Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er ánægjulegt að lifa einföldu lífi

Það er ánægjulegt að lifa einföldu lífi

DANIEL OG MIRIAM giftust í september árið 2000 og stofnuðu heimili í Barcelona á Spáni. „Við lifðum eðlilegu lífi eins og það er kallað,“ segir Daniel. „Við höfðum góðar tekjur og gátum borðað á fínum veitingahúsum, ferðast til útlanda og gengið í vönduðum fötum. Við tókum líka reglulega þátt í boðuninni.“ En þá gerðist svolítið.

Daniel var djúpt snortinn af ræðu sem var flutt á móti árið 2006. Í ræðunni var spurt: „Gerum við allt sem við getum til að hjálpa ,þeim sem eru dæmdir til aftöku‘ til að komast inn á veginn til eilífa lífsins?“ (Orðskv. 24:11) Þar var lögð áhersla á að boða boðskap Biblíunnar því að það getur bjargað mannslífum. (Post. 20:26, 27) „Mér fannst Jehóva vera að tala beint til mín,“ segir Daníel. Í ræðunni var einnig nefnt að gleðin vaxi eftir því sem við leggjum meira á okkur í þjónustu Jehóva. Daniel vissi það því að Miriam var orðin brautryðjandi og hafði mikla ánægju af.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að kúvenda í lífi mínu,“ segir Daniel. Og það gerði hann. Hann minnkaði við sig vinnu, gerðist brautryðjandi og hugsaði með sér hve mikla ánægju þau Miriam myndu hafa af því að starfa þar sem vantaði fleiri boðbera.

ERFIÐ BYRJUN – SÍÐAN SPENNANDI FRÉTTIR

Daniel og Miriam sögðu upp vinnunni í maí 2007 og héldu til Panama. Þau höfðu komið þangað áður og nýja starfssvæðið var nokkrar eyjar í Bocas del Toro-eyjaklasanum í Karíbahafi. Heimamenn þar eru aðallega af Ngabe-ættflokknum. Daniel og Miriam töldu að spariféð myndi endast sér í átta mánuði í Panama.

Þau komust leiðar sinnar sjóleiðis og á reiðhjólum. Fyrsta hjólaferðin er þeim í fersku minni. Þau hjóluðu heila 30 kílómetra um brattar brekkur í steikjandi sólinni. Daniel var örmagna og það leið næstum yfir hann. En heimamenn, sem þau hittu, tóku vel á móti þeim, ekki síst eftir að þau lærðu smávegis í máli þeirra. Áður en langt um leið voru þau komin með 23 biblíunámskeið.

En spariféð gekk til þurrðar. „Við hugsuðum til þess með tárin í augunum að þurfa að snúa aftur til Spánar,“ segir Daniel. „Okkur þótti það dapurleg tilhugsun að þurfa að kveðja biblíunemendur okkar.“ En mánuði síðar fengu þau spennandi fréttir. „Okkur var boðið að gerast sérbrautryðjendur,“ segir Miriam. „Við vorum ákaflega glöð að geta haldið áfram að starfa þarna.“

MESTI GLEÐIGJAFINN

Vegna skipulagsbreytinga í söfnuðinum árið 2015 voru Daniel og Miriam beðin að gerast brautryðjendur á nýjan leik. Hvað var nú til ráða? Þau treystu því sem segir í Sálmi 37:5: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ Þau fundu sér vinnu til að sjá sér farborða og starfa núna með söfnuði í Veraguas í Panama.

Daniel segir: „Áður en við fórum frá Spáni vorum við ekki viss um að við gætum lifað einföldu lífi. Núna gerum við það og okkur vantar ekkert sem máli skiptir.“ Og hvað skyldi vera mesti gleðigjafinn? „Það veitir okkur ólýsanlega gleði að hjálpa auðmjúku fólki að kynnast Jehóva,“ segja þau.