Hverja tákna maðurinn með skriffærin og mennirnir sex með sleggjurnar í sýn Esekíels?

 

Esekíel sá í sýn hvað gerðist í Jerúsalem áður en henni var eytt árið 607 f.Kr. Í sýninni, sem Jehóva veitti honum, sá hann alls konar illskuverk framin í borginni. Síðan sá hann sex menn og „hver þeirra hafði sleggju í hendi“. Með þeim var maður sem var „í línklæðum og hafði hann skriffæri við mjöðm sér“. (Esek. 8:6-12; 9:2, 3) Manninum í línklæðunum var sagt: „Gakktu gegnum miðja borgina ... og skrifaðu tákn á enni þeirra manna sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru í borginni.“ Síðan var mönnunum með sleggjurnar sagt að deyða alla í borginni sem voru ekki með táknið á enni sér. (Esek. 9:4-7) Hvað lærum við af þessari sýn og hver er maðurinn með skriffærin?

Esekíel sá þessa spádómlegu sýn árið 612 f.Kr. Fyrri uppfylling hennar var fimm árum síðar þegar her Babýloníumanna eyddi Jerúsalem. Jehóva notaði þessa heiðnu þjóð sem verkfæri sitt til að eyða borgina og refsa Jerúsalembúum fyrir fráhvarf frá sannri trú. (Jer. 25:9, 15-18) Réttlátum var hins vegar ekki eytt með ranglátum. Í kærleika sínum sá Jehóva til þess að þeir Gyðingar björguðust sem voru ósáttir við svívirðingarnar sem áttu sér stað í borginni.

Esekíel tók hvorki þátt í að merkja fólk né eyða Jerúsalembúum. Það voru englar sem sáu um að dóminum yrði fullnægt. Með þessum spádómi fáum við að skyggnast bak við tjöldin ef svo má að orði komast, og sjá það sem gerðist á hinu himneska tilverusviði. Jehóva hafði falið englunum tvenns konar verkefni. Þeir áttu að sjá um að eyða hinum óguðlegu og tryggja að réttlátir björguðust. *

Spádómleg sýn Esekíels uppfyllist líka í framtíðinni. Áður höfum við skýrt hana þannig að maðurinn með skriffærin tákni hina andasmurðu sem eru á jörðinni núna. Talið var að þeir sem tækju við fagnaðarerindinu, sem við boðum, fengju þá tákn um að þeir myndu bjargast. Nú hefur hins vegar sýnt sig að við þurfum að breyta skýringu okkar á spádóminum. Í Matteusi 25:31-33 kemur fram að það sé Jesús sem dæmir fólk. Hann fellir dóm sinn í þrengingunni miklu en þá aðskilur hann sauðina og hafrana, það er að segja þá sem bjargast og þá sem farast.

Hvað lærum við þá af sýn Esekíels? Nefna má að minnsta kosti fimm atriði:

  1.  Á árunum áður en Jerúsalem var eytt var Esekíel, ásamt Jeremía, eins konar vörður sem varaði við yfirvofandi eyðingu. Jesaja hafði áður gegnt sama hlutverki. Nú á dögum notar Jehóva fámennan hóp andasmurðra til að næra þjóna sína og láta vita að þrengingin mikla sé í nánd. Öll hjú Krists hjálpast að við að vara fólk við því sem koma skal. – Matt. 24:45-47.

  2.  Esekíel merkti ekki þá sem áttu að bjargast á sínum tíma og þjónar Jehóva nú á  dögum gera það ekki heldur. Þeir flytja einfaldlega boðskap Jehóva en það er þáttur í boðuninni sem þeir sinna undir handleiðslu engla. – Opinb. 14:6.

  3.  Enginn fékk bókstaflegt tákn á enni sér á dögum Esekíels og það gerist ekki heldur nú á tímum. Hvað þarf fólk að gera til að fá tákn um að það bjargist? Það þarf að taka við fagnaðarerindinu sem er boðað núna, læra að líkja eftir Kristi, vígjast Jehóva og styðja bræður Krists dyggilega. (Matt. 25:35-40) Þeir sem gera það fá tákn í þrengingunni miklu um að þeir bjargist.

  4.  Maðurinn með skriffærin táknar Jesú Krist en hann starfar bak við tjöldin við að merkja þá sem eiga að komast lífs af. Þeir sem mynda múginn mikla fá þetta tákn í þrengingunni miklu þegar Jesús fellir þann dóm að þeir séu sauðir hans. Þeir eiga síðan í vændum eilíft líf á jörð. – Matt. 25:34, 46. *

  5.  Mennirnir sex með sleggjurnar tákna himneskar hersveitir undir forystu Jesú sem eyða bráðlega þjóðunum og binda enda á alla illsku. – Esek. 10:2, 6, 7; Opinb. 19:11-21.

Það er trústyrkjandi að skilja sýn Esekíels. Við getum treyst að Jehóva eyðir ekki réttlátum með óguðlegum. (2. Pét. 2:9; 3:9) Sýnin minnir okkur líka á hve mikilvægt er að boða fagnaðarerindið nú á tímum. Allir þurfa að heyra viðvörunina áður en endirinn kemur. – Matt. 24:14.

^ gr. 6 Meðal þeirra sem björguðust voru Barúk (ritari Jeremía), Ebed Melek frá Eþíópíu og Rekabítarnir. (Jer. 35:1-19; 39:15-18; 45:1-5) Táknið, sem þeir fengu á ennið, var ekki bókstaflegt heldur merkti einfaldlega að þeir myndu bjargast.

^ gr. 12 Hinir andasmurðu þurfa ekki að fá þetta tákn til björgunar. Þeir hljóta hins vegar lokainnsigli annaðhvort áður en þeir deyja eða áður en þrengingin mikla brestur á. – Opinb. 7:1, 3.