Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 24

Brjóttu niður allt sem stendur gegn þekkingunni á Guði

Brjóttu niður allt sem stendur gegn þekkingunni á Guði

„Ég brýt niður hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði.“ – 2. KOR. 10:5.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLIT *

1. Við hverju varaði Páll postuli andasmurða kristna menn?

„FYLGIÐ ekki háttsemi þessa heims,“ skrifaði Páll postuli. (Rómv. 12:2) Hann beinir þessum orðum til kristinna manna á fyrstu öld. Hvers vegna fann hann sig knúinn til að vara karla og konur sem voru vígð Guði og smurð heilögum anda við þessari hættu? – Rómv. 1:7.

2, 3. Hvernig reynir Satan að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva og hvernig getum við upprætt viðhorf sem hafa fest rætur í huga okkar?

2 Páll hafði áhyggjur vegna þess að sumir kristnir menn höfðu greinilega látið heim Satans og óheilnæma hugmyndafræði hans hafa áhrif á sig. (Ef. 4:17–19) Það getur komið fyrir okkur öll. Satan, guð þessarar aldar, er mikið í mun að við hættum að þjóna Jehóva og notar ýmsar leiðir til að hafa áhrif á okkur. Ef við höfum einhverja löngun til að koma okkur áfram í heiminum eða klífa metorðastigann notfærir hann sér það. Hann reynir líka að notfæra sér uppruna okkar, menningu og menntun til að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar.

3 Er hægt að uppræta viðhorf sem hafa fest rætur í huganum? (2. Kor. 10:4) Taktu eftir því sem Páll segir: „Ég brýt niður hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði og hertek hverja hugsun til hlýðni við Krist.“ (2. Kor. 10:5) Með hjálp Jehóva getum við sigrast á röngum hugsunum. Orð hans getur hjálpað okkur að sporna gegn eituráhrifum frá heimi Satans, rétt eins og lyf getur unnið gegn áhrifum eiturefna.

 ,UMBREYTIST MEÐ HINU NÝJA HUGARFARI‘

4. Hvaða breytingar þurftum við mörg hver að gera þegar við kynntumst sannleikanum?

4 Hvaða breytingar þurftirðu að gera þegar þú kynntist sannleika Biblíunnar og ákvaðst að þjóna Jehóva? Við þurftum mörg hver að láta af rangri breytni. (1. Kor. 6:9–11) Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að hafa hjálpað okkur svo að við gátum hætt að stunda það sem er rangt.

5. Hvað tvennt þurfum við að gera samkvæmt Rómverjabréfinu 12:2?

5 Við megum samt aldrei verða of örugg með okkur. Þó að við séum hætt að syndga alvarlega eins og við gerðum áður en við skírðumst þurfum við að gæta okkar vandlega og forðast allt sem gæti freistað okkar til að falla aftur í gamla farið. Hvernig gerum við það? Páll svarar því: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari.“ (Rómv. 12:2) Við þurfum því að gera tvennt. Í fyrsta lagi þurfum við að hætta að ,fylgja háttsemi þessa heims‘, það er að láta ekki mótast af honum. Í öðru lagi verðum við að „umbreytast“ með því að endurnýja hugarfar okkar.

6. Hvaða hugsun er að baki orðum Jesú í Matteusi 12:43–45?

6 Umbreytingin sem Páll talar um felur meira í sér en aðeins breytingu á yfirborðinu. Um er að ræða breytingu á öllum hinum innra manni. (Sjá rammann „ Raunveruleg breyting eða yfirborðsleg?“) Við þurfum að gerbreyta hugarfari okkar – innstu hugsunum okkar, tilfinningum og löngunum. Við þurfum því öll að spyrja okkur: Eru breytingarnar sem ég geri bara yfirborðslegar eða er ég kristinn í huga og hjarta? Það  er heilmikill munur á þessu tvennu. Í Matteusi 12:43–45 gaf Jesús til kynna hvað þyrfti að gera. (Lestu.) Orð hans benda á mikilvægan sannleika: Það er ekki nóg að losa sig við rangar hugsanir. Við þurfum líka að fylla í tómarúmið með hugsunum sem eru Guði að skapi.

,ENDURNÝIST Í ANDA OG HUGSUN‘

7. Hvernig getum við breytt okkar innra manni?

7 Er hægt að breyta sínum innra manni eða því hver við erum í eðli okkar? Orð Guðs svarar því. Þar segir að maður eigi að „endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. (Ef. 4:23, 24) Það er því hægt að breyta sínum innra manni en það er ekki auðvelt. Ekki er nóg að bæla niður rangar langanir og hætta að gera það sem er rangt. Við þurfum að ,endurnýjast í anda og hugsun‘, það er að segja breyta hugsunarhætti okkar, löngunum, tilhneigingum og hvötum. Það kostar stöðuga viðleitni.

