Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekkert koma í veg fyrir að þú hljótir sæmd

Láttu ekkert koma í veg fyrir að þú hljótir sæmd

„Sæmd bíður hins hógværa.“ – ORÐSKV. 29:23.

1, 2. (a) Hvaða hugmynd býr að baki biblíuorðunum sem lýsa sæmd og dýrð? (b) Hvaða spurningum verður svarað í þessari grein?

HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir orðin „sæmd“ og „dýrð“? Hugsarðu um fegurð sköpunarverksins? (Sálm. 19:2) Eða hvarflar hugurinn að þeirri sæmd og upphefð sem veitt er einstaka auðmönnum, snillingum eða afreksmönnum? Biblíuorðið, sem er ýmist þýtt sæmd, dýrð, heiður, vegsemd eða ljómi, er notað til að lýsa þyngd. Þegar peningar voru slegnir úr góðmálmum, eins og gert var til forna, var peningurinn því verðmætari sem hann var þyngri. Orð, sem notuð voru um þyngd, tóku því á sig merkinguna verðmætur, mikilfenglegur eða tilkomumikill.

2 Við hrífumst ef til vill af valdi, stöðu eða orðstír annarrar manneskju. En eftir hverju skyldi Guð horfa í fari fólks? Í Biblíunni er reyndar talað um að Guð veiti mönnum vissa sæmd. Til dæmis segir í Orðskviðunum 22:4: „Laun auðmýktar og ótta Drottins eru auður, sæmd og líf.“ Og lærisveinninn Jakob skrifaði: „Auðmýkið ykkur fyrir Drottni og hann mun upphefja ykkur.“ (Jak. 4:10) Hvaða sæmd eða upphefð veitir Jehóva mönnum? Hvað getur komið í veg fyrir að við hljótum hana? Og hvernig getum við hjálpað öðrum að hljóta þessa sæmd?

3-5. Hvaða heiður veitir Jehóva okkur?

3 Sálmaskáldið trúði að Jehóva héldi í hægri hönd hans og myndi veita honum dýrð. (Lestu Sálm 73:23, 24.) Hvernig gerir Jehóva það? Hann veitir auðmjúkum þjónum sínum dýrð með því að heiðra þá á marga vegu. Hann gerir þeim meðal annars kleift að skilja hver vilji hans er. (1. Kor. 2:7) Hann veitir þeim sem hlusta á hann og hlýða honum þann heiður að eiga náið samband við sig. – Jak. 4:8.

 4 Jehóva trúir þjónum sínum fyrir því að boða fagnaðarerindið. Páll postuli talar um það sem fjársjóð. (2. Kor. 4:1, 7) Og boðunin er bæði Jehóva og okkur til heiðurs og öðrum til góðs. „Ég heiðra þá eina sem heiðra mig,“ segir Jehóva um þá sem vegsama hann á þennan hátt. (1. Sam. 2:30) Þeir eignast gott mannorð meðal annarra þjóna Guðs og þann heiður að hafa velþóknun hans. – Orðskv. 11:16; 22:1.

5 Hvaða framtíð bíður þeirra sem ,vona á Jehóva og gefa gætur að vegi hans‘? Þeim er lofað: „Hann [Jehóva] mun hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú munt sjá guðleysingjum tortímt.“ (Sálm. 37:34) Þeir hlakka til að fá þann óviðjafnanlega heiður að hljóta eilíft líf. – Sálm. 37:29.

„ÉG ÞIGG EKKI HEIÐUR AF MÖNNUM“

6, 7. Af hverju vildu margir ekki trúa á Jesú?

6 Hvað gæti komið í veg fyrir að við hlytum þann heiður sem Jehóva er fús til að veita okkur? Meðal annars það að leggja of mikið upp úr skoðunum fólks sem á ekkert samband við Guð. Jóhannes postuli skrifaði eftirfarandi um suma af höfðingjunum á dögum Jesú: „Samt trúðu margir á [Jesú], jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.“ (Jóh. 12:42, 43) Það hefði verið miklu betra fyrir höfðingjana að taka minna mark á skoðunum faríseanna.

