Brot úr 3.000 ára gamalli leirkrukku, sem fundust árið 2012, vöktu nýlega áhuga fornleifafræðinga. Hvað var svona sérstakt við þennan fund? Það voru ekki leirbrotin sjálf heldur það sem stóð á þeim.

Þegar fornleifafræðingum hafði tekist að raða brotunum saman gátu þeir lesið úr áletruninni sem er á forn-kanaanísku. Þar stendur: „Esbaal Ben [sonur] Beda.“ Þetta var í fyrsta sinn sem fornleifafræðingar fundu forna áletrun með þessu nafni.

Reyndar er minnst á mann að nafni Esbaal í Biblíunni. Hann var einn af sonum Sáls konungs. (1. Kron. 8:33; 9:39) Prófessor Yosef Garfinkel, sem tók þátt í uppgreftinum, segir: „Það er athyglisvert að nafnið Esbaal skuli standa í Biblíunni og hafi nú einnig fundist við fornleifarannsóknir, og þá aðeins frá dögum Davíðs konungs.“ Sumir telja að nafnið hafi einungis verið þekkt á þessu ákveðna tímabili. Enn á ný hafa fornleifafundir staðfest ákveðið atriði í Biblíunni.

Annars staðar í Biblíunni kemur nafnið Esbaal fyrir í myndinni Ísbóset þar sem „bóset“ er látið koma í staðinn fyrir „baal“. (2. Sam. 2:10) Hvers vegna skyldi það hafa verið gert? „Menn virðast hafa verið tregir til að nota nafnið Esbaal í 2. Samúelsbók því að það minnti á kanaaníska stormguðinn Baal,“ segja vísindamenn, „en nafnið ... varðveittist í upprunalegri mynd í Kroníkubókinni.“