ENOK átti mörg ár að baki. Hann var orðinn 365 ára gamall. Við eigum kannski erfitt með að gera okkur það í hugarlund en þessi maður lifði meira en fjóra mannsaldra, miðað við meðalævi manna nú á dögum. En í rauninni var hann ekki gamall miðað við það sem tíðkaðist þegar hann var uppi. Á þeim tíma – fyrir rúmlega 5.000 árum – lifði fólk miklu lengur en nú. Adam, fyrsti maðurinn, var orðinn meira en 600 ára gamall þegar Enok fæddist og lifði í þrjár aldir eftir það. Sumir afkomenda Adams lifðu jafnvel enn lengur. Enok var því líklega enn í fullu fjöri 365 ára og gat átt langa ævi framundan. En svo varð þó ekki.

Enok var sennilega í bráðri lífshættu. Sjáðu hann fyrir þér þar sem hann flýr í felur. Hann getur ekki hætt að hugsa um viðbrögð fólksins þegar hann færði því boðskap Guðs. Andlit þess var afmyndað af reiði og það hataði Enok. Það fyrirleit boðskap hans og hafði óbeit á Jehóva Guði sem sendi hann. Menn gátu ekki ráðist á Jehóva en þeir gátu vissulega ráðist á Enok. Ef til vill velti Enok fyrir sér hvort hann ætti nokkurn tíma eftir að sjá fjölskyldu sína aftur. Hugsaði hann til konu sinnar, dætranna, sonarins Metúsala eða Lameks, sonarsonar síns? (1. Mósebók 5:21-23, 25) Voru dagar hans taldir?

Enok er biblíupersóna sem lítið er vitað um. Það er ekki minnst á hann að ráði nema á þremur stöðum í Biblíunni. (1. Mósebók 5:21-24; Hebreabréfið 11:5; Júdasarbréfið 14, 15) Þessi fáu vers segja þó nóg til að gefa okkur mynd af manni með mjög sterka trú. Átt þú fyrir fjölskyldu að sjá? Hefurðu þurft að berjast fyrir því sem þú veist að er rétt? Þá geturðu lært margt af trú Enoks.

„ENOK GEKK MEÐ GUÐI“

Mannkynið var illa statt þegar Enok kom til sögunnar. Hann var af sjöundu kynslóð frá Adam. Menn voru að vísu mun nær þeim líkamlega fullkomleika sem Adam og Eva höfðu átt og glatað. Þess vegna lifðu menn svona lengi. En siðferðilega og trúarlega voru þeir mjög illa staddir. Ofbeldi var orðið útbreitt en það hófst þegar Kain, sonur Adams, drap Abel, bróður sinn. Einn afkomenda Kains virðist meira að segja hafa stært sig af því að vera enn ofbeldisfyllri og hefnigjarnari en Kain. Í þriðju kynslóð manna kom ný tegund illsku til skjalanna. Menn byrjuðu að ákalla nafn Jehóva Guðs en ekki í tengslum við tilbeiðslu á honum. Þeir voru greinlega að guðlasta og vanvirða heilagt nafn Guðs. – 1. Mósebók 4:8, 23-26.

Spillt trúariðkun af þessu tagi var líklega orðin algeng á dögum Enoks. Þegar Enok óx úr grasi þurfti hann að taka ákvörðun. Ætlaði hann að fylgja fjöldanum eða leita Jehóva, hins sanna Guðs, skapara himins og jarðar? Hann hafði heyrt um Abel sem dó píslarvættisdauða vegna þess að hann tilbað Jehóva á þann hátt sem honum var þóknanlegur. Það hafði án efa sterk áhrif á Enok og hann ákvað að taka sömu afstöðu og Abel. Í 1. Mósebók 5:22 segir að ,Enok hafi gengið með Guði‘. Þessi markverðu ummæli um Enok  segja okkur að hann hafi skorið sig úr fjöldanum í óguðlegum heimi vegna guðrækni sinnar. Hann er fyrsti maðurinn sem Biblían lýsir á þennan hátt.

Í sama biblíuversi segir að Enok hafi haldið áfram að ganga með Guði eftir að Metúsala, sonur hans, fæddist. Enok var því kominn með fjölskyldu þegar hann var um 65 ára. Hann átti konu sem er ekki nafngreind í Biblíunni og „gat syni og dætur“ þó að fjölda þeirra sé ekki getið. Sá sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá og gengur jafnframt með Guði þarf að annast fjölskylduna þannig að Guð hafi velþóknun á því. Enok vissi að Jehóva ætlaðist til þess að hann væri eiginkonu sinni trúr. (1. Mósebók 2:24) Og hann gerði örugglega sitt besta til að fræða börnin sín um Jehóva. Með hvaða árangri?

