Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þín framtíð er þitt val

Þín framtíð er þitt val

RÆÐURÐU NOKKRU UM ÞÍNA EIGIN FRAMTÍÐ? Sumir trúa að forlög, en ekki ákvarðanir einstaklingsins, stjórni lífinu. Þegar þeir ná ekki markmiðum sínum yppta þeir öxlum og segja: „Þetta átti aldrei að verða.“

Aðrir verða fyrir vonbrigðum vegna þess að þeir sjá engan enda á óréttlátu og þjakandi ástandi þessa heims. Þeir reyna kannski að bæta aðstæður sínar en utanaðkomandi atburðir eins og stríð, náttúruhamfarir eða veikindi koma ítrekað í veg fyrir að áform þeirra nái fram að ganga. Þeir spyrja sig: „Hvers vegna er ég að hafa fyrir þessu?“

Að vísu getur ýmislegt haft áhrif á það hvort áform manns heppnist. (Prédikarinn 9:11) En þú átt val varðandi endanlegt hlutskipti þitt. Biblían sýnir í raun að framtíð þín veltur á því hvaða ákvarðanir þú tekur. Skoðum hvað hún segir um málið.

Móse, sem leiddi Ísraelsþjóðina til forna, sagði við þjóðina rétt áður en hún fór inn í fyrirheitna landið: „Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann.“ – 5. Mósebók 30:15, 19, 20.

„Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið.“ – 5. Mósebók 30:19.

Guð frelsaði Ísraelsþjóðina úr ánauð í Egyptalandi og bauð henni frelsi og farsæld í fyrirheitna landinu. En það gerðist ekki sjálfkrafa. Til að hljóta blessunina varð þjóðin að ,velja lífið‘. Hvernig gat hún gert það? ,Með því að elska Drottin, Guð sinn, hlýða boði hans og halda sér fast við hann.‘

Nú á dögum stöndum við frammi fyrir svipaðri ákvörðun og framtíð okkar er undir því komin hvað við ákveðum að gera. Við veljum lífið – eilíft líf í paradís á jörðinni – með því að velja að elska Guð, hlýða boðum hans og halda okkur fast við hann. En hvað felur þetta þrennt í sér?

VELDU AÐ ELSKA GUÐ

Kærleikur er helsti eiginleiki Guðs. Jóhannesi postula var innblásið að skrifa: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þegar Jesús var spurður hvert væri æðsta boðorðið svaraði hann þess vegna: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Sambandið við Jehóva Guð þarf að vera byggt á því að við elskum hann, ekki á því að við óttumst hann eða hlýðum honum hugsunarlaust. En hvers vegna ættum við að velja að elska hann?

Jehóva elskar mannkynið líkt og ástríkir foreldrar elska börnin sín. Þrátt fyrir að foreldrar séu ófullkomnir leiðbeina þeir börnum sínum, hvetja þau, styðja við bakið á þeim og aga þau vegna þess að þau vilja að börnunum vegni vel og séu ánægð. Hvað vilja foreldrarnir fá í staðinn? Þau vilja að börnin elski þau og taki til sín kennsluna sem er þeim til góðs. Er ekki sanngjarnt af fullkomnum föður okkar á himnum að vænta þess að við séum honum innilega þakklát fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur?

 HLÝDDU BOÐI HANS

Á frummálum Biblíunnar er sama orðið notað fyrir að „hlusta“ og „hlýða“. Þegar maður segir barni að hlusta á foreldra sína er maður í rauninni að segja því að hlýða foreldrunum. Að hlusta á rödd Guðs felur í sér bæði að fræðast af Guði og hlýða honum. Og þar sem við getum ekki heyrt rödd Guðs bókstaflega hlustum við á hann með því að lesa orð hans, Biblíuna, og fara eftir því sem við lesum. – 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Jesús benti á mikilvægi þess að hlusta á Guð þegar hann sagði eitt sinn: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Það er nauðsynlegt fyrir okkur að borða, en ekki síður nauðsynlegt að fræðast af Guði. Vitur konungur að nafni Salómon útskýrði hvers vegna: „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ (Prédikarinn 7:12) Þekking og speki frá Guði getur verndað okkur núna og hjálpað okkur að taka viturlegar ákvarðanir sem leiða til eilífs lífs.

HALTU ÞÉR FAST VIÐ HANN

Í dæmisögu Jesú, sem minnst var á í síðustu grein, segir: „Þröngt er það hlið og mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Ef við værum á ferðalagi á slíkum vegi – til eilífs lífs – hefðum við án efa gagn af að halda okkur nálægt leiðsögumanni sem þekkir veginn vel því að það hjálpar okkur að komast á áfangastað. Við höfum því fulla ástæðu til að halda okkur nálægt Guði. (Sálmur 16:8) En hvernig getum við gert það?

Við þurfum að koma mörgu í verk á hverjum degi og það er ýmislegt fleira sem okkur langar að gera. Það getur gert okkur svo upptekin að við höfum lítinn sem engan tíma til að hugsa um hvað Guð vill að við gerum. Þess vegna gefur Biblían okkur þessa áminningu: „Hafið ... nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Við höldum okkur fast við Guð með því að láta sambandið við hann hafa forgang í lífinu. – Matteus 6:33.

ÞITT ER VALIÐ

Þú getur ekki breytt því sem liðið er en þú getur gert eitthvað til að tryggja að framtíð þín og ástvina þinna verði björt. Biblían sýnir okkur að himneskum föður okkar, Jehóva Guði, er innilega annt um okkur og hann lætur okkur vita hvað hann vill að við gerum. Taktu eftir því sem spámaðurinn Míka sagði:

„Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ – Míka 6:8.

Ætlar þú að þiggja boð Jehóva Guðs um að ganga með honum og njóta eilífrar blessunar sem bíður þeirra sem það gera? Þitt er valið.