Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu hugrakkur – Jehóva er með þér

Vertu hugrakkur – Jehóva er með þér

„Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? . . . Drottinn, Guð þinn, er með þér.“ – JÓS. 1:9.

1, 2. (a) Hvað hjálpar okkur að standast prófraunir? (b) Hvað er trú? Lýstu með dæmi.

VIÐ höfum ánægju af því að þjóna Jehóva. Engu að síður þurfum við að þola ýmiss konar erfiðleika eins og aðrir menn og getum einnig þurft að „líða illt fyrir að gera það sem er rétt“. (1. Pét. 3:14; 5:8, 9; 1. Kor. 10:13) Við þurfum trú og hugrekki til að takast á við slíkar prófraunir og standast þær.

2 Hvað er trú? Páll postuli skrifaði: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebr. 11:1) Í annarri biblíuþýðingu segir: „Trú er afsalsbréf fyrir því sem við vonum. Trú er að vera viss um það sem við sjáum ekki.“ (The Simple English Bible) Ef við höfum fengið afsalsbréf fyrir fasteign er það sönnun fyrir því að við eigum hana. Þar sem við trúum að Guð standi alltaf við orð sín er það rétt eins og við séum með verðmætt afsalsbréf í höndunum. Við erum algerlega sannfærð um að það sem Guð hefur lofað verði að veruleika og að allt sem hann segir í orði sínu sé sannleikur, jafnvel hið ósýnilega.

3, 4. (a) Hvað er hugrekki? (b) Hvað getum við meðal annars gert til að styrkja trú okkar og vera hugrakkari?

3 Hugrekki er það að hafa kjark og þor til að tala og aðhafast við erfiðar og hættulegar aðstæður. Ef við erum hugrökk erum við kjarkmikil, áræðin og jafnvel djörf þegar við á. – Mark. 6:49, 50; 2. Tím. 1:7.

4 Við viljum öll vera hugrökk og hafa sterka trú. En kannski finnst okkur við þurfa að styrkja trúna og vera enn hugrakkari. Í Biblíunni segir frá þúsundum þjóna Guðs sem sýndu óbilandi trú og hugrekki. Við getum styrkt trúna og orðið kjarkmeiri með því að lesa okkur til um þá og hugleiða fordæmi þeirra.

JEHÓVA VAR MEÐ JÓSÚA

5. Hvað þurfti Jósúa að hafa til að bera svo að honum farnaðist vel sem leiðtoga Ísraelsmanna?

5 Við skulum hverfa 35 aldir aftur í tímann.  Fjörutíu ár eru liðin síðan Jehóva frelsaði milljónir Ísraelsmanna úr ánauð í Egyptalandi. Spámaðurinn Móse hefur veitt þjóðinni forystu en hann er nú orðin 120 ára. Hann horfir úr fjarska yfir fyrirheitna landið af tindi Nebófjalls og deyr síðan þar. Jósúa tekur við af honum en hann er maður „fullur vísdómsanda“. (5. Mós. 34:1-9) Ísraelsmenn eru í þann mund að leggja Kanaanland undir sig. Jósúa þarf að reiða sig á visku Guðs til að farnast vel sem leiðtogi þeirra. Hann þarf að hafa óhagganlega trú á Jehóva og vera styrkur og djarfur. – 5. Mós. 31:22, 23.

6. (a) Hvað þurfum við að hafa hugrekki til að gera samkvæmt Jósúabók 23:6? (b) Hvað lærum við af Postulasögunni 4:18-20 og 5:29?

6 Jósúa sýndi mikla visku, hugrekki og trú öll þau ár sem á hernámi Kananlands stóð og það hlýtur að hafa styrkt Ísraelsmenn. En þeir þurftu ekki aðeins að sýna hugrekki í bardaga heldur líka innri styrk til að fara eftir því sem Jósúa hvatti þá til. Skömmu áður en hann dó flutti hann kveðjuræðu og sagði þá meðal annars: „Verið nú einbeittir og haldið allt sem skráð er í lögbók Móse og framfylgið því. Víkið hvorki til hægri né vinstri frá því.“ (Jós. 23:6) Við þurfum líka að vera hugrökk til að hlýða Jehóva öllum stundum, meðal annars þegar menn krefjast þess að við breytum andstætt vilja Guðs. (Lestu Postulasöguna 4:18-20; 5:29.) Ef við reiðum okkur á Jehóva og biðjum til hans veitir hann okkur það hugrekki sem við þurfum.