7 Nokkru áður hafði Jesús bent á hvers vegna margir myndu ekki taka við honum og trúa á hann. (Lestu Jóhannes 5:39-44.) Ísraelsþjóðin hafði beðið þess með eftirvæntingu öldum saman að Messías kæmi. Þegar Jesús tók að kenna má vel vera að sumir hafi skilið, með hliðsjón af spádómum Daníels, að Messías væri kominn. Nokkrum mánuðum áður héldu margir að Jóhannes skírari væri Kristur. (Lúk. 3:15) Núna var hinn langþráði Messías kominn og byrjaður að kenna þeim. En lögmálskennararnir tóku ekki við honum. Jesús sýndi fram á hver ástæðan væri þegar hann spurði þá: „Hvernig getið þér trúað þegar þér þiggið heiður hver af öðrum en leitið ekki þess heiðurs sem er frá einum Guði?“

8, 9. Lýstu með dæmi hvernig heiður frá mönnum getur blindað okkur fyrir heiðrinum frá Guði.

8 Ef við líkjum heiðri við ljós getum við áttað okkur betur á því hvernig heiður frá mönnum getur blindað okkur fyrir heiðrinum frá Guði. Ljósadýrð alheimsins er ægifögur. Manstu eftir að hafa horft til himins á heiðskírri nóttu og fundist þú vera umvafinn stjörnum í þúsundatali? „Ljómi stjarnanna“ er ólýsanlega fagur. (1. Kor. 15:40, 41) En hvernig lítur himinninn út séður frá vel upplýstri götu í stórri borg? Ljósin frá ljósastaurum, bílum og byggingum gera okkur næstum ómögulegt að sjá ljósið frá fjarlægum stjörnunum. Eru borgarljósin miklu bjartari eða fegurri en stjörnuskinið? Nei, en þau eru miklu nær okkur og þess vegna blinda þau okkur fyrir fegurð himingeimsins sem Jehóva skapaði. Til að sjá næturhimininn í allri sinni dýrð þurfum við með einhverjum hætti að útiloka borgarljósin svo að þau trufli ekki.

9 Ef heiður af röngu tagi stendur hjartanu næst gæti það villt okkur sýn svo að við kynnum ekki að meta þann óendanlega heiður sem Jehóva er fús til að veita okkur. Margir taka ekki við fagnaðarerindinu um ríkið af því að þeir óttast að falla í áliti hjá ættingjum eða kunningjum.  Gæti löngunin til að hljóta heiður frá mönnum villt um fyrir vígðum þjóni Guðs? Hugsum okkur ungan mann sem fær það verkefni að boða trúna á svæði þar sem margir þekkja hann en fæstir vita að hann er vottur Jehóva. Veigrar hann sér við að starfa á svæðinu? Segjum sem svo að gert sé gys að einhverjum vegna þess að hann langar til að gera meira í þjónustu Jehóva. Lætur hann þá sem sjá ekki hlutina frá sjónarhóli Jehóva hafa áhrif á markmið sín í lífinu? Eða hugsum okkur að vottur hafi drýgt alvarlega synd. Felur hann synd sína af ótta við að falla í áliti í söfnuðinum eða af því að hann vill ekki valda ástvinum sínum vonbrigðum? Ef honum er mest í mun að endurheimta gott samband við Jehóva kallar hann til sín „öldunga safnaðarins“ og biður þá um aðstoð. – Lestu Jakobsbréfið 5:14-16.

10. (a) Hvernig gætu óhóflegar áhyggjur af áliti annarra brenglað dómgreind okkar? (b) Hverju megum við treysta ef við erum hógvær?

