„Fólkið mitt, forðið yður úr borginni.“ – OPINB. 18:4.

SÖNGVAR: 101, 93

1. Hvernig vitum við að þjónar Guðs gátu vonast til að losna úr ánauð Babýlonar hinnar miklu og hvaða spurningum fáum við svör við?

Í GREININNI á undan kom fram að trúir þjónar Guðs hafi verið hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu. Sem betur fer áttu þeir þó ekki að vera þar til frambúðar. Guð hafði hvatt þjóna sína til að yfirgefa heimsveldi falstrúarbragðanna. Það hefði hann ekki gert ef það væri ekki hægt. (Lestu Opinberunarbókina 18:4.) Við skulum nú skoða hvenær þjónar Guðs losnuðu fyrir fullt og allt úr klóm Babýlonar hinnar miklu. En fyrst þarf að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða afstöðu tóku Biblíunemendurnir til Babýlonar hinnar miklu fyrir 1914? Hve ötul voru trúsystkini okkar að boða fagnaðarerindið á styrjaldarárunum? Eru einhver tengsl milli ánauðarinnar í Babýlon og þess að þeir þurftu á leiðréttingu að halda á þeim tíma?

„FALL BABÝLONAR“

2. Hvaða afstöðu tóku Biblíunemendurnir snemma?

2 Charles Taze Russell og félagar hans áttuðu sig á því mörgum árum áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út að  kirkjufélög kristna heimsins kenndu ekki sannleika Biblíunnar. Þeir einsettu sér því að eiga ekkert saman að sælda við fölsk trúarbrögð. Afstöðu þeirra var vel lýst í Varðturni Síonar í nóvember 1879. Þar stóð: „Við hljótum að fordæma hverja þá kirkju sem kallar sig hreina mey, fastnaða Kristi, en vinnur með heiminum (dýrinu) og nýtur stuðnings hans. Á máli Biblíunnar er slík kirkja kölluð skækja,“ en það er vísun til Babýlonar hinnar miklu. – Lestu Opinberunarbókina 17:1, 2.

3. Hvað gerðu biblíunemendur til að sýna að þeir tilheyrðu ekki lengur fölskum trúarbrögðum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Guðhræddir karlar og konur vissu hvað þau þurftu að gera. Þau vissu að Guð myndi ekki blessa þau ef þau héldu áfram að styðja kirkju sem aðhylltist falstrú. Margir biblíunemendur sögðu sig skriflega úr þessum kirkjum. Sumir lásu jafnvel úrsagnarbréfin upp á samkomu í kirkjunni. Ef slíkur upplestur var ekki leyfður brugðu sumir á það ráð að senda bréf til allra í kirkjusöfnuðinum. Þeir vildu ekki eiga nein frekari samskipti við fölsk trúarbrögð. Fyrr á öldum hefði það getað kostað þá lífið að taka slíka afstöðu. En víða um lönd var stuðningur ríkisins við kirkjuna tekinn að dvína síðla á nítjándu öld. Þar þurftu almennir borgarar ekki að óttast refsingu þó að þeir ræddu trúmál fyrir opnum tjöldum og væru ósammála hinum stóru kirkjudeildum.

4. Lýstu sambandi þjóna Guðs við Babýlon hina miklu á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

4 Biblíunemendurnir skildu að það var ekki nóg að upplýsa ættingja, nána vini og aðra í kirkjusöfnuðinum um afstöðu þeirra til falskra trúarbragða. Allur heimurinn þurfti fá að vita að Babýlon hin mikla væri trúarleg skækja. Biblíunemendurnir voru ekki nema nokkur þúsund talsins en frá desember 1917 fram á fyrri hluta 1918 dreifðu þeir tíu milljónum eintaka af smáriti með grein sem hét „Fall Babýlonar“. Greinin afhjúpaði kristna heiminn umbúðalaust. Prestarnir voru ævareiðir eins og við var að búast en biblíunemendurnir létu ekki deigan síga. Þeir voru staðráðnir í að ,hlýða Guði framar en mönnum‘. (Post. 5:29) Hvaða ályktun getum við dregið af því? Að þessir kristnu karlar og konur voru alls ekki hneppt í fjötra Babýlonar hinnar miklu á stríðsárunum heldur voru þau að slíta af sér fjötrana og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.

