Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að jafna ágreining í kærleika

Að jafna ágreining í kærleika

„Haldið frið ykkar á milli.“ – MARK. 9:50.

SÖNGVAR: 39, 77

1, 2. Um hvaða deilur milli manna er talað í 1. Mósebók og hvers vegna eru þær áhugaverðar fyrir okkur?

HEFURÐU einhvern tíma velt fyrir þér frásögum Biblíunnar af deilum og átökum milli manna? Lítum rétt aðeins á nokkra kafla í byrjun 1. Mósebókar. Kain myrðir Abel (1. Mós. 4:3-8), Lamek drepur ungan mann sem veitir honum áverka (1. Mós. 4:23), fjárhirðar Abrahams (Abrams) og Lots deila (1. Mós. 13:5-7), Hagar fyrirlítur Söru (Saraí) og Sara verður pirruð út í Abraham (1. Mós. 16:3-6), Ísmael er á móti öllum og allir á móti honum. – 1. Mós. 16:12.

2 Hvers vegna er sagt frá deilum og átökum af þessu tagi í Biblíunni? Meðal annars til að minna ófullkomna menn á hvers vegna þeir þurfi að hafa frið hver við annan og til að sýna hvernig við getum gert það. Það er gagnlegt fyrir okkur að lesa frásögur Biblíunnar af raunverulegu fólki sem átti við raunveruleg vandamál að glíma. Við sjáum hvernig það fór að og hvað hlaust af því og getum kannski líkt eftir því við ákveðnar aðstæður sem koma upp í lífi okkar. Frásögurnar hjálpa okkur að hugleiða hvernig við eigum eða eigum ekki að bregðast við áþekkum aðstæðum. – Rómv. 15:4.

3. Hvað er til umræðu í þessari grein?

 3 Í þessari grein er skoðað hvers vegna þjónar Jehóva þurfa að jafna ágreining sín á milli og hvernig þeir geta gert það. Enn fremur er bent á meginreglur í Biblíunni sem geta hjálpað þeim að jafna ágreining og eiga góð samskipti við náungann og við Jehóva Guð.

AF HVERJU ÞURFA ÞJÓNAR GUÐS AÐ JAFNA ÁGREINING?

4. Hvaða hugsunarháttur breiddist út um allan heim og hvaða afleiðingar hefur það haft?

4 Deilur og erjur mannanna eru fyrst og fremst Satan að kenna. Hann hélt því fram í Eden að hver og einn gæti og ætti að ákveða sjálfur hvað væri gott og illt, án þess að taka mið af vilja Guðs. (1. Mós. 3:1-5) Það er augljóst hvaða afleiðingar slíkur hugsunarháttur hefur haft. Heimurinn er fullur af fólki sem vill vera sjálfstætt og öðrum óháð, og það leiðir af sér stolt, sjálfselsku og samkeppni. Þeir sem láta þennan hugsunarhátt stjórna sér eru í reynd á sama máli og Satan. Hann heldur því fram að það sé skynsamlegt að hugsa um eigin hag án tillits til þess hvaða áhrif það hefur á aðra. Þessi eigingirni er ávísun á deilur. Og það er gott að minna sig á að „reiðigjarn maður vekur deilur og skapbráður maður drýgir marga synd“. – Orðskv. 29:22.

5. Hvað ráðlagði Jesús fólki að gera til að jafna ágreining?

5 Jesús kenndi áheyrendum sínum hins vegar að vinna að friði, jafnvel þó að það virtist sjálfum þeim til tjóns. Hann gaf frábærar leiðbeiningar í fjallræðunni um það hvernig hægt væri að jafna ágreining eða afstýra átökum. Hann hvatti til dæmis lærisveina sína til að vera hógværir, friðelskir, gefa öðrum ekki tilefni til að reiðast, vera sáttfúsir og elska óvini sína. – Matt. 5:5, 9, 22, 25, 44.

6, 7. (a) Hvers vegna er mikilvægt að vera fljótur til að jafna ágreining? (b) Hvaða spurninga ættu allir þjónar Jehóva að spyrja sig?

