Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ENGLAR – ERU ÞEIR TIL? HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Eru til illir englar?

Eru til illir englar?

Illir englar eru til. En hvernig urðu þeir til? Guð skapaði englana með frjálsan vilja. Skömmu eftir að fyrstu mannhjónin, Adam og Eva, voru sköpuð misnotaði fullkominn engill frjálsan vilja sinn og hvatti til uppreisnar á jörðinni. Honum tókst að fá Adam og Evu til að rísa gegn Guði. (1. Mósebók 3:1-7; Opinberunarbókin 12:9) Biblían nafngreinir ekki þennan engil eða tilgreinir hvaða stöðu hann hafði á himnum áður en hann gerði uppreisn. En eftir uppreisnina er hann í Biblíunni réttilega kallaður Satan sem merkir „andstæðingur“, og djöfull sem merkir „rógberi“. – Matteus 4:8-11.

Því miður var þetta ekki síðasta uppreisnin. Englar „yfirgáfu eigin bústað“ í himneskri fjölskyldu Guðs á dögum Nóa. Ótiltekinn fjöldi engla kom niður til jarðar og holdgaðist til að stunda siðspillt líferni sem var fjarri því sem Guð ætlaðist fyrir með þá. – Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:1-4; 1. Pétursbréf 3:19, 20.

Hvað varð um þessa illu engla? Þegar Guð hreinsaði jörðina með heimsflóði afholdguðust þeir og sneru aftur yfir á andlegt tilverusvið. Guð leyfði þessum föllnu englum hins vegar ekki að fá ,tign sína‘ sem þeir höfðu áður. Öllu heldur steypti hann þeim niður „í myrkrahella“, það er að segja í andlegt myrkur. (Júdasarbréfið 6; 2. Pétursbréf 2:4) Þessir illu andar hafa selt sig á vald Satans djöfulsins, „höfðingja illra anda“, sem „tekur á sig ljósengilsmynd“. – Matteus 12:24; 2. Korintubréf 11:14.

Biblían kennir að himnesk stjórn Messíasar hafi verið stofnsett árið 1914. * Í kjölfar þessa afdrifaríka atburðar var Satan og englum hans úthýst af himnum og athafnasvið þeirra takmarkað við jörðina. Stjórnlaus illska og gróft siðleysi um allan heim eru merki um spillandi áhrif þessara hefnigjörnu illu anda. – Opinberunarbókin 12:9-12.

En aukin siðspilling og skelfilegt ofbeldi staðfesta að ógnarstjórn þeirra er brátt á enda. Innan tíðar verða þessir valdaræningjar teknir úr umferð. Þegar ríki Guðs hefur farið með stjórn yfir jörðinni í þúsund ár fá þessir illu andar eitt stutt tækifæri að lokum til að reyna mannkynið. Síðan verður þeim tortímt endanlega. – Matteus 25:41; Opinberunarbókin 20:1-3, 7-10.

^ gr. 6 Nánari upplýsingar um ríki Guðs má finna í 8. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.jw.org/is.