ÖFLUG BOÐUN Á TÍMUM FYRRI HEIMSSTYRJALDAR

5. Hvað bendir til þess að trúsystkini okkar hafi boðað trúna af kappi á árum fyrri heimsstyrjaldar?

5 Á liðnum árum töldum við að Jehóva hefði verið óánægður með þjóna sína fyrir að hafa ekki boðað fagnaðarerindið af kappi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Við töldum að hann hefði þar af leiðandi leyft Babýlon hinni miklu að hneppa þá í ánauð um stuttan tíma. Trúfastir bræður og systur, sem þjónuðu Guði á árabilinu 1914 til 1918, bentu hins vegar á það síðar að þjónar Guðs í heild hafi gert allt sem þeir gátu til að halda áfram að boða trúna. Allt bendir til þess að það eigi við rök að styðjast. Með því að glöggva okkur betur á sögu  safnaðarins höfum við fengið betri skilning á vissum atburðum sem sagt er frá í Biblíunni.

6, 7. (a) Hvaða erfiðleika þurftu biblíunemendurnir að yfirstíga á árum fyrri heimsstyrjaldar? (b) Nefndu dæmi sem lýsir ötulu starfi Biblíunemendanna.

6 Sannleikurinn er sá að biblíunemendurnir vitnuðu af miklum krafti meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Af ýmsum ástæðum var það alls ekki auðvelt. Lítum á tvær þeirra. Í fyrsta lagi var boðunin aðallega fólgin í því að dreifa biblíutengdum ritum. Þegar yfirvöld bönnuðu bókina The Finished Mystery (Leyndardómurinn upplýstur) snemma árs 1918 reyndist mörgum erfitt að boða trúna. Þeir höfðu ekki lært að nota aðeins Biblíuna til að boða fagnaðarerindið heldur látið bókina The Finished Mystery tala fyrir sig. Í öðru lagi braust spænska veikin út árið 1918. Svo skæð var plágan að hún skerti ferðafrelsi boðberanna talsvert. En þrátt fyrir þessa erfiðleika og ýmsa fleiri gerðu biblíunemendurnir sitt besta til að boða trúna á þeim tíma.

Biblíunemendurnir voru ötulir. (Sjá 6. og 7. grein.)

7 Árið 1914 sáu meira en níu milljónir manna „Sköpunarsöguna í myndum“ sem Biblíunemendurnir sýndu. Sköpunarsagan, eins og sýningin var kölluð, var blanda af kvikmyndum, litskyggnum og samstilltum hljóðupptökum, og þar var rakin saga mannkyns frá sköpuninni til loka þúsundáraríkisins. Þetta var einstakt afrek á þeim tíma. Hugsaðu þér. Árið 1914 sáu fleiri sýninguna en sem nemur virkum boðberum núna. Haldnar voru samkomur ætlaðar almenningi og árið 1916 sóttu 809.393 þessar samkomur í Bandaríkjunum. Árið 1918 var talan komin upp í 949.444.

