Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í Mjanmar

Þau buðu sig fúslega fram – í Mjanmar

„UPPSKERAN er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2) Þetta sagði Jesús fyrir um 2.000 árum en það lýsir vel ástandinu í Mjanmar núna. Hvernig þá? Í Mjanmar búa 55 milljónir manna en boðberar fagnaðarerindisins eru aðeins um 4.200.

En Jehóva, ,Drottinn uppskerunnar‘, hefur hreyft við hjörtum hundraða bræðra og systra frá ýmsum löndum. Þau hafa flust til þessa lands í Suðaustur-Asíu til að hjálpa til við hina táknrænu uppskeru. Hvað varð til þess að þau sögðu skilið við heimaland sitt? Hvaða aðstoð fengu þau til að geta flust? Og hvaða blessunar njóta þau? Komumst að því.

„KOMIÐ, VIÐ ÞURFUM FLEIRI BRAUTRYÐJENDUR!“

Kazuhiro, brautryðjandi frá Japan, fékk flogakast fyrir nokkrum árum, missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús. Læknirinn sagði að hann mætti ekki keyra í tvö ár. Kazuhiro var illa brugðið. Hvernig get ég haldið áfram því sem ég elska – að vera brautryðjandi? hugsaði hann með sér. Hann bað Jehóva ákaft að opna sér leið þannig að hann gæti verið brautryðjandi áfram.

Kazuhiro og Mari

Kazuhiro segir: „Mánuði síðar frétti vinur minn í Mjanmar af aðstæðum mínum. Hann hringdi í mig og sagði: ,Aðalsamgönguleiðin í Mjanmar eru strætisvagnar. Ef þú kemur hingað geturðu boðað trúna án þess að þurfa bíl.‘ Ég spurði lækninn hvort veikindin kæmu í veg fyrir að ég gæti flust til Mjanmar. Mér til undrunar sagði hann: ,Heilasérfræðingur frá Mjanmar er einmitt að heimsækja Japan um þessar mundir. Ég skal kynna hann fyrir þér. Hann getur séð um þig ef þú færð annað flog.‘ Ég leit á svar læknisins sem bænheyrslu frá Jehóva.“

Kazuhiro sendi þegar í stað tölvupóst til deildarskrifstofunnar í Mjanmar og sagði að þau hjónin langaði til að starfa þar sem brautryðjendur. Deildarskrifstofan svaraði aðeins fimm dögum síðar: „Komið, við þurfum fleiri brautryðjendur!“ Kazuhiro og Mari, konan hans, seldu bílana sína, fengu vegabréfsáritun og keyptu flugmiða. Nú eru þau í táknmálshópnum í Mandalay og hafa mikla ánægju af. Kazuhiro segir: „Þetta hefur styrkt trú okkar á loforð Jehóva í Sálmi 37:5 þar sem segir:  ,Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.‘“

JEHÓVA OPNAR LEIÐINA

Árið 2014 var haldið sérstakt mót í Mjanmar. Fjöldi erlendra gesta sótti mótið. Einn þeirra var Monique, systir á miðjum fertugsaldri frá Bandaríkjunum. Hún segir: „Þegar ég kom heim af mótinu fór ég með bæn og spurði Jehóva hvert næsta skref mitt ætti að vera. Ég ræddi líka við foreldra mína um markmiðin sem ég hafði í þjónustu Jehóva. Okkur fannst öllum að ég ætti að fara aftur til Mjanmar en það tók tíma og margar bænir að komast að endanlegri niðurstöðu.“ Monique útskýrir hvers vegna svo var.

Monique og Li

„Jesús hvatti fylgjendur sína til að ,reikna kostnaðinn‘. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ég hefði efni á að flytja. Gæti ég séð fyrir mér í þessu landi án þess að þurfa að vinna meira?“ Hún viðurkennir: „Ég gerði mér fljótt grein fyrir að ég hafði ekki efni á að flytjast hinum megin á hnöttinn.“ Hvernig gat hún þá flutt? – Lúk. 14:28.

