Hvenær voru þjónar Guðs í ánauð Babýlonar hinnar miklu?

Þessi andlega ánauð stóð frá annarri öld til ársins 1919. Hvers vegna hefur skilningur okkar á þessu breyst?

Öll rök benda til þess að ánauðinni hafi lokið árið 1919 og síðan þá hefur andasmurðum kristnum mönnum verið safnað inn í hinn endurreista söfnuð. Hugsaðu um þetta: Þjónar Guðs voru reyndir og hreinsaðir á árunum eftir að ríki Guðs var stofnsett á himnum árið 1914. * (Mal. 3:1-4) Árið 1919 skipaði Jesús síðan ,trúa og hyggna þjóninn‘ yfir hreinsaða þjóna Guðs en hann átti að gefa þeim andlegan „mat á réttum tíma“. (Matt. 24:45-47) Það ár fóru þjónar Guðs að snúa aftur til andlegrar landareignar sinnar sem Guð hafði gefið þeim. Það var líka þá sem þeir voru leystir úr táknrænni ánauð Babýlonar hinnar miklu. (Opinb. 18:4) En hvenær hófst þessi ánauð?

Í mörg ár höfum við skýrt það svo að þessi ánauð hafi hafist árið 1918 og náð yfir stutt tímabil þar sem þjónar Guðs voru á valdi Babýlonar hinnar miklu. Til dæmis sagði í Varðturninum 1. september 1992: „Samt sem áður voru þjónar Jehóva að nokkru hnepptir í fjötra Babýlonar hinnar miklu árið 1918, líkt og þjónar Guðs til forna voru hnepptir í fjötra Babýlonar um tíma.“ Frekari rannsóknir hafa þó leitt í ljós að þessi ánauð hófst miklu fyrr en árið 1918.

Skoðum til dæmis einn af spádómunum þar sem sagt var fyrir um þessa ánauð og frelsun þjóna Guðs. Hann er að finna í Esekíel 37:1-14. Esekíel sér í sýn dal sem er þakinn beinum. Jehóva útskýrir fyrir Esekíel að beinin tákni ,alla Ísraelsmenn‘. Í víðtækari uppfyllingu sinni á þessi endurreisnarspádómur við um „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16; Post. 3:21) Síðan sér Esekíel beinin lifna við og verða að fjölmennum her. Þetta er viðeigandi lýsing á andlegri upprisu þjóna Guðs sem náði hámarki í atburðunum árið 1919. En hvað segir sýnin okkur um tímann sem þeir voru í ánauðinni?

Í fyrsta lagi tökum við eftir að beinin í sýninni eru „skinin“. (Esek. 37:2, 11) Það gefur til kynna að þau hafi tilheyrt fólki sem hafði verið dáið mjög lengi. Í öðru lagi er endurreisninni þannig  lýst að hún gerist stig af stigi en ekki allt í einu. Til að byrja með kom þytur og skrjáf heyrðist og „beinin færðust saman, hvert að öðru“. Síðan bættust við „sinar ... og hold“. Því næst þakti hörund beinin, sinarnar og holdið. Eftir það ,kom lífsandi í mennina, svo að þeir lifnuðu við‘. Að lokum kom Jehóva upprisnu mönnunum fyrir í landi þeirra. Allt þetta tók tíma. – Esek. 37:7-10, 14, Biblían 1981.

Ánauð Ísraelsmanna til forna stóð lengi. Hún hófst árið 740 f.Kr. með falli tíuættkvíslaríkisins í norðri en margir íbúa þess voru þá fluttir í útlegð. Jerúsalem var síðan eydd árið 607 f.Kr. og íbúar suðurríkisins Júda voru þá einnig fluttir í útlegð. Þessari ánauð lauk árið 537 f.Kr. þegar fámennur hópur Gyðinga sneri aftur til að endurreisa musterið og hreina tilbeiðslu í Jerúsalem.

Þegar við höfum þessi atriði í huga er greinilegt að ánauð þjóna Guðs í Babýlon hinni miklu stóð mun lengur en aðeins frá árinu 1918 til 1919. Ánauðin samsvarar tímabilinu þegar hið táknræna illgresi vex samhliða hveitinu sem táknar „börn ríkisins“. (Matt. 13:36-43) Á þessu vaxtartímabili voru sannkristnir menn mjög fáir og fráhvarfsmenn í miklum meirihluta. Kristni söfnuðurinn var þannig í ánauð Babýlonar hinnar miklu á þessum tíma. Þessi ánauð hófst einhvern tímann á annarri öld og stóð þar til andlega musterið var hreinsað á endalokatímanum. – Post. 20:29, 30; 2. Þess. 2:3, 6; 1. Jóh. 2:18, 19.

