Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júní 2016

Láttu ekki mistök annarra gera þig viðskila við Jehóva

Láttu ekki mistök annarra gera þig viðskila við Jehóva

„Fyrirgefið hvert öðru.“ – KÓL. 3:13.

SÖNGVAR: 121, 75

1, 2. Hvernig var sagt fyrir í Biblíunni að þjónum Jehóva myndi fjölga?

TRÚFASTIR þjónar Jehóva á jörð mynda einstakan söfnuð votta hans. Þeir eru vissulega ófullkomnir og hafa sína galla. En heilagur andi Guðs hefur samt sem áður haft þau áhrif að söfnuður hans heldur áfram að vaxa og dafna út um allan heim. Lítum nú á sumt af því sem Jehóva hefur gert fyrir ófullkomna en fúsa þjóna sína.

2 Þjónar Guðs voru tiltölulega fáir árið 1914 þegar síðustu dagar hófust. En Jehóva blessaði boðun þeirra. Síðan þá hafa milljónir manna kynnst sannleika Biblíunnar og orðið vottar Jehóva. Jehóva spáði þessum mikla vexti. Hann sagði: „Hinn minnsti verður að þúsund, hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða þessu þegar að því kemur.“ (Jes. 60:22) Þessi spádómur hefur sannarlega ræst núna á síðustu dögum. Reyndar eru margar þjóðir í heiminum fámennari en vottar Jehóva eru núna.

3. Hvernig hafa þjónar Guðs sýnt kærleika?

3 Allan þennan tíma hefur Jehóva hjálpað fólki sínu að rækta með sér kærleika – áhrifamesta eiginleika hans  sjálfs. (1. Jóh. 4:8) Jesús endurspeglaði kærleika Guðs og sagði við fylgjendur sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað ... Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Þetta hefur haft sérstaka þýðingu í öllum þeim skelfilegu stríðsátökum sem þjóðir heims hafa átt í. Svo dæmi sé nefnt féllu um 55 milljónir manna í seinni heimsstyrjöldinni. En vottar Jehóva tóku ekki þátt í þessu mikla blóðbaði. (Lestu Míka 4:1, 3.) Kærleikurinn hefur hjálpað þeim að vera ,hreinir af blóði allra.‘ – Post. 20:26, Biblían 1912.

4. Hvers vegna er athyglisvert að þjónum Guðs skuli fjölga?

4 Þjónum Guðs fjölgar í fjandsamlegum heimi sem er á valdi Satans. Biblían kallar hann „guð þessarar aldar“. (2. Kor. 4:4) Satan ráðskast með stjórnmálaöflin í heiminum og sömuleiðis fjölmiðlana en hann getur samt ekki stöðvað boðun fagnaðarerindisins. Þar sem hann veit að tíminn er orðinn naumur reynir hann að snúa fólki frá sannri tilbeiðslu og beitir ýmsum brögðum til þess. – Opinb. 12:12.

ÞAÐ REYNIR Á HOLLUSTU OKKAR

5. Hvers vegna gerist það stundum að aðrir særa okkur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Kristni söfnuðurinn leggur áherslu á að við eigum að elska Guð og náungann. Jesús benti á að sú yrði raunin. Þegar hann var spurður hvert væri æðst allra boðorða sagði hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:35-39) Biblían bendir hins vegar á að við séum öll fædd ófullkomin vegna syndar Adams. (Lestu Rómverjabréfið 5:12, 19.) Það þýðir að einhver í söfnuðinum segir stundum eða gerir eitthvað sem særir okkur. Það getur reynt á kærleika okkar til Jehóva og þjóna hans. Hvernig bregðumst við þá við? Trúfastir þjónar Guðs fyrr á tímum særðu stundum aðra með orðum sínum og verkum. Við getum lært mikið af því sem Biblían segir um þá.

Hvað hefðirðu gert ef þú hefðir búið í Ísrael á dögum Elí og sona hans? (Sjá 6. grein.)

6. Af hverju hefði Elí átt að aga syni sína?

6 Elí, æðstiprestur í Ísrael, átti tvo syni sem sniðgengu lög Jehóva. Biblían segir: „Synir Elí voru þrjótar og skeyttu ekki um Drottin.“ (1. Sam. 2:12) Elí átti mikilvægu hlutverki að gegna í að efla sanna tilbeiðslu en synir hans drýgðu alvarlegar syndir. Elí vissi það og hefði átt að refsa þeim en lét þá komast upp með syndir sínar. Afleiðingin var sú að Guð dæmdi ætt hans. (1. Sam. 3:10-14) Þegar fram liðu stundir fengu afkomendur Elí ekki að þjóna sem æðstuprestar. Hvernig hefðir þú litið á linkind Elí ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma? Hefðirðu hneykslast og hætt að þjóna Guði?

