Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júlí 2016

Þakklát fyrir einstaka góðvild Guðs

Þakklát fyrir einstaka góðvild Guðs

„Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan.“ – JÓH. 1:16.

SÖNGVAR: 95, 13

1, 2. (a) Endursegðu dæmisögu Jesú um vínbóndann. (b) Hvernig lýsir dæmisagan örlæti og einstakri góðvild bóndans?

VÍNBÓNDI nokkur gekk á torgið snemma morguns og réð verkamenn til að vinna í víngarði sínum. Mennirnir féllust á launin sem hann bauð og héldu til vinnu sinnar. En bóndann vantaði fleiri verkamenn og fór því nokkrum sinnum yfir daginn á torgið til að ráða fleiri og samdi við þá um sanngjarnt kaup, einnig þá sem hann réð síðla dags. Um kvöldið kallaði hann verkamennina saman og greiddi þeim launin. Allir fengu sömu laun hvort sem þeir höfðu unnið daglangt eða aðeins eina klukkustund. Þegar þeir sem hann réð að morgni áttuðu sig á því kvörtuðu þeir. Vínbóndinn svaraði: ,Sömdum við ekki um ákveðið kaup? Má ég ekki greiða öllum verkamönnum mínum það sem ég vil? Sérðu ofsjónum yfir því að ég er örlátur?‘ – Matt. 20:1-15.

2 Dæmisaga Jesú minnir á einn af eiginleikum Jehóva sem er oft nefndur í Biblíunni. Það er einstök góðvild hans eða „náð“ eins og gríska orðið er oftast þýtt í íslenskum biblíum. [1] (Lestu 2. Korintubréf 6:1.) Verkamennirnir,  sem unnu aðeins eina klukkustund, virtust ekki verðskulda heil daglaun en vínbóndinn var örlátur og sýndi þeim einstaka góðvild. Biblíufræðingur nokkur segir um þetta gríska orð: „Hugsunin í orðinu er óverðskulduð og rausnarleg gjöf – gjöf sem er gefin án þess að viðtakandi hafi unnið til hennar eða verðskuldi hana.“

RAUSNARLEG GJÖF GUÐS

3, 4. Hvers vegna sýnir Jehóva öllum mönnum einstaka góðvild og hvernig gerir hann það?

3 „Guð gaf mér ... náð með krafti máttar síns,“ segir Páll postuli. (Ef. 3:7) Hvers vegna og hvernig gefur Jehóva þessa gjöf? Ef við stæðumst allar kröfur Jehóva myndum við verðskulda góðvild hans. En við gerum það ekki. Salómon konungur skrifaði því: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Préd. 7:20) Páll postuli tók í sama streng og sagði: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ og „laun syndarinnar er dauði“. (Rómv. 3:23; 6:23a) Það er það sem við verðskuldum.

4 Jehóva sýndi syndugum mönnum hins vegar óviðjafnanlega góðvild og kærleika. Hann gaf okkur bestu gjöf sem hugsast getur þegar hann sendi „einkason sinn“ til jarðar til að deyja fyrir okkur. (Jóh. 3:16) Páll skrifaði að Jesús væri „,krýndur vegsemd og heiðri‘ vegna dauðans sem hann þoldi. Fyrir Guðs náð skyldu allir hljóta blessun af dauða hans.“ (Hebr. 2:9) Já, „náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum“. – Rómv. 6:23b.

5, 6. Hvaða áhrif hefur það á okkur að láta (a) syndina fara með völdin? (b) einstaka góðvild Guðs fara með völdin?

5 Hvernig urðu mennirnir syndugir og dauðlegir? Í Biblíunni er talað um að „misgjörð hins eina manns“, Adams, hafi leitt til þess að „dauðinn tók völd“ yfir afkomendum hans. (Rómv. 5:12, 14, 17) Til allrar hamingju getum við þó valið að láta ekki syndina ríkja yfir okkur. Með því að trúa á lausnarfórn Jesú leyfum við einstakri góðvild Guðs að ríkja í lífi okkar. Hvernig þá? „Að sama skapi sem syndin óx varð náðin ríkulegri. Eins og syndin ríkti með dauðanum á náðin að ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs í Jesú Kristi.“ – Rómv. 5:20, 21.

6 Þó að við séum syndarar þurfum við ekki sætta okkur við það hlutskipti að láta syndina fara með völdin í lífi okkar. Þegar við látum undan syndinni biðjum við Jehóva að fyrirgefa okkur. Páll skrifaði kristnum mönnum: „Synd skal ekki ríkja yfir ykkur þar eð þið eruð ekki undir lögmálinu heldur undir náðinni.“ (Rómv. 6:14) Við látum sem sagt einstaka góðvild Guðs fara með völdin í lífi okkar. Hvaða áhrif hefur það? Páll svarar: „Náð Guðs ... kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ – Tít. 2:11, 12.

