Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Mars 2017

Veittu þeim heiður sem heiður ber

Veittu þeim heiður sem heiður ber

„Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lof og heiður, dýrð og kraftur um aldir alda.“ – OPINB. 5:13.

SÖNGVAR: 9, 108

1. Hvers vegna gætu sumir verðskuldað heiður og hvað er rætt í þessari grein?

AÐ HEIÐRA merkir að veita sérstaka athygli og virðingu. Við gerum eðlilega ráð fyrir að sá sem nýtur heiðurs hafi gert eitthvað til að verðskulda hann eða gegni sérstakri stöðu sem kallar á virðingu. Í þessari grein ræðum við hverjum okkur ber að sýna heiður og hvers vegna þeir verðskulda það.

2, 3. (a) Hvers vegna verðskuldar Jehóva heiður öllum öðrum fremur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hver er lambið í Opinberunarbókinni 5:13 og hvers vegna verðskuldar hann heiður?

2 „Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lof og heiður,“ segir í Opinberunarbókinni 5:13. Í 4. kafla sömu biblíubókar kemur fram ein ástæða þess að Jehóva, hann sem „lifir um aldir alda“, verðskuldar heiður. Andaverur á himnum syngja honum lof og segja: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ – Opinb. 4:9-11.

 3 Jesús Kristur er „Guðs lamb sem ber synd heimsins“. (Jóh. 1:29) Í Biblíunni kemur fram að hann sé langtum æðri öllum mönnum sem eru eða hafa verið konungar. Þar segir að hann sé „konungur konunganna og Drottinn drottnanna. Hann einn er ódauðlegur og býr í því ljósi sem enginn fær nálgast, hann sem enginn maður leit né litið getur.“ (1. Tím. 6:14-16) Hefur nokkur annar konungur dáið af fúsum og frjálsum vilja sem lausnarfórn fyrir syndir okkar? Aragrúi andavera á himnum syngur: „Maklegt er lambið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.“ Langar þig ekki til að taka undir með þeim? – Opinb. 5:12.

4. Hvers vegna er ekki valfrjálst hvort við heiðrum Jehóva og Krist?

4 Það er ekki valfrjálst hvort við heiðrum Jehóva og Krist. Eilíft líf okkar er undir því komið að við gerum það. Það sést greinilega af orðum Jesú í Jóhannesi 5:22, 23: „Faðirinn [dæmir] engan heldur hefur hann falið syninum allt dómsvald svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn sem sendi hann.“ – Lestu Sálm 2:11-13.

5. Hvers vegna verðskuldar fólk almennt vissa virðingu?

5 Mennirnir voru skapaðir „eftir Guðs mynd“. (1. Mós. 1:27) Flestir þeirra eru því færir um að sýna svipaða eiginleika og hann, til dæmis kærleika, góðvild og umhyggju. Mönnunum var líka ásköpuð samviska – þótt hún sé stundum misvísandi og brengluð – það er að segja innri vitund um hvað sé rétt og rangt, heiðarlegt og óheiðarlegt, viðeigandi og óviðeigandi. (Rómv. 2:14, 15) Flestir laðast að því sem er hreint og fagurt. Flesta langar til að búa saman í sátt og samlyndi. Hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki endurspegla þeir dýrð Jehóva að einhverju marki. Þess vegna verðskulda þeir vissan heiður og virðingu. – Sálm. 8:6.

AÐ SÝNA MÖNNUM VIÐEIGANDI VIRÐINGU

6, 7. Hvað er ólíkt með vottum Jehóva og mörgum öðrum?

6 Við vitum að við eigum að virða og heiðra aðra menn en það getur verið viss vandi að vita hvers konar heiður það eigi að vera og hve mikill. Ófullkomið fólk er upp til hópa undir sterkum áhrifum frá heimi Satans. Þess vegna hættir fólki til að dýrka einstaka manneskju í stað þess að sýna henni bara viðeigandi virðingu og heiður. Leiðtogum á sviði stjórnmála og trúmála, íþróttamönnum, kvikmyndastjörnum og öðru frægu fólki er stillt upp á stall, rétt eins og það sé ofurmenni. Ungir og gamlir hafa það sem fyrirmyndir og líkja kannski eftir töktum þess, klæðaburði eða hegðun.

7 Sannkristnir menn vita að það er ekki rétt að veita öðrum mönnum heiður af þessu tagi. Af öllum mönnum, sem hafa verið uppi, er Kristur eina fullkomna fyrirmyndin. (1. Pét. 2:21) Við myndum ekki gleðja Guð ef við sýndum öðrum mönnum meiri virðingu en þeim ber. Við þurfum að hafa hugfast að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“. (Rómv. 3:23) Enginn maður verðskuldar heiður sem jaðrar við dýrkun.

8, 9. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á stjórnvöld? (b) Að hvaða marki er viðeigandi að vera undirgefinn þeim sem fara með völdin?