8, 9. Hvernig sýnir dæmið um bróðurinn að við þurfum að breyta okkar innra manni?

8 Skoðum dæmi um bróður sem hafði verið ofbeldismaður áður en hann varð vottur. Hann hætti að drekka og slást, varð hæfur til að skírast og það var tekið eftir því í litla bænum þar sem hann bjó. En kvöld eitt, stuttu eftir að hann skírðist, reyndi óvænt á hann. Drukkinn maður kom heim til hans og manaði hann að slást við sig. Í fyrstu stóðst bróðirinn löngunina að slást við manninn. En þegar maðurinn fór að lastmæla Jehóva gat bróðirinn ekki hamið reiði sína lengur. Hann fór út og lúbarði manninn. Hvað gerðist hjá honum? Þó að biblíunámið hafi gert honum kleift að bæla niður ofbeldishneigð sína hafði hann enn ekki breytt sér í anda og hugsun. Með öðrum orðum var hann ekki búinn að breyta því hver hann var í eðli sínu.

9 Bróðirinn lagði þó ekki árar í bát. (Orðskv. 24:16) Með hjálp öldunganna tók hann góðum framförum og að lokum varð hann hæfur til að hljóta útnefningu sem öldungur. Þá gerðist atvik kvöld eitt fyrir utan ríkissalinn, svipað því sem gerst hafði nokkrum árum áður. Drukkinn maður var í þann mund að ráðast á einn af öldungunum. Hvað gerði bróðirinn nú? Hann ræddi með stillingu við manninn, róaði hann niður og hjálpaði honum að slaga heim. Hvað hafði breyst? Bróðirinn hafði endurnýjast í anda og hugsun. Hans innri maður hafði breyst. Hann var orðinn friðsamur og auðmjúkur, Jehóva til lofs.

10. Hvað þurfum við að gera til að breyta okkur hið innra?

10 Þessar breytingar gerast ekki á einni nóttu og ekki heldur af sjálfu sér. Við þurfum að leggja okkur vel fram, jafnvel um árabil. (2. Pét. 1:5) Það er ekki nóg að hafa verið bara vissan tíma „í sannleikanum“. Við þurfum að gera okkar ýtrasta til að breyta okkar innra manni. Það er ýmislegt sem getur hjálpað okkur til þess. Skoðum þrennt.

HVERNIG GETUM VIÐ ENDURNÝJAST Í ANDA OG HUGSUN?

11. Hvernig hjálpar bænin okkur að endurnýjast í anda og hugsun?

11 Það fyrsta sem við þurfum að gera er að biðja. Við þurfum að biðja eins og sálmaskáldið: „Skapa í mér hreint  hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálm. 51:12) Við þurfum að viðurkenna fyrir sjálfum okkur að við þurfum að breytast í anda og hugsun og biðja síðan Jehóva um hjálp. Hvernig getum við verið viss um að hann hjálpi okkur? Jehóva lofaði að hjálpa hinum þrjósku Ísraelsmönnum á dögum Esekíels og það getur verið hvetjandi fyrir okkur. Hann sagði: „Ég [mun] gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun ... gefa þeim hjarta úr holdi [það er að segja hjarta sem er móttækilegt fyrir leiðsögn Guðs].“ (Esek. 11:19) Jehóva var fús til að hjálpa þessum Ísraelsmönnum að breyta sér og hann vill gera það sama fyrir okkur.

12, 13. (a) Hvað þurfum við að hugleiða vel samkvæmt Sálmi 119:59? (b) Hvaða spurninga ættirðu að spyrja þig?

12 Annað sem er mikilvægt að gera er að hugleiða. Þegar við lesum daglega í Biblíunni þurfum við að taka okkur tíma til að íhuga vel hvaða hugsunum og tilfinningum við þurfum að breyta. (Lestu Sálm 119:59; Hebr. 4:12; Jak. 1:25) Við þurfum að vera vakandi fyrir því ef við höfum tilhneigingu til að láta hugmyndir heimsins hafa áhrif á okkur. Við þurfum að viðurkenna veikleika okkar hreinskilnislega og leggja hart að okkur að sigrast á þeim.

