Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er heimur án ofbeldis mögulegur?

Er heimur án ofbeldis mögulegur?

Hefur þú eða einhver úr fjölskyldu þinni verið beittur ofbeldi? Hefurðu ástæðu til að óttast að það hendi þig? Sagt hefur verið að ofbeldi sé „vaxandi ógn við lýðheilsu í heiminum“. Lítum á nokkur dæmi.

HEIMILIS- OG KYNFERÐISOFBELDI: Að sögn Sameinuðu þjóðanna hefur „þriðja hver kona einhvern tímann á ævinni orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hendi maka“. Það er dapurlegt en „áætlað er að fimmta hver kona í heiminum verði fórnarlamb nauðgunar eða tilraunar til nauðgunar“.

OFBELDI Á ALMANNAFÆRI: Að því er fréttir herma eru meira en 30.000 starfandi glæpaklíkur í Bandaríkjunum. Í Suður-Ameríku hefur næstum þriðji hver einstaklingur kært ofbeldi sem hann hefur orðið fyrir.

MORÐ: Á einu ári, ekki alls fyrir löngu, er talið að hátt í hálf milljón manns hafi verið myrt en það eru fleiri en féllu í stríðum á því ári. Hæsta meðaltal morða var í sunnanverðri Afríku og Mið-Ameríku en það var fjórfalt hærra en meðaltalið á heimsvísu. Á einu ári voru yfir 100.000 manns drepnir í Mið- og Suður-Ameríku og um 50.000 í Brasilíu einni saman. Er hægt að finna varanlega lausn á ofbeldi?

ER HÆGT AÐ STÖÐVA OFBELDIÐ?

Hvers vegna er ofbeldi svona útbreitt? Margar ástæður hafa verið gefnar fyrir því. Til dæmis að spenna eykst meðal fólks vegna þess að því er mismunað félagslega og fjárhagslega. Virðingarleysi fyrir lífi annarra er útbreitt. Fólk misnotar áfengi og neytir fíkniefna. Börn verða vitni að ofbeldi hjá fullorðnum. Og auk alls þessa sleppa ofbeldismenn oft við refsingu.

Að vísu hefur mönnum tekist að halda aftur af ofbeldinu á sumum stöðum í heiminum. Fréttir herma að í hinni fjölmennu borg São Paulo í Brasilíu hafi morðum fækkað um nálægt 80 af hundraði á síðasta áratug. Þó eru alls konar ofbeldisglæpir gríðarlega algengir þar í borg og um það bil 10 morð eru framin á hverja 100.000 íbúa. Hvernig er hægt að binda enda á ofbeldi í eitt skipti fyrir öll?

Þegar öllu er á botninn hvolft þarf viðhorf fólks og hegðun að breytast til að heimurinn losni endanlega undan ofbeldi. Þeir sem eru ofbeldishneigðir þurfa að láta eiginleika eins og dramb, ágirnd og sjálfselsku víkja fyrir kærleika, virðingu og umhyggju fyrir öðrum.

Hvað getur fengið fólk til að gera svo stórtækar breytingar? Hugleiddu hvað Biblían kennir:

  • „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:3.

  • „Að óttast Drottin er að hata hið illa.“ – Orðskviðirnir 8:13.

Kærleikur til Guðs og ótti við að vanþóknast honum  getur fengið þá sem eru ofbeldisfullir til að breyta sér – ekki aðeins á yfirborðinu heldur til að gera gagngerar breytingar á persónuleika sínum. Höfum við dæmi um það?

Alex * hefur setið í fangelsi í Brasilíu í 19 ár fyrir líkamsárásir. Hann gerðist vottur Jehóva árið 2000 eftir að hafa kynnt sér Biblíuna með vottunum. Hefur Alex í raun snúið baki við ofbeldisfullu líferni? Já og hann sér innilega eftir öllu því slæma sem hann gerði. Hann segir: „Ég elska Guð fyrir að leyfa mér að finna að hann hefur fyrirgefið mér að fullu. Þakklæti mitt til Jehóva og elskan til hans hefur hjálpað mér að snúa við blaðinu.“

César, sem býr einnig í Brasilíu, stundaði innbrot og vopnuð rán í 15 ár. Hvað fékk hann til að breyta sér? Vottar Jehóva töluðu við César á meðan hann sat í fangelsi. Hann fór líka að kynna sér Biblíuna. Hann segir: „Í fyrsta sinn á ævinni fann ég að lífið hafði tilgang. Ég fór að elska Guð. Ég lærði líka að óttast hann en það er heilnæmur ótti við að snúa aftur til fyrra lífernis og særa með því Jehóva Guð. Ég vildi ekki vera vanþakklátur Guði sem hafði verið mér svo góður. Kærleikurinn til Guðs og óttinn við að vanþóknast honum fékk mig til að breyta mér.“

Kynntu þér hvernig hægt verður að lifa í heimi sem verður laus við ofbeldi.

Hvað sýna þessar frásögur okkur? Að Biblían býr yfir mætti til að gerbreyta lífi fólks með því að breyta hugarfari þess. (Efesusbréfið 4:23) Alex, sem minnst er á fyrr í þessari grein, segir: „Það sem ég lærði af Biblíunni virkaði eins og hreinsandi vatn á mig. Smátt og smátt hreinsaði það slæmar hugsanir úr huga mínum og gerði mig hreinan. Ég losnaði við hugsanir sem ég hélt að ég gæti aldrei losnað við.“ Þegar við fyllum hugann með hreinum boðskap Biblíunnar getur hann hreinsað okkur af illsku. Orð Guðs hefur hreinsunarmátt. (Efesusbréfið 5:26) Þeir sem eru grimmir og eigingjarnir geta þannig breytt hegðun sinni og orðið góðviljaðir og friðsamir. (Rómverjabréfið 12:18) Þeir eignast friðsamt líf og innri ró með því að fylgja frumreglum Biblíunnar. – Jesaja 48:18.

Yfir átta milljónir votta Jehóva, í 240 löndum, hafa komist að því hvernig hægt er að lifa í friði. Menn og konur af öllum kynþáttum og þjóðfélagsstigum og með ólíkan bakgrunn hafa lært að elska og óttast Guð. Þau elska einnig hvert annað og lifa friðsamlega í alþjóðlegu bræðrafélagi. (1. Pétursbréf 4:8) Þau eru lifandi sönnun þess að heimur án ofbeldis er mögulegur.

HEIMUR ÁN OFBELDIS VERÐUR BRÁÐUM AÐ VERULEIKA

Biblían lofar því að Guð útrými bráðlega öllu ofbeldi af jörðinni. Þessi ofbeldisfulli heimur á fyrir höndum dóm Guðs þegar „óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast“. (2. Pétursbréf 3:5-7) Ofbeldisseggir fá þá ekki framar að valda fólki þjáningum. Hvernig getum við vitað með vissu að Guð vilji skerast í leikinn og útrýma ofbeldinu?

Guð „hatar þann sem elskar ofríki“, segir í Biblíunni. (Sálmur 11:5) Skaparinn hefur mætur á friði og réttlæti. (Sálmur 33:5; 37:28) Þess vegna umber hann ekki ofbeldisfullt fólk að eilífu.

Nýr friðsamur heimur er fram undan. (Sálmur 37:11; 72:14) Við hvetjum þig til að kynna þér hvernig hægt er að fá að lifa í heimi sem verður laus við ofbeldi.

^ gr. 14 Nöfnum er breytt.