Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vel skipulagt átak skilar árangri

Vel skipulagt átak skilar árangri

María Isabel er duglegur ungur boðberi í borginni San Bernando í Síle í Suður-Ameríku. Hún og fjölskylda hennar eru Mapuchear en þeir eru frumbyggjar svæðisins. Unnið var að því að mynda þar nýjan söfnuð mapudungun-mælandi fólks en það er málið sem ættflokkurinn talar. Öll fjölskylda Maríu Isabelar studdi það starf dyggilega.

María Isabel varð hugsi þegar tilkynnt var að minningarhátíðin um dauða Krists yrði haldin á mapudungun og prentaðir yrðu 2.000 boðsmiðar til að dreifa meðal fólks. Hvernig gæti hún lagt hönd á plóginn? Hún minntist frásagna af öðrum ungum vottum sem höfðu náð góðum árangri með því að prédika fyrir skólafélögum og kennurum. Hún ræddi málið við foreldra sína og í sameiningu ákváðu þau að hún skyldi hugleiða hvernig hún gæti dreift boðsmiðum í skólanum. Hvernig hugsaði hún sér að fara að?

María Isabel byrjaði á því að biðja stjórnendur skólans um leyfi til að setja upp boðsmiða á töflu við innganginn í skólann. Hún fékk það og henni var hrósað fyrir frumkvæðið. Við nafnakall einn morguninn sagði skólastjórinn meira að segja frá boðsmiðanum í hátalarakerfi skólans.

Þessu næst spurði María Isabel hvort hún mætti fara á milli allra bekkja í skólanum. Eftir að hafa fengið leyfi kennaranna spurði hún hvern bekk hvort þar væru einhverjir Mapuchear. Hún segir: „Ég hélt að það væru svona 10 til 15 nemendur af Mapuchea-ættum í öllum skólanum en þeir voru miklu fleiri. Ég dreifði 150 boðsmiðum!“

„HÚN BJÓST VIÐ EINHVERJUM ELDRI“

Kona nokkur sá boðsmiðann á töflunni við inngang skólans og spurði við hvern hún ætti að tala í sambandi við boðið. Hún var ekki lítið undrandi þegar henni var bent á tíu ára stúlku. „Hún bjóst við einhverjum eldri,“ segir María Isabel skælbrosandi. Eftir að hafa afhent konunni boðsmiða og gefið henni stutta skýringu spurði María Isabel hvar hún ætti heima þannig að hún og foreldrar hennar gætu heimsótt hana og sagt henni frá ríki Guðs. Boðberarnir 20, sem starfa meðal mapudungun-mælandi fólks, voru yfir sig glaðir þegar þessi kona og 26 aðrir áhugasamir Mapuchear voru viðstaddir minningarhátíðina. Nú starfar þar blómlegur söfnuður.

Geturðu, óháð aldri, tekið frumkvæðið eins og þessi stúlka og boðið skóla- eða vinnufélögum að vera viðstaddir minningarhátíðina, opinberan fyrirlestur eða umdæmismót? Væri ekki þjóðráð að leita í ritunum að frásögum sem geta kveikt hugmyndir að slíku kynningarátaki? Og biddu Jehóva um heilagan anda þannig að þú hafir hugrekki til að segja frá honum. (Lúk. 11:13) Ef þú leggur þig fram og skipuleggur átakið vel gæti árangurinn komið þér skemmtilega á óvart.