Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geturðu aðstoðað trúsystkini þín tilfinningalega, andlega eða á öðrum sviðum?

Geturðu orðið að liði í söfnuðinum þínum?

Geturðu orðið að liði í söfnuðinum þínum?

ÁÐUR en Jesús steig upp til himna sagði hann við lærisveina sína: „Þér munuð verða vottar mínir ... allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Hvernig gátu frumkristnir menn tekist á við þetta krefjandi verkefni?

Martin Goodman, prófessor við Oxfordháskóla, segir að „sú vitund frumkristinna manna, að þeir hefðu fengið köllun, hafi skilið milli þeirra og annarra trúarhópa í Rómaveldi, þar á meðal Gyðinga“. Jesús hafði farið stað úr stað til að boða trúna. Sannkristnir menn fetuðu í fótspor hans og boðuðu „fagnaðarerindið um Guðs ríki“. Þeir vissu að það fól í sér að finna fólk sem langaði til að kynnast sannleika Biblíunnar. (Lúk. 4:43) Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að í kristna söfnuðinum á fyrstu öld voru postular en orðið þýðir bókstaflega erindreki, sá sem er sendur. (Mark. 3:14) Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ – Matt. 28:18-20.

Enginn af 12 postulum Jesú er meðal okkar á jörðinni núna en margir þjónar Jehóva hafa sama hugarfar og þeir gagnvart boðuninni. Þegar þeir eru beðnir að gera meira til að boða fagnaðarerindið svara þeir: „Hér er ég. Send þú mig.“ (Jes. 6:8) Sumir hafa flust til fjarlægra landa. Þeirra á meðal eru þúsundir trúboða sem hafa sótt Gíleaðskólann. Aðrir hafa flutt sig um set í heimalandi sínu. Margir hafa lært nýtt tungumál til að starfa með söfnuðum og hópum sem sinna þörfum annarra málhópa. Aðstæður þeirra sem hafa lært nýtt tungumál eða flust þangað sem þörfin er meiri hafa ekki alltaf verið þær bestu og breytingarnar hafa ekki endilega verið auðveldar. Fórnfýsi þeirra vitnaði um sterkan kærleika til Jehóva  og náungans. Þeir reiknuðu kostnaðinn og gáfu síðan af sjálfum sér til að geta orðið að liði. (Lúk. 14:28-30) Bræður og systur, sem gera þetta, veita mjög dýrmæta hjálp.

Aðstæður fólks eru auðvitað misjafnar. Það eru ekki allir vottar í aðstöðu til að læra nýtt tungumál eða flytja þangað sem vantar fleiri boðbera. En getum við verið eins og kappsamir trúboðar í heimasöfnuði okkar?

VERTU TRÚBOÐI Í SÖFNUÐINUM ÞÍNUM

Gerðu það sem þú getur við núverandi aðstæður.

Það er greinilegt að kristnir menn á fyrstu öld voru kappsamir trúboðar en líklega hafa fæstir þeirra flust frá heimabæ sínum. Hvatning Páls postula til Tímóteusar átti samt jafn mikið erindi til þeirra og til annarra þjóna Guðs: „Ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.“ (2. Tím. 4:5) Þau fyrirmæli að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum eiga erindi til allra kristinna manna hvar sem þeir búa. Og í heimasöfnuði okkar eru mörg tækifæri til að starfa eins og trúboði.

Tökum dæmi: Trúboði, sem er sendur til annars lands, þarf að laga sig að nýjum aðstæðum. Margt er mjög ólíkt því sem hann á að venjast. Hvað um okkur ef við getum ekki flust þangað sem vantar boðbera? Er alveg víst að við þekkjum allar leiðir til að ná til fólks á starfssvæði okkar? Eða getum við kannski reynt að brydda upp á nýjum aðferðum? Árið 1940 voru bræður og systur hvött til að nota einn dag í viku til að tala við fólk á götum úti. Gætirðu tekið þátt í slíku starfi? Eða hefurðu prófað að nota ritatrillur við boðunina? Kjarni málsins er þessi: Ertu opinn fyrir því að nota nýjar leiðir við boðunina, leiðir sem þú hefur ekki prófað áður?

hvetja aðra til að ,gera verk fagnaðarboða‘.

Jákvæðni hjálpar okkur að hafa virkan og vakandi áhuga á boðuninni. Oft eru það mjög færir boðberar sem bjóða sig fram til að flytja þangað sem vantar boðbera eða til að starfa á öðru málsvæði. Þeir geta því verið mörgum til blessunar, til dæmis þegar þeir fara með forystuna við boðunina. Trúboðar fara oft með forystu í söfnuðinum þangað til bræður á staðnum eru færir um það. Ertu skírður bróðir? Ertu þá fús til að þjóna trúsystkinum þínum í söfnuðinum og ,sækist þú eftir‘ því? – 1. Tím. 3:1.

 VERTU ÖÐRUM TIL STYRKTAR

rétta hjálparhönd.

Það er hægt að gera margt fleira til að hjálpa söfnuðinum sínum en að taka góðan þátt í boðuninni og vera fús til að taka að sér ábyrgðarstörf. Allir, bæði ungir og aldnir, karlar og konur, geta verið til styrktar trúsystkinum sem eru hjálparþurfi. – Kól. 4:11.

Við þurfum að kynnast trúsystkinum okkar vel til að geta hjálpað þeim. Í Biblíunni erum við hvött til að ,gefa gætur hvert að öðru‘ á samkomum. (Hebr. 10:24) Þessi orð bera með sér að við ættum að leitast við að kynnast bræðrum og systrum og skilja þarfir þeirra, þó að við forðumst auðvitað að hnýsast í einkamál þeirra. Þarfir þeirra geta verið tilfinningalegar eða andlegar, eða þau getur vantað aðstoð af öðru tagi. Það er ekki bara hlutverk öldunga og safnaðarþjóna að aðstoða trúsystkini. Auðvitað getur stundum verið heppilegast að aðstoðin komi frá þeim. (Gal. 6:1) En það er sennilega á færi okkar allra að aðstoða öldruð trúsystkini eða heilar fjölskyldur sem eiga við erfiðleika að glíma.

veita þeim tilfinningalegan stuðning sem eru að berjast við áhyggjur lífsins.

Salvatore lenti í fjárhagserfiðleikum og þurfti að selja fyrirtækið sitt, húsið og margar af eigum fjölskyldunnar. Hann hafði miklar áhyggjur af því hvernig þau kæmust af. Önnur fjölskylda í söfnuðinum áttaði sig á að þau voru hjálparþurfi. Þau hlupu undir bagga með þeim og hjálpuðu Salvatore og konunni hans að finna vinnu. Þau hittu Salvatore og fjölskyldu hans oft á kvöldin, hlustuðu á þau og uppörvuðu. Fjölskyldurnar tvær bundust varanlegum vináttuböndum. Þó að þetta hafi verið mjög erfitt tímabil eiga báðar fjölskyldurnar góðar minningar um ánægjulegar samverustundir.

Sannkristnir menn halda ekki trúnni út af fyrir sig. Við þurfum að líkja eftir Jesú og segja öllum frá fögrum fyrirheitum Biblíunnar. Við getum lagt okkur fram við að gera öllum gott, óháð því hvort við erum í aðstöðu til að flytja eða ekki. Og við getum það svo sannarlega í söfnuðinum sem við tilheyrum núna. (Gal. 6:10) Þá uppskerum við gleðina sem fylgir því að gefa og getum ,borið ávöxt með hvers kyns góðum verkum‘. – Kól. 1:10; Post. 20:35.