6 Ef við viljum ekki sættast við aðra er til einskis fyrir okkur að biðja, sækja samkomur, boða trúna og þjóna Guði með öðrum hætti. (Mark. 11:25) Við getum ekki verið vinir Guðs nema við séum fús til að fyrirgefa öðrum mistök þeirra. – Lestu Lúkas 11:4; Efesusbréfið 4:32.

7 Allir þjónar Guðs þurfa að hugleiða vel og vandlega hvort þeir séu fúsir til að fyrirgefa og leggi sig fram um að eiga friðsamleg samskipti við aðra. Vertu hreinskilinn þegar þú lítur í eigin barm. Fyrirgefurðu trúsystkinum fúslega? Sækirðu í félagsskap þeirra? Jehóva væntir þess að þjónar sínir séu fúsir til að fyrirgefa. Ef samviskan segir þér að þú getir bætt þig á þessu sviði skaltu leita hjálpar Jehóva í bæn. Faðirinn á himnum heyrir auðmjúkar bænir af þessu tagi og svarar þeim. – 1. Jóh. 5:14, 15.

GETURÐU LEITT MÁLIÐ HJÁ ÞÉR?

8, 9. Hvað ættum við að gera ef við móðgumst?

8 Allir menn eru ófullkomnir. Fyrr eða síðar áttu eftir að móðgast út af einhverju sem einhver segir eða gerir. Hjá því verður ekki komist. (Préd. 7:20; Matt. 18:7) Hvernig bregstu þá við? Lítum á eftirfarandi atvik: Nokkrir vottar hittust til að gera sér dagamun. Ein af systrunum heilsaði tveim bræðrum en öðrum þeirra fannst óviðeigandi hvernig hún gerði það. Þegar bræðurnir voru einir tók þessi bróðir að gagnrýna systurina  fyrir orð hennar. Hinn bróðirinn minnti hann þá á að hún hefði þjónað Jehóva dyggilega við erfiðar aðstæður í 40 ár. Hann sagðist vera fullviss um að hún hefði ekki meint neitt illt. Eftir að hafa hugsað sig um smástund svaraði móðgaði bróðirinn: „Það er satt hjá þér,“ og gerði ekki meira úr málinu.

9 Hvað má læra af þessu atviki? Við ráðum því sjálf hvernig við bregðumst við þegar gæti verið tilefni til að móðgast. Það er kærleiksríkt að breiða yfir minni háttar bresti annarra. (Lestu Orðskviðina 10:12; 1. Pétursbréf 4:8.) Jehóva kallar það „sæmd að láta rangsleitni ekki á sig fá“. (Orðskv. 19:11; Préd. 7:9) Ef þér finnst einhver vera óvingjarnlegur við þig eða sýna þér óvirðingu ættirðu að byrja á að spyrja þig hvort þú getir leitt það hjá þér. Þarftu virkilega að gera mál úr því?

10. (a) Hvernig brást systir nokkur við gagnrýni til að byrja með? (b) Hvaða biblíuvers hjálpuðu systurinni að hafa hugarfrið?

10 Það getur reynt töluvert á að taka gagnrýni ekki of nærri sér. Tökum sem dæmi brautryðjanda sem við skulum kalla Lísu. Einhverjir höfðu sett út á það hvernig hún starfaði og hvernig hún notaði tímann. Lísa var í svolitlu uppnámi þegar hún leitaði ráða hjá þroskuðum bræðrum. Hún segir: „Biblíuleg ráð þeirra hjálpuðu mér að sjá skoðanir annarra í réttu ljósi og einbeita mér að því sem mestu máli skiptir – að þóknast Jehóva.“ Það var uppörvandi fyrir hana að lesa Matteus 6:1-4. (Lestu.) Þessi vers minntu hana á að hún ætti að hafa það markmið að gleðja Jehóva. „Ég held gleði minni þó að aðrir setji út á það sem ég geri,“ segir hún, „því að ég veit að ég er að reyna mitt besta til að þóknast Jehóva.“ Eftir að hafa komist að þessari niðurstöðu tók Lísa þá skynsamlegu ákvörðun að leiða hjá sér þessar neikvæðu athugasemdir.