EINSTÖK GÓÐVILD GUÐS BIRTIST Á MARGVÍSLEGAN HÁTT

7, 8. Hvað merkir það að einstök góðvild Jehóva birtist á margvíslegan hátt? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

7 Pétur postuli skrifaði: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið  þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pét. 4:10) Hvað merkir þetta? Það merkir að Jehóva getur gert okkur fær um að standast hvaða prófraun sem við verðum fyrir, óháð eðli hennar. (1. Pét. 1:6) Í einstakri góðvild sinni á Jehóva alltaf svar við öllum prófraunum sem við kunnum að verða fyrir.

8 Einstök góðvild Jehóva birtist á marga vegu. Jóhannes postuli skrifaði: „Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan.“ (Jóh. 1:16) Góðvild Jehóva í sínum mörgu myndum hefur alls konar blessun í för með sér. Lítum á nokkur dæmi.

9. Hvernig njótum við góðs af einstakri góðvild Jehóva og hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir hana?

9 Við fáum syndir okkar fyrirgefnar. Í góðvild sinni fyrirgefur Jehóva syndir okkar, svo framarlega sem við iðrumst og berjumst af krafti gegn syndugum tilhneigingum okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:8, 9.) Miskunn Guðs ætti að fylla okkur þakklæti og vera okkur hvatning til að lofa hann. Páll skrifaði andasmurðum trúsystkinum sínum: „[Jehóva] hefur frelsað okkur frá valdi myrkursins og flutt okkur yfir í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum við endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar.“ (Kól. 1:13, 14) Með því að fá syndir okkar fyrirgefnar eigum við kost á að njóta margra annarra blessana.

10. Hvað eigum við vegna einstakrar góðvildar Guðs?

10 Við eigum frið við Guð. Við vorum óvinir Guðs frá fæðingu af því að við erum syndug. Páll viðurkenndi að Guð hefði ,tekið okkur í sátt með dauða sonar síns meðan við vorum óvinir hans‘. (Rómv. 5:10) Þar sem Jehóva hefur tekið okkur í sátt getum við átt frið við hann. Páll setur þetta í samband við einstaka góðvild hans og segir: „Réttlætt af trú höfum við [andasmurðir bræður Krists] því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í.“ (Rómv. 5:1, 2) Hvílík blessun!

Einstök góðvild Guðs birtist með ýmsum hætti: Að fá að heyra fagnaðarerindið. (Sjá 11. grein.)

11. Hvernig beina hinir andasmurðu ,öðrum sauðum‘ til réttlætis?

11 Okkur hefur verið beint til réttlætis. Öll erum við ranglát í eðli okkar. Daníel spámaður sagði hins vegar að „hinir vitru“, það er að segja hinir andasmurðu, myndu „beina mörgum til réttlætis“ þegar drægi að endalokum þessa heims. (Lestu Daníel 12:3.) Með boðun sinni og kennslu hafa þeir hjálpað ,öðrum sauðum‘ í milljónatali að standa réttlátir frammi fyrir Jehóva. (Jóh. 10:16) En það hefur aðeins verið hægt vegna einstakrar góðvildar hans. Páll segir: „Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.“ – Rómv. 3:23, 24.

Að mega biðja. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig er bænin tengd einstakri góðvild Guðs?

12 Við fáum að ganga fyrir hásæti Guðs í bæn. Í góðvild sinni veitir Jehóva okkur þá blessun að mega ganga fram fyrir himneskt hásæti sitt í bæn. Páll talar um „hásæti Guðs náðar“ og hvetur okkur til að ganga fram fyrir það með „djörfung“. (Hebr. 4:16a) Jehóva hefur veitt okkur þessa blessun fyrir  milligöngu sonar síns en „á honum byggist djörfung okkar“, segir Páll. Hann bætir við: „Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði.“ (Ef. 3:12) Það er einstakt merki um góðvild Guðs að hann skuli veita okkur greiðan aðgang að sér í bæn.

Að fá hjálp þegar við erum hjálparþurfi. (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig getur góðvild Guðs hjálpað okkur „þegar við erum hjálparþurfi“?

13 Við fáum hjálp þegar við erum hjálparþurfi. Páll hvetur okkur til að leita óhikað til Jehóva í bæn til að við „finnum ... miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi“. (Hebr. 4:16b) Þegar álag og erfiðleikar lífsins leggjast þungt á okkur getum við alltaf ákallað Jehóva og beðið hann að hjálpa okkur í miskunn sinni. Hann bænheyrir okkur þótt óverðug séum, oft fyrir atbeina trúsystkina. „Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gert mér?“ – Hebr. 13:6.

