Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Við höfum reynt að líkja eftir góðum fyrirmyndum

Við höfum reynt að líkja eftir góðum fyrirmyndum

„Veistu hvað ég er gamall?“ spurði ég. „Ég veit alveg hvað þú ert gamall,“ svaraði Izak Marais sem hringdi í mig frá Patterson í New York. Mig langar til að segja ykkur frá aðdraganda þessa samtals.

ÉG FÆDDIST í Wichita í Kansas í Bandaríkjunum þann 10. desember 1936, elstur fjögurra systkina. Foreldrar mínir, þau William og Jean, voru dyggir þjónar Jehóva. Pabbi var safnaðarþjónn eins og sá sem fór með forystuna í söfnuðinum var kallaður í þá daga. Mamma lærði sannleika Biblíunnar af mömmu sinni, Emmu Wagner. Emma kenndi mörgum sannleikann, meðal annars Gertrude Steele sem var um árabil trúboði á Púertó Ríkó. * Ég hafði því margar góðar fyrirmyndir.

ÁHRIFAVALDAR Í LÍFI MÍNU

Pabbi að bjóða vegfarendum blöðin á götuhorni.

Laugardagskvöld eitt, þegar ég var fimm ára, vorum við pabbi í boðuninni og við vorum að bjóða vegfarendum Varðturninn og Consolation (sem nú heitir Vaknið!). Á þeim tíma var síðari heimsstyrjöldin í algleymingi en pabbi neitaði að gegna herþjónustu til að varðveita kristið hlutleysi sitt. Drukkinn læknir átti leið hjá og jós skömmum yfir pabba og sagði að hann væri skræfa og hefði skotið sér undan herþjónustu. Læknirinn gekk fast upp að pabba og sagði: „Lemdu mig bara, bleyðan þín!“ Ég var með hjartað í buxunum en dáðist að því hvernig pabbi hélt bara áfram að bjóða blöðin þeim sem höfðu safnast í kringum okkur. Þá átti hermaður leið hjá og læknirinn æpti: „Taktu í hnakkadrambið á þessari bleyðu þarna!“ Hermaðurinn sá að maðurinn var ölvaður og sagði: „Farðu heim og sofðu úr þér!“ Síðan fóru þeir báðir. Þegar ég hugsa til baka er ég þakklátur fyrir að Jehóva skyldi gefa pabba slíkt hugrekki. Pabbi átti tvær rakarastofur í Wichita og læknirinn var á meðal viðskiptavina hans.

Á leið á mót í Wichita á fimmta áratugnum með foreldrum mínum.

Þegar ég var átta ára seldu foreldrar mínir húsið og rakarastofurnar. Þau smíðuðu sér húsvagn og fluttu til Colorado þar sem vantaði boðbera. Við settumst að nálægt Grand Junction og þar störfuðu foreldrar mínir sem brautryðjendur og unnu hlutastarf hjá bændum við búfjárrækt og  landbúnað. Með blessun Jehóva og dugnaði þeirra sjálfra tókst að mynda söfnuð. Pabbi skírði mig þar í á nokkurri þann 20. júní 1948 ásamt fleirum sem höfðu tekið á móti sannleikanum, þar á meðal Billie Nichols og eiginkonu hans. Þau voru síðar í farandstarfi og sömuleiðis sonur þeirra og eiginkona hans.

Við eignuðumst marga góða vini meðal trúsystkina okkar sem voru önnum kafin í þjónustu Jehóva. Þar vil ég sérstaklega nefna Steele-fjölskylduna, þau Don og Earlene, Dave og Juliu, og Si og Mörthu. Við fjölskyldan höfðum gaman af því að ræða um Biblíuna við þau og þau höfðu sterk áhrif á mig. Ég lærði af þeim að það gefur manni gleði og tilgang í lífinu að láta ríki Guðs ganga fyrir öðru.

ÉG FLYT AÐ HEIMAN

Þegar ég var 19 ára spurði Bud Hasty, sem var fjölskylduvinur, hvort ég vildi vera brautryðjandafélagi hans í suðurríkjum Bandaríkjanna. Farandhirðirinn bað okkur að flytjast til Ruston í Louisiana þar sem margir vottar voru orðnir óvirkir. Okkur var sagt að halda allar samkomur vikunnar óháð því hve margir kæmu. Við fundum hentugt húsnæði til samkomuhalds og standsettum það. Við héldum hverja einustu samkomu en um tíma voru einu samkomugestirnir við tveir. Við skiptumst á að sjá um dagskrárliðina, annar stjórnaði og hinn svaraði öllum spurningunum. Ef sýnikennsla var á dagskrá vorum við báðir á sviðinu og enginn úti í sal. Um síðir byrjaði roskin systir að sækja samkomurnar. Að lokum fóru svo nokkrir biblíunemendur og óvirkir vottar að koma og áður en langt um leið vorum við orðin líflegur söfnuður.

