„Þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ – 1. MÓS. 32:28.

SÖNGVAR: 60, 38

1, 2. Í hvaða baráttu eiga þjónar Jehóva?

ALLIR trúir þjónar Guðs hafa þurft að berjast harðri baráttu, allt frá dögum Abels til okkar tíma. Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum að þeir hefðu þurft að ,standast miklar þrengingar‘ til að hljóta velþóknun Jehóva og blessun. (Hebr. 10:32-34) Hann líkti baráttu kristinna manna við það sem grískir íþróttamenn þurftu að leggja á sig þegar þeir kepptu í kappleikjum svo sem hlaupi, glímu og hnefaleikum. (Hebr. 12:1, 4) Við keppum eftir lífinu og eigum í höggi við andstæðinga sem vilja trufla einbeitingu okkar, bregða fæti fyrir okkur, lýja okkur og ræna okkur gleðinni og laununum sem bíða okkar.

2 Við þurfum að heyja harða baráttu gegn Satan og illum heimi hans. (Ef. 6:12) Það er mjög áríðandi að við leyfum ekki áróðri heimsins og heimspeki að hafa áhrif á okkur. Við megum ekki heldur smitast af röngu líferni heimsins eins og siðleysi, reykingum, misnotkun áfengis og fíkniefnaneyslu. Og við verðum stöðugt að berjast gegn veikleikum okkar, kjarkleysi og vanmáttarkennd. – 2. Kor. 10:3-6; Kól. 3:5-9.

3. Hvernig þjálfar Guð okkur til að við getum veitt óvinum okkar viðnám?

 3 Er hægt að sigrast á svona öflugum andstæðingum? Já, en það er ekki átakalaust. Páll líkti sjálfum sér við hnefaleikamann. Hann sagði: „Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær.“ (1. Kor. 9:26) Við þurfum að verjast óvinum okkar, líkt og hnefaleikamaður sem ber af sér högg andstæðingsins. Jehóva þjálfar okkur og hjálpar í baráttunni. Hann gefur okkur nauðsynlegar leiðbeiningar í Biblíunni. Hann gefur okkur líka biblíutengd rit, samkomur og mót sem hjálpa okkur. Ferðu eftir því sem þú lærir þar? Ef þú gerir það ekki væri það eins og að slá „vindhögg“, að veita óvininum ekki almennilegt viðnám.

4. Hvernig komum við í veg fyrir að hið illa sigri okkur?

4 Óvinir okkar eiga það til að ráðast á okkur þegar við eigum þess síst von eða gera atlögu að okkur þegar við erum veik fyrir. Við verðum því alltaf að vera á varðbergi. Biblían segir: „Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ (Rómv. 12:21) Orðin „lát ekki hið illa sigra þig“ sýna að við getum sigrast á hinu illa en til þess þurfum við að halda áfram að berjast. Satan, illur heimur hans og ófullkomleikinn myndi hins vegar yfirbuga okkur ef við sofnuðum á verðinum og hættum að berjast. Leyfðu Satan aldrei að draga úr þér kjarkinn svo að þú gefist upp. – 1. Pét. 5:9.

5. (a) Hvað getur hjálpað okkur að halda baráttunni áfram? (b) Hvaða biblíupersónur getum við tekið okkur til fyrirmyndar?

5 Þeir sem eiga í baráttu mega ekki missa sjónar á ástæðunni fyrir því að þeir berjast. Þeir þurfa að hafa ofarlega í huga loforðið sem við lesum í Hebreabréfinu 11:6: „Sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ Gríska sögnin, sem er þýdd „leita“, gefur til kynna ákafan og einbeittan vilja. (Post. 15:17) Biblían segir frá körlum og konum sem lögðu sig í líma við að leita blessunar Jehóva. Þau Jakob, Rakel, Jósef og Páll gengu í gegnum ýmislegt sem var lýjandi, bæði líkamlega og andlega. En þau stóðust álagið og það færði þeim mikla blessun. Af því má sjá að við getum líka hlotið blessun Jehóva ef við erum þrautseig. Lítum nánar á málið.

ÞAÐ ER TIL BLESSUNAR AÐ VERA ÞRAUTSEIGUR

6. Af hverju var Jakob þrautseigur og hvernig var honum launað fyrir? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Ættfaðirinn Jakob var þrautseigur af því að hann elskaði Jehóva og fannst mikils virði að eiga hann að vini. Hann treysti fullkomlega að Jehóva myndi blessa niðja hans eins og hann hafði lofað. (1. Mós. 28:3, 4) Þess vegna gerði Jakob allt sem hann gat til að hljóta blessun Guðs. Hann glímdi jafnvel við holdgaðan engil þegar hann var næstum tíræður. (Lestu 1. Mósebók 32:24-28.) Glímdi Jakob við þennan máttuga engil í eigin mætti? Að sjálfsögðu ekki. En hann var mjög einbeittur og veigraði sér ekki við að berjast fyrir því að hljóta blessun Guðs. Og Jehóva blessaði hann fyrir að vera þrautseigur og gaf honum nafnið Ísrael sem merkir „sá sem glímir við Guð“ eða „Guð glímir“. Jakob hlaut sömu launin og við keppumst eftir – velþóknun Jehóva og blessun.