HVAÐ ER NAUÐSYNLEGT TIL AÐ OKKUR FARNIST VEL?

7. Hvað þurfti Jósúa að gera til að vera hugrakkur og farnast vel?

7 Við þurfum að vera dugleg að lesa orð Guðs og fara eftir því. Þá öðlumst við hugrekki til að gera vilja hans. Jósúa var sagt að gera það þegar hann tók við af Móse. „Vertu aðeins djarfur og hughraustur. Gættu þess að framfylgja nákvæmlega lögunum sem Móse, þjónn minn, setti ykkur . . . Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel.“ (Jós. 1:7, 8) Jósúa gerði það og,náði settu marki‘. Við verðum hugrakkari og okkur farnast betur í þjónustu Guðs ef við líkjum eftir honum.

Árstextinn 2013 er: Vertu djarfur og hughraustur. Jehóva, Guð þinn, er með þér. – Jósúa 1:9.

8. Hvert er árstextinn 2013 sóttur og hvernig heldurðu að hann geti verið þér til styrktar?

8 Það hlýtur að hafa styrkt Jósúa mikið að heyra það sem Jehóva sagði í framhaldinu: „Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“ (Jós. 1:9) Jehóva er með okkur líka. Við skulum því ekki óttast eða láta hugfallast, hvað sem verður á vegi okkar. Jósúabók 1:9 vekur sérstakan áhuga okkar vegna þess að árstextinn 2013 er sóttur í þetta vers. Hann hljóðar svo: „Vertu djarfur og hughraustur. Jehóva,  Guð þinn, er með þér.“ Þessi orð eiga örugglega eftir að styrkja þig á komandi mánuðum. Jósúa fór eftir þeim. Þú getur tekið hann þér til fyrirmyndar og einnig aðra þjóna Guðs sem hafa sýnt hugrekki og trú í orði og verki.

ÞÆR VORU HUGRAKKAR OG TÓKU AFSTÖÐU MEÐ JEHÓVA

9. Hvernig sýndi Rahab trú og hugrekki?

9 Jósúa sendi tvo njósnara inn í Kanaansland og skækjan Rahab faldi þá og villti síðan um fyrir óvinum þeirra. Vegna trúar hennar og hugrekkis var henni og fjölskyldu hennar þyrmt þegar Jeríkóborg féll fyrir Ísraelsmönnum. (Hebr. 11:30, 31; Jak. 2:25) Rahab hætti auðvitað að lifa siðlausu lífi til að geta þóknast Jehóva. Sumir sem hafa gerst þjónar hans hafa haft trú, hugrekki og siðferðisþrek til að gera áþekkar breytingar og geta þóknast Guði.

10. Við hvaða aðstæður tók Rut afstöðu með sannri tilbeiðslu og hvaða blessun hlaut hún?

10 Rut hin móabíska tók líka afstöðu með sannri tilbeiðslu en hún var uppi eftir daga Jósúa. Sennilega þekkti hún eitthvað til Jehóva vegna þess að hún hafði verið gift Ísraelsmanni. Hún sýndi það hugrekki að tilbiðja Jehóva. Tengdamóðir hennar, ekkjan Naomí, bjó í Móab en ákvað að flytja aftur til Betlehem í Ísrael. Á leiðinni hvatti hún Rut til að snúa aftur til ættfólks síns en Rut svaraði: „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér . . . Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rut. 1:16) Henni var full alvara. Síðar giftist hún Bóasi, sem var tengdur Naomi, og átti með honum son. Þar með varð hún formóðir Davíðs og Jesú. Jehóva blessar greinilega þá sem sýna trú og hugrekki í verki. – Rut. 2:12; 4:17-22; Matt. 1:1-6.