Dag einn hittum við prest nokkurn sem ræddi um ritningarstaði sem ég kannaðist ekki við. Það sló mig aðeins út af laginu og ég sá að ég þurfti að rannsaka betur það sem ég trúði á. Í heila viku sat ég fram á nótt við lestur til að finna svör við spurningunum sem hann varpaði fram. Þetta hjálpaði mér að styrkja samband mitt við Jehóva og ég var meira en tilbúinn til að hitta annan prest.

Stuttu seinna bað farandhirðirinn mig um að flytja til El Dorado í Arkansas til að aðstoða söfnuðinn í bænum. Meðan ég var þar ferðaðist ég oft til Colorado til að mæta á herkvaðningarstofuna. Eitt sinn þegar ég var á leiðinni þangað ásamt nokkrum öðrum brautryðjendum lentum við í umferðaróhappi í Texas og bíllinn eyðilagðist. Við hringdum í bróður sem sótti okkur og fór með  okkur heim til sín og svo á samkomu. Þar var tilkynnt að við hefðum orðið fyrir óhappi og bræðurnir stungu að okkur peningum. Þeir seldu líka bílinn fyrir 25 dollara.

Við fengum far til Wichita. Náinn fjölskylduvinur, E. F. McCartney sem við kölluðum Doc, var brautryðjandi þar. Frank og Francis, tvíburasynir hans, voru og eru enn bestu vinir mínir. Þeir áttu gamlan bíl sem þeir seldu mér fyrir 25 dollara, nákvæmlega sömu upphæð og ég hafði fengið fyrir bílflakið. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá greinilega að Jehóva sá mér fyrir nauðsynjum af því að ég lét ríki hans ganga fyrir. McCartney-bræðurnir kynntu mig fyrir Bethel Crane, fallegri systur sem var dugleg í þjónustu Jehóva. Ruth, mamma hennar, bjó í Wellington í Kansas. Hún var ötull vottur og var brautryðjandi fram yfir nírætt. Við Bethel giftum okkur innan við ári síðar en það var árið 1958. Hún starfaði síðan með mér sem brautryðjandi í El Dorado.

SPENNANDI BOÐ

Við vildum líkja eftir þeim góðu fyrirmyndum sem við höfðum haft á uppvaxtarárunum og ákváðum að bjóða okkur fram til hvaða verkefna sem er í söfnuði Jehóva. Okkur var falið að starfa sem sérbrautryðjendur í Walnut Ridge í Arkansas. Við vorum himinlifandi að vera boðið að sækja Gíleaðskólann árið 1962 sem var þá haldinn í 37. skipti. Okkur til mikillar ánægju var Don Steele meðal nemenda. Við útskriftina fengum við hjónin að vita að við ættum að fara til Naíróbí í Kenía. Við vorum með kökk í hálsinum þegar við yfirgáfum New York en hann hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar við sáum trúsystkini okkar sem tóku á móti okkur á flugvellinum í Naíróbí.

Í boðuninni í Naíróbí með Mary og Chris Kanaiya.

Það leið ekki á löngu þar til við kunnum mjög vel við okkur í Kenía. Við höfðum yndi af því að starfa þar. Fyrstu biblíunemendur okkar, sem tóku við sannleikanum, voru Chris og Mary Kanaiya. Þau þjóna Jehóva enn í fullu starfi í Kenía. Árið eftir vorum við beðin um að fara til Kampala í Úganda. Við vorum fyrstu trúboðarnir þar í landi. Þetta voru spennandi tímar af því að svo margir höfðu brennandi áhuga á að kynnast sannleikanum og urðu trúsystkini okkar. En eftir þrjú og hálft ár í Afríku snerum við aftur til Bandaríkjanna þegar konan mín átti von á barni. Kökkurinn í hálsinum var miklu stærri daginn sem við yfirgáfum Afríku en þegar við fórum frá New York. Fólkið í Afríku var orðið okkur mjög kært og við vonuðumst til að geta snúið þangað aftur einn góðan veðurdag.

