Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júní 2016

Manstu?

Manstu?

Hefurðu lesið nýjustu tölublöð Varðturnsins vandlega? Reyndu þá að svara eftirfarandi spurningum:

Hvers vegna leyfði Jehóva Ísraelsmönnum til forna að fara í stríð?

Jehóva er kærleiksríkur. En stundum gaf hann þjóð sinni fyrirmæli um að fara í stríð þegar illar þjóðir ógnuðu henni. Guð einn ákvað hverjir myndu taka þátt í stríði og hvenær. – wp16.1, bls. 4-5.

Hvað er mikilvægt fyrir foreldra að gera til að kenna unglingunum sínum að þjóna Jehóva?

Það er mikilvægt að foreldrar elski unglingana sína og sýni auðmýkt í verki. Það er líka mikilvægt að foreldrar séu næmir og reyni að skilja unglingana. – w15 15.11., bls. 9-11.

Hvað ættum við að hugleiða áður en við tölum?

Til að nota tunguna til góðs þurfum við að hafa í huga (1) hvenær við ættum að tala (Préd. 3:7), (2) hvað við ættum að segja (Orðskv. 12:18) og (3) hvernig við ættum að tala (Orðskv. 25:15). – w15 15.12., bls. 19-22.

Hvernig eigum við að koma fram við þá sem neyta brauðsins og vínsins?

Þjónar Guðs upphefja ekki þá sem neyta brauðsins og vínsins. Þeir sem eru í raun og veru andasmurðir vilja hvorki fá upphefð né auglýsa þá stöðu sem þeir hafa frammi fyrir Guði. (Matt. 23:8-12) – w16.01, bls. 23-24.

Hvernig varð Abraham vinur Guðs og hvað getum við lært af því?

Abraham öðlaðist þekkingu á Guði, kannski með hjálp Sems. Og trú Abrahams styrktist þegar hann upplifði hvernig Guð sá um hann og fjölskyldu hans. Á sama hátt getum við átt Guð að vini. – w16.02, bls. 9-10.

Hverjir skiptu Biblíunni í kafla og vers?

Prestur að nafni Stephen Langton skipti Biblíunni niður í kafla á 13. öld. Afritarar meðal Gyðinga voru fyrstir til að skipta Hebresku ritningunum niður í vers og fræðimaðurinn Robert Estienne gerði hið sama við Grísku ritningarnar á 16. öld. – wp16.2, bls. 14-15.

Fór Satan bókstaflega með Jesú til musterisins til að freista hans?

Við getum ekki vitað það fyrir víst. Orðalagið í Matteusi 4:5 og Lúkasi 4:9 gæti merkt að Jesús hafi verið tekinn þangað í sýn eða að hann hafi staðið á háum stað á musterissvæðinu. – w16.03, bls. 31-32.

Hvernig getur boðun okkar verið eins og döggin?

Döggin myndast smám saman og er hressandi og viðheldur lífi. Hún er blessun frá Guði. (5. Mós. 33:13) Boðun þjóna Guðs er að því leyti eins og döggin. – w16.04, bls. 4.