Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júní 2016

Jehóva er leirkerasmiðurinn mikli

Jehóva er leirkerasmiðurinn mikli

„Drottinn ... vér erum leir, þú hefur mótað oss og allir erum vér handaverk þín.“ – JES. 64:7.

SÖNGVAR: 89, 26

1. Hvers vegna er Jehóva meiri en allir aðrir leirkerasmiðir?

Í NÓVEMBER 2010 voru boðnir níu milljarðar króna í kínverskan postulínsvasa frá 18. öld á uppboði í London. Leirkerasmiður getur greinilega búið til falleg og verðmæt meistaraverk úr jafn ódýru og algengu efni og leir. En enginn leirkerasmiður meðal manna kemst þó í hálfkvisti við Jehóva. Seint á sjötta sköpunardeginum mótaði hann fullkominn mann „af leiri jarðar“ og gerði hann færan um að endurspegla eiginleika skapara síns. (1. Mós. 2:7, Biblían 1981) Adam, þessi fullkomni maður sem Guð mótaði af leiri jarðar, var réttilega kallaður ,sonur Guðs‘. – Lúk. 3:38.

2, 3. Hvernig getum við líkt eftir iðrandi Ísraelsmönnum?

2 Guð hætti hins vegar að líta á Adam sem son sinn þegar hann gerði uppreisn gegn honum. Í aldanna rás hefur fjöldi afkomenda Adams þó stutt drottinvald Jehóva. (Hebr. 12:1) Með því að lúta skapara sínum í auðmýkt sýndu þeir að þeir völdu hann, en ekki Satan, sem föður sinn og leirkerasmið. (Jóh. 8:44) Hollusta þeirra við Guðs minnir á orðin sem Jesaja lagði iðrandi Ísraelsmönnum í munn: „Þú, Drottinn, ert faðir vor, vér erum leir, þú hefur mótað oss  og allir erum vér handaverk þín.“ – Jes. 64:7.

3 Allir sem tilbiðja Jehóva nú á tímum í anda og sannleika reyna líka að vera auðmjúkir og undirgefnir. Þeim finnst það mikill heiður að mega ávarpa Jehóva sem föður og vera eins og leir í höndum hans. Sérðu sjálfan þig sem mjúkan leir í höndum Jehóva og ertu fús til að leyfa honum að búa til úr þér verðmætt ker? Og sérðu líka trúsystkini þín sem ker í vinnslu sem Guð er enn þá að móta? Til að auðvelda þér að hafa rétt hugarfar skulum við ræða þrennt: Hvernig velur Jehóva þá sem hann vill móta? Hvers vegna mótar hann þá? Og hvernig fer hann að því?

JEHÓVA VELUR HVERJA HANN VILL MÓTA

4. Hvernig velur Jehóva þá sem hann laðar til sín? Nefndu dæmi.

4 Þegar Jehóva virðir mannfólkið fyrir sér horfir hann ekki á ytra útlit. Hann skoðar frekar hjartað, hinn innri mann. (Lestu 1. Samúelsbók 16:7b.) Þetta kom vel í ljós þegar Guð myndaði kristna söfnuðinn. Hann laðaði til sín og sonar síns marga sem virtust ekki eftirsóknarverðir frá mannlegum bæjardyrum séð. (Jóh. 6:44) Einn þeirra var faríseinn Sál – maður sem ,lastmælti, ofsótti og smánaði‘. (1. Tím. 1:13) En Jehóva „prófar hjörtun“ og leit ekki á Sál sem einskisnýtan leir. (Orðskv. 17:3) Hann sá öllu heldur að hægt var að móta úr honum verðmætt ker til að vitna fyrir ,heiðingjum, konungum og börnum Ísraels‘. (Post. 9:15) Guð valdi líka aðra til að móta sem „viðhafnarker“, þar á meðal fólk sem hafði verið drykkjumenn, þjófar og lifað siðlausu lífi. (Rómv. 9:21; 1. Kor. 6:9-11) Það leyfði Jehóva að móta sig þegar það fékk nákvæma þekkingu á orði hans og fór að trúa.

