Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gættu þín á því sem býr í hjartanu

Gættu þín á því sem býr í hjartanu

„Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert,“ segir í Biblíunni. (Jer. 17:9) Eigum við það til að finna afsakanir fyrir því að gera eitthvað sem hjarta okkar þráir heitt?

Í orði Guðs fáum við þessa viðvörun: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“ (Matt. 15:19) Hið táknræna hjarta getur svikið okkur þannig að við förum að réttlæta verk eða stefnu sem stangast á við vilja Guðs. Kannski áttum við okkur ekki á hvað gerst hefur fyrr en við erum komin út á ranga braut. Hvaða hjálp fáum við til að gera okkur grein fyrir löngunum hjartans áður en komið er í óefni?

HVERNIG GETUM VIÐ SKOÐAÐ HVATIR OKKAR?

Hvaða áhrif hefur daglegur biblíulestur á táknrænt hjarta okkar?

Lestu daglega í Biblíunni og hugleiddu efnið.

„Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda,“ skrifaði Páll postuli. Boðskapur Guðs í Biblíunni „dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans“. (Hebr. 4:12) Biblían hjálpar okkur að koma auga á hvað býr í hjartanu. Það er okkur mikil hjálp að skoða sjálf okkur í ljósi hennar. Þess vegna er brýn ástæða til að lesa daglega í Biblíunni, hugleiða efnið og tileinka okkur þannig sjónarmið Jehóva.

Þegar við tökum við ráðum Biblíunnar og förum eftir meginreglum hennar styrkir það samviskuna sem ,vitnar með okkur‘ hið innra. (Rómv. 9:1) Rödd samviskunnar getur komið í veg fyrir að við réttlætum ranga breytni. Auk þess er að finna frásögur í Biblíunni sem eru okkur „til viðvörunar“.  (1. Kor. 10:11) Lærdómurinn, sem við drögum af þeim, getur hindrað okkur í að fara út á ranga braut. Hvað ættum við þá að gera, hvert og eitt?

Við getum kynnst okkar innri manni með hjálp bænarinnar.

Biddu Guð um hjálp til að átta þig á löngunum hjartans.

Jehóva „rannsakar hjartað“. (1. Kron. 29:17) Hann er „meiri en hjarta okkar og þekkir allt“. (1. Jóh. 3:20) Það er ekki hægt að blekkja hann. Hann hjálpar okkur að skilja hvað býr í hjartanu ef við ræðum opinskátt við hann um áhyggjur okkar, tilfinningar og þrár. Við getum meira að segja beðið Jehóva um að ,skapa í okkur hreint hjarta‘. (Sálm. 51:12) Ef við viljum átta okkur á tilhneigingum hjartans verðum við því að muna eftir bæninni.

Á samkomum fáum við hjálp til að átta okkur á hvað býr í hjartanu.

Fylgjumst vel með á samkomum.

Ef við tökum vel eftir því sem fram kemur á samkomum getur það hjálpað okkur að grandskoða hjartað – okkar innri mann. Við fáum kannski ekki nýjar upplýsingar á hverri samkomu en ef við mætum dýpkar skilningur okkar á meginreglum Biblíunnar og við erum minnt á margt sem auðveldar okkur að sjá hvað býr í hjartanu. Svör trúsystkina á samkomum eru líka verðmæt ef við viljum fága okkar innri mann. (Orðskv. 27:17) Það væri því mjög slæmt ef við einangruðum okkur í stað þess að njóta félagsskapar við trúsystkini á samkomum. Það gæti orðið til þess að við færum „að eigin geðþótta“. (Orðskv. 18:1) Við ættum því að spyrja okkur hvort við séum vön að mæta á allar samkomur og nýta okkur fræðsluna sem þar er veitt. – Hebr. 10:24, 25.

HVERT LEIÐIR HJARTAÐ OKKUR?

Svikult hjartað getur afvegaleitt okkur á mörgum sviðum lífsins. Við ætlum nú að skoða fernt: Löngun í efnislega hluti, notkun áfengis, val á félagsskap og afþreyingu sem við stundum.

Löngun í efnislega hluti.

Við viljum auðvitað geta séð fyrir okkur og það er ekkert rangt við það. Jesús varaði hins vegar við því að leggja of mikla áherslu á efnislegu þarfirnar. Með dæmisögu einni hvatti hann okkur til að íhuga það sem ríkur maður gerði eftir að hafa fyllt allar hlöður sínar. Maðurinn hafði hvergi pláss fyrir næstu uppskeru og ákvað því að rífa hlöðurnar og byggja aðrar stærri. Hann hugsaði: „Þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.“ En ríki maðurinn gleymdi einni mikilvægri staðreynd. Hann gæti dáið um nóttina og þá væri allt erfiði hans til einskis. – Lúk. 12:16-20.

