Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  September 2017

„Orð Guðs er ... kröftugt“

„Orð Guðs er ... kröftugt“

„Orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ – HEBR. 4:12.

SÖNGVAR: 96, 94

1. Hvað sannfærir þig um að orð Guðs sé kröftugt? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÞJÓNAR Jehóva eru ekki í minnsta vafa um að orð hans, það er að segja boðskapur hans til mannanna, sé „lifandi og kröftugt“. (Hebr. 4:12) Mörg okkar eru lifandi sönnun þess að Biblían getur breytt lífi fólks. Sum trúsystkini okkar voru áður þjófar, neyttu fíkniefna eða lifðu siðlausu lífi. Aðrir nutu vissrar velgengni í heiminum en fundu fyrir tómleika í lífinu. (Préd. 2:3-11) Ótalmargir hafa kynnst Biblíunni og fundið veginn til lífsins þó að þeir eygðu enga von um betra líf og þeim virtist ekki vera viðbjargandi. Þú hefur sennilega notið þess að lesa margar slíkar frásögur í Varðturninum í greinaröðinni „Biblían breytir lífi fólks“. Og þú hefur séð fólk taka við sannleikanum og styrkja sambandið við Guð jafnt og þétt með hjálp Biblíunnar.

2. Hvernig reyndist orð Guðs kröftugt á fyrstu öld?

2 Ætti það að koma okkur á óvart að margir skuli hafa gert undraverðar breytingar eftir að hafa kynnst orði Guðs? Alls ekki. Það minnir á trúsystkini okkar á fyrstu öld sem áttu sér himneska von. (Lestu 1. Korintubréf 6:9-11.) Páll postuli telur upp alls konar fólk sem fær ekki að erfa ríki Guðs og bætir svo við: „Þannig voruð þið sumir hverjir.“  En þeir breyttu sér með hjálp Biblíunnar og heilags anda Guðs. Sumum urðu jafnvel á alvarleg afglöp eftir að þeir tóku trú og það hafði áhrif á samband þeirra við Jehóva. Í Biblíunni er sagt frá andasmurðum kristnum manni á fyrstu öld sem þurfti að víkja úr söfnuðinum en var síðar tekinn inn aftur. (1. Kor. 5:1-5; 2. Kor. 2:5-8) Er ekki uppörvandi að leiða hugann að öllum þeim erfiðleikum sem trúsystkini okkar hafa átt við að glíma og hafa sigrast á með hjálp Biblíunnar?

3. Um hvað er fjallað í þessari grein?

3 Við viljum auðvitað nota orð Guðs sem best fyrst það er svona kröftugt og fyrst við eigum greiðan aðgang að því. (2. Tím. 2:15) Í þessari grein ætlum við að skoða hvernig við getum látið kraftinn í orði Guðs njóta sín betur (1) í einkalífi okkar, (2) í boðuninni og (3) þegar við kennum af ræðupallinum. Það hjálpar okkur að sýna föðurnum á himnum að við elskum hann og erum þakklát fyrir allt það góða sem hann kennir okkur. – Jes. 48:17.

Í EINKALÍFINU

4. (a) Hvað er nauðsynlegt til að láta orð Guðs hafa áhrif á sig? (b) Hvenær finnurðu þér tíma til að lesa í Biblíunni?

4 Til að orð Guðs hafi áhrif á okkur þurfum við að lesa reglulega í því – helst daglega. (Jós. 1:8) Við höfum auðvitað öll meira en nóg á okkar könnu. Við megum samt ekki láta eitt né neitt, ekki einu sinni eðlilegar skyldur okkar, koma í veg fyrir að við lesum reglulega í Biblíunni. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Margir þjónar Jehóva eru sniðugir að skapa sér svigrúm til að lesa í Biblíunni, hvort heldur að morgni dags, að kvöldi eða um miðjan dag. Þeim er innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem orti: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ – Sálm. 119:97.

5, 6. (a) Hvers vegna þurfum við að hugleiða það sem við lesum? (b) Hvernig er gott að hugleiða efnið? (c) Hvaða gagn hefurðu haft af því að lesa í orði Guðs og hugleiða það?