5, 6. Hvernig ættum við að líta á (a) fólk á svæðinu og af hverju? (b) trúsystkini okkar og af hverju?

5 Hvað getum við lært af þessu? Við treystum að Jehóva geti lesið hjörtun og laðað til sín þá sem hann vill. Það ætti að koma í veg fyrir að við dæmum aðra, bæði fólk á svæðinu og í söfnuðinum. Tökum Michael sem dæmi. „Þegar vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá mér,“ segir hann, „lokaði ég bara og lét sem þeir væru ekki til. Ég var mjög dónalegur. Seinna meir, við aðrar aðstæður, hitti ég fjölskyldu sem ég dáðist að vegna góðrar framkomu. Einn daginn brá mér illilega í brún – þau voru vottar Jehóva. Hegðun þeirra hvatti mig til að kanna af hverju ég hafði þessa fordóma. Ég uppgötvaði fljótt að afstaða mín var ekki byggð á staðreyndum heldur á sögusögnum og vanþekkingu.“ Michael þáði biblíunámskeið til að komast að hinu sanna. Hann tók síðar við sannleikanum og varð boðberi í fullu starfi.

6 Ef við viðurkennum að Jehóva sé að móta okkur getur það breytt því hvernig við lítum á trúsystkini okkar. Líturðu á þau eins og Guð gerir, ekki sem fullunnin ker heldur sem ker í vinnslu? Hann getur séð hinn innri mann og líka hvers konar manneskjur við getum orðið í höndum hans. Jehóva lítur þess vegna jákvætt á fólk og einblínir ekki á ófullkomleikann sem er aðeins um stundar sakir. (Sálm. 130:3) Við líkjum eftir honum með því að vera jákvæð í garð trúsystkina okkar. Við getum jafnvel unnið með leirkerasmiðnum mikla með því að styðja trúsystkini okkar þar sem þau eru að reyna að taka framförum  í trúnni. (1. Þess. 5:14, 15) Öldungarnir í söfnuðinum ættu að vera góð fyrirmynd á þessu sviði. – Ef. 4:8, 11-13.

HVERS VEGNA MÓTAR JEHÓVA OKKUR?

7. Hvers vegna kanntu að meta ögun Jehóva?

7 Þú hefur kannski heyrt einhvern segja að hann hafi ekki kunnað fyllilega að meta ögun foreldra sinna fyrr en hann sjálfur eignaðist börn. Þegar við verðum eldri og reyndari förum við kannski að sjá ögun í nýju ljósi – sem merki um kærleika. (Lestu Hebreabréfið 12:5, 6, 11.) Jehóva mótar okkur af þolinmæði af því að hann elskar okkur sem börn sín. Hann vill að við séum skynsöm og hamingjusöm og að við elskum hann sem föður. (Orðskv. 23:15) Hann vill ekki að við þjáumst og hann vill ekki heldur að við deyjum sem „reiðinnar börn“ en það er sá arfur sem við fengum frá Adam. – Ef. 2:2, 3, Biblían 1981.

8, 9. Hvernig kennir Jehóva okkur núna og hvernig heldur hann áfram að mennta okkur í framtíðinni?

8 Meðan við vorum „reiðinnar börn“ höfðum við marga slæma eiginleika, jafnvel dýrslega. En við breyttumst af því að Jehóva mótaði okkur og urðum frekar eins og lömb. (Jes. 11:6-8; Kól. 3:9, 10) Jehóva er að skapa ákveðið umhverfi þar sem hann mótar okkur. Við köllum það andlega paradís. Við finnum til öryggiskenndar þrátt fyrir að við búum í illum heimi. Þeir sem ólust upp á kærleikslausu heimili og í brotnum fjölskyldum fá loksins að kynnast sönnum kærleika. (Jóh. 13:35) Og við höfum lært að elska aðra. Síðast en ekki síst höfum við kynnst Jehóva og njótum nú föðurástar hans. – Jak. 4:8.