MARGIR SETTU SIG Í LÍFSHÆTTU

11. Hvaða hugrekki sýndu Jójada og Jóseba og hverju áorkuðu þau með því?

11 Það styrkir trú okkar og hugrekki að sjá að Jehóva er með þeim sem taka velferð trúsystkina sinna fram yfir eigin hag. Jójada, æðsti prestur, og Jóseba, kona hans, eru dæmi um það. Eftir að Ahasía konungur dó tortímdi Atalía, móðir hans, konungsættinni að Jóasi undanskildum og hrifsaði sjálf völdin. Jójada og Jóseba höfðu tekið þá áhættu að bjarga Jóasi, syni Ahasía, og fela hann í heil sex ár. Á sjöunda árinu lét Jójada lýsa Jóas konung og taka Atalíu af lífi. (2. Kon. 11:1-16) Jójada studdi konung sömuleiðis þegar hann lét gera við skemmdir á musterinu. Þegar Jójada dó 130 ára að aldri var hann grafinn meðal konunga „því að hann hafði unnið gott verk í Ísrael fyrir Guð og hús hans“. (2. Kron. 24:15, 16) Og með hugrekki sínu varðveittu Jójada og eiginkona hans ættlegginn frá Davíð konungi til Messíasar.

12. Hvernig sýndi Ebed Melek hugrekki?

12 Ebed Melek, hirðmaður Sedekía konungs, hætti lífinu fyrir Jeremía. Höfðingjar Júda höfðu sakað Jeremía um undirróður. Konungur hafði gefið þeim leyfi til að fara með hann eins og þeir vildu og þeir vörpuðu honum í djúpa gryfju með leðju í botninum. Það lá ekkert annað fyrir Jeremía en að deyja. (Jer. 38:4-6) Ebed Melek gekk fyrir konung og bað spámanninum vægðar og setti sig þar með í lífshættu vegna þess hve Jeremía var hataður. Sedekía féllst á beiðni hans og leyfði honum að taka með sér 30 menn til að bjarga Jeremía. Guð sendi Ebed Melek þau boð fyrir munn Jeremía að hann myndi halda lífi þegar Babýloníumenn  réðust á Jerúsalem. (Jer. 39:15-18) Jehóva umbunar þeim sem hafa hugrekki til að gera vilja hans.

13. Hvernig sýndu Hebrearnir þrír hugrekki og hvað getum við lært af þeim?

13 Á sjöundu öld f.Kr. var þrem hebreskum þjónum Guðs umbunað fyrir trú sína og hugrekki. Nebúkadnesar konungur hafði kallað saman alla höfðingja í Babýlon og skipað þeim að tilbiðja risastórt líkneski úr gulli. Þeir sem hlýddu ekki skyldu deyja í glóandi eldsofni. Hebrearnir þrír sögðu Nebúkadnesari kurteislega: „Vilji Guð okkar, sá sem við dýrkum, frelsa okkur getur hann frelsað okkur jafnt úr glóandi eldsofni sem úr þínum höndum, konungur. Og þótt hann láti það ógert skaltu samt vita að við munum hvorki dýrka þína guði, konungur, né tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur látið reisa.“ (Dan. 3:16-18) Einstakri björgun Hebreanna þriggja er lýst í Daníel 3:19-30. Það er ólíklegt að okkur verði nokkurn tíma hótað lífláti í glóandi ofni en hins vegar reynir oft á trú okkar og hugrekki. Við megum treysta að Jehóva blessar okkur þegar við erum trúföst.

14. Hvernig sýndi Daníel hugrekki samkvæmt 6. kafla Daníelsbókar og hvað hafði það í för með sér?

14 Daníel sýndi trú og hugrekki þegar óvinir hans töldu Daríus konung á að gefa út þá tilskipun að „hverjum þeim skuli varpað í ljónagryfju sem í þrjátíu daga snýr bænum sínum til nokkurs guðs eða manns“ annars en hans sjálfs. Jafnskjótt og Daníel frétti af þessari tilskipun „gekk hann . . . inn í hús sitt. Á efri hæð hafði hann opna glugga sem vissu að Jerúsalem og þrisvar á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann eins og vandi hans hafði verið.“ (Dan. 6:7-11) Daníel var varpað í ljónagryfju en Jehóva bjargaði honum. – Dan. 6:17-24.

15. (a) Hvernig sýndu Akvílas og Priskilla trú og hugrekki? (b) Hvað merkja orð Jesú í Jóhannesi 13:34 og hvernig hafa margir þjónar Guðs sýnt slíkan kærleika?

