Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Grátið með grátendum“

„Grátið með grátendum“

„Hvetjið ... og uppbyggið hvert annað.“ – 1. ÞESS. 5:11.

SÖNGVAR: 90, 111

1, 2. Hvers vegna er þörf á að ræða hvernig við getum veitt þeim huggun sem syrgja? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

„VIÐ fundum enn fyrir óbærilegum sársauka næstum ári eftir að við misstum son okkar,“ segir Susi. Bróðir nokkur segir að þegar konan hans dó skyndilega hafi hann fundið fyrir „ólýsanlegum líkamlegum sársauka“. Ótal aðrir hafa þjáðst á svipaðan hátt. Margir í söfnuðinum bjuggust kannski ekki við því að þeir myndu missa ástvin fyrir Harmagedón. Hvort sem þú hefur sjálfur misst ástvin eða þekkir einhvern sem syrgir veltirðu ef til vill fyrir þér hvernig syrgjendur geti fengið hjálp til að takast á við sorgina.

2 Sagt er að tíminn lækni öll sár. En er raunin alltaf sú? Ekkja nokkur segir: „Ég held að það sé réttara að maður lækni sárin með því sem maður gerir við tímann.“ Líkamleg sár gróa með tímanum ef hugsað er vel um þau og hið sama getur átt við um tilfinningaleg sár. Hvað getur hjálpað syrgjendum að láta tilfinningaleg sár sín gróa?

 JEHÓVA ER „GUÐ ALLRAR HUGGUNAR“

3, 4. Hvernig getum við verið viss um að Jehóva skilji hve mikla þörf syrgjendur hafa fyrir huggun?

3 Jehóva, umhyggjusamur faðir okkar á himnum, er betur í stakk búinn en nokkur annar til að veita huggun. (Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.) Enginn sýnir eins mikla samúð og hann. Hann gaf þjónum sínum þetta loforð: „Ég hugga yður, ég sjálfur.“ – Jes. 51:12; Sálm. 119:50, 52, 76.

4 Kærleiksríkur faðir okkar hefur sjálfur misst ástvini. Þeirra á meðal voru Abraham, Ísak, Jakob, Móse og Davíð konungur. (4. Mós. 12:6-8; Matt. 22:31, 32; Post. 13:22) Biblían fullvissar okkur um að Jehóva hlakki mikið til þess tíma þegar hann reisir þá aftur til lífs, og að hann þrái að sjá þá á ný. (Job. 14:14, 15) Þeir verða hamingjusamir og við fullkomna heilsu. Höfum líka hugfast að ástkær sonur Guðs, sem var „yndi hans“, dó kvalafullum dauða. (Orðskv. 8:22, 30) Jehóva hlýtur að hafa fundið fyrir ólýsanlegum sársauka. – Jóh. 5:20; 10:17.

5, 6. Hvernig veitir Jehóva okkur huggun?

5 Við getum treyst því fullkomlega að Jehóva styðji okkur. Við ættum því ekki að hika við að úthella hjarta okkar í bæn og segja honum frá sorg okkar. Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva skilur hvernig okkur líður og veitir okkur þá huggun sem við þurfum svo sárlega á að halda. En hvernig gerir hann það?

6 Ein leið, sem Jehóva notar til að hjálpa okkur, er að veita okkur „styrk heilags anda“. (Post. 9:31) Heilagur andi Guðs er öflugur kraftur sem getur veitt mikla huggun. Jesús lofaði að faðir okkar á himnum myndi fúslega ,gefa þeim heilagan anda sem bæðu hann‘. (Lúk. 11:13) Susi, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir: „Oft og margsinnis féllum við á kné og grátbáðum Jehóva að hughreysta okkur. Í hvert einasta skipti fundum við hvernig friður Guðs varðveitti hjörtu okkar og hugsanir.“ – Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.

JESÚS ER SAMÚÐARFULLUR ÆÐSTIPRESTUR

7, 8. Hvers vegna getum við treyst því að Jesús veiti okkur huggun?

7 Þegar Jesús var á jörð var hann lifandi eftirmynd föður síns og sýndi samúð bæði með því sem hann sagði og gerði. (Jóh. 5:19) Jesús var sendur til að veita þeim huggun „sem hafa sundurmarin hjörtu“ og þeim „sem hryggir eru“. (Jes. 61:1, 2; Lúk. 4:17-21) Hann var þekktur fyrir að sýna mikla meðaumkun, hann skildi hvernig fólki leið og hafði innilega löngun til að hjálpa því og lina þjáningar þess. – Hebr. 2:17.

8 Á sínum yngri árum þurfti Jesús að öllum líkindum að takast á við það að missa vini og nána ættingja. Svo virðist vera að Jósef, fósturfaðir Jesú, hafi dáið þegar Jesús var enn ungur að árum, líklega unglingur eða rúmlega tvítugur. * Ímyndaðu þér hve erfitt það hefur verið fyrir svona umhyggjusaman ungan mann að takast á við sína eigin sorg sem og sorg móður sinnar og systkina.

9. Hvernig sýndi Jesús samúð þegar Lasarus dó?

 9 Jesús var einstaklega skilningsríkur og samúðarfullur í garð fólks þegar hann hóf þjónustu sína. Við sjáum skýrt dæmi um það þegar Lasarus, ástkær vinur hans, dó. Jesús vissi að hann ætti eftir að reisa hann upp en þungbær sorg Maríu og Mörtu nísti samt hjarta hans. Hann fann svo mikið til með þeim að hann gat ekki haldið aftur af tárunum. – Jóh. 11:33-36.

