JOHN bjó í litlum bæ í Gujarat á Indlandi. Faðir hans lét skírast sem vottur Jehóva síðla á sjötta áratug síðustu aldar en John, systkini hans fimm og móðir þeirra voru heittrúaðir kaþólikkar. Þau voru því mjög andsnúin trú hans.

Faðir Johns bað hann einn daginn að sendast með bréf til vinar í söfnuðinum. Um morguninn hafði John skorið sig illa á fingri þegar hann var að opna niðursuðudós. Hann vildi samt gera eins og hann var beðinn um, batt tusku um blæðandi fingurinn og lagði af stað fótgangandi með bréfið.

Þegar John kom á staðinn tók eiginkona þess sem átti að fá bréfið við því, en hún var vottur Jehóva. Hún sá að John hafði meitt sig. Hún bauðst til að hjálpa honum, sótti sjúkrakassa, sótthreinsaði sárið og batt um fingurinn. Síðan lagaði hún tebolla handa honum. Meðan þessu fór fram spjallaði hún vingjarnlega við hann um Biblíuna.

Þegar hér var komið sögu voru fordómar Johns gegn vottunum farnir að dvína þannig að hann spurði hana um tvennt þar sem trúarskoðanir hans og pabba hans stönguðust á: Er Jesús Guð og eiga kristnir menn að biðja til Maríu? Systirin hafði lært gujarati og gat því svarað honum á móðurmáli hans. Hún sýndi honum svör Biblíunnar og gaf honum bæklinginn „Þessar góðu fréttir um ríkið“.

John las bæklinginn og fannst hann vera að kynnast sannleika Biblíunnar í fyrsta sinn. Hann fór þá til prestsins síns og lagði sömu spurningar fyrir hann. Presturinn missti fljótlega stjórn á skapi sínu, fleygði Biblíunni í hann og öskraði: „Þú ert orðinn að Satan! Sýndu mér hvar stendur í Biblíunni að Jesús sé ekki Guð. Sýndu mér hvar stendur að það eigi ekki að tilbiðja Maríu. Sýndu mér það!“ John var svo hneykslaður á framkomu prestsins að hann svaraði: „Ég mun aldrei framar stíga fæti inn í kaþólska kirkju.“ Og hann stóð við orð sín.

John tók að kynna sér Biblíuna með hjálp vottanna, tók afstöðu með sannleikanum og fór að þjóna Jehóva. Þegar fram liðu stundir gerðu fleiri í fjölskyldunni slíkt hið sama. John er enn með ör á vísifingri hægri handar þar sem hann skar sig fyrir einum 60 árum en hugsar með hlýju til kærleiksverksins sem varð til þess að hann hefur nú þjónað Jehóva mestan hluta ævinnar. – 2. Kor. 6:4, 6.