ÞEGAR EKKI ER HÆGT AÐ LEIÐA MÁLIÐ HJÁ SÉR

11, 12. (a) Hvað ætti kristinn maður að gera ef hann heldur að bróðir hans hafi eitthvað á móti honum? (b) Hvernig leysti Abraham úr ágreiningsmáli og hvað getum við lært af því? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 „Öll hrösum við margvíslega.“ (Jak. 3:2) Segjum að þú uppgötvir að þú hafir móðgað bróður með einhverju sem þú sagðir eða gerðir. Hvað er til ráða? Jesús sagði: „Sértu ... að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ (Matt. 5:23, 24) Talaðu við bróður þinn eða systur eins og Jesús hvatti til. Taktu eftir hvert markmiðið á að vera. Það á ekki að vera að skella skuldinni að hluta til á hinn heldur viðurkenna mistök þín og sættast. Það er ákaflega mikilvægt að eiga frið við trúsystkini.

12 Við minntumst áður á frásögu Biblíunnar af Abraham og Lot, frænda hans. Hún er dæmi um hvernig þjónar Guðs geta sett niður deilur sem gætu annars valdið sundurlyndi. Báðir áttu þeir búpening og hjarðmenn þeirra deildu um bithaga. Abraham vildi umfram allt stuðla að góðum samskiptum og bauð Lot að velja hvar hann og heimilismenn hans vildu setjast að. (1. Mós. 13:1, 2, 5-9) Þar er hann góð fyrirmynd. Abraham keppti eftir friði í stað þess að hugsa um eigin hag. Var örlætið honum til tjóns? Alls ekki. Rétt eftir þennan atburð lofaði Jehóva Abraham að blessa hann ríkulega. (1. Mós. 13:14-17) Þjónar  Guðs verða aldrei fyrir varanlegu tjóni ef þeir fylgja leiðbeiningum hans og útkljá deilumál í kærleika. Guð sér til þess. [1]

13. Hvernig brást umsjónarmaður við hranalegum orðum og hvað getum við lært af honum?

13 Lítum á nútímadæmi. Nýskipaður umsjónarmaður einnar deildar á umdæmismóti hringdi í bróður nokkurn og spurði hvort hann gæti hjálpað til. Hinn svaraði með skætingi og skellti á. Hann var sár út í fyrri umsjónarmann því að það hafði kastast í kekki milli þeirra. Nýi umsjónarmaðurinn lét þetta ekki á sig fá en gat þó ekki látið kyrrt liggja. Klukkustund síðar hringdi hann aftur í bróðurinn og nefndi að þeir hefðu aldrei hist og stakk upp á að þeir reyndu að leysa málin í sameiningu. Þeir hittust í ríkissalnum viku síðar. Eftir að hafa farið með bæn ræddu þeir saman í klukkustund og bróðirinn fékk tækifæri til að segja sögu sína. Umsjónarmaðurinn var skilningsríkur, hlustaði og kom með biblíulegar ábendingar. Bræðurnir skildu í góðu. Bróðirinn bauð síðan fram krafta sína á mótinu og er umsjónarmanninum þakklátur fyrir að hafa tekið á málinu með góðvild og stillingu.

ÁTTU AÐ BLANDA ÖLDUNGUNUM Í MÁLIÐ?

14, 15. (a) Í hvaða tilvikum er rétt að fylgja leiðbeiningunum í Matteusi 18:15-17? (b) Hvaða þrjú skref nefndi Jesús og hvert er markmiðið með þeim?