10 Þú leggur þig kannski vel fram við að þroskast í trúnni en bróðir nokkur tekur þig tali og gefur þér góð ráð. Hreinskilnislegar leiðbeiningar hans geta verið þér til góðs ef þú ferð ekki í vörn til að reyna að bjarga andlitinu eða réttlæta sjálfan þig. Eða setjum sem svo að þú sért að vinna að ákveðnu verkefni ásamt öðru trúsystkini. Hefurðu áhyggjur af því hver fái heiðurinn af erfiði þínu og góðum hugmyndum? Stjórnar það samstarfi ykkar að einhverju marki? Ef eitthvað af þessu á við um þig skaltu hafa hugfast að „sæmd bíður hins hógværa“. – Orðskv. 29:23.

11. Hvernig ætti okkur að vera innanbrjósts þegar okkur er hrósað og hvers vegna?

11 Umsjónarmenn og þeir sem ,sækjast eftir‘ að verða það ættu að gæta þess vandlega að ,leita ekki vegsemdar af mönnum‘. (1. Tím. 3:1; 1. Þess. 2:6) Hvernig ætti bróðir að bregðast við þegar honum er hrósað fyrir vel unnið verk? Varla reisir hann sér minnismerki eins og Sál konungur gerði. (1. Sam. 15:12) En er honum ljóst að það er óverðskuldaðri góðvild Jehóva að þakka að honum tókst vel til, og að honum verður því aðeins vel ágengt í framtíðinni að hann njóti hjálpar og blessunar Jehóva? (1. Pét. 4:11) Tilfinningar okkar þegar við fáum hrós leiða í ljós hvers konar upphefð við sækjumst eftir. – Orðskv. 27:21.

,ÞIÐ VILJIÐ GERA ÞAÐ SEM FAÐIR YKKAR GIRNIST‘

12. Af hverju vildu sumir Gyðingar ekki hlýða á Jesú?

12 Annað sem getur komið í veg fyrir að Guð veiti okkur sæmd er langanir okkar. Rangar langanir geta jafnvel komið í veg fyrir að við heyrum sannleikann. (Lestu Jóhannes 8:43-47.) Jesús sagði hópi Gyðinga að þeir hlustuðu ekki á boðskap hans vegna þess að þeir ,vildu gera það sem faðir þeirra djöfullinn girntist‘.

13, 14. (a) Hvað segja vísindamenn um heilann og mannsröddina? (b) Hvað ræður því á hvern við hlustum?

13 Við heyrum stundum bara það sem okkur langar til að heyra. (2. Pét. 3:5) Jehóva áskapaði okkur þann hæfileika að geta útilokað óæskileg hljóð. Staldraðu aðeins við og reyndu að átta þig á hve mörg hljóð þú getur heyrt hér og nú. Sennilega tókstu ekki eftir mörgum þeirra rétt áðan. Randkerfi heilans hjálpar þér að einbeita þér að einu hljóði þó að þú getir heyrt alls konar hljóð samtímis. Vísindamenn hafa hins vegar uppgötvað að það er erfiðara þegar mannsröddin á í hlut. Það þýðir að heyri maður tvær raddir samtímis þarf  maður að velja hvora maður hlustar á. Við hlustum á þá röddina sem við viljum heyra. Gyðingarnir, sem nefndir voru áðan, vildu gera það sem faðir þeirra djöfullinn girntist og hlustuðu því ekki á Jesú.

14 Í Biblíunni kemur fram að bæði „spekin“ og „heimskan“ reyni í sífellu að ná athygli okkar. (Orðskv. 9:1-5, 13-17) Við þurfum því að velja á hvora við hlustum. Valið ræðst af því hvorri okkur langar til að þóknast. Sauðir Jesú hlusta á rödd hans og fylgja honum. (Jóh. 10:16, 27) Þeir eru „sannleikans megin“. (Jóh. 18:37) „Þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“ (Jóh. 10:5) Hógværir fylgjendur Krists hljóta sæmd frá Guði. – Orðskv. 3:13, 16; 8:1, 18.