9 Í nýja heiminum fáum við að njóta andlegu paradísarinnar til fulls. Þá verður líka til bókstafleg paradís undir stjórn Guðsríkis. Á þessum tíma, þegar allt verður endurreist, heldur Jehóva áfram að móta jarðarbúa með því að mennta þá meira en við getum gert okkur í hugarlund núna. (Jes. 11:9) Auk þess verðum við fullkomin á huga og líkama og þá eigum við auðveldara með að skilja kennslu Jehóva og hlýða honum í einu og öllu. Verum því ákveðin í að halda áfram að leyfa Jehóva að móta okkur og sýna honum að við lítum á það sem merki um kærleika hans. – Orðskv. 3:11, 12.

HVERNIG MÓTAR JEHÓVA OKKUR?

10. Hvernig endurspeglaði Jesús þolinmæði og færni leirkerasmiðsins mikla?

10 Jehóva er eins og fær leirkerasmiður sem veit hvers konar „leir“ hann hefur í höndunum og mótar hann eftir því. (Lestu Sálm 103:10-14.) Hann hugsar um okkur sem einstaklinga og tekur tillit til veikleika okkar, takmarka og trúarþroska. Við getum lært af Jesú hvernig Jehóva lítur á ófullkomna þjóna sína. Stundum deildu postularnir hart um það hver væri mestur. Hvernig hefðir þú litið á þá? Sem hógværa og sveigjanlega? Jesús var ekki neikvæður í garð þeirra. Hann leiðbeindi þeim mildilega og með þolinmæði og var þeim góð fyrirmynd með því að vera auðmjúkur. Hann vissi að þannig væri hægt að móta þá. (Mark. 9:33-37; 10:37, 41-45; Lúk. 22:24-27) Eftir að Jesús var reistur upp og heilögum anda úthellt einbeittu postularnir sér að verkinu sem þeim hafði verið falið en ekki að stöðu sinni og frama. – Post. 5:42.

11. Hvernig var Davíð eins og mjúkur leir og hvernig getum við líkt eftir honum?

 11 Jehóva mótar þjóna sína nú á dögum fyrst og fremst með Biblíunni, heilögum anda og söfnuðinum. Biblían getur mótað okkur ef við lesum hana með ákveðið markmið í huga, hugleiðum efnið og biðjum Jehóva að hjálpa okkur að fara eftir því. „Ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum,“ skrifaði Davíð. (Sálm. 63:7) Hann skrifaði líka: „Ég lofa Drottin sem gefur mér ráð, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ (Sálm. 16:7) Davíð hugleiddi ráð Jehóva og lét þau móta innstu hugsanir sínar og tilfinningar, jafnvel þegar það var mjög erfitt. (2. Sam. 12:1-13) Davíð var auðsveipur og undirgefinn og er okkur góð fyrirmynd. Hugleiðir þú líka orð Guðs og lætur það hafa áhrif á innstu hugsanir þínar og tilfinningar? Geturðu gert það enn betur? – Sálm. 1:2, 3.

12, 13. Hvernig mótar Jehóva okkur með anda sínum og söfnuðinum?

12 Heilagur andi getur mótað okkur á marga vegu. Hann getur hjálpað okkur að líkja eftir persónuleika Jesú og þroska með okkur þá eiginleika sem mynda ávöxt andans. (Gal. 5:22, 23) Kærleikur er einn þeirra. Við elskum Guð og viljum hlýða honum og leyfa honum að móta okkur. Við vitum að boðorð hans eru ekki þung. Heilagur andi getur líka gefið okkur styrk til að standast mótandi áhrif heimsins og anda hans. (Ef. 2:2) Sem ungur maður var Páll postuli undir sterkum áhrifum stoltra trúarleiðtoga Gyðinga. En heilagur andi hjálpaði honum að breyta sér. Páll skrifaði síðar: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ (Fil. 4:13) Við skulum gera eins og Páll og biðja um heilagan anda. Jehóva svarar einlægum bænum auðmjúkra þjóna sinna. – Job. 22:29.

Jehóva notar öldungana til að móta okkur en við verðum að leggja okkar af mörkum. (Sjá 12. og 13. grein.)

