Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ENGLAR – ERU ÞEIR TIL? HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Hver er sannleikurinn um engla?

Hver er sannleikurinn um engla?

Langar þig að vita sannleikann um englana – hverjir þeir eru, hvernig þeir urðu til og hvað þeir gera? Biblían, innblásið orð Guðs, gefur áreiðanlegustu svörin. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvað segir hún okkur um engla?

  • Guð er andi og englarnir eru líka ósýnilegar andaverur sem ,hafa ekki hold og bein‘. Trúir englar búa á himnum og eru í návist Guðs sjálfs. – Lúkas 24:39; Matteus 18:10; Jóhannes 4:24.

  • Englar hafa stöku sinnum tekið á sig mannslíkama til að sinna verkefnum frá Guði hér á jörð og síðan afholdgast að verki loknu. – Dómarabókin 6:11-23; 13:15-20.

  • Í frásögum Biblíunnar eru englar alltaf kynntir sem karlkyns og hafa alltaf tekið á sig karlmannslíkama. Þó eru þeir hvorki karlkyns né kvenkyns. Þeir giftast hvorki né fjölga sér. Þeir voru heldur ekki fyrst manneskjur á jörðinni – hvorki sem börn né fullorðnir – sem urðu síðan englar. Jehóva skapaði englana eins og þeir eru og þess vegna eru þeir í Biblíunni kallaðir „synir Guðs“. – Jobsbók 1:6; Sálmur 148:2, 5.

  • Í Biblíunni er talað um ,tungur manna og engla‘ sem sýnir að andaverurnar eiga sér tungumál. Þó að Guð hafi látið engla eiga samskipti við menn leyfir hann okkur ekki að tilbiðja englana eða biðja til þeirra. – 1. Korintubréf 13:1; Opinberunarbókin 22:8, 9.

  • Englarnir eru tugþúsundir tugþúsunda, ef til vill margir milljarðar. – Daníel 7:10; Opinberunarbókin 5:11.

  • Englar eru ,voldugar hetjur‘ – miklu máttugri en menn – og þeir eru gæddir ofurmannlegum vitsmunum. Ljóst er að þeir geta ferðast á ógnarhraða, langt fram yfir náttúrulögmál efnisheimsins. – Sálmur 103:20; Daníel 9:20-23.

  • Þrátt fyrir yfirburða visku og mátt englanna hafa þeir sín takmörk og þeir vita ekki allt. – Matteus 24:36; 1. Pétursbréf 1:12.

  • Englarnir voru skapaðir með eigin persónuleika, guðlega eiginleika og frjálsan vilja. Þeir geta því valið að breyta rétt eða rangt. Því miður kusu sumir englar að gera uppreisn gegn Guði. – Júdasarbréfið 6.