8. Hvernig var andlegum þörfum bræðra og systra fullnægt í fyrri heimsstyrjöldinni?

8 Í fyrri heimsstyrjöldinni var lagt mikið kapp á að sjá hinum dreifðu biblíunemendum fyrir andlegri fæðu og hvatningu. Þetta gaf bræðrum og systrum kraft til að halda boðuninni áfram. Richard H. Barber var ötull boðberi á þeim tíma. Hann sagði: „Okkur tókst að halda fáeinum farandumsjónarmönnum við störf,  dreifa Varðturninum og senda blaðið til Kanada þar sem það var bannað. Eitt af verkefnum mínum var að senda vasabrotsútgáfu af The Finished Mystery til margra bræðra eftir að eintakið þeirra var gert upptækt. Bróðir Rutherford bað okkur um að halda mót í nokkrum borgum í vestanverðum Bandaríkjunum og senda þangað ræðumenn til að reyna að hvetja bræður og systur sem mest.“

SUMT SEM ÞURFTI AÐ LEIÐRÉTTA

9. (a) Hvers vegna þurftu þjónar Guðs á leiðréttingu og ögun að halda á árunum 1914 til 1919? (b) Hvað megum við samt sem áður ekki álykta?

9 Biblíunemendurnir fóru ekki að öllu leyti eftir meginreglum Biblíunnar á árabilinu 1914 til 1919. Þeir voru einlægir en skildu ekki fullkomlega hvað það fól í sér að vera undirgefnir yfirvöldum. (Rómv. 13:1) Sem hópur voru þeir því ekki alltaf hlutlausir í stríðinu. Sem dæmi má nefna að forseti Bandaríkjanna bað landsmenn að biðja fyrir friði hinn 30. maí árið 1918, og Varðturninn hvatti biblíunemendurna til að taka þátt í því. Sumir af bræðrunum keyptu ríkisskuldabréf til stuðnings stríðsrekstrinum og fáeinir fóru jafnvel vopnaðir út á vígvöllinn. Það er hins vegar ekki rétt að álykta sem svo að Biblíunemendurnir hafi verið hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu af því að þeir þurftu á leiðréttingu og ögun að halda. Þeir skildu mætavel að þeir urðu að aðgreina sig frá fölskum trúarbrögðum, og þessi aðskilnaður var orðinn nánast alger á stríðsárunum. – Lestu Lúkas 12:47, 48.

10. Hvernig virtu Biblíunemendurnir heilagleika lífsins?

10 Biblíunemendurnir voru með eitt á hreinu þó að þeir sæju ekki kristið hlutleysi í jafn skýru ljósi og við gerum núna: Þeir vissu að Biblían bannar manndráp. Þótt fáeinir bræður tækju sér vopn í hönd og færu út á vígvöllinn þverneituðu þeir að beita þeim til að drepa aðra manneskju. Sumir sem neituðu að beita vopnum voru sendir í fremstu víglínu og bjuggust við að týna lífi þar.

11. Hvernig brugðust yfirvöld við því að biblíunemendurnir skyldu ekki vilja beita vopnum?

11 Satan var greinilega ævareiður yfir afstöðu bræðranna í stríðinu. Hann reyndi því að ,misnota lögin‘ til að valda þeim erfiðleikum. (Sálm. 94:20) James Franklin Bell, undirhershöfðingi í Bandaríkjaher, sagði í samtali við J. F. Rutherford og W. E. Van Amburgh að dómsmálaráðuneytið hefði reynt að fá þingið til að leiða í lög að það væri dauðasök að neita að beita vopnum á vígvellinum. Hann gaf í skyn að lögin hefðu sérstaklega verið ætluð til höfuðs Biblíunemendunum. Hershöfðinginn var öskureiður þegar hann sagði við Rutherford: „Lögin náðu ekki fram að ganga vegna þess að Wilson [forseti] kom í veg fyrir það. En við vitum hvernig við eigum að gera út af við ykkur og við ætlum að gera það!“

12, 13. (a) Hvers vegna voru átta bræður dæmdir til langrar fangavistar? (b) Dró fangavistin úr einbeitni bræðranna? Skýrðu svarið.