5 Það er ekki nóg að lesa aðeins í Biblíunni. Það er líka mikilvægt að hugleiða það sem við lesum. (Sálm. 1:1-3) Þá fyrst getum við látið eilífa visku hennar hafa áhrif á líf okkar. Hvort sem við lesum orð Guðs í prentuðu formi eða rafrænu ætti markmiðið alltaf að vera að láta orð Biblíunnar snerta hjarta okkar.

6 Hvernig er gott að hugleiða efnið? Mörgum hefur reynst vel að gera hlé á lestrinum eftir að hafa lesið klausu í Biblíunni og velta fyrir sér spurningum  eins og: Hvað læri ég af þessu um Jehóva? Að hvaða leyti nýti ég mér þetta efni nú þegar? Hvernig get ég farið enn betur eftir því? Þegar við hugleiðum orð Guðs og ræðum við hann í bænum okkar um það sem við lesum langar okkur til að fara enn betur eftir því. Þá látum við kraft Biblíunnar njóta sín enn betur í lífi okkar. – 2. Kor. 10:4, 5.

Í BOÐUNINNI

7. Hvernig getum við notað orð Guðs sem best í boðuninni?

7 Hvernig getum við notað orð Guðs sem best í boðuninni? Fyrsta skrefið er að lesa oft upp úr Biblíunni þegar við boðum trúna og kennum fólki. Bróðir nokkur orðaði það þannig: „Segjum að þú værir að boða fagnaðarerindið hús úr húsi með Jehóva. Myndirðu þá tala stanslaust sjálfur eða myndirðu leyfa honum að tala?“ Kjarni málsins er sá að við leyfum Jehóva að tala til húsráðandans þegar við lesum beint upp úr Biblíunni. Vel valið vers hefur líklega miklu meiri áhrif en nokkuð sem við getum sagt frá eigin brjósti. (1. Þess. 2:13) Notarðu hvert tækifæri til að lesa biblíuvers fyrir þá sem þú ert að flytja fagnaðarerindið?

8. Hvers vegna er ekki nóg að lesa bara biblíuvers þegar við boðum trúna?

8 Við megum ekki láta þar við sitja að lesa bara biblíuvers fyrir þá sem við ræðum við. Af hverju? Af því að margir skilja lítið eða ekkert í Biblíunni. Þannig var það á fyrstu öld og þannig er það núna. (Rómv. 10:2) Við skulum ekki gera ráð fyrir að það sé nóg að lesa bara biblíuvers til að viðmælandinn skilji það. Við þurfum líka að gefa okkur tíma til að draga fram ákveðin atriði, til dæmis með því að lesa aftur lykilorð og skýra þau. Þá erum við komin  langleiðina með að láta boðskap Biblíunnar ná til huga og hjarta þeirra sem hlusta. – Lestu Lúkas 24:32.

9. Hvernig getum við ýtt undir virðingu fólks fyrir Biblíunni með því að kynna biblíuvers á viðeigandi hátt? Lýstu með dæmi.

9 Við getum líka ýtt undir virðingu fólks fyrir Biblíunni með því að velja réttu orðin til að kynna vers sem við ætlum að lesa. Við gætum til dæmis sagt: „Við skulum sjá hvað skaparinn segir um þetta mál.“ Þegar við ræðum við manneskju sem er ekki kristinnar trúar mætti segja: „Taktu eftir hvað Heilög ritning segir um þetta.“ Ef viðmælandinn er ekki trúarlega þenkjandi gætirðu spurt: „Hefurðu einhvern tíma heyrt þetta forna spakmæli?“ Við skulum taka tillit til uppruna og trúarafstöðu fólks og laga kynningarorð okkar að því. – 1. Kor. 9:22, 23.

10. (a) Endursegðu frásögu af bróður nokkrum. (b) Hvernig hefurðu upplifað kraftinn í orði Guðs í boðuninni?

10 Margir hafa komist að raun um að það getur haft sterk áhrif á fólk að heyra lesið upp úr Biblíunni. Lítum á dæmi. Bróðir nokkur fór í endurheimsókn til roskins manns sem hafið lesið blöðin okkar um árabil. Í stað þess að kynna bara nýjasta tölublað Varðturnsins ákvað bróðirinn að lesa fyrir hann vers sem hann hafði fundið í blaðinu. Hann las 2. Korintubréf 1:3, 4 þar sem segir: „Faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar ... hughreystir mig í sérhverri þrenging minni.“ Þessi orð snertu manninn svo djúpt að hann bað bróðurinn að lesa versið aftur. Síðan sagði hann að þau hjónin hefðu ríka þörf fyrir huggun og hughreystingu og vildi nú vita meira um boðskap Biblíunnar. Það getur verið mjög áhrifaríkt að nota orð Guðs í boðuninni. – Post. 19:20.