13 Spyrðu þig: Örlar fyrir öfund eða afbrýðisemi í hjarta mínu? (1. Pét. 2:1) Finnst mér ég vera aðeins betri en aðrir vegna uppruna míns, menntunar eða fjárhags? (Orðskv. 16:5) Lít ég niður á þá sem njóta ekki sömu lífsgæða og ég eða eru af öðrum kynþætti? (Jak. 2:2–4) Höfðar það sem heimur Satans hefur upp á að bjóða sterkt til mín? (1. Jóh. 2:15–17) Hef ég ánægju af siðlausu og ofbeldisfullu skemmtiefni? (Sálm. 97:10; 101:3; Amos 5:15) Svörin við þessum spurningum geta dregið fram hvar þú þarft að bæta þig. Við gleðjum föður okkar á himnum ef við sigrumst á röngum hugsunum og tilhneigingum sem hafa fest rætur hjá okkur. – Sálm. 19:15.

14. Hvers vegna er mjög mikilvægt að velja sér góðan félagsskap?

14 Þriðja mikilvæga skrefið er að velja sér góðan félagsskap. Félagsskapur okkar hefur mikil áhrif á okkur, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki. (Orðskv. 13:20) Á vinnustað eða í skóla umgöngumst við líklega fólk sem hvetur okkur ekki til að hugsa á þann hátt sem Guð vill að við gerum. Á samkomum erum við hins vegar í besta félagsskap sem völ er á. Þar getum við fengið hvatningu „til kærleika og góðra verka“. – Hebr. 10:24, 25.

VERUM „STAÐFÖST Í TRÚNNI“

15, 16. Hvernig reynir Satan að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar?

15 Höfum samt hugfast að Satan er ákveðinn í að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar. Hann ýtir að okkur alls konar hugmyndum til að spilla þeim góðu áhrifum sem orð Guðs hefur haft á okkur.

16 Satan heldur áfram að spyrja sömu spurningar og hann spurði Evu í Edengarðinum: „Er það satt að Guð hafi sagt ...?“ (1. Mós. 3:1) Í heimi Satans heyrum við oft spurningar sem geta vakið efasemdir hjá okkur, til dæmis: Er það satt að Guð viðurkenni ekki hjónabönd  fólks af sama kyni? Er það satt að Guð banni þér að halda upp á jól og afmæli? Er það satt að Guð vilji ekki að þú þiggir blóðgjöf? Er það satt að Guð banni þér að hafa samskipti við ættingja og vini sem hefur verið vikið úr söfnuðinum?

17. Hvað ættum við að gera þegar við fáum spurningar sem geta vakið hjá okkur efasemdir um trúna og hvaða góðu áhrif hefur það samkvæmt Kólossubréfinu 2:6, 7?

17 Við verðum að vera sannfærð um að það sem við trúum sé satt og rétt. Ef við finnum ekki svör við mikilvægum spurningum um trú okkar getum við farið að efast. Þessar efasemdir geta að lokum brenglað hugsun okkar með þeim afleiðingum að við missum trúna. Hvað þurfum við þá að gera? Orð Guðs segir okkur að umbreyta hugarfari okkar og sannreyna „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómv. 12:2) Með reglulegu sjálfsnámi getum við sannreynt það sem við höfum lært af Biblíunni og fullvissað okkur um að siðferðisreglur Jehóva séu réttar. Þá verðum „staðföst í trúnni“ eins og tré með sterkar rætur. – Lestu Kólossubréfið 2:6, 7.

18. Hvað gerir okkur kleift að sporna gegn eituráhrifum frá heimi Satans?

18 Við verðum sjálf að styrkja trú okkar. Enginn getur gert það fyrir okkur. Haltu því áfram að endurnýjast í anda og hugsun. Biddu stöðugt til Jehóva og sárbændu hann um að styrkja þig með anda sínum. Hugleiddu vel og vandlega það sem þú lest og skoðaðu oft hugsanir þínar og hvatir. Sæktu í góðan félagsskap fólks sem hjálpar þér að umbreyta hugarfari þínu. Þannig geturðu unnið gegn eituráhrifum frá heimi Satans og brotið niður „hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði“. – 2. Kor. 10:5.

SÖNGUR 50 Vígslubæn mín

^ gr. 5 Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur uppruni okkar, menning og menntun áhrif á það hvernig við hugsum. Vera má að röng viðhorf hafi náð að festa rætur hjá okkur. Í þessari grein er fjallað um hvernig hægt er að sigrast á röngum tilhneigingum sem kunna að hafa tekið sér bólfestu í okkur.