7. Hvaða alvarlegu synd drýgði Davíð og hvernig tók Guð á því?

7 Jehóva elskaði Davíð því að hann var ,maður honum að skapi‘. (1. Sam. 13:13, 14; Post. 13:22) En seinna framdi Davíð hjúskaparbrot með Batsebu og hún varð ófrísk. Þetta gerðist meðan Úría, eiginmaður hennar, var fjarverandi við herþjónustu. Þegar hann kom heim í stuttan tíma reyndi Davíð að fá hann til að fara heim til konu  sinnar. Hann vonaði að hann myndi hafa mök við hana svo að það liti út fyrir að hann ætti barnið. Úría var ófáanlegur til þess. Þá bjó Davíð svo um hnútana að Úría félli í bardaga. Davíð þurfti að gjalda fyrir glæp sinn dýru verði – ógæfa dundi yfir hann og heimili hans. (2. Sam. 12:9-12) En Guð sýndi honum mikla miskunn því að á heildina litið þjónaði hann honum „af heilum huga“. (1. Kon. 9:4) Hvernig hefðir þú brugðist við ef þú hefðir þjónað Guði á þessum tíma? Hefði synd Davíðs valdið því að þú hættir að þjóna Jehóva?

8. (a) Hvernig brást Pétur? (b) Hvers vegna hélt Jehóva áfram að nota Pétur í þjónustu sinni eftir mistök hans?

8 Tökum annað dæmi úr Biblíunni. Jesús hafði valið Pétur í hóp postula sinna. Pétur átti samt til að segja og gera eitt og annað sem hann sá svo eftir. Allir postularnir yfirgáfu til dæmis Jesú á örlagastund. Pétur hafði sagt við Jesú að hann myndi aldrei yfirgefa hann þó svo að hinir gerðu það. (Mark. 14:27-31, 50) En þegar Jesús var handtekinn yfirgáfu hann allir postularnir – líka Pétur. Hann neitaði jafnvel oftar en einu sinni að hann þekkti Jesú. (Mark. 14:53, 54, 66-72) En Pétur iðraðist og Jehóva notaði hann áfram í þjónustu sinni. Hefði þessi hegðun Péturs haft áhrif á hollustu þína við Jehóva ef þú hefðir verið lærisveinn á þessum tíma?

9. Hvers vegna treystirðu að Guð sé alltaf réttlátur?

9 Þetta eru aðeins nokkur dæmi um fólk sem særði aðra með verkum sínum. Nefna mætti mörg önnur um menn sem þjónuðu Jehóva en gerðu rangt og særðu aðra, bæði fyrr á tímum og nú á tímum. Spurningin er hvernig þú bregst við þegar svona lagað gerist. Læturðu mistök annarra verða til þess að þú yfirgefir Jehóva og söfnuð hans fyrir fullt og allt? Eða viðurkennirðu að  Jehóva gefur fólki tíma til að sjá að sér og iðrast? Treystirðu að hann sé alltaf réttlátur og grípi inn í þegar það er tímabært? Stundum kemur þó fyrir að fólk drýgir alvarlega synd en hafnar miskunn Jehóva og iðrast ekki. Treystirðu þá að Jehóva eigi eftir að dæma þá og láti jafnvel víkja þeim úr söfnuðinum ef nauðsyn krefur?

VERTU TRÚR

10. Hvað vissi Jesús varðandi það sem Júdas og Pétur gerðu?

10 Biblían segir frá mörgum þjónum Jehóva sem voru trúir honum og söfnuði hans þótt þeir horfðu upp á aðra syndga alvarlega. Lítum á dæmi. Eftir að Jesús hafði verið á bæn heila nótt valdi hann postula sína 12. Einn þeirra var Júdas Ískaríot sem síðar sveik hann. Jesú lét svikin ekki hafa áhrif á samband sitt við Jehóva, föður sinn. Og þegar Pétur sagðist ekki þekkja hann lét hann það ekki heldur koma niður á sambandi sínu við Jehóva. (Lúk. 6:12-16; 22:2-6, 31, 32) Jesús vissi að það sem þeir gerðu var ekki Jehóva að kenna eða þjónum hans í heild. Þrátt fyrir vonbrigðin, sem sumir fylgjenda hans ollu honum, hélt Jesús starfi sínu áfram. Jehóva launaði honum trúfestina með því að reisa hann upp frá dauðum og krýndi hann seinna sem konung himnaríkis. – Matt. 28:7, 18-20.