12 Yfirvöld létu ekki sitja við orðin tóm. Rutherford, Van Amburgh og sex aðrir fulltrúar Watch Tower Society voru handteknir. Þegar dómarinn kvað  upp dóminn sagði hann: „Trúaráróður þessara manna er skaðlegri en þýsk herdeild ... Þeir hafa bæði lítilsvirt embættismenn stjórnarinnar og njósnadeild hersins og sömuleiðis fordæmt alla presta allra kirkjudeilda. Þeir verðskulda þunga refsingu.“ (A. H. Macmillan. Faith on the March, bls. 99) Og refsingin var þung. Biblíunemendurnir átta voru dæmdir til langrar fangavistar í ríkisfangelsinu í Atlanta í Georgíu. Þegar stríðinu lauk var þeim sleppt úr fangelsi og ákærurnar felldar niður.

13 Mennirnir átta voru staðráðnir í að fara eftir lögum Guðs þótt þeim hefði verið varpað í fangelsi. Í náðunarbeiðni, sem þeir sendu forseta Bandaríkjanna, sagði meðal annars: „Vilji Drottins kemur fram í Biblíunni þar sem segir: ,Þú skalt ekki morð fremja.‘ Hver sá félagi í samtökunum [Alþjóðasamtökum biblíunemenda], sem er vígður Drottni en rýfur vígslusáttmála sinn, fyrirgerir því hylli Guðs og kallar yfir sig glötun. Félagar í samtökunum vilja ekki og geta ekki samvisku sinnar vegna orðið annarri manneskju að bana.“ Þessi orð bera vitni um mikið hugrekki. Það hvarflaði greinilega ekki að bræðrunum að láta undan.

LOKSINS FRELSI

14. Lýstu með hjálp Biblíunnar því sem gerðist á árabilinu 1914 til 1919.

14 Í Malakí 3:1-3 er lýst hvernig andasmurðir ,synir Leví‘ myndu hreinsast á árabilinu 1914 fram á fyrri hluta 1919. (Lestu.) Á því tímabili komu „Drottinn“, það er að segja Jehóva Guð, og „boðberi sáttmálans“, Jesús Kristur, til andlega musterisins til að kanna ástand þeirra sem þjónuðu þar. Eftir að þjónar Jehóva höfðu fengið viðeigandi ögun og hreinsast voru þeir tilbúnir til að taka að sér nýtt verkefni í þjónustu hans. Árið 1919 var skipaður ,trúr og hygginn þjónn‘ til að gefa öllum þjónum Guðs andlega fæðu. (Matt. 24:45) Þjónar Guðs voru loksins lausir undan áhrifum Babýlonar hinnar miklu. Þaðan í frá hafa þeir fengið æ betri skilning á vilja Guðs og lært að elska hann enn heitar. Þeir eru innilega þakklátir fyrir blessun hans. [1]

15. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir að vera laus úr ánauð Babýlonar hinnar miklu?

15 Við erum innilega þakklát fyrir að hafa losnað úr ánauð Babýlonar hinnar miklu. Satan hefur mistekist hrapallega að útrýma sannri kristni. Við verðum samt að hafa hugfast hvers vegna Jehóva hefur frelsað okkur. Það er ætlun hans að allir bjargist. (2. Kor. 6:1) Milljónir manna eru enn í ánauð falskra trúarbragða. Það þarf að hjálpa þeim að slíta af sér fjötrana. Við getum leiðbeint þeim. Við skulum því líkja eftir bræðrum okkar og systrum á síðustu öld og gera allt sem við getum til að hjálpa fólki að losna úr ánauðinni.

^ [1] (14. grein.) Það er margt líkt með útlegð Gyðinga í Babýlon og því sem gerðist hjá kristnum mönnum eftir að fráhvarfið hófst. Útlegð Gyðinga virðist þó ekki vera spádómleg fyrirmynd um það sem dreif á daga andasmurðra kristinna manna. Við ættum því ekki að reyna að sjá nákvæma samsvörun með öllu sem gerðist hjá Gyðingum og kristnum mönnum. Sumt er ólíkt. Meðal annars má nefna að Gyðingar voru í útlegð í 70 ár en ánauð kristinna manna var miklu lengri.