 8 Ákveðið fólk verðskuldar virðingu og heiður stöðu sinnar vegna. Stjórnvöld hafa það hlutverk að halda uppi lögum og reglu og annast þarfir borgaranna. Allir njóta góðs af því. Páll postuli ráðlagði því kristnum mönnum að vera undirgefnir ,þeim yfirvöldum sem eru yfir þá sett‘, það er að segja þeim mönnum sem fara með völdin í samfélaginu. Hann skrifaði: „Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt sem skattur ber, þeim virðingu sem virðing ber, þeim heiður sem heiður ber.“ – Rómv. 13:1, 7.

9 Vottar Jehóva leggja sig fram um að sýna ráðamönnum virðingu í samræmi við það sem til er ætlast og venja er í landinu. Við erum samvinnuþýð við þá sem fara með völdin. Virðing okkar og stuðningur á sér auðvitað eðlileg og biblíuleg takmörk. Við göngum ekki svo langt að óhlýðnast Guði eða víkja frá hlutleysi okkar. – Lestu 1. Pétursbréf 2:13-17.

10. Hvernig eru þjónar Jehóva forðum daga okkur fyrirmynd um samskipti við stjórnvöld og ráðamenn?

10 Þjónar Jehóva forðum daga eru okkur fyrirmynd um samskipti við stjórnvöld og ráðamenn. Jósef og María hlýddu þegar rómversk yfirvöld gáfu út tilskipun um að tekið skyldi manntal. Þau ferðuðust til Betlehem þó að María ætti von á sínu fyrsta barni innan skamms. (Lúk. 2:1-5) Þegar Páll postuli var sakaður um refsivert athæfi varði hann sig með háttvísi og sýndi tilhlýðilega virðingu þeim Heródesi Agrippu konungi og Festusi, landstjóra í Júdeu. – Post. 25:1-12; 26:1-3.

11, 12. (a) Hvers vegna gerum við greinarmun á yfirvöldum og þeim sem fara með forystu á sviði trúmála? (b) Hvaða áhrif hafði austurrískur vottur með því að sýna stjórnmálamanni virðingu?

11 Hvað um þá sem fara með forystu á sviði trúmála? Ber okkur að veita þeim sérstakan heiður? Við sýnum þeim virðingu eins og öllum öðrum mönnum. Hins vegar heiðrum við þá ekki umfram aðra, jafnvel þó að þeir vænti þess. Ástæðan er sú að fölsk trúarbrögð gefa ranga mynd af Guði og Biblíunni. Jesús fordæmdi slíka menn á sínum tíma og kallaði þá hræsnara og blinda leiðtoga. (Matt. 23:23, 24) Hins vegar getur það stundum haft jákvæðar og jafnvel óvæntar afleiðingar að sýna ráðamönnum tilhlýðilega virðingu og heiður.

12 Dr. Heinrich Gleissner var einn þessara ráðamanna. Hann var austurrískur stjórnmálamaður en hafði fallið í ónáð hjá nasistum. Hann hafði verið handtekinn og var á leið með járnbrautarlest til fangabúðanna í Buchenwald. Með sömu lest var austurrískur vottur sem hét Leopold Engleitner. Þeir tóku tal saman. Engleitner útlistaði trú sína fyrir honum og hann hlustaði vel. Eftir síðari heimsstyrjöldina beitti Gleissner áhrifum sínum oftar en einu sinni til að hjálpa vottunum í Austurríki. Þú þekkir ef til vill önnur dæmi um jákvæðar afleiðingar þess að vottar sýndu ráðamönnum tilhlýðilega virðingu, þann heiður sem Biblían segir að kristnir menn eigi að veita þeim.

AÐRIR SEM VERÐSKULDA HEIÐUR OG VIRÐINGU

13. Hverjir verðskulda virðingu okkar og heiður og hvers vegna?

13 Trúsystkini okkar verðskulda vissulega virðingu og heiður, ekki síst  öldungarnir sem fara með forystuna. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:17.) Við virðum þá óháð þjóðerni þeirra, menntun, þjóðfélagsstöðu eða fjárhag. Í Biblíunni er talað um þá sem „gjafir“ til safnaðarins og þeir gegna mikilvægu hlutverki í að annast þarfir þjóna Guðs. (Ef. 4:8) Safnaðaröldungar, farandhirðar, bræður í deildarnefndum og í stjórnandi ráði eiga allir virðingu skilda. Trúsystkini okkar á fyrstu öld báru mikla virðingu fyrir þeim sem fóru með forystuna og það gerum við líka. Við dýrkum ekki þessa menn eða komum fram við þá eins og þeir væru englar. Við berum engu að síður virðingu fyrir þeim vegna auðmýktar þeirra og þess sem þeir leggja á sig. – Lestu 2. Korintubréf 1:24; Opinberunarbókina 19:10.