7. (a) Hvað olli Rakel mikilli kvöl? (b) Hvað hjálpaði henni að halda áfram að berjast og hvaða blessun hlaut hún?

 7 Rakel, eiginkona Jakobs, var ekki síður spennt að sjá hvernig Jehóva myndi uppfylla loforðið sem hann gaf manni hennar. En það var eitt vandamál sem virtist óyfirstíganlegt. Rakel gat ekki eignast börn. Í þá daga var það talin mikil ógæfa að vera barnlaus. Hvernig fékk hún styrk til að takast á við þessar þrúgandi aðstæður sem hún hafði alls enga stjórn á? Hún gaf aldrei upp vonina. Hún hélt áfram að berjast og bað sífellt heitar til Jehóva. Hann heyrði áköll hennar og hún eignaðist tvö börn. Þess vegna tók hún eitt sinn svo til orða: „Mikla baráttu hef ég háð ... og borið hærri hlut.“ – 1. Mós. 30:8, 20-24.

8. Í hvaða erfiðleikum lenti Jósef og hvernig er hann okkur góð fyrirmynd?

8 Trúfesti Jakobs og Rakelar hafði án efa sterk áhrif á Jósef, son þeirra, og hjálpaði honum að takast á við aðstæður sem reyndu á trú hans. Líf hans gerbreyttist þegar hann var 17 ára. Bræður hans voru öfundsjúkir út í hann og seldu hann sem þræl. Honum var síðar varpað saklausum í fangelsi í Egyptalandi og þar sat hann í nokkur ár. (1. Mós. 37:23-28; 39:7-9, 20, 21) Jósef fylltist ekki vonleysi né varð bitur og vildi hefna sín. Hann einbeitti sér alltaf að vináttusambandinu sem hann átti við Jehóva. (3. Mós. 19:18; Rómv. 12:17-21) Tökum Jósef okkur til fyrirmyndar. Við getum haldið áfram að berjast og verið þolgóð þótt við höfum ef til vill átt erfiða æsku eða sjáum ekki fram úr núverandi erfiðleikum. Þá megum við treysta að Jehóva blessi okkur. – Lestu 1. Mósebók 39:21-23.

9. Hvernig getum við líkt eftir Jakobi, Rakel og Jósef?

9 Hvaða erfiðleika glímir þú við núna? Ef til vill þarftu að þola óréttlæti, fordóma eða háðsglósur annarra. Eða kannski er einhver öfundsjúkur út í þig og ber á þig rangar sakir. En leggðu ekki árar í bát. Mundu hvað gerði Jakobi, Rakel og Jósef kleift að halda áfram að þjóna Jehóva með gleði. Guð styrkti þau og blessaði af því að þau kunnu að meta vináttu hans. Þau gáfust aldrei upp í baráttunni og lifðu í samræmi við innilegar bænir sínar. Núverandi illur heimur líður bráðum undir lok og þess vegna höfum við alla ástæðu til að halda fast í vonina um betri heim. Ertu tilbúinn til að berjast af krafti til að fá blessun Jehóva?

VERTU FÚS TIL AÐ BERJAST FYRIR BLESSUN GUÐS

10, 11. (a) Hvers vegna gætum við þurft að berjast fyrir blessun Guðs? (b) Hvað hjálpar okkur að taka réttar ákvarðanir og hafa betur í baráttunni?

10 Hvers vegna gætum við þurft að berjast fyrir blessun Guðs? Þar sem við erum ófullkomin höfum við kannski einhverjar rangar langanir sem gera okkur erfitt fyrir. Sumir þurfa að leggja hart að sér til að vera jákvæðir gagnvart boðuninni. Aðrir eiga við heilsuvandamál að stríða eða eru einmana. Og ekki má gleyma þeim sem finnst erfitt að fyrirgefa einhverjum sem hefur móðgað þá eða gert á hlut þeirra. Óháð því hversu lengi við höfum þjónað Jehóva þurfum við öll að berjast við ýmislegt sem gerir okkur erfitt að vera trúföst. En munum að Jehóva  umbunar þeim sem eru honum trúir.

Berst þú af krafti til að hljóta blessun Guðs? (Sjá 10. og 11. grein.)

11 Í hreinskilni sagt getur það kostað heilmikla baráttu að taka réttar ákvarðanir og lifa eins og kristnum mönnum ber, sérstaklega ef hið svikula hjarta okkar togar í ranga átt. (Jer. 17:9) Ef þú finnur að þetta hefur gerst hjá þér skaltu fyrir alla muni biðja um heilagan anda. Bænin og heilagur andi getur gefið þér kraft til að gera það sem þú veist að er rétt og Jehóva getur blessað. Breyttu í samræmi við bænir þínar. Reyndu að lesa eitthvað í Biblíunni á hverjum degi og taktu frá tíma fyrir sjálfsnám og reglulegt fjölskyldunám. – Lestu Sálm 119:32.