14 Kristnir menn geta leyst einslega flest ágreiningsmál sín á milli og ættu að gera það þannig. Jesús benti þó á að í sumum tilfellum gæti þurft að leggja mál fyrir söfnuðinn. (Lestu Matteus 18:15-17.) Hvað átti að gera ef sá brotlegi vildi ekki hlusta á bróður sinn, vitni  og söfnuðinn? Þá átti að koma fram við hann eins og ,heiðingja eða tollheimtumann‘. Með öðrum orðum átti að víkja honum úr söfnuðinum. Þetta var svo alvarleg aðgerð að ,syndin‘ hlaut að vera annað og meira en smávægilegur ágreiningur. Það var um að ræða (1) synd sem hlutaðeigandi einstaklingar gátu útkljáð einslega en einnig (2) nógu alvarlega synd til að það mætti víkja manni úr söfnuðinum ef ekki tækist að ná sáttum. Syndin gat falist í svikum af einhverju tagi eða rógi sem kastaði rýrð á mannorð einhvers. Skrefin þrjú, sem Jesús útlistaði hér, áttu því aðeins við að þessi skilyrði væru fyrir hendi. Ekki var um að ræða syndir eins og hjúskaparbrot, samkynhneigð, fráhvarf, skurðgoðadýrkun eða aðrar grófar syndir sem öldungar safnaðarins urðu tvímælalaust að bregðast við.

Þú getur þurft að ræða málið við bróður þinn oftar en einu sinni til að endurheimta hann. (Sjá 15. grein.)

15 Leiðbeiningar Jesú miðuðu að því að reyna að hjálpa bróður á kærleiksríkan hátt. (Matt. 18:12-14) Fyrst á að reyna að útkljá málið án íhlutunar annarra. Þú getur þurft að ræða málið við hinn brotlega oftar en einu sinni. Ef það ber ekki árangur skaltu tala við hann í viðurvist einhverra sem urðu vitni að brotinu eða annarra sem geta hjálpað ykkur að kanna hvort brot hafi virkilega átt sér stað. Ef þér tekst að leysa málið með hjálp þeirra hefurðu „endurheimt bróður þinn“. Það ætti því aðeins að vísa máli til öldunganna að ekki hafi tekist að hjálpa hinum brotlega þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

16. Hvers vegna er það árangursríkt og kærleiksríkt að fylgja leiðbeiningum Jesú?

16 Það er sjaldgæft að bræður og systur þurfi að stíga öll þrjú skrefin sem er lýst í Matteusi 18:15-17. Það er ánægjulegt vegna þess að yfirleitt tekst að leysa málin og þau komast sjaldan á það stig að það þurfi að vísa einhverjum úr söfnuðinum af því að hann hefur syndgað en iðrast ekki. Oft sér hinn brotlegi að sér og bætir ráð sitt, og sá sem brotið var gegn áttar sig á að hann hafi ekki ástæðu til að gera meira í málinu og ákveður að fyrirgefa. Af orðum Jesú má sjá að það ætti ekki að blanda söfnuðinum í málið á frumstigi. Öldungarnir ættu aðeins að láta málið til sín taka að búið sé að stíga fyrstu tvö skrefin og fyrir liggi með óyggjandi hætti hvað gerðist.

17. Hvað uppskerum við ef við leggjum okkur fram um að eiga friðsamleg samskipti hvert við annað?

17 Meðan þessi heimur stendur eru mennirnir ófullkomnir og halda áfram að gera á hlut hver annars. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ (Jak. 3:2) Til að jafna ágreining þurfum við í einlægni að ,leita friðar og leggja stund á hann‘. (Sálm. 34:15) Þá eigum við góð samskipti við trúsystkini okkar og stuðlum að einingu í söfnuðinum. (Sálm. 133:1-3) Umfram allt eigum við gott samband við Jehóva, „Guð friðarins“. (Rómv. 15:33) Þeir sem venja sig á að jafna ágreining í kærleika hljóta þessa blessun.

^ [1] (12. grein.) Biblían segir frá fleiri dæmum um þjóna Guðs sem jöfnuðu ágreining með friðsamlegum hætti. Jakob sættist við Esaú (1. Mós. 27:41-45), Jósef sættist við bræður sína (1. Mós. 33:1-11) og Gídeon jafnaði ágreining við Efraímíta. (Dóm. 8:1-3) Manstu eftir fleiri dæmum sem sagt er frá annars staðar í Biblíunni?