Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ENGLAR – ERU ÞEIR TIL? HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Geta englar haft áhrif á okkur?

Geta englar haft áhrif á okkur?

Sunnudag nokkurn fóru Kenneth og Filomena, sem búa í Curaçao, í heimsókn til hjóna sem þau aðstoðuðu við biblíunám.

Kenneth segir: „Við komum að húsinu lokuðu og bíllinn var hvergi sjáanlegur. En eitthvað fékk mig samt til að hringja í síma húsmóðurinnar.“

Konan svaraði í símann og sagði að maðurinn væri í vinnunni. En þegar hún fékk að vita að Kenneth og Filomena voru fyrir utan kom hún til dyra og bauð þeim inn.

Þau sáu strax að hún hafði verið að gráta. Þegar Kenneth hóf námsstundina með bæn fór hún aftur að gráta. Þau spurðu hana vingjarnlega hvað væri að.

Konan sagði þeim að hún hefði ákveðið að taka líf sitt þennan dag og var að skrifa manninum sínum kveðjubréf þegar símhringingin truflaði hana. Hún sagði þeim að hún væri að glíma við þunglyndi og þess vegna sýndu þau henni nokkur uppörvandi vers úr Biblíunni. Þessi hvatning bjargaði lífi hennar.

„Við þökkuðum Jehóva fyrir að leyfa okkur að hjálpa þessari örvæntingarfullu konu,“ segir Kenneth, „og sérstaklega fyrir að fá okkur til að hringja í hana – kannski fyrir milligöngu engils eða með hjálp heilags anda.“ *

Er rökrétt af Kenneth og Filomenu að trúa því að Guð hafi gripið inn í gang mála, annaðhvort með heilögum anda sínum, það er að segja starfskrafti, eða fyrir milligöngu engils? Eða var það bara heppileg tilviljun að Kenneth skyldi hringja í konuna á réttum tíma?

Við getum ekki fullyrt það. Þó vitum við að Guð notar engla til að aðstoða fólk í andlegum málum. Til dæmis segir í Biblíunni að Guð hafi sent engil til að beina trúboðanum Filippusi til eþíópísks hirðmanns sem leitaðist við að skilja orð Guðs. – Postulasagan 8:26-31.

Mörg trúarbrögð halda á lofti trú á yfirnáttúrulegar andaverur. Sumar þeirra eru sagðar vera góðviljaðir englar sem framkvæma skipanir Guðs eða eru verndarenglar. Margir trúa að englar séu til og að þeir hafi bein áhrif á líf okkar. En það eru líka margir sem trúa ekki að englar séu til.

Eru englar til og hvaðan koma þeir þá? Hver er sannleikurinn um engla? Geta þeir haft áhrif á okkur? Skoðum málið.

^ gr. 8 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. – 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.