12, 13. Hvernig fengu tveir vottar hjálp til að berjast við rangar langanir?

12 Margir hafa kynnst af eigin raun að orð Guðs, andi hans og ritin okkar hafa hjálpað í baráttunni við rangar langanir. Unglingur nokkur las grein sem fjallaði um að sigrast á röngum löngunum („How Can You Resist Wrong Desires?“, birtist í Vaknið! 8. desember 2003 á ensku). Hvaða gagn hafði hann af henni? „Það er mikil barátta fyrir mig að hafa hemil á röngum hugsunum. Þegar ég las í greininni að ,margir eigi í mjög harðri baráttu við rangar langanir‘ fann ég að ég tilheyrði bræðrafélaginu. Ég fann að ég stóð ekki einn.“ Hann hafði líka gagn af því að lesa greinina „Veitir Guð okkur algert  frelsi í kynferðismálum?“ sem birtist í Vaknið! í janúar-mars 2004. Í greininni kom fram að fyrir suma væri baráttan stöðug, eins og þeir væru með ,flein í holdinu‘. (2. Kor. 12:7) En þeir halda áfram að berjast til að lifa hreinu lífi og geta því horft björtum augum til framtíðar. „Ég get þess vegna verið trúfastur dag frá degi,“ segir hann. „Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að nota söfnuð sinn til að hjálpa okkur að halda út hvern dag í þessum illa heimi.“

13 Systir í Bandaríkjunum hefur líka sína sögu að segja. Hún skrifar: „Mig langar til að þakka ykkur fyrir að gefa okkur alltaf rétta fæðu á réttum tíma. Mér finnst oft að þessar greinar séu skrifaðar sérstaklega fyrir mig. Árum saman hef ég barist við sterka löngun til að gera hluti sem Jehóva hatar. Stundum langar mig mest til að leggja árar í bát og hætta að berjast. Ég veit að Jehóva er miskunnsamur og fús til að fyrirgefa en mér finnst ég ekki verðskulda hjálp hans þar sem ég hef þessa röngu löngun og innst inni hata ég hana ekki. Þessi þráláta barátta hefur haft áhrif á allt sem ég geri ... Eftir að ég las greinina ,Hefurðu „hjarta til að þekkja“ Jehóva?‘, sem birtist í Varðturninum 15. mars 2013, fann ég mjög sterkt fyrir því að Jehóva vill hjálpa mér.“

14. (a) Hvernig hugsaði Páll um stríðið sem hann átti í? (b) Hvernig getum við sigrað í baráttunni við veikleika okkar?

14 Lestu Rómverjabréfið 7:21-25Páll vissi af eigin raun hversu erfitt það getur verið að berjast við rangar langanir og veikleika. En hann var þess fullviss að hann gæti unnið stríðið með því að biðja til Jehóva og trúa á lausnarfórn Jesú. Hvað með okkur? Getum við sigrað í baráttunni við veikleika okkar? Já, ef við líkjum eftir Páli og reiðum okkur fullkomlega á Jehóva en ekki eigin styrk og ef við trúum á lausnarfórnina.

15. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að vera trúföst og þolgóð?

15 Stundum leyfir Guð okkur að sýna að okkur sé full alvara í ákveðnu máli. Segjum til dæmis að við (eða annar í fjölskyldunni) fengjum alvarlegan sjúkdóm eða værum ranglæti beitt. Við sýnum að við treystum Jehóva fullkomlega með því að biðja hann um að styrkja okkur svo að við getum verið trúföst, glöð og átt gott samband við hann. (Fil. 4:13) Reynsla trúfastra þjóna Jehóva, bæði á tímum Páls og á okkar dögum, sýnir að bænin getur hjálpað okkur að byggja upp hugrekki og þolgæði.

HALTU ÁFRAM AÐ BERJAST TIL AÐ HLJÓTA BLESSUN JEHÓVA

16, 17. Hvað ertu staðráðinn í að gera?

16 Satan er mikið í mun að þér fallist hendur og þú gefist upp. Vertu staðráðinn í að láta það ekki gerast heldur ,halda því sem gott er‘. (1. Þess. 5:21) Þú getur sigrað í baráttunni við Satan, illan heim hans og syndugar tilhneigingar þínar, hverjar sem þær eru. Þú getur það með því að treysta algerlega að Guð hjálpi þér og styrki. – 2. Kor. 4:7-9; Gal. 6:9.

17 Haltu fyrir alla muni áfram að berjast. Vertu þolgóður í glímunni. Gefstu aldrei upp. Þá geturðu treyst að Jehóva ,helli yfir þig óþrjótandi blessun‘. – Mal. 3:10.