 13 Jehóva notar söfnuðinn og umsjónarmenn hans til að móta hvert og eitt okkar. Ef öldungarnir taka eftir að við eigum við ákveðinn veikleika að stríða reyna þeir að hjálpa okkur. En þeir byggja ekki ráð sín á eigin hugmyndum. (Gal. 6:1) Þeir leita til Jehóva og biðja hann um skilning og visku. Síðan leita þeir í Biblíuna og ritin til að finna efni sem getur komið okkur að gagni. Þannig geta þeir sniðið ráðleggingar sínar að þörfum okkar. Líturðu á það sem merki um kærleika Guðs ef þeir koma til þín og bjóða fram vinsamlega aðstoð, til dæmis með ábendingu um klæðaburð? Ef þú bregst þannig við ertu eins og mjúkur leir í höndum Jehóva og hann getur mótað þig þér til gagns.

14. Hvernig sýnir Jehóva að hann virðir frjálsan vilja okkar þótt við séum eins og leir í höndum hans?

14 Ef við skiljum hvernig Jehóva mótar okkur getur það auðveldað okkur að eiga góð samskipti við trúsystkini. Við verðum þá líka jákvæðari gagnvart fólki á svæðinu, þar á meðal biblíunemendum okkar. Leirkerasmiður á biblíutímanum sótti ekki bara leir út í næstu námu og byrjaði strax að móta hann. Hann þurfti fyrst að meðhöndla leirinn, meðal annars fjarlægja steina og önnur óæskileg efni. Guð hjálpar að sama skapi þeim sem eru fúsir til að láta hann móta sig. Hann þvingar þá ekki til að gera breytingar en hann bendir þeim á réttlátar meginreglur sínar sem geta hjálpað þeim að „taka til“ hjá sér og gera nauðsynlegar breytingar af fúsum og frjálsum vilja.

15, 16. Hvernig sýna biblíunemendur að þeir vilji láta Jehóva móta sig? Lýstu með dæmi.

15 Tökum Tessie sem dæmi en hún er systir í Ástralíu. „Tessie tók greiðlega við því sem Biblían kennir,“ segir systirin sem kenndi henni. „En hún tók ekki miklum framförum í trúnni, hún sótti ekki einu sinni samkomur. Ég lagði málið fyrir Jehóva í bæn og ákvað að hætta að heimsækja hana. En þá gerðist svolítið ótrúlegt. Þegar ég hitti hana aftur, í síðasta skipti að ég hélt, opnaði hún hjarta sitt fyrir mér. Hún sagði að sér liði eins og hræsnara af því að hún hefði gaman af því að spila fjárhættuspil. En nú hafði hún tekið þá ákvörðun að hætta því.“

16 Stuttu seinna fór Tessie að sækja samkomur og þroska með sér kristna eiginleika, jafnvel þótt kunningjar hennar gerðu grín að henni. Systirin segir: „Áður en langt um leið lét Tessie skírast og gerðist síðan brautryðjandi þótt hún ætti ung börn.“ Það er greinilegt að þegar biblíunemendur byrja að „taka til“ hjá sér til að þóknast Guði nálgast hann þá og mótar svo úr verða verðmæt ker.

17. (a) Hvers vegna finnst þér gott að Jehóva skuli móta þig? (b) Hvað er rætt í næstu grein?

17 Enn þann dag í dag eru sumir leirmunir handunnir af mikilli natni. Á sama hátt mótar leirkerasmiðurinn mikli okkur af mikilli þolinmæði með því að gefa okkur ráð og fylgjast með viðbrögðum okkar. (Lestu Sálm 32:8.) Finnurðu fyrir persónulegum áhuga Jehóva? Sérðu hvernig hann mótar þig af mildi og umhyggju? Hvaða eiginleika geturðu þá þroskað með þér til að vera áfram eins og mjúkur leir í höndum Jehóva? Hvað ættirðu að forðast til að verða ekki eins og harður og óþjáll leir? Og hvernig geta foreldrar unnið náið með Jehóva til að móta börnin sín? Í næstu grein er rætt um þessi mál.