NÝTT VERKEFNI

Við settumst að í vesturhluta Colorado þar sem foreldrar mínir bjuggu. Stuttu seinna fæddist eldri dóttir okkar, Kimberly, og 17 mánuðum síðar eignuðumst við Stephany. Við tókum foreldrahlutverkið mjög alvarlega og einsettum okkur að kenna stúlkunum okkar sannleikann. Við vildum líkja eftir þeim fyrirmyndum sem við höfðum haft þegar við vorum að alast upp. Við vissum að góðar fyrirmyndir geta haft sterk áhrif á börn en eru þó engin trygging fyrir því að þau þjóni Jehóva þegar þau vaxa úr grasi. Bróðir minn og systir fóru frá sannleikanum. Vonandi snúa þau til baka og feta aftur í fótspor þeirra góðu fyrirmynda sem þau höfðu.

Við nutum þess að ala dætur okkar upp og reyndum alltaf að gera hlutina saman sem fjölskylda. Við bjuggum nálægt Aspen í Colorado og  lærðum á skíði svo að við gætum af og til farið saman á skíði. Í skíðalyftunni á leiðinni upp brekkurnar fengum við tækifæri til að eiga samræður við stelpurnar. Við fórum líka saman í útilegur og áttum góðar og ánægjulegar samræður við varðeld. Þótt þær væru ekki háar í loftinu spurðu þær spurninga eins og: „Hvað ætti ég að verða þegar ég verð stór?“ og „Hvers konar manni ætti ég að giftast?“ Við gerðum allt sem við gátum til að kenna stelpunum lífsreglur Jehóva. Við hvöttum þær til að stefna að því að þjóna Jehóva í fullu starfi og velja sér maka sem hefði sama markmið. Við reyndum að sýna þeim fram á að það væri ekki skynsamlegt að giftast of ungur. Við sögðum oft: „Giftu þig ekki fyrr en í fyrsta lagi tuttugu og þriggja.“

Við líktum eftir foreldrum okkar og lögðum okkur í líma við að sækja samkomur og taka reglulega þátt í boðuninni sem fjölskylda. Stundum buðum við þeim sem voru í fullu starfi að gista hjá okkur. Við töluðum líka oft um þau ánægjulegu ár sem við vorum trúboðar og hve gaman væri að heimsækja Afríku saman einn góðan veðurdag. Stelpurnar voru mjög spenntar fyrir því.

Við létum fjölskyldunámið aldrei falla niður. Við æfðum stundum viðbrögð við aðstæðum sem gætu komið upp í skólanum. Stelpurnar léku þá votta sem svöruðu spurningum skólafélaga. Þeim fannst þetta skemmtilegt og það gaf þeim sjálfstraust. Þegar þær stækkuðu kvörtuðu þær stundum yfir því að þurfa að vera í fjölskyldunáminu. Eitt sinn gafst ég upp og sagði þeim að fara inn í herbergi sín og það yrði ekkert fjölskyldunám. Þeim var brugðið og þær fóru að gráta. Þær sögðu að þær vildu ekki að námið félli niður. Þá gerðum við okkur grein fyrir að þær höfðu í raun ánægju af því að læra um Jehóva. Með tímanum fengu þær enn meiri mætur á náminu og þær sögðu okkur opinskátt frá hugsunum sínum og tilfinningum. Okkur fannst stundum erfitt að heyra þær segja að þær væru ekki sammála sumu í Biblíunni. En þannig fengum við að vita hvað bjó í hjarta þeirra. Og eftir að hafa rökrætt málin voru þær sammála sjónarmiðum Jehóva.

FLEIRI BREYTINGAR

Þessi ár, sem við notuðum til að ala upp dætur okkar, liðu hraðar en við hefðum getað ímyndað okkur. Við gerðum okkar besta til að glæða með þeim kærleika til Jehóva með hjálp og leiðsögn safnaðarins. Við vorum Jehóva innilega þakklát þegar báðar stelpurnar gerðust brautryðjendur eftir framhaldsskóla og öfluðu sér kunnáttu til að geta séð fyrir sér. Þær fluttu til Cleveland í Tennessee með tveim öðrum systrum því að þær vildu starfa þar sem vantaði boðbera. Við söknuðum þeirra mikið en glöddumst yfir því að þær skyldu nota krafta sína til að þjóna Jehóva í fullu starfi. Við Bethel tókum upp brautryðjandastarfið á ný og það opnaði dyr að fleiri ánægjulegum verkefnum. Við leystum meðal annars af í farandstarfi og unnum við mótin.