11. Hvað sagði Biblían að myndi einkenna þjóna Jehóva nú á tímum?

11 Jesús hafði góða og gilda ástæðu til að treysta Jehóva og þjónum hans. Það er hreint með ólíkindum hverju Jehóva áorkar núna á síðustu dögum fyrir atbeina þjóna sinna. Hann hjálpar þeim að boða sannleikann um heim allan. Engir aðrir geta gert það því að þeir njóta ekki leiðsagnar Jehóva. Í Jesaja 65:14 er andlegri velmegun þjóna Guðs lýst. Þar segir: „Þjónar mínir munu hrópa af glöðu hjarta.“

12. Hvernig ættum við að líta á galla og mistök annarra?

12 Þjónar Jehóva fagna yfir því góða sem þeir geta gert með hjálp hans og leiðsögn. En fólk í heimi Satans kveinar, ef svo má að orði komast, þegar það sér hvernig ástandið í heiminum versnar. Væri ekki óskynsamlegt og ósanngjarnt af okkur að kenna Jehóva eða söfnuði hans um mistök tiltölulega fárra þjóna hans? Við verðum að vera Jehóva trú og fylgja leiðsögn hans. Auk þess verðum við að læra að sjá galla og mistök annarra í réttu ljósi og bregðast rétt við þeim.

AÐ BREGÐAST VIÐ GÖLLUM OG MISTÖKUM

13, 14. (a) Af hverju ættum við að vera þolinmóð hvert við annað? (b) Hvaða loforði megum við ekki gleyma?

13 Hvernig getum við brugðist við ef trúsystkini segir eða gerir eitthvað sem særir okkur? Biblían gefur þetta góða ráð: „Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Préd. 7:9) Við verðum að hafa í huga að við erum öll langt frá fullkomleikanum sem ríkti í Eden fyrir 6.000 árum. Ófullkomið fólk gerir mistök. Þess vegna er ekki gott að gera of háar kröfur til trúsystkina sinna og láta galla þeirra og mistök ræna sig gleðinni af því að þjóna Jehóva núna á síðustu dögum. Það væru enn verri mistök að yfirgefa söfnuð Jehóva út af göllum og mistökum annarra. Ef við létum það  gerast færum við á mis við þá blessun að gera vilja Jehóva og misstum líka vonina um að lifa í nýja heiminum.

14 Til að viðhalda gleði okkar og sterkri von verðum við að muna eftir hughreystandi loforði Jehóva í Biblíunni: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ (Jes. 65:17; 2. Pét. 3:13) Láttu ekki mistök og galla annarra koma í veg fyrir að þú hljótir þessa blessun.

15. Hvað sagði Jesús að við ættum að gera þegar öðrum verður á?

15 En við erum ekki enn komin inn í nýja heiminn. Þess vegna ættum við að hugleiða hvernig Guð vill að við bregðumst við þegar aðrir særa okkur með orðum sínum eða verkum. Jesús lýsti einni meginreglu sem gott er að hafa í huga: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ Þegar Pétur spurði Jesú hvort ætti að fyrirgefa „svo sem sjö sinnum“ svaraði hann: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ Jesús vildi greinilega að við værum alltaf fús til að fyrirgefa. Það ætti að vera ríkjandi tilhneiging hjá okkur. – Matt. 6:14, 15; 18:21, 22.

16. Hvernig var Jósef góð fyrirmynd?

16 Jósef er gott dæmi um það hvernig rétt er að bregðast við mistökum annarra. Jósef var eldri sonurinn sem Jakob átti með Rakel. Hálfbræður hans tíu öfunduðu hann af því að Jakob hélt mikið upp á hann. Þess vegna seldu þeir hann í þrælkun. Jósef stóð sig vel í Egyptalandi og það leiddi til þess að hann varð næstæðsti ráðamaður í landinu mörgum árum síðar. Þegar hungursneyð skall á komu bræður Jósefs til Egyptalands til að kaupa mat en þekktu ekki bróður sinn. Jósef hefði getað beitt valdi sínu og hefnt sín á þeim fyrir það sem þeir höfðu gert honum. En hann brást ekki þannig við heldur lagði fyrir þá nokkurs konar próf til að kanna hvort þeir hefðu breyst. Þegar hann sá að þeir voru breyttir menn sagði hann þeim deili á sér. Hann sagði síðar: „Verið ... óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Í frásögunni er enn fremur sagt: „Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra.“ – 1. Mós. 50:21.

17. Hvað ætlarðu að gera þegar öðrum verður á?

17 En þar sem við erum öll ófullkomin skulum við muna að við sjálf móðgum kannski aðra líka. Ef við áttum okkur á að það hefur gerst ættum við að fylgja leiðsögn Biblíunnar og taka frumkvæðið og reyna að sættast. (Lestu Matteus 5:23, 24.) Við kunnum að meta að aðrir fyrirgefi okkur og því ættum við að reyna að gera það sama þegar þeir eiga í hlut. Í Kólossubréfinu 3:14 erum við hvött: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ Kristinn kærleikur „er ekki langrækinn,“ segir í 1. Korintubréfi 13:5. Jehóva fyrirgefur okkur ef við temjum okkur að fyrirgefa öðrum. Það er því ljóst að besta leiðin til að bregðast við mistökum annarra er að líkja eftir miskunn Jehóva við okkur þegar við gerum mistök. – Lestu Sálm 103:12-14.