15 Akvílas og Priskilla stofnuðu lífi sínu í hættu fyrir Pál þótt þess sé ekki getið með hvaða hætti. (Post. 18:2; Rómv. 16:3, 4) Þau voru hugrökk og breyttu í samræmi við orð Jesú: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað.“ (Jóh. 13:34) Samkvæmt Móselögunum átti fólk að elska náungann eins og sjálft sig. (3. Mós. 19:18) Boðorð  Jesú var hins vegar nýtt í þeim skilningi að kristnir menn áttu að vera tilbúnir til að fórna lífinu fyrir aðra, líkt og hann gerði. Margir þjónar Guðs hafa sýnt kærleika og hugrekki með þeim hætti. Þeir hafa stofnað lífi sínu í hættu til að vernda trúsystkini sín fyrir óvinum sem ætluðu að misþyrma þeim eða myrða. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:16.

Frumkristnum mönnum fannst ekki koma til greina að afneita trúnni.

16, 17. Hvernig reyndi á trú sumra fylgjenda Krists á fyrstu öld og hvað hafa sumir gengið í gegnum á síðari tímum?

16 Frumkristnir menn líktu eftir Jesú og sýndu það hugrekki að tilbiðja engan nema Jehóva. (Matt. 4:8-10) Þeir neituðu að brenna reykelsi til heiðurs keisaranum í Róm. (Sjá mynd.) Daniel P. Mannix skrifar: „Sárafáir kristnir menn afneituðu trúnni þótt yfirleitt væri altari á leikvanginum sem eldur logaði á, þeim til hægðarauka. Allt og sumt sem fanginn þurfti að gera var að strá ögn af reykelsi á eldinn. Þá var honum gefið fórnarvottorð og sleppt. Auk þess var útskýrt vandlega fyrir honum að hann væri alls ekki að tilbiðja keisarann heldur einungis að viðurkenna guðlegt eðli hans sem höfuðs rómverska ríkisins. Samt sem áður var næstum óþekkt að kristnir menn nýttu sér þetta tækifæri til að sleppa.“ – Those About to Die.

17 Kristnum mönnum í fangabúðum nasista bauðst margoft að fá frelsi og bjarga lífi sínu. Þeir þurftu bara að undirrita yfirlýsingu um að þeir afneituðu Jehóva. En fáir skrifuðu undir. Vottar af ættbálkum Hútúa og Tútsa í Rúanda settu sig í lífshættu til að vernda hver annan meðan þjóðarmorðin stóðu yfir í landinu undir lok síðustu aldar. Það reyndi á hugrekki þeirra og trú.

MUNDU AÐ JEHÓVA ER MEÐ OKKUR

18, 19. Hvaða fyrirmyndir höfum við í Biblíunni um trú og hugrekki sem geta hjálpað okkur að boða fagnaðarerindið?

18 Við fáum nú að taka þátt í viðamesta verkefni sem þjónar Guðs á jörð hafa nokkurn tíma fengið – að boða ríki hans og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Við erum ákaflega þakklát fyrir fullkomið fordæmi Jesú. Hann fór um, „borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki“. (Lúk. 8:1) Við þurfum að sýna trú og hugrekki eins og hann til að boða boðskapinn um ríkið. Með hjálp Guðs getum við líkt eftir Nóa, hugrökkum „boðbera réttlætisins“, sem varaði „heim hinna óguðlegu“ við yfirvofandi vatnsflóði. – 2. Pét. 2:4, 5.

19 Bænin getur hjálpað okkur að boða fagnaðarerindið. Þegar fylgjendur Krists voru ofsóttir á fyrstu öld báðu þeir um að geta,talað orð Guðs af djörfung‘. Þeir voru bænheyrðir. (Lestu Postulasöguna 4:29-31.) Ef þú ert feiminn við að boða trúna hús úr húsi skaltu biðja Jehóva að auka þér trú og hugrekki. Hann bænheyrir þig. – Lestu Sálm 66:19, 20. *

20. Hvaða stuðnings njótum við í þjónustu Jehóva?

20 Það er engan veginn þrautalaust að gera vilja Guðs í þessum illa heimi. En við erum ekki ein á báti. Guð er með okkur og sömuleiðis sonur hans, höfuð safnaðarins. Við eigum okkur líka meira en 7.000.000 trúsystkina um heim allan. Við skulum öll halda áfram að sýna trú og boða fagnaðarerindið. Höfum í huga árstextann fyrir árið 2013: „Vertu djarfur og hughraustur. Jehóva, Guð þinn, er með þér.“ – Jós. 1:9.

^ gr. 19 Finna má fleiri dæmi um hugrekki í greininni „Verum djörf og hughraust“ í Varðturninum 15. febrúar 2012.