við erum þakklát fyrir að vera ekki í myrkri heldur ganga í ljósi sannleikans frá Guði. (Orðskv. 4:18, 19) Við skulum því vera duglegir biblíunemendur og ötul að segja öðrum frá sannleikanum. Okkur er innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem ávarpaði Drottin Jehóva: „Ég vil . . . lofa réttlæti þitt, það eitt. Guð, þú hefur kennt mér frá æsku og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín. Yfirgef mig eigi, Guð, þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð og mátt þinn öllum óbornum.“ – Sálm. 71:16-18.

20. Hvaða deilumál eru uppi og hver er afstaða þín?

20 Við sem erum vígð Jehóva vitum af deilumálunum um drottinvald hans og um ráðvendni mannanna. Við boðum þann óvéfengjanlega sannleika að Jehóva sé Drottinn alheims og verðskuldi óskipta hollustu okkar. (Opinb. 4:11) Andi hans hvílir yfir okkur og við boðum auðmjúku fólki gleðilegan boðskap, græðum þá sem hafa sundurmarin hjörtu og huggum þá sem eru hryggir. (Jes. 61:1, 2) Satan mun aldrei fá að drottna yfir þjónum Guðs og öllu mannkyni. Við eigum okkur trúararfleifð sem er okkur ákaflega kær og erum staðráðin í að vera ráðvönd og lofa Drottin Jehóva nú og að eilífu. – Lestu Sálm 26:11; 86:12.