Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Október 2017

Sannleikurinn ,færir ekki frið heldur veldur sundrungu‘

Sannleikurinn ,færir ekki frið heldur veldur sundrungu‘

„Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu.“ – MATT. 10:34.

SÖNGVAR: 123, 128

1, 2. (a) Hvaða friðar getum við notið núna? (b) Hvað kemur í veg fyrir að við getum notið friðar að öllu leyti á þessum tíma? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

VIÐ viljum öll lifa friðsömu lífi og vera laus við áhyggjur. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að veita okkur ,frið sinn‘, innri ró sem getur verndað okkur gegn truflandi hugsunum og tilfinningum. (Fil. 4:6, 7) Þar sem við höfum vígt okkur Jehóva eigum við líka ,frið við hann‘, það er að segja gott samband við hann. – Rómv. 5:1.

2 Tími Guðs til að koma á algerum friði er þó enn ekki kominn. Miklar erjur blasa við á þessum síðustu dögum, þeim erfiðu tímum sem við lifum á, og margir eru deilugjarnir. (2. Tím. 3:1-4) Við sem þjónum Guði þurfum að heyja andlegt stríð gegn Satan og falskenningunum sem hann breiðir út. (2. Kor. 10:4, 5) Ættingjar, sem eru ekki í trúnni, geta þó ógnað friði okkar meira en nokkuð annað. Sumir gera lítið úr trú okkar, saka okkur um að sundra fjölskyldunni eða hóta að afneita okkur ef við snúum ekki  baki við trúnni. Hvernig ættum við að líta á andstöðu frá fjölskyldunni? Hvernig getum við tekist á við erfiðleikana sem því fylgja?

HVERNIG ÆTTUM VIÐ AÐ LÍTA Á ANDSTÖÐU FRÁ FJÖLSKYLDUNNI?

3, 4. (a) Hvaða áhrif hefur það sem Jesús kenndi? (b) Við hvaða aðstæður yrði sérstaklega erfitt að fylgja Jesú?

3 Jesús vissi að það sem hann kenndi myndi sundra fólki og að þeir sem fylgdu honum þyrftu að vera hugrakkir þegar þeir mættu andstöðu. Slík andstaða gæti haft áhrif á friðinn í fjölskyldunni. Jesús sagði: „Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.“ – Matt. 10:34-36.

4 Með því að segja: „Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið,“ benti Jesús á að sumir áheyrenda hans þyrftu að hugsa um afleiðingar þess að fylgja honum. Boðskapur hans gæti sundrað fólki. Jesús kom auðvitað í þeim tilgangi að boða sannleiksboðskap Guðs en ekki til að valda fjölskylduerjum og vinaslitum. (Jóh. 18:37) Engu að síður yrði erfitt að fylgja trúfastlega því sem Jesús kenndi ef nánir vinir manns eða fjölskylda hafnaði sannleikanum.

5. Hverju hafa fylgjendur Jesú orðið fyrir?

5 Jesús nefndi ýmislegt sem fylgjendur hans máttu búast við að verða fyrir en eitt af því var andstaða frá fjölskyldunni. (Matt. 10:38) Til að vera þess verðugir að fylgja Kristi hafa lærisveinar hans þurft að þola háðung frá fjölskyldum sínum og jafnvel að þær afneiti þeim. Það sem þeir hafa eignast er þó miklu meira en það sem þeir hafa misst. – Lestu Markús 10:29, 30.

6. Hvað þurfum við að muna ef ættingjar okkar setja sig upp á móti því að við tilbiðjum Jehóva?

6 Við höldum áfram að elska ættingja okkar jafnvel þótt þeir setji sig upp á móti því að við tilbiðjum Jehóva. Við þurfum samt að muna að Guð og Kristur eiga skilið að við elskum þá framar öllum öðrum. (Matt. 10:37) Við þurfum líka að átta okkur á að Satan reynir að nota tilfinningatengsl okkar við fjölskylduna til að fá okkur til að vera ótrú Guði. Skoðum nú nokkur dæmi um andstöðu frá fjölskyldunni og hvernig við getum tekist á við erfiðleikana sem fylgja henni.