14. Hvaða áhrif hefur einstök góðvild Jehóva á hjörtu okkar?

14 Jehóva huggar hjörtu okkar. Það er mikil blessun að Jehóva skuli í góðvild sinni hugga okkur þegar við erum hrjáð í hjörtum okkar. (Sálm. 51:19) Páll skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku þegar þeir voru ofsóttir: „Sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.“ (2. Þess. 2:16, 17) Það er ákaflega hughreystandi að finna fyrir umhyggju Jehóva sem er sprottin af einstakri góðvild hans.

15. Hvaða von höfum við, þökk sé einstakri góðvild Guðs?

15 Við eigum von um eilíft líf. Þar sem við erum syndug hefðum við enga von ef við hefðum ekki Guð. (Lestu Sálm 49:8, 9.) Jehóva gefur okkur hins vegar unaðslega von. Jesús sagði fylgjendum  sínum: „Sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf.“ (Jóh. 6:40) Vonin um eilíft líf er gjöf frá Guði og skýrt merki um einstaka góðvild hans. Páll fann sterkt fyrir því og skrifaði: „Náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.“ – Tít. 2:11.

MISNOTUM EKKI GÓÐVILD GUÐS

16. Hvernig reyndu sumir hinna frumkristnu að misnota góðvild Guðs?

16 Þó að einstök góðvild Jehóva hafi margs konar blessun í för með sér megum við ekki vera svo ósvífin að ætlast til að hann fyrirgefi hvað sem er. Sumir frumkristnir menn reyndu að „misnota náð Guðs ... til taumleysis“. (Júd. 4) Þetta ótrúa fólk hélt greinilega að það gæti syndgað og síðan gengið að því sem gefnum hlut að Jehóva fyrirgæfi. Ekki bætti úr skák að það reyndi að tæla trúsystkini sín til að líkja eftir skammarlegri hegðun sinni. Hver sem gerir eitthvað þessu líkt „smánar anda náðarinnar“. – Hebr. 10:29.

17. Við hverju varaði Pétur?

17 Satan hefur talið sumum í söfnuðinum trú um að þeir geti notfært sér miskunn Guðs og syndgað án þess að fá refsingu. Jehóva er vissulega fús til að fyrirgefa iðrandi syndurum. Hann ætlast hins vegar til þess að við berjumst af krafti gegn syndugum tilhneigingum okkar. Hann innblés Pétri að skrifa: „Fyrst þið vitið þetta fyrir fram, þið elskuðu, þá hafið gát á ykkur að þið látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu ykkar. Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ – 2. Pét. 3:17, 18.

SKYLDUR SEM FYLGJA GÓÐVILD GUÐS

18. Hvaða skyldur hvíla á okkur þar sem við njótum einstakrar góðvildar Jehóva?

18 Við höfum fengið að njóta góðvildar Jehóva og erum þakklát fyrir. Við skuldum honum að nota það sem hann hefur gefið okkur til að heiðra hann og til að gera náunganum gott. Á hvaða vegu? Páll svarar: „Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið ... sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það ... og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.“ (Rómv. 12:6-8) Jehóva hefur sýnt okkur einstaka góðvild. Það leggur okkur þá skyldu á herðar að vera dugleg að boða fagnaðarerindið, fræða aðra um Biblíuna, hvetja trúsystkini og fyrirgefa þeim sem gera eitthvað á hlut okkar.

19. Um hvaða skyldu er rætt í næstu grein?

19 Þar sem Guð hefur sýnt okkur ómældan kærleika ætti okkur að langa til að gera allt sem við getum til að „bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð“. (Post. 20:24) Rætt er ítarlega um þessa skyldu okkar í næstu grein.

^ [1] (2. grein.) Þegar orðið „náð“ kemur fyrir í biblíutextum í þessari grein og þeirri næstu er átt við einstaka góðvild Guðs. Meginhugsunin í gríska orðinu kharis er geðþekkur og aðlaðandi. Orðið er oft notað um vinsamlega gjöf eða að gefa með hlýlegum hætti. Þegar átt er við einstaka góðvild Guðs lýsir orðið gjöf sem Guð gefur af örlæti sínu án þess að vænta endurgjalds. Orðið lýsir þess vegna gjafmildi Guðs, ríkulegum kærleika og góðvild gagnvart mönnunum. Gríska orðið má einnig þýða „velvild“ og „hugulsöm gjöf“. Hún er gefin án þess að þiggjandinn hafi unnið til hennar eða verðskuldi hana. Eina hvötin, sem býr að baki gjöfinni, er örlæti gjafarans.