Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kölluð út úr myrkrinu

Kölluð út úr myrkrinu

„[Jehóva] kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ – 1. PÉT. 2:9.

SÖNGVAR: 116, 102

1. Lýstu eyðingu Jerúsalem.

ÁRIÐ 607 f.Kr. réðst öflugur her Babýloníumanna inn í Jerúsalem undir forystu Nebúkadnesars konungs annars. Í Biblíunni segir um blóðbaðið sem fylgdi í kjölfarið: „Hann felldi æskumenn þeirra með sverði í húsi helgidóms þeirra. Hann hlífði hvorki ungum körlum né konum, kornabörnum né öldungum ... Kaldear brenndu hús Guðs, rifu niður múra Jerúsalem, kveiktu í öllum höllum borgarinnar og skemmdu allt verðmætt.“ – 2. Kron. 36:17, 19.

2. Hvernig varaði Jehóva við yfirvofandi eyðingu Jerúsalem og hvernig myndi fara fyrir Gyðingum?

2 Eyðing Jerúsalem hefði ekki átt að koma borgarbúum á óvart. Spámenn Guðs höfðu árum saman varað Gyðinga við því að Babýloníumenn myndu hneppa þá í ánauð ef þeir héldu áfram að sniðganga lög Guðs. Fjöldi Gyðinga myndi falla fyrir sverði og þeir sem eftir lifðu myndu að öllum líkindum þurfa að búa í Babýlon það sem eftir var ævinnar. (Jer. 15:2) Hvernig var lífið í útlegðinni? Átti útlegðin í Babýlon sér hliðstæðu eftir að kristnin kom til skjalanna? Ef svo er, hvenær?

 LÍFIÐ Í ÚTLEGÐINNI

3. Að hvaða leyti var útlegðin í Babýlon ólík þrælkun Ísraelsmanna í Egyptalandi?

3 Það fór eins og spámennirnir höfðu sagt. Jehóva ráðlagði hinum útlægu að sætta sig við breyttar aðstæður og gera gott úr þeim. Hann sagði fyrir munn Jeremía: „Reisið hús [í Babýlon] og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra. Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill.“ (Jer. 29:5, 7) Þeir sem gerðu eins og Guð sagði þeim lifðu tiltölulega eðlilegu lífi í Babýlon. Herraþjóðin leyfði þeim að vissu marki að ráða málum sínum sjálfir. Hinum útlægu var frjálst að ferðast um landið. Babýlon var miðstöð verslunar og viðskipta til forna, og fundist hafa áletranir sem benda til þess að margir Gyðingar hafi lært þar kaupmennsku og aðrir handverk af ýmsu tagi. Einstaka Gyðingur efnaðist meira að segja vel. Útlegðin í Babýlon var harla ólík þrælkuninni í Egyptalandi sem Ísraelsmenn höfðu búið við öldum áður. – Lestu 2. Mósebók 2:23-25.

4. Hverjir þurftu að taka út refsingu ásamt þjóðinni í heild og hvaða takmörk voru sett á tilbeiðslu þeirra?

4 Það var bærilega séð fyrir efnislegum þörfum Gyðinga í útlegðinni. En hvað um andlegu þarfirnar? Musterið hafði verið lagt í rúst ásamt altarinu, og prestar Gyðinga störfuðu ekki lengur með skipulegum hætti. Meðal hinna útlægu voru trúir þjónar Guðs sem verðskulduðu alls ekki refsingu en urðu engu að síður að taka hana út ásamt þjóðinni í heild. Þeir gerðu samt það sem þeir gátu til að hlýða lögum Guðs. Daníel og félagar hans þrír, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó, borðuðu til dæmis ekki mat sem Gyðingar máttu ekki borða. Og við vitum að Daníel bað reglulega til Guðs. (Dan. 1:8; 6:11) Undir stjórn heiðinna manna var þó ógerlegt fyrir guðhrædda Gyðinga að fylgja Móselögunum í einu og öllu.

5. Hvaða loforð gaf Jehóva þjóð sinni og hvers vegna var það sérstakt?

5 Áttu Gyðingar einhvern möguleika á að tilbiðja Guð aftur á þann hátt sem hann vildi? Útlitið var ekki bjart. Babýloníumenn gáfu herleiddum þjóðum aldrei heimfararleyfi. En þessi stefna þeirra gerði ekki ráð fyrir íhlutun Jehóva Guðs. Hann hafði lofað að frelsa þjóð sína og það gerði hann. Loforð hans bregðast aldrei. – Jes. 55:11.

Á ÚTLEGÐIN SÉR HLIÐSTÆÐU Í NÚTÍMANUM?

6, 7. Hvers vegna höfum við þurft að endurskoða þá skýringu okkar að kristnir menn hafi verið hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu í byrjun síðustu aldar?

6 Hafa kristnir menn upplifað eitthvað sambærilegt við útlegðina í Babýlon? Árum saman hefur sú skoðun komið fram í þessu tímariti að þjónar Guðs hafi verið hnepptir í ánauð Babýlonar árið 1918 og verið leystir úr haldi árið 1919. Í þessari grein og þeirri næstu lítum við á nokkrar ástæður fyrir því að við höfum skoðað málið upp á nýtt.