ÞEGAR MAKINN ER EKKI Í TRÚNNI

7. Hvernig ættu þjónar Guðs að líta á aðstæður sínar ef maki þeirra er ekki í trúnni?

7 Biblían varar við því að ,lífið verði erfitt‘ hjá þeim sem gifta sig. (1. Kor. 7:28) Ef maki þinn er ekki í trúnni gæti álagið og áhyggjurnar, sem fylgja hjónabandinu, verið meiri en hjá mörgum öðrum. Það er samt mikilvægt að þú lítir aðstæður þínar sömu augum og Jehóva. Þótt maki þinn vilji ekki þjóna Guði eins og er þá er það eitt og sér ekki gild ástæða til að slíta samvistum við hann eða sækja um skilnað. (1. Kor. 7:12-16) Eiginmaður, sem er ekki í trúnni, tekur ekki forystuna í andlegum málum en kona hans ætti samt að virða hann þar sem hann er höfuð fjölskyldunnar. Að sama skapi ætti kristinn eiginmaður að elska konuna sína þótt hún sé ekki í trúnni og sýna henni ást og hlýju. – Ef. 5:22, 23, 28, 29.

8. Að hverju gætirðu spurt þig ef maki þinn reynir að takmarka tilbeiðslu þína?

8 Hvað ef maki þinn reynir að takmarka þjónustu þína við Guð? Eiginmaður systur einnar vildi að hún tæki aðeins þátt í boðuninni á ákveðnum dögum vikunnar. Ef slíkar aðstæður koma upp hjá þér gætirðu spurt þig hvort makinn sé að fara fram á að þú  hættir að tilbiðja Guð. Ef svo er ekki, gætirðu þá lagað þig að beiðni hans? Sanngirni getur hjálpað þér að forðast óþarfan ágreining í hjónabandinu. – Fil. 4:5.

9. Hvernig geta þjónar Guðs kennt börnum sínum að heiðra foreldri sem er ekki í trúnni?

9 Það getur verið mikil áskorun að kenna börnunum ef makinn er ekki í trúnni. Þú þarft meðal annars að kenna þeim boð Biblíunnar um að ,heiðra föður sinn og móður‘. (Ef. 6:1-3) En hvað ef maki þinn hegðar sér ekki í samræmi við háleitar meginreglur Biblíunnar? Vertu til fyrirmyndar með því að virða hann. Einbeittu þér að góðum eiginleikum makans og sýndu að þú kunnir að meta hann. Talaðu ekki neikvætt um makann fyrir framan börnin. Útskýrðu öllu heldur fyrir þeim að hver og einn þurfi að ákveða hvort hann vilji þjóna Jehóva eða ekki. Góð hegðun barnanna gæti laðað makann, sem þjónar ekki Jehóva, að sannri tilbeiðslu.

Notaðu öll tækifæri sem gefast til að kenna börnum þínum sannleika Biblíunnar. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig geta kristnir foreldrar kennt börnum sínum sannleika Biblíunnar ef makinn er ekki í trúnni?

10 Stundum krefst maki, sem er ekki í trúnni, að börnin taki þátt í heiðnum hátíðum eða læri trúarlegar falskenningar. Sumir eiginmenn banna kristnum eiginkonum sínum að fræða börnin um Biblíuna. Hún getur samt gert það sem á hennar valdi stendur til að kenna þeim sannleika Biblíunnar. (Post. 16:1; 2. Tím. 3:14, 15) Eiginmaðurinn leyfir henni kannski ekki að kenna börnunum með formlegum hætti eða taka þau með á samkomur. Hún virðir ákvarðanir hans en hún getur samt tjáð trú sína í návist barna sinna þegar tækifæri gefast. Þannig getur  hún kennt þeim gott siðferði og hjálpað þeim að kynnast Jehóva. (Post. 4:19, 20) Að lokum þurfa börnin auðvitað að ákveða sjálf hvort þau vilji þjóna Jehóva. – 5. Mós. 30:19, 20. *

ÆTTINGJAR SEM STANDA GEGN SANNRI TILBEIÐSLU

11. Hvað getur valdið erfiðleikum í samskiptum við ættingja sem eru ekki vottar?

11 Í fyrstu sögðum við fjölskyldunni kannski ekki frá því að við værum að hitta votta Jehóva. Með tímanum óx þó trúin og við áttuðum okkur á nauðsyn þess að tjá okkur um hana. (Mark. 8:38) Ef afstaða þín hefur valdið erfiðleikum í samskiptum milli þín og ættingja sem eru ekki í trúnni gætirðu skoðað nokkur góð ráð sem geta hjálpað þér að draga úr ágreiningnum án þess að hvika frá ráðvendni þinni.