Áður en dætur okkar fluttu til Tennessee ferðuðust þær til Lundúna á Englandi og heimsóttu deildarskrifstofuna. Þar hitti Stephany ungan Betelíta, Paul Norton að nafni. Hún var þá 19 ára. Síðar hitti Kimberly vinnufélaga hans, Brian Llewellyn. Paul og Stephany gengu í hjónaband – eftir að hún varð 23 ára. Brian og Kimberly giftust árið eftir þegar hún var 25 ára. Þær giftu sig því ekki fyrr en þær voru orðnar 23 ára. Við vorum mjög ánægð með val þeirra á eiginmönnum.

Við hjónin ásamt Paul, Stephany, Kimberly og Brian á deildarskrifstofunni í Malaví árið 2002.

Dætur okkar hafa sagt að við hjónin og foreldrar okkar höfum verið þeim góðar fyrirmyndir. Það hafi hjálpað þeim að ,leita fyrst ríkis Guðs‘, jafnvel þegar þær voru í peningavandræðum. (Matt. 6:33) Í apríl 1998 var Paul og Stephany boðið að sækja Gíleaðskólann (þá haldinn í 105. skipti) og þau voru síðan send til Malaví í Afríku. Á sama tíma var Brian og Kimberly boðið að starfa á Betel í Lundúnum og síðar voru þau send til Malaví til að starfa á Betel þar. Við vorum afskaplega ánægð því að þau eru að nota líf sitt á besta veg sem hugsast getur.

ENN EITT SPENNANDI BOÐ

Í janúar 2001 fékk ég símtalið sem ég minntist á í upphafi. Izak Marais, umsjónarmaður þýðingarþjónustunnar, sagði að námskeið væri í bígerð til  að bæta enskuskilning þýðenda um allan heim. Og þótt ég væri orðinn 64 ára stæði mér til boða að vera einn af leiðbeinendunum og fá tilheyrandi þjálfun. Við hjónin lögðum málið fyrir Jehóva í bæn og ræddum við aldraðar mæður okkar til að fá álit þeirra. Þær vildu báðar að við þægjum boðið jafnvel þótt það þýddi að við gætum ekki verið þeim til aðstoðar. Ég hringdi til baka til að láta vita að við værum meira en fús til að taka þátt í þessu spennandi verkefni.

Stuttu seinna greindist mamma með krabbamein. Ég sagði henni að við yrðum um kyrrt til að hjálpa Lindu systur að annast hana. „Það kemur ekki til greina,“ svaraði mamma. „Mér myndi líða verr ef þið færuð ekki.“ Linda var sama sinnis. Við vorum þeim innilega þakklát fyrir fórnfýsina og trúsystkinum á svæðinu fyrir aðstoð þeirra. Daginn eftir að við fluttum til fræðslumiðstöðvarinnar í Patterson hringdi Linda til að segja okkur að mamma væri látin. Við einbeittum okkur að nýja verkefninu eins og mamma hefði viljað.

Fyrst var okkur falið að halda námskeið á deildarskrifstofunni í Malaví þar sem dætur okkar og eiginmenn störfuðu. Það var dásamlegt að vera saman að nýju. Næst héldum við námskeið í Simbabve og síðan í Sambíu. Eftir þrjú og hálft ár í þessu starfi vorum við beðin um að snúa aftur til Malaví til að skrá sögu vottanna sem voru ofsóttir þar í landi vegna hlutleysis síns. *

Í boðuninni með barnabörnunum.

Árið 2005 snerum við heim til Basalt í Colorado, enn og aftur með kökk í hálsinum. Þar störfum við hjónin núna sem brautryðjendur. Árið 2006 fluttu Brian og Kimberly í næsta hús við okkur til að ala upp dætur sínar tvær, þær Mackenzie og Elizabeth. Paul og Stephany eru enn í Malaví og hann situr þar í deildarnefndinni. Núna er ég að verða áttræður og það er ánægjulegt að sjá unga bræður, sem ég hef starfað með á liðnum árum, taka að sér ábyrgðastörf sem ég var með áður. Gleðin, sem við höfum hlotið, er að stórum hluta að þakka góðum fyrirmyndum sem við höfðum. Við höfum reynt að líkja eftir þeim og það hefur verið börnum okkar og barnabörnum til góðs.

^ gr. 5 Hægt er að lesa um trúboðsstarf Steele-fjölskyldunnar í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. maí 1956 bls. 269-272 og 15. mars 1971 bls. 186-190.

^ gr. 30 Sjá til dæmis ævisögu Trophims Nsomba í Varðturninum 15. apríl 2015 bls. 14-18.