Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spádómar sem hafa ræst

Spádómar sem hafa ræst

Fyrr í þessu blaði var vísað í söguna af því er véfréttin í Delfí villti um fyrir Krösusi sem varð til þess að hann beið ósigur fyrir Persakonungi. Í Biblíunni er hins vegar stórmerkilegur spádómur sem tengist Persakonungi og uppfylltist í smáatriðum.

Hebreski spámaðurinn Jesaja nefndi Kýrus á nafn og lýsti hvernig hann myndi sigra hina miklu borg Babýlon. Hann spáði því um það bil 200 árum fyrir fram – löngu áður en Kýrus fæddist.

Jesaja 44:24, 27, 28: „Svo segir Drottinn ... Ég segi við hafið: ,Þorna þú upp, ég þurrka upp ár þínar.‘ Ég segi við Kýrus: ,Þú ert hirðir minn,‘ allt, sem mér þóknast, framkvæmir hann með því að segja við Jerúsalem: ,Þú verður endurreist og grunnur musterisins lagður.‘“

Að sögn gríska sagnfræðingsins Heródótosar veitti her Kýrusar Efratfljóti í annan farveg, en fljótið rann í gegnum Babýlon. Með þessu herbragði Kýrusar gátu hermenn hans komist inn í borgina eftir árfarveginum. Þegar Kýrus hafði sigrað borgina frelsaði hann Gyðingana sem voru þar í ánauð. Hann leyfði þeim að snúa heim og endurbyggja Jerúsalem sem hafði verið lögð í rúst 70 árum áður.

Jesaja 45:1: „Svo segir Drottinn við sinn smurða, Kýrus, sem ég hef tekið í hægri höndina á til að leggja undir hann þjóðir, ræna konunga vopnum til að opna hlið fyrir honum svo að borgarhlið verði ekki lokuð.“

Persar komust inn í borgina um stórt tvöfalt hlið á borgarveggnum sem menn höfðu skilið eftir opið í kæruleysi. Ef Babýloníumenn hefðu vitað af ráðabruggi Kýrusar hefðu þeir getað lokað öllum hliðum sem sneru að fljótinu. En nú var borgin varnarlaus.

Þessi stórmerkilegi spádómur er aðeins einn af fjölmörgum spádómum Biblíunnar sem rættust nákvæmlega. * Ólíkt spám manna, sem oft eru eignaðar falsguðum þeirra, koma spádómar Biblíunnar frá honum sem sagði: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið.“ – Jesaja 46:10.

 Aðeins hinn sanni Guð, sem heitir Jehóva, * getur fullyrt slíkt. Nafnið er talið merkja „hann lætur verða“ og vísar til þess að hann geti séð fyrir atburði í framtíðinni og haft áhrif á þá í samræmi við vilja sinn. Við getum því verið fullviss um að hann standi alltaf við það sem hann lofar.

SPÁDÓMAR SEM ERU AÐ UPPFYLLAST

Langar þig að vita hvað spádómar Biblíunnar segja um okkar tíma? Fyrir um 2.000 árum spáði Biblían að „örðugar tíðir“ yrðu „á síðustu dögum“. Síðustu dögum hvers? Ekki síðustu dögum jarðarinnar eða mannkynsins heldur þeirra átaka, þjáninga og kúgunar sem hafa þjakað mannkynið um þúsundir ára. Skoðum nokkra af þeim spádómum sem lýsa „síðustu dögum“.

2Tímóteusarbréf 3:1-5: „Á síðustu dögum ... verða [menn] sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar.“

Finnst þér þessi hegðun ekki æ meira áberandi í fari fólks? Eru ekki margir nú á dögum sjálfselskir, fégjarnir og láta stjórnast af stolti? Hefurðu tekið eftir að fólk er orðið ósveigjanlegra og kröfuharðara? Þú hefur örugglega tekið eftir hve algengt er að börn séu óhlýðin foreldrum sínum og að fólk elski skemmtanir meira en Guð. Og ástandið versnar dag frá degi.

Matteus 24:6, 7: „Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi ... Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“

Talið er að meira en 100 milljónir manna hafi dáið í styrjöldum og hernaðarátökum síðan 1914 en það er meira en íbúafjöldi margra ríkja. Hugsaðu þér öll tárin, sorgina og þjáningarnar á bak við þessa gríðarlega háu tölu. Hefur reynslan kennt þjóðum að hætta að heyja stríð?

Matteus 24:7: „Þá verður hungur.“

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna segir: „Þó að framleiddur sé nægilega mikill matur í heiminum til að brauðfæða alla fara 815 milljónir manna svangir í rúmið á hverju kvöldi. Það er níundi hver jarðarbúi. Enn fleiri – þriðjungur jarðarbúa – þjást af vannæringu af einhverju tagi.“ Talið er að um þrjár milljónir barna deyi úr hungri á ári hverju.

Lúkas 21:11: „Þá verða landskjálftar miklir.“

Árlega verða um 50.000 jarðskjálftar sem eru nógu öflugir til að menn finni fyrir þeim og um 100 þeirra valda talsverðum skemmdum á byggingum. Um það bil árlega verður einn mjög stór jarðskjálfti. Áætlað hefur verið að jarðskjálftar hafi kostað 471.000 manns lífið á árunum 1975 til 2000.

Matteus 24:14: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“

Vottar Jehóva eru yfir átta milljónir og þeir boða fagnaðarerindið um ríki Guðs í um 240 löndum um allan heim. Þeir boða fagnaðarerindið í stórborgum og afskekktum þorpum, í frumskógum og upp til fjalla. Þegar boðuninni er lokið að því marki sem Guð vill „mun endirinn koma,“ segir spádómurinn. Hvað þýðir það? Þá verður endir á stjórn manna og upphaf stjórnar Guðs. Hvaða loforð munu rætast undir stjórn Guðsríkis? Haltu áfram lestrinum til að fá svar við því.

^ gr. 9 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.