Monique segir: „Dag einn kallaði yfirmaðurinn mig á fund. Ég var taugaóstyrk því að ég hélt ég yrði rekin. En í staðinn þakkaði hún mér fyrir vel unnin störf og sagðist hafa ákveðið að gefa mér kaupauka. Það reyndist vera einmitt sú upphæð sem ég þurfti til að geta flutt.“

Monique hefur búið í Mjanmar síðan í desember 2014. Hvernig finnst henni að þjóna þar sem þörfin er mikil? „Ég er svo ánægð að vera hér,“ segir hún. „Ég er með þrjú biblíunámskeið. Einn nemenda minna er 67 ára. Hún heilsar mér alltaf með brosi og þéttu faðmlagi. Þegar hún komst að því að Guð héti Jehóva gat hún ekki annað en tárast. Hún sagði: ,Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég heyri að Guð heiti Jehóva. Þú ert heilli mannsævi yngri en ég en þú hefur kennt mér það mikilvægasta sem ég gæti nokkurn tíma lært.‘ Það er óhætt að segja að ég hafi líka tárast. Atvik sem þetta gera það að verkum að ég hef mikla ánægju af að þjóna þar sem þörfin er mikil.“ Nýlega fékk Monique að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis.

Frásögurnar frá Mjanmar í árbók Votta Jehóva 2013 voru sumum hvatning til að flytja þangað. Li er rúmlega þrítug systir sem bjó þegar í Suðaustur-Asíu. Hún var í fullri vinnu en frásögurnar í árbókinni kveiktu áhuga hennar á að flytja til Mjanmar. „Ég sótti sérstaka mótið í Jangún árið 2014 og hitti þar hjón sem höfðu flust til Mjanmar til að vitna fyrir kínverskumælandi fólki. Þar sem ég tala kínversku ákvað ég að flytja til Mjanmar til að styðja kínverska hópinn þar. Ég slóst í lið með Monique og við fluttum til Mandalay. Jehóva blessaði okkur með því að hjálpa okkur að finna hlutastörf sem kennarar við sama skóla og íbúð í grenndinni. Ég hef ánægju af að vera hér þrátt fyrir heitt loftslag og einstaka óþægindi. Fólkið í Mjanmar lifir einföldu lífi en það er kurteist og gefur sér tíma til að hlusta á fagnaðarerindið. Það er spennandi að sjá hvernig Jehóva hraðar starfinu. Ég er sannfærð um að það sé vilji Jehóva að ég sé hér í Mandalay.“

JEHÓVA HEYRIR BÆNIR

Margir af þeim sem hafa flust þangað sem þörfin er meiri hafa fundið fyrir mætti bænarinnar. Tökum sem dæmi hjónin Jumpei og Nao. Þau eru á miðjum fertugsaldri og voru í táknmálssöfnuði í Japan. Af hverju fluttu þau til Mjanmar?  Jumpei segir: „Við hjónin höfðum alltaf það markmið að flytja til annars lands þar sem þörfin er meiri. Bróðir í táknmálssöfnuðinum okkar í Japan flutti til Mjanmar. Í maí 2010 fluttumst við líka þótt við hefðum aðeins náð að leggja lítið fyrir. Trúsystkinin í Mjanmar tóku okkur opnum örmum.“ En hvað finnst honum um táknmálssvæðið í Mjanmar? „Fólkið er mjög áhugasamt. Þegar við hittum heyrnarlausa og sýnum þeim myndbönd á táknmáli verða þeir himinlifandi. Við erum svo ánægð með þá ákvörðun okkar að þjóna Jehóva hér!“

Nao og Jumpei

Hvernig hefur Jumpei og Nao gengið að láta enda ná saman? „Eftir þrjú ár var spariféð okkar nánast uppurið og við höfðum ekki efni á að borga leiguna fyrir næsta ár. Við báðum oft og innilega til Jehóva. Síðan fengum við óvænt bréf frá deildarskrifstofunni. Okkur var boðið að þjóna tímabundið sem sérbrautryðjendur! Við treystum á Jehóva og fundum að hann yfirgaf okkur ekki. Hann hefur séð um okkur á alla vegu.“ Líkt og Monique sóttu Jumpei og Nao Skólann fyrir boðbera Guðsríkis nýverið.

JEHÓVA KVEIKIR ÁHUGA HJÁ MÖRGUM

Simone er rúmlega fertugur bróðir frá Ítalíu og Anna, konan hans, er að nálgast fertugt og er frá Nýja-Sjálandi. Hvað varð til þess að þau fluttust til Mjanmar? „Það voru frásögurnar frá Mjanmar í árbókinni 2013,“ svarar Anna. Simone segir: „Við erum mjög þakklát að geta verið í Mjanmar. Lífið hér er miklu einfaldara og ég get varið meiri tíma í að vinna fyrir Jehóva. Það er ótrúlegt að sjá hvernig Jehóva annast okkur þegar við þjónum honum þar sem þörfin er mikil.“ (Sálm. 121:5) Anna segir: „Ég hef aldrei verið hamingjusamari. Við lifum einföldu lífi, ég ver meiri tíma með manninum mínum og við erum orðin nánari. Við höfum líka eignast yndislega vini. Fólk hefur ekki fordóma fyrir vottunum og hefur gríðarlega mikinn áhuga.“ Hvernig lýsir áhuginn sér?