Á þeim langa tíma, sem andlega ánauðin stóð, var prestastéttinni og pólitískum bandamönnum hennar mikið í mun að halda í völdin og héldu því orði Guðs frá fólkinu. Oft og tíðum var ólöglegt að lesa Biblíuna á almennum tungumálum. Sumir sem gerðu það voru jafnvel brenndir á báli. Ef einhver tjáði skoðun sem stangaðist á við það sem prestastéttin kenndi átti hann þunga refsingu yfir höfði sér. Þannig voru allar tilraunir til að birta mönnum ljós sannleikans bældar niður.

Í sýn Esekíels kom þó líka fram að endurreisn yrði. Hvenær og hvernig átti hún sér stað? Þessi andlega endurreisn gerðist smám saman. Samfara henni fór að heyrast „skrjáf“ aldirnar fyrir endalokatímann. Þó að falstrúarkenningar hafi verið ríkjandi voru til trúfastir einstaklingar sem vörðu sanna tilbeiðslu í eins miklum mæli og hægt var. Sumir þeirra lögðu sig í líma við að  þýða og gefa út biblíur á tungumálum almennings. Aðrir boðuðu sannindi sem þeir fundu á síðum hennar.

Seint á 19. öld unnu svo Charles Taze Russell og félagar hans ötullega að því að leita að sannindum Biblíunnar og boða þau. Það var eins og táknrænt hold og hörund væri að myndast á beinagrindunum. Varðturn Síonar og önnur rit hjálpuðu einlægu fólki að uppgötva andleg sannindi. Síðar voru notuð hjálpargögn eins og „Sköpunarsagan í myndum“ sem byrjað var að sýna 1914 og bókin The Finished Mystery (Leyndardómurinn upplýstur) frá 1917 en þau voru þjónum Guðs einnig til styrktar. Þjónar Guðs voru að lokum reistir upp í andlegum skilningi árið 1919 og settust þá að í nýja andlega landinu sínu. Með tímanum hefur fólk með jarðneska von sameinast hinum andasmurðu og saman eru þeir orðnir að ,geysifjölmennum her‘. – Esek. 37:10; Sak. 8:20-23. *

Það er því ljóst að þjónar Guðs voru hnepptir í ánauð Babýlonar hinnar miklu þegar fráhvarfið fór vaxandi á annarri öld. Þetta var myrkur tími rétt eins og hjá Ísraelsmönnum til forna þegar þeir voru í útlegð. Við getum verið afar ánægð að aldirnar, sem þjónar Guðs bjuggu við andlega ánauð, skulu vera liðnar. Við gleðjumst yfir að lifa á þeim tíma sem ,hinir vitru skína eins og björt himinhvelfing‘ og ,margir verða hreinsaðir‘. – Dan. 12:3, 10.

Fór Satan bókstaflega með Jesú til musterisins þegar hann freistaði hans?

Í stuttu máli getum við ekki sagt með vissu hvort Jesús hafi í raun verið í musterinu eða hvort aðeins hafi verið um sýn að ræða. Báðir möguleikarnir hafa komið fram í ritunum okkar.

Byrjum á að skoða það sem stendur í Biblíunni. Matteusi postula var innblásið að skrifa um þennan atburð í guðspjalli sínu: „Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún [eða hæsta punkt] musterisins.“ (Matt. 4:5) Í hliðstæðri frásögn Lúkasar er þetta orðað svona: „Þá fór djöfullinn með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins.“ – Lúk. 4:9.

Á árum áður hafa verið færð rök fyrir því í ritunum okkar að þessi atburður hafi ef til vill ekki átt sér stað í bókstaflegri merkingu. Til dæmis var útskýrt í Varðturninum 1. mars 1961 á ensku: „Það virðist ekki rökrétt að taka allt bókstaflega sem kemur fram í frásögunni af því þegar Jesú var freistað í eyðimörkinni. Vissulega er ekki hægt að sýna ,öll ríki heims og dýrð þeirra‘ frá neinu ákveðnu fjalli. Það er því líka rökrétt að álykta að Satan hafi ekki tekið Jesú bókstaflega og að líkamanum til ,með sér í borgina helgu‘ og sett hann ,á brún musterisins‘. Það var ekki nauðsynlegt til að freistingin hefði áhrif.“ Í nýrri tölublöðum þessa tímarits hefur hins vegar komið fram að ef Kristur hefði kastað sér fram af brún musterisins hefði hann getað fyrirfarið sér.

