Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÚR SÖGUSAFNINU

„Boðberar Guðsríkis í Bretlandi – vaknið!!“

„Boðberar Guðsríkis í Bretlandi – vaknið!!“

ÞETTA var eins og útkall: „Boðberar Guðsríkis í Bretlandi – vaknið!!“ (Informant * desember 1937, Lundúnarútgáfan) Undirfyrirsögnin vakti fólk líka til umhugsunar: „Engin áberandi aukning á tíu árum.“ Því til sönnunar var á forsíðunni birt skýrsla af starfinu frá árinu 1928 til 1937.

OF MARGIR BRAUTRYÐJENDUR?

Hvað varð til þess að drifkrafturinn í boðuninni hafði dvínað í Bretlandi? Það var greinilegt að söfnuðirnir „hjökkuðu í sama farinu“ og héldu áfram á sama hraða og þeir höfðu gert um árabil. Deildarskrifstofan hafði þar að auki ákveðið að aðeins væri þörf fyrir um 200 brautryðjendur á svæðinu og þeir störfuðu á einangruðum svæðum í stað þess að starfa með söfnuðunum. Þess vegna hafði deildarskrifstofan sagt þeim sem voru að hugsa um brautryðjandastarf að ekki væru lausar stöður fyrir þá í Bretlandi og hvatti þá til að flytjast til annarra landa í Evrópu. Það var hrósvert að fjöldi brautryðjenda fluttist til landa eins og Frakklands þrátt fyrir að kunna lítið eða ekkert í tungumálinu.

HVÖTT TIL VERKA

Í greininni í Informant árið 1937 var sett krefjandi markmið fyrir árið 1938: Milljón klukkustundir! Auðvelt yrði að ná markmiðinu ef boðberar notuðu 15 klukkustundir á mánuði í boðuninni og brautryðjendur 110. Meðal annars var hvatt til að skipuleggja starfshópa sem myndu taka sér fimm tíma starfsdaga og að fólk einbeitti sér að endurheimsóknum, sérstaklega á kvöldin á virkum dögum.

Ákafir brautryðjendur sýna eldmóð í boðuninni.

Margir voru mjög spenntir yfir þessari auknu áherslu á boðunina. „Aðalstöðvarnar vildu hvetja okkur til verka. Flest okkar höfðu beðið eftir því og árangurinn lét ekki á sér standa,“ segir Hilda Padgett. * Systir E. F. Wallis segir líka: „Tillagan um fimm tíma starfsdaga var frábær. Hvað gat veitt okkur meiri ánægju en að verja heilu dögunum í þjónustu Drottins? ... Við komum kannski þreytt heim, en vorum við ánægð? Hvort við vorum!“ Stephen Miller, sem var ungur bróðir, fann hve áríðandi þetta starf var og svaraði kallinu. Hann vildi nota tækifærið meðan það gafst. Hann mundi eftir hópum á reiðhjólum sem notuðu heilu dagana í boðuninni og á sumarkvöldum spiluðu þeir upptökur af ræðum. Þeir gengu ákafir um borgir og bæi með upplýsingaspjöld og buðu blöð á götum úti.

Í Informant birtist einnig þetta nýstárlega ákall: „Við þurfum 1.000 manna brautryðjendaher.“ Starfssvæðið var skipulagt með nýjum hætti þannig að brautryðjendur voru ekki lengur aðskildir frá söfnuðunum heldur unnu með þeim, studdu þá og styrktu. „Mörgum bræðrum og systrum varð ljóst að þau þyrftu að gerast brautryðjendur,“ segir  Joyce Ellis (fædd Barber). „Þó að ég hafi bara verið 13 ára var þetta það sem ég vildi gera,“ segir hún. „Ég vildi verða brautryðjandi.“ Hún náði markmiði sínu í júlí 1940, þá 15 ára. Peter, sem síðar kvæntist Joyce, fór að hugsa um að gerast brautryðjandi þegar hann heyrði þessa hvatningu. Í júní 1940, þá 17 ára, hjólaði hann rúmlega 100 kílómetra til Scarborough, en þangað hafði hann verið sendur til að starfa sem brautryðjandi.

Cyril og Kitty Johnson voru gott dæmi um fórnfúsa boðbera sem gerðust brautryðjendur. Þau ákváðu að selja húsnæði sitt og eigur til að geta boðað trúna í fullu starfi. Cyril sagði upp vinnunni og á innan við mánuði gátu þau hafið brautryðjandastarf. Hann sagði: „Við efuðumst ekki um ákvörðun okkar. Við gerðum þetta fús og með glöðu geði.“

KOMIÐ VAR UPP BRAUTRYÐJENDAHEIMILUM

Brautryðjendum fjölgaði hratt og bræður í ábyrgðarstöðum veltu fyrir sér hvernig hægt væri að styðja við þennan her brautryðjenda. Jim Carr, sem var farandhirðir árið 1938, fór eftir tillögunni um að koma upp brautryðjendaheimilum í borgum. Brautryðjendahópar voru hvattir til að búa og starfa saman þannig að þeir gætu haldið kostnaðinum í lágmarki. Í Sheffield var leigt stórt hús sem ábyrgum bróður var falið að hafa umsjón með. Fólk í söfnuðinum á staðnum gaf framlög og kom með húsgögn. Jim sagði: „Allir lögðu sig fram um að láta þetta ganga upp.“ Tíu ötulir brautryðjendur bjuggu þar og þeir héldu uppi góðri andlegri dagskrá. „Dagstextinn var ræddur á hverjum morgni við morgunverðarborðið“ og „brautryðjendurnir störfuðu daglega á svæðunum sínum í hinum ýmsu borgarhlutum“.

Brautryðjendum fjölgaði óðum á starfssvæði Bretlands.

Boðberar sem og brautryðjendur svöruðu kallinu og náðu milljón tíma markmiðinu árið 1938. Skýrslur sýna reyndar að aukning varð á öllum sviðum boðunarinnar. Fjöldi boðbera í Bretlandi þrefaldaðist næstum því á fimm árum. Þessi aukna áhersla á þjónustuna við ríki Guðs styrkti þjóna hans og bjó þá undir erfið stríðsárin sem fram undan voru.

Brautryðjendum í Bretlandi fjölgar einnig nú þegar Harmagedón, stríð Guðs, nálgast. Fjöldi þeirra hefur náð nýjum hæðum á undanförnum tíu árum og í október 2015 voru þeir 13.224. Þessir brautryðjendur eru vel meðvitaðir um að ein besta leiðin til að nota lífið er að þjóna Jehóva í fullu starfi.

^ gr. 3 Síðar kallað Our Kingdom Ministry (Ríkisþjónusta okkar).

^ gr. 8 Ævisaga systur Hildu Padgett birtist í Varðturninum á ensku 1. október 1995, bls. 19-24.