Simone og Anna

Anna segir: „Dag einn vitnaði ég fyrir háskólanema á markaðinum og við ákváðum að mæla okkur mót. Þegar við hittumst næst var vinkona hennar með henni. Næsta skipti kom hún með nokkrar í viðbót. Og þar næst enn þá fleiri. Nú aðstoða ég fimm þeirra við biblíunám.“ Simone segir: „Fólk á svæðinu er vingjarnlegt og forvitið. Margir eru áhugasamir. Við höfum hreinlega ekki tíma til að fylgja öllum áhuganum eftir.“

Sachio og Mizuho

En hvað gæti verið sniðugt að gera áður en maður ákveður að flytja til Mjanmar? Mizuho frá Japan segir: „Við Sachio, maðurinn minn, vildum alltaf starfa í landi þar sem þörfin er mikil – en hvar? Við vorum svo snortin af einlægu frásögunum frá Mjanmar í árbókinni 2013 að við fórum að íhuga  hvort við gætum flust þangað.“ Sachio bætir við: „Við ákváðum að fara í einnar viku ferð til Jangún, helstu borgar Mjanmar, til að njósna um landið ef svo má að orði komast. Í þessari stuttu ferð fengum við svör við mörgum spurningum okkar og sannfærðumst um að við ættum að flytja.“

GETUR ÞÚ SVARAÐ KALLINU?

Jane, Danica, Rodney og Jordan

Rodney og Jane eru hjón á sextugsaldri frá Ástralíu. Þau hafa búið í Mjanmar síðan 2010 ásamt börnum sínum tveim, þeim Jordan og Danicu. Rodney segir: „Það hafði mikil áhrif á okkur að sjá hve mikið fólk þyrsti í að kynnast Guði. Ég mæli eindregið með því að fleiri fjölskyldur reyni að flytja til staðar eins og Mjanmar.“ Af hverju? „Það er ómetanlegt hve mikið það hefur styrkt samband fjölskyldunnar við Jehóva! Margt ungt fólk er upptekið af símanum sínum, bílum, vinnunni og öðru þvíumlíku. Börnin okkar eru hins vegar upptekin af að læra ný orð til að nota í boðuninni. Þau æfa sig að rökræða við þá sem vita lítið um Biblíuna og svara á máli heimamanna á samkomum. Þau upplifa líka margt annað spennandi tengt safnaðarlífinu.“

Oliver og Anna

Oliver er bróðir frá Bandaríkjunum sem er að nálgast fertugt. Hann útskýrir hvers vegna hann mælir með því að þjóna Jehóva þar sem þörfin er mikil: „Það hefur haft margt gott í för með sér að fara út fyrir þægindarammann í þjónustunni við Jehóva. Að flytja frá heimahögunum styrkti traust mitt á að Jehóva hjálpi mér í hvaða aðstæðum sem er. Ég starfa með bræðrum og systrum sem ég þekkti ekki áður, en trúin sameinar okkur. Aðeins ríki Guðs getur komið því til leiðar.“ Oliver og Anna, konan hans, boða trúna af kappi meðal kínverskumælandi fólks í Mjanmar.

Trazel

Trazel, rúmlega fimmtug systir frá Ástralíu, hefur búið í Mjanmar síðan 2004. Hún segir: „Ég mæli eindregið með því að þeir sem hafa aðstæður til flytji þangað sem þörfin er meiri. Ég get sagt af eigin reynslu að Jehóva blessar það sem við leggjum á okkur til að þjóna honum. Mig óraði ekki fyrir að líf mitt yrði nokkuð þessu líkt. Ég gæti ekki óskað mér innihaldsríkara og ánægjulegra lífs.“

Vonandi verða einlægar frásögur þessara boðbera í Mjanmar til þess að þú íhugir að leggja þitt af mörkum til að hjálpa auðmjúku fólki á ósnertum svæðum. Já, þeir hrópa: „Komið yfir til Mjanmar og hjálpið okkur!“