14, 15. Hvað er ólíkt með safnaðaröldungum og mörgum sem fara með forystu í trúmálum?

14 Þessir öldungar eru eins og auðmjúkir hirðar. Þeir vilja ekki láta koma fram við sig eins og stórstjörnur. Þar skilur á milli þeirra og margra sem fara með forystu í trúmálum nú á dögum og milli þeirra sem Jesús sagði um á fyrstu öld: „Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum [og] láta heilsa sér á torgum.“ – Matt. 23:6, 7.

15 Safnaðaröldungar hlýða auðmjúkir fyrirmælum Jesú: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara því einn er yðar meistari og þér öll bræður og systur. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Matt. 23:8-12) Það er því engin furða að bræður og systur um allan heim skuli elska, virða og heiðra safnaðaröldungana.

Öldungarnir ávinna sér ást, virðingu og heiður með því að þjóna söfnuðinum í auðmýkt. (Sjá 13. til 15. grein.)

16. Af hverju ættum við að leggja okkur fram um að virða aðra í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar?

16 Það getur tekið sinn tíma að átta sig almennilega á hvernig okkur ber að virða aðra. Þannig var það líka meðal frumkristinna manna. (Post. 10:22-26; 3. Jóh. 9, 10) En það er tvímælalaust þess virði að sýna fólki virðingu í  samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar. Það er til góðs á marga vegu að finna hinn gullna meðalveg.

ÞAÐ ER TIL GÓÐS AÐ SÝNA VIÐEIGANDI VIRÐINGU

17. Hvernig getur það verið til góðs að sýna þeim virðingu sem gegna áhrifastöðum í samfélaginu?

17 Ef við sýnum þeim virðingu sem gegna áhrifastöðum í samfélaginu eru meiri líkur en ella á að þeir verji réttindi okkar til að boða trúna án truflunar. Oft hefur það þau áhrif að þeir líta boðunina jákvæðum augum. Birgit, brautryðjandi í Þýskalandi, var viðstödd þegar dóttir hennar útskrifaðist úr grunnskóla fyrir nokkrum árum. Kennarar stúlkunnar sögðu Birgit að það hefði alltaf verið ánægjulegt að kenna vottabörnum. Þeir sögðu að þeim myndi þykja miður ef engin vottabörn gengju í þennan skóla. „Börnin okkar læra að hegða sér í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar,“ svaraði Birgit, „meðal annars að sýna kennurum virðingu.“ Einn af kennurunum sagði þá: „Ef öll börn væru eins og börnin ykkar væri skólinn hrein paradís.“ Nokkrum vikum síðar sótti einn af kennurunum mót í Leipzig.

18, 19. Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi það að sýna öldungum virðingu?

18 Fullkomnar og viturlegar meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að sýna öldungum safnaðarins réttmæta og eðlilega virðingu. (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Við getum og ættum að hrósa þeim fyrir erfiði þeirra og leggja okkur fram um að fara eftir leiðbeiningum þeirra. Þannig getum við auðveldað þeim að rækja skyldur sínar með gleði. En þetta merkir ekki að við reynum að líkja nákvæmlega eftir „þekktum“ öldungi í klæðaburði, ræðustíl eða tali. Ef við gerðum það gætum við sent röng skilaboð. Við megum ekki gleyma að þessi öldungur er líka ófullkominn maður. Það er Kristur sem við eigum að fylgja og líkja eftir.

19 Við hjálpum öldungunum með því að sýna þeim viðeigandi virðingu án þess þó að koma fram við þá eins og væru þeir stórstjörnur. Þannig auðveldum við þeim að vera auðmjúkir og forðast stolt og sjálfumgleði.

20. Hvernig er það sjálfum okkur til góðs að sýna öðrum virðingu?

20 Ef við sýnum öðrum virðingu er minni hætta á að við verðum upptekin af sjálfum okkur eða förum að líta stórt á okkur ef okkur er sýndur einhver heiður. Þá erum við líka samstíga söfnuði Jehóva þar sem þess er gætt að veita ekki mönnum óhóflegan eða óviðeigandi heiður – hvort heldur innan safnaðar eða utan. Auk þess er það skynsamlegt því að þá hneykslumst við síður ef einhver sem við virðum mikils veldur okkur vonbrigðum.

21. Hver er mesta blessunin sem fylgir því að sýna þeim viðeigandi virðingu sem verðskulda hana?

21 Mestu máli skiptir þó að við gleðjum Guð með því að sýna þeim viðeigandi virðingu sem verðskulda hana. Við breytum eins og hann vill og erum honum ráðvönd og trú. Þar með gefum við honum tækifæri til að svara hverjum þeim sem vill smána hann. (Orðskv. 27:11) Heimurinn er fullur af fólki sem hefur rangar hugmyndir um hvernig sé viðeigandi að sýna öðrum virðingu og heiður. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að kenna okkur að sýna virðingu á viðeigandi hátt.