12. Hvers vegna gætu ættingjar, sem eru ekki í trúnni, snúist gegn okkur en hvernig getum við sýnt þeim skilning?

12 Sýndu ættingjum, sem eru ekki í trúnni, skilning. Við erum kannski í skýjunum yfir þeim biblíusannindum sem við höfum lært en ættingjar okkar halda kannski að við höfum látið plata okkur eða gengið í einhvern skrýtinn sértrúarsöfnuð. Þeir gætu hugsað að okkur sé ekki lengur annt um þá fyrst við höldum ekki hátíðir með þeim. Þeir gætu jafnvel haft áhyggjur af því hvað verður um okkur við dauðann. Við ættum að sýna þeim skilning. Reynum að sjá hlutina frá þeirra sjónarhóli og hlusta vel til að átta okkur á í hverju áhyggjur þeirra felast. (Orðskv. 20:5) Páll postuli lagði sig fram um að skilja allt fólk þannig að hann gæti boðað því fagnaðarerindið. Eins getur það hjálpað okkur að reyna að setja okkur í spor annarra. – 1. Kor. 9:19-23.

13. Hvernig ættum við að tala við ættingja sem eru ekki í trúnni?

13 Tölum mildilega. „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt,“ segir í Biblíunni. (Kól. 4:6) Við getum beðið Jehóva um heilagan anda til að geta sýnt ávöxt hans þegar við tölum við ættingja. Við ættum ekki að fara út í rökræður um allar rangar trúarskoðanir þeirra. Ef þeir særa okkur í tali eða verki ættum við að líkja eftir fordæmi postulanna. Páll skrifaði: „Hrakyrtir blessum við, ofsóttir umberum við. Þegar við erum rægðir uppörvum við.“ – 1. Kor. 4:12, 13.

14. Hvað getur hlotist af því að við hegðum okkur vel?

14 Hegðum okkur vel. Að tala mildilega hjálpar okkur í samskiptum við ættingja sem eru okkur andsnúnir en góð hegðun getur jafnvel haft enn meiri áhrif. (Lestu 1. Pétursbréf 3:1, 2, 16.) Þegar þú sýnir gott fordæmi geta ættingjar þínir séð að vottar Jehóva njóta hamingju í hjónabandi, hugsa vel um börnin sín og lifa siðferðilega hreinu og innihaldsríku lífi. En þó að ættingjar okkar taki aldrei við sannleikanum getum við samt verið ánægð með að góð hegðun okkar gleður Jehóva.

15. Hvernig getum við búið okkur undir aðstæður þar sem deilur gætu komið upp?

15 Verum undirbúin. Hugsaðu um aðstæður þar sem deilur gætu komið upp og ákveddu hvernig þú ætlar að bregðast við. (Orðskv. 12:16, 23) Systir í Ástralíu segir: „Tengdafaðir minn var mjög andsnúinn sannleikanum. Áður en við hringdum til að heyra í honum báðum við maðurinn minn Jehóva að hjálpa okkur að halda ró okkar þegar hann reiddist okkur. Við hugsuðum fyrir fram um hvað við gætum talað þannig að við gætum haldið samræðunum á vinalegum nótum. Við vildum forðast langar samræður sem enduðu yfirleitt með heitum umræðum um trúmál og þess vegna ákváðum við fyrir fram hve langt samtalið yrði.“

16. Hvernig geturðu tekist á við sektarkennd þegar þú getur ekki þóknast ættingjum þínum?

 16 Við getum auðvitað ekki forðast allan ágreining við ættingja sem eru ekki í trúnni. Þegar slíkt missætti kemur upp getum við fengið sektarkennd því að okkur er innilega annt um ættingja okkar og við viljum þóknast þeim. Ef þú finnur fyrir því skaltu muna að trúfesti þín við Jehóva er mikilvægari en kærleikurinn til fjölskyldunnar. Slík afstaða getur reyndar hjálpað ættingjum þínum að gera sér grein fyrir að líf okkar er undir því komið að við þjónum Jehóva. Munum að við getum ekki neytt aðra til að taka við sannleikanum. Látum þá frekar sjá hve góð áhrif það hefur á okkur að fara eftir boðum Jehóva. Kærleiksríkur Guð okkar gefur okkur tækifæri til að ákveða hvaða leið við viljum fara í lífinu og það sama á við um þá. – Jes. 48:17, 18.