Í frásögu Biblíunnar er ekkert getið um það. Hún segir ekkert um trú Metúsala, sonar Enoks, en hann varð elstur allra sem getið er um í Biblíunni. Hann dó sama ár og Nóaflóðið kom. En Metúsala átti son sem hét Lamek. Ævi Lameks og Enoks, afa hans, skaraðist um meira en öld og trú Lameks var eftirtektarverð. Jehóva innblés honum að bera fram spádóm um Nóa, son sinn, og sá spádómur rættist eftir flóðið. Þess er getið sérstaklega í Biblíunni að Nói hafi gengið með Guði, rétt eins og Enok, langafi hans. Nói kynntist Enok aldrei í eigin persónu. En Enok skildi eftir sig verðmæta arfleifð. Nói getur hafa fræðst um þessa arfleifð af Lamek, pabba sínum, Metúsala, afa sínum, eða jafnvel Jared, pabba Enoks, sem dó þegar Nói var 366 ára gamall. – 1. Mósebók 5:25-29; 6:9; 9:1.

Hugsaðu þér hve ólíkir Enok og Adam voru. Þó að Adam væri fullkominn syndgaði hann gegn Jehóva Guði og skildi eftir arfleifð uppreisnar og eymdar handa afkomendum sínum. Enok gekk með Guði og gaf afkomendum sínum arfleifð trúar þótt ófullkominn væri. Adam dó þegar Enok var 308 ára. Syrgðu afkomendur Adams þennan mjög svo eigingjarna forföður sinn? Við vitum það ekki. En við vitum að Enok „gekk með Guði“. – 1. Mósebók 5:24.

Ef þú átt fyrir fjölskyldu að sjá skaltu hugleiða hvað þú getur lært af trú Enoks. Þó að mikilvægt sé að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar er mikilvægast af öllu að sjá fyrir andlegum þörfum hennar. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Það þarftu að gera bæði í orði og verki. Ef þú kýst að ganga með Guði eins og Enok gerði og fylgir innblásnum siðferðisreglum Biblíunnar gefurðu fjölskyldu þinni einnig verðmæta arfleifð – frábært fordæmi til eftirbreytni.

„UM ÞESSA MENN SPÁÐI ENOK“

Enok hafði sterka trú og þess vegna kann hann að hafa verið einmana í trúlausum heimi. En Jehóva Guð tók eftir honum. Það kom að því að Jehóva miðlaði boðskap til þessa trúfasta þjóns. Hann gaf Enok boðskap sem hann átti að færa samtímamönnum sínum. Þar með var Enok orðinn spámaður Guðs, sá fyrsti sem á spádóm í Biblíunni. Við vitum það vegna þess að mörgum öldum  síðar var Júdasi, hálfbróður Jesú, innblásið að skrá spádóm Enoks. *

Hver var spádómur Enoks? Hann var þessi: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“ (Júdasarbréfið 14, 15) Þú tókst kannski eftir því að Enok talaði í þátíð, rétt eins og Guð hefði þegar fullnægt dóminum. Þannig voru einnig margir síðari spádómar. Hugmyndin er sú að spádómurinn sé svo áreiðanlegur að hægt sé að tala um hann eins og hann hafi þegar ræst. – Jesaja 46:10.

Enok flutti hugrakkur boðskap Guðs í fjandsamlegum heimi.

Hvernig var fyrir Enok að flytja þennan boðskap, kannski fyrir öllum sem heyra vildu? Viðvörunin var mjög kröftug. Orðið „óguðlegir“ er notað nokkrum sinnum til að fordæma fólkið og verk þess. Í spádóminum fengu allir jarðarbúar að heyra að heimurinn, sem menn höfðu byggt upp allt frá syndafallinu í Eden, væri gjörspilltur. Sá heimur hlyti hörmuleg endalok þegar Jehóva Guð kæmi með „sínum þúsundum heilagra“ – herfylkingum máttugra engla – til að tortíma honum. Enok boðaði þessa viðvörun frá Guði óttalaust og hann var sá eini sem gerði það. Kannski dáðist hinn ungi Lamek að hugrekki afa síns. Hafi hann gert það var það vel skiljanlegt.

Trú Enoks ætti að vera okkur hvatning til að hugleiða hvort við sjáum heim nútímans sömu augum og Guð. Dómurinn, sem Enok boðaði af hugrekki, stendur enn. Hann á við heim nútímans rétt eins og heiminn á dögum Enoks. Eins og Enok varaði við lét Jehóva flóðið koma yfir óguðlegan heim á dögum Nóa. En sú eyðing var fyrirmynd að enn meiri eyðingu sem er ókomin. (Matteus 24:38, 39; 2. Pétursbréf 2:4-6) Rétt eins og þá er Guð, ásamt sínum þúsundum heilagra, í viðbragðsstöðu til að framfylgja réttlátum dómi gegn óguðlegum heimi nútímans. Við þurfum öll að taka viðvörun Enoks til okkar og segja öðrum frá henni. Fjölskylda okkar og vinir gætu fjarlægst okkur og við gætum stundum orðið einmana. En Jehóva yfirgaf Enok aldrei og hann yfirgefur heldur ekki trúfasta þjóna sína nú á dögum.