7 Hugleiddu eftirfarandi: Babýlon hin mikla er heimsveldi falskra trúarbragða. Til að lenda í ánauð hennar árið 1918 hefðu þjónar Guðs þurft að verða þrælar falskra trúarbragða á einhvern hátt á þeim tíma. Sagan sýnir hins vegar að  á áratugunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina voru andasmurðir þjónar Guðs að losna úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu en ekki öfugt. Hinir andasmurðu voru vissulega ofsóttir á styrjaldarárunum en það voru fyrst og fremst veraldleg yfirvöld sem stóðu fyrir því, ekki Babýlon hin mikla. Það verður því ekki séð að þjónar Jehóva hafi verið hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu árið 1918.

BABÝLONSK ÁNAUÐ – EN HVENÆR?

8. Hvernig spilltist sönn kristni? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Þúsundir Gyðinga og trúskiptinga voru smurðar heilögum anda á hvítasunnu árið 33. Þessir nýkristnu menn urðu „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður“. (Lestu 1. Pétursbréf 2:9, 10.) Postularnir gættu kristnu safnaðanna vel meðan þeir lifðu. En þegar fram liðu stundir, ekki síst eftir að postularnir dóu, tóku sumir í söfnuðunum að flytja „rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér“. (Post. 20:30; 2. Þess. 2:6-8) Margir þessara manna gegndu ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Þeir voru umsjónarmenn og síðar „biskupar“. Prestastétt var tekin að myndast þó að Jesús hefði sagt við fylgjendur sína að þeir væru allir bræður. (Matt. 23:8) Virtir menn í söfnuðinum, sem hrifust af heimspeki Aristótelesar og Platóns, komu með falskar trúarhugmyndir inn í söfnuðinn og ýttu smám saman til hliðar hinum hreina sannleika Biblíunnar.

9. Hvernig studdi Rómaveldi fráhvarfsútgáfu kristninnar og með hvaða afleiðingum?

9 Konstantínus Rómarkeisari, sem var heiðinn, veitti þessari fráhvarfskristni lagalega viðurkenningu árið 313. Það var upphafið að nánu samstarfi ríkis og kirkju. Lítum á dæmi. Eftir kirkjuþingið í Níkeu fyrirskipaði Konstantínus að Aríus prestur skyldi gerður útlægur af því að hann vildi ekki viðurkenna að Jesús væri Guð. Í valdatíð Þeódósíusar keisara fyrsta (379-395) varð kaþólsk trú, eins og þessi fráhvarfstrú var síðar nefnd, hin opinbera ríkistrú Rómaveldis. Sagnfræðingar taka svo til orða að hið heiðna Rómaveldi hafi „snúist til kristni“ á fjórðu öld. Sannleikurinn er hins vegar sá að þegar hér var komið sögu var þessi fráhvarfsútgáfa kristninnar orðin hluti af Babýlon hinni miklu, ásamt heiðnum trúarbrögðum Rómaveldis. Fámennur hópur andasmurðra kristinna manna gerði engu að síður sitt besta til að tilbiðja Guð en raddir þeirra máttu sín lítils. (Lestu Matteus 13:24, 25, 37-39.) Þeir voru svo sannarlega í ánauð Babýlonar hinnar miklu.

10. Hvernig gat einlægt fólk lagt mat á kenningar kirkjunnar á fyrstu öldum okkar tímatals?

10 Á fyrstu öldum okkar tímatals gátu samt margir lesið Biblíuna á grísku eða latínu. Þeir höfðu þá tækifæri til að skoða trúarsetningar kirkjunnar í ljósi Biblíunnar. Þeir sáu að margar þeirra voru óbiblíulegar og sumir þeirra höfnuðu þeim. En það var varasamt – jafnvel lífshættulegt – að láta slíkar skoðanir í ljós.

11. Hvernig náði prestastétt kirkjunnar Biblíunni á sitt vald?

11 Með tíð og tíma hætti fjöldinn að tala grísku og latínu, og kirkjan lagðist gegn því að Biblían væri þýdd á tungumál almennings. Það fór því svo  að það voru aðeins prestar kirkjunnar og sumir menntamenn sem gátu lesið Biblíuna, þó að prestar hafi reyndar ekki allir verið vel læsir eða skrifandi. Þeir sem létu í ljós aðrar skoðanir en kirkjan máttu búast við harðri refsingu. Trúir andasmurðir þjónar Guðs urðu að hittast í litlum hópum svo lítið bar á – ef það var á annað borð hægt. Hinn andasmurði ,konunglegi prestdómur‘ gat ekki starfað með skipulegum hætti á þeim tíma frekar en prestar Gyðinga í útlegðinni í Babýlon. Babýlon hin mikla hélt fólki í skrúfstykki.

LJÓSGLÆTA TEKUR AÐ SKÍNA

12, 13. Nefndu tvennt sem stuðlaði að því að það losnaði lítið eitt um tangarhald Babýlonar hinnar miklu á fólki.