ÞEGAR ÞÚ KENNIR AF RÆÐUPALLINUM

11. Hvaða ábyrgð fylgir því að kenna af ræðupallinum?

11 Við höfum öll ánægju af því að sækja safnaðarsamkomur og mót. Fyrst og fremst gerum við það til að tilbiðja Jehóva. En við höfum líka ómælt gagn af kennslunni sem við fáum. Það er mikill heiður fyrir bræður að fá að kenna af ræðupallinum. En þeir þurfa jafnframt að hafa hugfast að því fylgir mikil ábyrgð. (Jak. 3:1) Þeir þurfa að ganga úr skugga um að það sem þeir kenna sé byggt á orði Guðs. Hvernig geturðu látið kraftinn í orði Guðs njóta sín ef þú færð það verkefni að kenna af ræðupallinum?

12. Hvernig getur ræðumaður tryggt að Biblían sé uppistaðan í ræðu hans?

12 Gættu þess að Biblían sé uppistaðan í ræðunni. (Jóh. 7:16) Hvað felur það í sér? Þú þarft meðal annars að gæta þess að ekkert skyggi á eða dragi athyglina frá biblíuversunum sem þú lest – hvorki frásögur, líkingar né sjálfur flutningurinn. Hafðu líka hugfast að það er ekki það sama að lesa fullt af biblíuversum og að kenna með hjálp Biblíunnar. Ef of mörg vers eru lesin er meira að segja hætta á að ekkert þeirra sitji eftir í huga áheyrenda. Þú skalt því velja versin vandlega og gefa þér nægan tíma til að lesa þau, útskýra, lýsa með dæmum og heimfæra vel. (Neh. 8:8) Sé ræðan byggð á uppkasti frá hinum trúa og hyggna þjóni skaltu kynna þér það vel og ritningarstaðina sem vísað er í. Reyndu að skilja tengslin milli þess sem segir í uppkastinu og versanna  sem vísað er í. Veldu síðan úr þau vers sem þú vilt nota til að kenna það sem fram kemur í uppkastinu. (Góðar tillögur er að finna í 21. til 23. námskafla bókarinnar Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum.) Síðast en ekki síst skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma til skila þeim góðu hugsunum sem er að finna í orði hans. – Lestu Esrabók 7:10; Orðskviðina 3:13, 14.

13. (a) Hvaða áhrif hafði það á systur nokkra að heyra biblíuvers lesið á safnaðarsamkomu? (b) Hvaða áhrif hefur það haft á þig að heyra biblíuvers lesið og skýrt á samkomu?

13 Systir í Ástralíu var djúpt snortin af versi sem lesið var á samkomu. Hún hafði átt ákaflega erfið uppvaxtarár en síðar tekið við boðskap Biblíunnar og vígst Jehóva. Hún átti þó erfitt með að trúa að Jehóva gæti elskað hana en sannfærðist um það um síðir. Hvað varð til þess að hún komst að þeirri niðurstöðu? Það urðu þáttaskil í lífi hennar þegar hún hugleiddi biblíuvers sem var lesið á samkomu og tengdi það við önnur vers. * Hefurðu einhvern tíma heyrt biblíuvers á samkomu eða móti sem hafði mjög sterk áhrif á þig? – Neh. 8:12.

14. Hvernig getum við sýnt að við metum orð Guðs mikils?

14 Erum við ekki þakklát Jehóva fyrir að gefa okkur orð sitt, Biblíuna? Hann hefur ekki aðeins gefið okkur hana heldur líka séð til þess að hún varðveittist eins og hann lofaði. (1. Pét. 1:24, 25) Við viljum því lesa reglulega í Biblíunni, fara eftir henni og nota hana til að hjálpa öðrum. Þannig sýnum við hve mikils við metum þennan dýrmæta fjársjóð og hve heitt við elskum höfundinn, Jehóva Guð.

^ gr. 13 Sjá rammann „ Þáttaskil“.