„BURT NUMINN TIL ÞESS AÐ HANN SKYLDI EKKI DEYJA“

Hvernig lauk ævi Enoks? Það má segja að það hvíli enn meiri leyndardómur yfir dauða hans en lífshlaupi. Í 1. Mósebók segir einfaldlega: „Enok gekk með Guði, þá hvarf hann því að Guð tók hann.“ (1. Mósebók 5:24) Hvernig tók Guð Enok? Páll postuli sagði síðar: „Fyrir trú var Enok burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja eins og ritað er: ,Ekki var hann framar að finna af því að Guð hafði numið hann burt.‘ Áður en hann var burt numinn hafði hann fengið þann vitnisburð ,að hann hefði verið Guði þóknanlegur‘.“ (Hebreabréfið 11:5) Hvað átti Páll við með orðunum „burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja“? Sumar biblíuþýðingar orða það þannig að Guð hafi tekið Enok til himna. En það getur ekki verið því að í Biblíunni kemur fram að Jesús Kristur hafi verið sá fyrsti sem var reistur upp til himna. – Jóhannes 3:13.

Hvernig var Enok þá „burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja“? Líklega sá Jehóva Guð til þess að Enok dæi á sársaukalausan hátt. En  áður en það gerðist fékk hann þann vitnisburð að „hann hefði verið Guði þóknanlegur“. Hvernig þá? Vera má að Enok hafi fengið sýn frá Guði rétt áður en hann dó þar sem hann fékk að sjá jörðina sem paradís og síðan hafi hann sofnað dauðasvefni fullviss um velþóknun Jehóva. Páll postuli skrifaði um Enok og aðra trúfasta menn og konur: „Allir þessir menn dóu í trú.“ (Hebreabréfið 11:13) Óvinir Enoks hafa ef til vill leitað að honum en „ekki var hann framar að finna“. Kannski lét Jehóva líkama hans hverfa svo að þeir gætu ekki vanhelgað hann eða notað í tengslum við falstrúariðkun. *

Með þessi rök Biblíunnar í huga skulum við reyna að ímynda okkur hvernig ævi Enoks gæti hugsanlega hafa endað. Skoðum einn möguleika: Sjáðu Enok fyrir þér þar sem hann er á hlaupum. Hann er alveg að gefast upp. Ofsækjendurnir eru á hælum hans og reiðin ólgar í þeim yfir dómsboðskapnum. Enok finnur stað þar sem hann getur falið sig og hvílst um stund. En hann veit að hann getur ekki falið sig lengi. Hans bíður hræðilegur dauðdagi. Hann biður til Guðs á meðan hann kastar mæðinni. Þá kemur ólýsanlegur friður yfir hann. Hann sér sýn sem er svo ljóslifandi að það er eins og hann sé kominn þangað.

Líklega sá Enok fram á hræðilegan dauðdaga þegar Jehóva Guð tók hann.

Ímyndaðu þér að það opnast fyrir honum sýn inn í heim sem er gerólíkur þeim sem hann þekkir. Hann er jafn fallegur og Edengarðurinn en þar eru engir kerúbar sem hamla mönnum inngöngu. Þar er fjöldi karla og kvenna, öll geislandi af æsku og lífsþrótti. Friður ríkir og hvergi örlar á því hatri og trúarofsóknum sem Enok þekkir allt of vel. Hann finnur að Jehóva hefur velþóknun á honum og elskar hann. Hann er fullviss um að þarna eigi hann að vera og eigi eftir að búa. Hann fyllist smám saman friði, lokar augunum og sofnar djúpum draumlausum svefni.

Og hann sefur enn dauðasvefninum – geymdur í ótakmörkuðu minni Jehóva Guðs. Eins og Jesús gaf loforð um rennur upp sá dagur að allir sem eru í minni Guðs heyra raust Krists og rísa upp til lífs á ný. Þeir vakna í fallegum og friðsælum nýjum heimi. – Jóhannes 5:28, 29.

Langar þig til að vera þar? Hugsaðu þér hvað það verður ánægjulegt að hitta Enok og ímyndaðu þér hvað við getum lært margt af honum. Hann getur sagt okkur hvort þessi mynd okkar af síðustu augnablikunum í ævi hans sé nærri sanni. En við þurfum nauðsynlega að líkja eftir honum núna. Eftir að Páll talaði um Enok sagði hann: „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar.“ (Hebreabréfið 11:6) Það er ærin ástæða fyrir okkur að líkja eftir trú og hugrekki Enoks.

^ gr. 14 Sumir biblíufræðingar halda því fram að Júdas hafi vitnað í apókrýfubók sem er kölluð Enoksbók. En hún er staðlaus bók af óþekktum uppruna sem er ranglega eignuð Enok. Í bókinni er farið rétt með spádóm Enoks en tilvitnunin getur verið komin úr fornri heimild sem er glötuð núna – hvort sem hún var rituð eða varðveittist í munnlegri geymd. Júdas kann að hafa stuðst við sömu fornu heimild eða heyrt um Enok af Jesú sem fylgdist með ævi Enoks frá himnum.

^ gr. 20 Á svipaðan hátt tryggði Guð líklega að menn fyndu ekki líkama Móse og Jesú svo að þeir gætu ekki vanhelgað þá. – 5. Mósebók 34:5, 6; Lúkas 24:3-6; Júdasarbréfið 9.