12 Áttu sannkristnir menn einhvern tíma eftir að geta tilbeðið Guð fyrir opnum tjöldum? Já. Tvennt varð þess valdandi að andleg ljósglæta tók að lýsa gegnum myrkrið. Annað var tilkoma prentvélar með lausaletri um miðbik 15. aldar. Áður en prentunin var fundin upp á Vesturlöndum þurfti að afrita Biblíuna samviskusamlega í höndum. Biblían var bæði fágæt og dýr. Talið er að það hafi tekið færan ritara tíu mánuði að fullgera eitt biblíuhandrit. Og ritararnir notuðu skinn til að skrifa á og það kostaði skildinginn. Með prentvél og pappír var hins vegar hægt að prenta heilar 1.300 blaðsíður á dag!

Nýjungar á sviði prentunar og hugrakkir biblíuþýðendur áttu þátt í því að losa um tangarhald Babýlonar hinnar miklu. (Sjá 12. og 13. grein.)

13 Hitt sem kom til var að fáeinir hugrakkir menn ákváðu að þýða orð Guðs á tungumál almennings í byrjun 16. aldar. Margir þýðendur hættu lífinu til þess. Kirkjunnar menn voru skelfingu lostnir. Biblían gat verið hættulegt vopn í höndum guðhræddra karla eða kvenna – eða þannig hugsuðu kirkjunnar  menn að minnsta kosti. En ekki stóð á því að fólk læsi Biblíuna þegar það fékk aðgang að henni. Og þegar það las spurði það spurninga: Hvar í Biblíunni er minnst á hreinsunareld? Eða sálumessur fyrir látnum gegn gjaldi? Eða páfa og kardínála? Frá sjónarhóli kirkjunnar var þetta hrein óhæfa. Hvernig dirfðist almenningur að véfengja orð kirkjuleiðtoganna? Kirkjan sneri vörn í sókn. Þeir sem voguðu sér að afneita kenningum hennar voru dæmdir til dauða fyrir villutrú. Það skipti ekki máli þótt sumar þessara kenninga væru byggðar á heiðinni heimspeki Aristótelesar og Platóns sem voru uppi löngu fyrir Kristsburð. Kirkjan felldi dauðadóminn – ríkið fullnægði honum. Markmiðið var að letja fólk þess að lesa Biblíuna og að véfengja kennivald kirkjunnar. Þetta dugði á heildina litið til að halda fólki í skefjum. Einstaka karlar og konur neituðu þó að láta Babýlon hina miklu kúga sig. Þau höfðu fengið að smakka á orði Guðs – og vildu meira! Nú var búið að undirbúa jarðveginn til að fólk gæti losnað úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu.

14. (a) Hvað stuðlaði að bættum skilningi á sannleika Biblíunnar síðla á 19. öld? (b) Lýstu leit bróður Russells að sannleikanum.

14 Margir sem þyrsti í sannleika Biblíunnar flúðu til landa þar sem áhrif kirkjunnar voru minni. Þá langaði til að geta lesið, hugleitt og rætt saman án þess að vera skikkaðir til að hugsa á ákveðinn veg. Það var í einu þessara landa, nánar tiltekið Bandaríkjunum, sem Charles Taze Russell og fáeinir félagar hans tóku að rannsaka Biblíuna markvisst á síðari hluta 19. aldar. Í fyrstu hafði bróðir Russell ætlað sér að kanna hvert þáverandi trúfélaga kenndi sannleikann. Hann hafði borið kenningar margra trúfélaga, bæði kristinna og annarra, vandlega saman við orð Biblíunnar. Það rann fljótt upp fyrir honum að ekkert þessara trúfélaga fylgdi orði Guðs í einu og öllu. Einu sinni fundaði hann með allmörgum prestum í von um að þeir tækju við þeim sannindum sem hann og félagar hans höfðu fundið í Biblíunni og tækju að kenna þau söfnuðum sínum. En prestarnir létu sér fátt um finnast. Biblíunemendurnir urðu að horfast í augu við veruleikann: Þeir áttu ekkert saman að sælda við þá sem voru ákveðnir í að halda í falstrúna. – Lestu 2. Korintubréf 6:14.

15. (a) Hvenær voru kristnir menn hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu? (b) Hvaða spurningum er svarað í greininni á eftir?

15 Við höfum nú komist að raun um að sannkristnir menn voru hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu skömmu eftir að síðasti postulinn dó. En mörgum spurningum er enn ósvarað: Hvaða fleiri rök eru fyrir því að hinir andasmurðu hafi verið að slíta af sér fjötra Babýlonar hinnar miklu á áratugunum fyrir 1914? Hafði Jehóva vanþóknun á þjónum sínum vegna þess að það hægði á boðuninni hjá þeim meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir? Höfðu sumir af bræðrum okkar vikið frá kristnu hlutleysi og bakað sér vanþóknun Jehóva? Og hvenær losnuðu kristnir menn úr fjötrum falstrúarbragða fyrst þeir lentu í ánauð þeirra á annarri öld? Þetta eru áhugaverðar spurningar og þeim er svarað í næstu grein.