„ÞÆR ERU YKKUR TIL VEGSEMDAR“

15. Hvernig gátu þrengingar Páls verið öðrum til vegsemdar?

15 Við getum hjálpað öðrum að hljóta vegsemd frá Guði með því að vera þolgóð í þjónustu hans. Páll skrifaði söfnuðinum í Efesus: „Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.“ (Ef. 3:13) Í hvaða skilningi voru þrengingar Páls kristnum mönnum í Efesus til vegsemdar? Páll var tilbúinn til að þjóna trúsystkinum sínum þrátt fyrir þrengingar. Þannig sýndi hann þeim fram á að það væri verðmætara en nokkuð annað að mega þjóna Guði. Ef hann hefði lagt árar í bát hefði hann sent þeim þau skilaboð að sambandið við Jehóva, boðunarstarfið og vonin væri ekki sérlega mikils virði. Með því að vera þolgóður sýndi hann trúsystkinum sínum fram á að það væri þess virði að færa hvaða fórnir sem er til að fá að vera lærisveinn Krists.

16. Fyrir hverju varð Páll í Lýstru?

16 Veltu fyrir þér hvaða áhrif Páll hafði með því að vera kostgæfinn og þolgóður. Í Postulasögunni 14:19, 20 segir: „Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni [Lýstru] og hugðu hann dáinn. En lærisveinarnir slógu hring um hann og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.“ Hugsaðu þér! Daginn eftir að hann var grýttur og álitinn dáinn ferðaðist hann 100 kílómetra leið.

17, 18. (a) Hvernig kann Tímóteus að hafa vitað af þrengingum Páls í Lýstru? (b) Hvaða áhrif hafði þolgæði Páls á Tímóteus

17 Var Tímóteus einn af lærisveinunum sem komu Páli til hjálpar? Það kemur ekki fram í Postulasögunni en það  getur vel verið. Páll skrifaði honum í síðara bréfinu: „Þú hefur fylgt mér í kenningu, hegðun . . . ofsóknum og þjáningum, slíkum sem ég varð fyrir í Antíokkíu [þar var hann rekinn úr borginni], Íkóníum [þar var reynt að grýta hann] og Lýstru [þar var hann grýttur]. Slíkar ofsóknir þoldi ég og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.“ – 2. Tím. 3:10, 11; Post. 13:50; 14:5, 19.

18 Tímóteus vissi hvað Páll hafði mátt þola við þessar erfiðu aðstæður. Það hafði eflaust djúpstæð áhrif á hann. Þegar Páll heimsótti Lýstru sá hann að Tímóteus var fyrirmyndarbróðir og „kristnir menn í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð“. (Post. 16:1, 2) Síðar meir var hann tilbúinn til að taka að sér ýmis ábyrgðarstörf. – Fil. 2:19, 20; 1. Tím. 1:3.

19. Hvaða áhrif getum við haft á aðra með því að vera þolgóð?

19 Ef við höldum áfram að gera vilja Guðs getum við haft sambærileg áhrif á aðra, ekki síst unga fólkið. Margt af því á eftir að verða ákaflega verðmætt í þjónustu Guðs þegar það vex úr grasi. Unga fólkið í söfnuðinum getur bæði lært af því hvernig við berum okkur að í boðunarstarfinu og af því hvernig við tökumst á við mótlæti lífsins. Páll var þolgóður í öllu til að geta hjálpað öðrum að öðlast eilíft líf. – 2. Tím. 2:10.

Unga fólkið getur lært af þolgæði eldri boðbera.

20. Hvers vegna ættum við að halda áfram að leita þess heiðurs sem er frá Guði?

20 Höfum við ekki fulla ástæðu til að halda áfram að leita „þess heiðurs sem er frá einum Guði“? (Jóh. 5:44; 7:18) Svo sannarlega. (Lestu Rómverjabréfið 2:6, 7.) Jehóva gefur þeim „eilíft líf sem leita vegsemdar“ hans. Og með því að vera ,staðföst í góðri breytni‘ hvetjum við aðra til að vera þolgóðir, sjálfum sér til eilífrar blessunar. Við skulum því ekki láta neitt koma í veg fyrir að við hljótum þá sæmd sem Guð gefur.