 Sumir hafa bent á að þar sem Jesús var ekki Levíti hafi hann ekki mátt standa á helgidómi musterisins. Því var ályktað að það hafi verið í sýn sem Satan ,tók Jesú með sér‘ til musterisins. Það svipar til þess sem Esekíel spámaður upplifði nokkrum öldum áður. – Esek. 8:3, 7-10; 11:1, 24; 37:1, 2.

Ef aðeins var um sýn að ræða þegar þessi freisting átti sér stað vakna hins vegar eftirfarandi spurningar:

  • Hefði Jesú þá fundist freistandi að kasta sér fram af musterinu?

  • Fyrst hinar freistingarnar voru tilraunir til að fá Jesú til að gera eitthvað, eins og að breyta bókstaflegum steinum í brauð eða falla fram og tilbiðja Satan, ætti þessi freisting þá ekki líka að fela í sér verk? Hefði Jesús þá ekki þurft að kasta sér bókstaflega fram af musterinu?

Ef Jesús aftur á móti stóð bókstaflega á brún musterisins vakna aðrar spurningar:

  • Braut Jesús gegn lögmálinu með því að standa á helgidóminum?

  • Hvernig komst Jesús úr eyðimörkinni til Jerúsalem?

Nánari athugun leiðir í ljós nokkur möguleg svör við tveim síðastnefndu spurningunum.

Í fyrsta lagi segir prófessor D. A. Carson að gríska orðið hieron’, sem þýtt er „musteri“ í báðum frásögunum, „eigi líklega við um allt musterissvæðið en ekki bara helgidóminn sjálfan“. Jesús hefur því ekki endilega staðið á helgidóminum sjálfum. Hann getur til dæmis hafa staðið á suðausturhorni musterissvæðisins en byggingin þar var með flatt þak og brjóstrið. Þaðan var um 140 metra fallhæð niður í Kedrondal en það var mesta fallhæðin á musterissvæðinu. Sagnaritarinn Jósefus sagði að ef maður stæði þar og horfði niður „fyndi maður fyrir svima“ vegna hæðarinnar. Þótt Jesús væri ekki Levíti hefði hann mátt standa þar án þess að nokkur kippti sér upp við það.

En hvernig var hægt að fara með Jesú til musterisins fyrst hann var í eyðimörkinni? Stutta svarið er að við getum ekki vitað það fyrir víst. Það kemur ekki fram í stuttri lýsingu Biblíunnar hve lengi freistingarnar stóðu eða hvar Jesús hafi verið í eyðimörkinni. Við getum ekki útilokað að Jesús hafi gengið til Jerúsalem þó að það hefði líklega tekið svolítinn tíma. Í frásögunni er ekki tekið fram að Jesús hafi verið í eyðimörkinni allan þann tíma sem hans var freistað. Þar segir aðeins að Satan hafi tekið hann með sér til Jerúsalem.

En hvað um freistinguna þar sem Jesú voru sýnd „öll ríki heims“? Augljóslega sá hann þau ekki bókstaflega því að það er ekki hægt að sjá þau öll frá neinu bókstaflegu fjalli. Satan getur því hafa notað einhvers konar sýn til að sýna Jesú þau, svipað og hægt er að nota myndvarpa og sýningartjald til að sýna myndir frá ýmsum stöðum heims. Þó að Satan hafi ef til vill notað sýn hefði tilbeiðsluathöfnin verið raunveruleg en ekki ímynduð. (Matt. 4:8, 9) Þannig væri hægt að færa rök fyrir því að freistingin, að kasta sér fram af brún musterisins, hafi verið raunveruleg og hefði haft raunverulegar afleiðingar í för með sér. Freistingin hefði þá verið mun meiri en ef aðeins hefði verið um sýn að ræða.

Niðurstaðan er sú, eins og kom fram í upphafi greinar, að við getum ekki verið viss um það hvernig Satan sýndi Jesú musterið. Við getum því ekki útilokað að Jesús hafi í raun farið til Jerúsalem og staðið á brún musterisins. Við getum hins vegar verið viss um að freistingarnar voru raunverulegar og að Jesús tók skýra afstöðu gegn Satan í þeim öllum.

^ gr. 1 Bæði í Esekíel 37:1-14 og Opinberunarbókinni 11:7-12 er talað um andlega endurreisn sem átti sér stað árið 1919. Spádómurinn í Esekíel segir fyrir um andlega endurreisn allra þjóna Guðs sem myndi eiga sér stað eftir mjög langa ánauð. Spádómurinn í Opinberunarbókinni á hins vegar við um lítinn hóp andasmurðra bræðra sem fóru með forystu meðal þjóna Guðs. Þeir fengu andlega upprisu eftir að hafa neyðst til að stöðva starf sitt um tiltölulega stuttan tíma.