EF EINHVER Í FJÖLSKYLDUNNI SNÝR BAKI VIÐ JEHÓVA

17, 18. Hvað getur hjálpað þér að halda út ef einhver í fjölskyldunni snýr baki við Jehóva?

17 Þegar einhverjum í fjölskyldunni er vikið úr söfnuðinum eða yfirgefur hann getur það reynt verulega á og sársaukinn getur verið nístandi. Hvernig getum við tekist á við þennan sársauka?

18 Einbeittu þér að þjónustunni við Jehóva. Byggðu þig upp með því að lesa reglulega í Biblíunni, búa þig undir samkomur og sækja þær, boða trúna og biðja Jehóva um styrk til að halda út. (Júd. 20, 21) En hvað geturðu gert ef þú finnur að hjartað er ekki með í því sem þú gerir og þú gerir það bara af vana? Gefstu ekki upp! Einbeittu þér að því sem snýr að þjónustunni við Jehóva. Það getur hjálpað þér að ná tökum á hugsunum þínum og tilfinningum. Sá sem orti 73. sálminn upplifði það. Hann hafði tileinkað sér rangt viðhorf og það olli honum miklu hugarangri en þegar hann kom á tilbeiðslustað Jehóva gat hann leiðrétt hugarfar sitt. (Sálm. 73:16, 17) Þegar þú tilbiður Jehóva trúfastlega hjálpar það þér að gera slíkt hið sama.

19. Hvernig getum við sýnt að við virðum það hvernig Jehóva agar fólk?

19 Virðum það hvernig Jehóva agar fólk. Þó að ögunin, sem Guð veitir, sé sársaukafull til að byrja með er hún til lengri tíma litið öllum til góðs, þar með talið þeim sem braut af sér. (Lestu Hebreabréfið 12:11.) Jehóva segir okkur til dæmis að ,umgangast ekki‘ iðrunarlausa syndara. (1. Kor. 5:11-13) Það getur vissulega verið sársaukafullt en við verðum samt að forðast almenn samskipti við ættingja sem vikið hefur verið úr söfnuðinum, hvort sem það er með því að nota síma, smáskilaboð, bréf, tölvupóst eða samskiptamiðla.

20. Hvaða von getum við haldið fast í?

20 Haltu fast í vonina. Kærleikurinn „vonar allt“, þar með talið að þeir sem hafa snúið baki við Jehóva komi aftur til hans. (1. Kor. 13:7) Ef þú sérð merki um breytt hjartalag hjá einhverjum í fjölskyldunni geturðu beðið til Jehóva um að hann eða hún geti sótt styrk í Biblíuna og bregðist vel við þessari hvatningu hans: „Hverf aftur til mín.“ – Jes. 44:22.

21. Hvað ættirðu að gera ef það hefur valdið sundrungu í fjölskyldunni að þú skulir fylgja Jesú?

21 Jesús sagði að við værum hans ekki verðug ef við tækjum nokkurn mann fram yfir sig. Hann var samt viss um að lærisveinar sínir hefðu hugrekki til að vera honum trúfastir þrátt fyrir andstöðu frá fjölskyldunni. Ef það hefur valdið sundrungu í fjölskyldu þinni að þú skulir fylgja Jesú skaltu treysta á Jehóva, að hann hjálpi þér að takast á við það. (Jes. 41:10, 13) Þú getur glaðst yfir því að Jehóva og Jesús eru ánægðir með þig og að þeir launi þér trúfesti þína.

^ gr. 10 Nánari upplýsingar um það að fræða börn þegar makinn er ekki í trúnni er að finna í greininni „Questions From Readers“ í Varðturninum á ensku 15. ágúst 2002.