Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Maí 2016

 Úr sögusafninu

„Til þeirra sem er trúað fyrir verkinu“

„Til þeirra sem er trúað fyrir verkinu“

SÓLIN skein og hlýtt var í veðri mánudaginn 1. september árið 1919 eftir margra daga rok og rigningu. Síðdegis söfnuðust tæplega 1.000 mótsgestir saman í sal sem rúmaði 2.500 manns til að hlýða á opnunarræðu mótsins í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Undir kvöld bættust við 2.000 manns sem höfðu ferðast með bátum, bílum og leigulestum. Á þriðjudeginum var mannfjöldinn orðinn svo mikill að það sem eftir var af mótsdagskránni þurfti að halda utandyra undir tignarlegum trjánum.

Sólargeislarnir smeygðu sér gegnum laufhvelfinguna og mynduðu blúndumynstur á frökkum karlanna. Fjaðrirnar á höttum kvennanna blöktu í þýðum vindinum af Erievatni. „Þetta var sannkölluð paradís að vera í unaðslegu umhverfi fjarri hávaða gamla heimsins,“ sagði einn bróðir.

Fegurð umhverfisins fölnaði þó í samanburði við gleðina sem geislaði af andlitum viðstaddra. „Þau virðast öll afar guðhrædd,“ sagði í dagblaði á staðnum, „en samt mjög brosmild og góðlátleg.“ Biblíunemendunum var sérstaklega kært að koma saman eftir miklar prófraunir undanfarinna ára. Þeir höfðu mátt þola andstöðu á stríðsárunum og sundurþykki innan safnaðanna. Betel í Brooklyn hafði verið lokað og margir höfðu verið fangelsaðir vegna hollustu sinnar við ríki Guðs. Þar á meðal voru átta bræður, sem fóru með forystuna í söfnuðinum, dæmdir í allt að 20 ára fangelsi. *

Á þessum erfiðu árum voru margir biblíunemendanna ráðvilltir og niðurdregnir. Sumir þeirra höfðu hætt að boða trúna en flestir höfðu gert sitt besta til að halda út andspænis kúgun yfirvalda. Rannsóknarlögreglumaður sagði frá dæmigerðu máli þar sem hann yfirheyrði biblíunemendur. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir sögðust þeir staðráðnir ætla „að halda áfram að boða orð Guðs allt til enda“.

Á öllum þessum reynslutíma höfðu trúfastir biblíunemendur „fylgst með handleiðslu Drottins ... beðið um leiðsögn föðurins öllum stundum“. Núna voru þeir sameinaðir á ný á þessu ánægjulega móti í Cedar Point. Systir nokkur  endurómaði tilfinningar margra en hún hafði velt fyrir sér hvernig þau myndu „koma hjólum boðunarinnar aftur af stað“. Þau vildu ólm hefjast handa á ný.

„GA“ – GLÆNÝTT HJÁLPARGAGN

Alla vikuna veltu mótsgestir vöngum yfir stöfunum „GA“ sem stóðu á mótsdagskránni, móttökukortum og skiltum umhverfis mótsstaðinn. Á föstudeginum, „degi samverkamanna“, svipti Joseph F. Rutherford loks hulunni af þessari ráðgátu frammi fyrir 6.000 mótsgestum. „GA“ stóð fyrir The Golden Age – nýtt tímarit fyrir boðunina. *

Bróðir Rutherford sagði um andasmurða kristna félaga sína: „Með augum trúarinnar horfa þeir fram hjá þessum erfiðleikatímum og sjá gullöld hinnar dýrlegu stjórnar Messíasar ... Þeir álíta það aðalverkefni sitt og mikinn heiður að kunngera heiminum gullöldina sem fram undan er. Það er hluti af verkefni þeirra frá Guði.“

The Golden Age, „tímarit staðreynda, vonar og sannfæringar“, skyldi notað til að opna nýja leið til að koma sannleikanum á framfæri – farið yrði hús úr húsi til að bjóða áskrift. Þegar spurt var hve margir hefðu hug á að taka þátt í þessu starfi spruttu allir áheyrendurnir á fætur. „Af kappi og ákafa, sem aðeins þeir sem feta í fótspor Jesú þekkja,“ sungu þeir síðan: „Ó, Drottinn, send ljós þitt og sannleika.“ „Ég gleymi því aldrei hvernig trén nötruðu,“ sagði Judge M. Norris.

Að dagskrá lokinni biðu mótsgestir nokkra klukkutíma í biðröð til þess að verða meðal fyrstu áskrifenda að blaðinu. Mörgum leið eins og Mabel Philbrick sem sagði: „Við vorum himinlifandi að vita að við höfðum nú aftur fengið verk að vinna.“

„TIL ÞEIRRA SEM ER TRÚAÐ FYRIR VERKINU“

Um 7.000 biblíunemendur bjuggu sig til starfa. Í flugritinu Organization Method og bæklingnum To Whom the Work Is Entrusted var útskýrt hvernig starfinu yrði háttað. Þjónustudeild yrði komið á laggirnar við aðalstöðvarnar en hún myndi hafa umsjón með starfinu. Starfsnefnd yrði mynduð í söfnuðunum og skipaður yrði þjónustustjóri til að veita leiðbeiningar. Starfssvæði skyldu útbúin, hvert þeirra með 150 til 200 heimilum. Þjónustusamkomur yrðu haldnar á fimmtudagskvöldum þar sem fólk skiptist á frásögum úr boðuninni og skilaði starfsskýrslum.

„Þegar heim var komið hófumst við öll handa við að bjóða fólki áskrift,“ sagði Herman Philbrick. Alls staðar var fólk sem sýndi áhuga. „Það virtist vera að eftir stríð og mikla sorg tækju allir tilhugsuninni um gullöld fagnandi,“ sagði Beulah Covey. Arthur Claus skrifaði: „Allir í söfnuðinum voru steinhissa yfir því hve margir þáðu áskrift.“ Á innan við tveim mánuðum frá því að The Golden Age hóf göngu sína hafði verið dreift næstum hálfri milljón kynningareintaka af tímaritinu og 50.000 manns höfðu gerst áskrifendur.

Greinin „Gospel of the Kingdom“ (Fagnaðarerindið um ríki Guðs), sem birtist í Varðturninum á ensku 1. júlí 1920, var að sögn Alexanders H. Macmillans „fyrsta opinbera lýsingin á boðuninni um heim allan eins og hún fer fram nú á dögum“. Í greininni voru allir andasmurðir þjónar Guðs hvattir til að „boða heiminum að himnaríki sé í nánd“. Milljónir manna hafa nú sameinast bræðrum Krists „sem er trúað fyrir verkinu“. Þeir boða orðið af kappi á meðan þeir bíða þess að gullöld Messíasarríkisins gangi í garð.

^ gr. 5 Sjá Ríki Guðs stjórnar, kafla 2, gr. 31-34 og Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom, kafla 6, „A Time of Testing (1914-1918)“.

^ gr. 9 The Golden Age fékk nafnið Consolation árið 1937 og Awake! (Vaknið!) árið 1946.