Þegar árin líða gætum við farið að hugsa svo mikið um að tryggja fjárhagslegt öryggi í ellinni að við réttlættum yfirvinnu á samkomukvöldum eða vanræktum þjónustuna við Jehóva með öðrum hætti. Ættum við ekki að vara okkur á slíkum tilhneigingum? Ef við erum ung að árum höfum við kannski uppgötvað að besta lífsstefnan sé að þjóna Jehóva í fullu starfi. En hugsum við samt sem svo að við þurfum að koma undir  okkur fótunum áður en við hefjum brautryðjandastarf? Ættum við ekki að gera okkar besta núna til að vera rík í augum Guðs? Hver veit hvort við verðum á lífi á morgun?

Notkun áfengis.

Í Orðskviðunum 23:20 stendur: „Vertu ekki með drykkjurútum.“ Ef einhver hefur sterka löngun í áfengi gæti hann farið að réttlæta það að drekka reglulega. Hann segist kannski drekka bara til að slaka á en ekki til að verða ölvaður. Ef við þurfum áfengi til að slaka á er ef til vill kominn tími til að skoða hvatir okkar af hreinskilni.

Val á félagsskap.

Það er auðvitað eðlilegt að eiga samskipti við fólk utan safnaðarins, til dæmis í skólanum, vinnunni og boðunarstarfinu. Annað má segja um að eiga félagsskap við þessa einstaklinga eða jafnvel byggja upp vináttu við þá. En réttlætum við það með því að þeir hafi nú marga góða eiginleika? Í Biblíunni fáum við þessa viðvörun: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Kor. 15:33) Það þarf ekki mikil óhreinindi til að menga hreint vatn og eins getur félagsskapur við þá sem elska ekki Guð mengað okkar andlega mann þannig að við förum að hugsa, tala, klæða okkur og hegða okkur eins og fólk í heiminum.

Afþreying sem við stundum.

Nútímatækni gerir afþreyingarefni af ýmsu tagi mjög aðgengilegt. Stór hluti þess er hins vegar vafasamur eða óviðeigandi fyrir kristna menn. ,Óhreinleiki á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar,‘ skrifaði Páll. (Ef. 5:3) En hvað er til ráða ef þú þráir að horfa eða hlusta á eitthvað sem er óhreint? Það er auðvelt að hugsa sem svo að við þurfum nú öll að slaka á og skemmta okkur aðeins og að það sé einkamál hvers og eins hvað við gerum. Förum frekar eftir ráðleggingum Páls og leyfum okkur hvorki að hlusta né horfa á neitt sem er óhreint.

VIÐ GETUM BREYTT UM STEFNU

Ef tilhneigingar hins svikula hjarta hafa komið okkur í ógöngur og við erum farin að réttlæta ranga hegðun fyrir sjálfum okkur getum við breytt um stefnu. (Ef. 4:22-24) Lítum á tvö dæmi.

Mikael * þurfti að breyta um hugsunarhátt varðandi efnislega hluti. Hann segir: „Við hjónin og sonur okkar erum frá landi þar sem fólk álítur það mjög mikilvægt að hafa öll þægindi og eignast alltaf það nýjasta og besta á sviði tækninnar. Á tímabili var stærsta markmið mitt að eignast sem mest af heimsins gæðum og ég hélt að efnishyggjan myndi samt ekki ná tökum á mér. En ég gerði mér fljótlega grein fyrir að með þessari stefnu væri ég að sogast út í hringiðu efnishyggjunnar. Ég ræddi við Jehóva um viðhorf mín og það sem byggi í hjarta mínu. Ég sagði honum að við fjölskyldan vildum gera meira í þjónustu hans. Við ákváðum að lokum að einfalda líf okkar og flytja á stað þar sem þörf væri fyrir fleiri boðbera. Stuttu síðar gátum við byrjað í brautryðjandastarfinu. Við höfum uppgötvað að við þurfum ekki mikið efnislega til að geta verið hamingjusöm og átt innihaldsríkt líf.“

Leo lærði af reynslunni að einlæg sjálfsrannsókn hjálpar okkur að segja skilið við slæman félagsskap. „Ég umgekkst reglulega erlenda birgðasala vegna vinnunnar,“ segir hann. „Ég vissi að það yrði mikil drykkja þegar við hittumst en ég var spenntur fyrir þessum fundum. Oft var ég næstum orðinn ölvaður og ég sá alltaf eftir því. Ég þurfti að skoða í einlægni hvað bjó í hjarta mínu. Eftir að hafa fengið ráð Biblíunnar og leiðbeiningar frá öldungum varð mér ljóst að ég var í rauninni að sækjast eftir félagsskap við fólk sem elskar ekki Jehóva. Núna reyni ég eins og ég get að sinna vinnunni gegnum síma og hitta birgðasalana sem minnst.“

Við verðum að vera heiðarleg við sjálf okkur og skoða hvað býr í hjartanu. Þegar við gerum það ættum við að biðja Jehóva að hjálpa okkur, minnug þess að hann „þekkir leyndarmál hjartans“. (Sálm. 44:22) Hann gaf okkur líka orð sitt, Biblíuna, sem við getum notað eins og spegil. (Jak. 1:22-25) Í ritum okkar og á samkomum fáum við líka verðmætar ábendingar og góð ráð. Með allt þetta að leiðarljósi getum við varðveitt hjartað og haldið áfram að ganga á vegi réttlætisins.

^ gr. 18 Nöfnum er breytt.