10. Hvers vegna getum við treyst því að Jesús hafi samúð með okkur?

10 Hvernig hjálpar það okkur nú á dögum að Jesús skuli hafa sýnt samúð og veitt huggun? Biblían fullvissar okkur um að ,Jesús Kristur sé í gær og í dag hinn sami og um aldir‘. (Hebr. 13:8) Þar sem ,höfðingi lífsins‘ þekkir af eigin raun hvernig það er að syrgja er hann fær um að hjálpa þeim sem verða fyrir prófraunum. (Post. 3:15; Hebr. 2:10, 18) Við getum þar af leiðandi treyst því að Kristur finni enn þá til með þeim sem þjást, skilji hvað þeir ganga í gegnum og veiti þeim huggun ,þegar þeir eru hjálparþurfi‘. – Lestu Hebreabréfið 4:15, 16.

,UPPÖRVUN SEM RITNINGARNAR GEFA‘

11. Hvaða biblíuvers finnst þér sérstaklega hughreystandi?

11 Frásagan af því hve sárt Jesús syrgði þegar Lasarus dó er aðeins fáein vers af mörgum í orði Guðs sem hughreysta okkur. Og það er engin furða þar sem „allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa“. (Rómv. 15:4) Ef þú ert að takast á við sorg geturðu sótt huggun í biblíuvers eins og þessi:

  • „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ – Sálm. 34:19, 20.

  • „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín [Jehóva] sál mína.“ – Sálm. 94:19.

  • „Sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki.“ – 2. Þess. 2:16, 17. *

SÖFNUÐURINN GETUR VEITT MIKLA HUGGUN

12. Hvernig getum við meðal annars veitt öðrum huggun?

12 Þeir sem syrgja geta líka sótt huggun til safnaðarins. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:11.) Hvernig getum við styrkt og huggað þá sem hafa „dapurt geð“? (Orðskv. 17:22) Höfum í huga að það „að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma“. (Préd. 3:7) Ekkja að nafni Dalene segir: „Syrgjendur hafa þörf fyrir að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Það mikilvægasta, sem er hægt að gera fyrir þá, er því að hlusta – án þess að grípa fram í.“ Junia átti bróður sem svipti sig lífi. Hún segir: „Maður getur kannski ekki skilið sorg annarra til fulls, en það sem skiptir máli er að mann langi til að skilja hvernig þeim líður.“

13. Hvað þurfum við að muna varðandi sorg?

13 Munum líka að það upplifa ekki allir sorg á sama hátt og það getur verið mismunandi hvernig fólk tjáir hana. Stundum getur enginn skilið kvöl okkar til fulls nema við sjálf og það getur líka  verið erfitt að koma orðum að innstu tilfinningum sínum. Í orði Guðs segir: „Hjartað eitt þekkir kvöl sína og í gleði þess getur enginn annar blandað sér.“ (Orðskv. 14:10) Jafnvel þegar fólk tjáir líðan sína er ekki alltaf auðvelt fyrir aðra að skilja hvað það á við.

14. Hvernig er hægt að vita hvað við getum sagt við þá sem syrgja?

14 Eins og gefur að skilja getur því verið erfitt að vita hvað maður á að segja við þá sem eru í mikilli sorg. Í Biblíunni segir þó að ,tunga hins vitra græði‘. (Orðskv. 12:18) Margir hafa fundið hughreystandi orð í bæklingnum Þegar ástvinur deyr til að deila með öðrum. * Oft er þó mesta hjálpin fólgin í því að ,gráta með grátendum‘. (Rómv. 12:15) „Tár eru orðin tungumál hjarta míns,“ viðurkennir Gaby, en hún missti eiginmann sinn. „Það veitir mér því vissa huggun þegar vinir mínir gráta með mér. Þá finnst mér ég ekki þurfa að bera sorgina ein.“

15. Hvernig getum við veitt huggun ef okkur finnst erfitt að gera það augliti til auglitis? (Sjá einnig rammann „ Hlýleg orð sem hugga“.)

15 Ef þér finnst erfitt að segja eitthvað augliti til auglitis gæti verið auðveldara að veita huggun með því að senda samúðarkort, tölvupóst, SMS eða bréf. Þú gætir einfaldlega vitnað í hughreystandi biblíuvers, rifjað upp eitthvað minnisstætt í fari hins látna eða góða minningu sem er þér kær. „Það hjálpar mér meira en orð fá lýst að fá stutt og hvetjandi skilaboð eða vera boðið að vera með trúsystkinum,“ segir Junia. „Það segir mér að fólk elski mig og beri umhyggju fyrir mér.“

16. Nefndu sérlega áhrifaríka leið til að veita huggun.

 16 Vanmettu ekki gildi þess að biðja með og fyrir trúsystkini þínu sem syrgir. Kannski finnst þér erfitt að tjá hugsanir þínar í bæn við svona tilfinningaþrungnar aðstæður. En innileg bæn þín fyrir bróður eða systur getur verið öflugt mótvægi við sorgina, jafnvel þótt röddin bresti eða þú fellir tár. „Stundum þegar systur hafa komið til að hughreysta mig,“ segir Dalene, „hef ég spurt hvort þær myndu vilja fara með bæn. Þær eiga oft erfitt með að byrja bænina en það bregst ekki að eftir nokkrar setningar verður röddin styrkari og þær fara með hjartnæma bæn. Sterk trú þeirra, kærleikur og umhyggja hefur verið mjög trústyrkjandi.“

HÖLDUM ÁFRAM AÐ VEITA HUGGUN

17-19. Hvers vegna þurfum við að halda áfram að veita syrgjendum huggun?

17 Sorgarferlið getur verið mjög breytilegt eftir fólki. Vertu því til staðar, ekki aðeins fyrstu dagana þegar margir vinir og ættingjar eru viðstaddir, heldur líka mánuðum seinna þegar aðrir hafa snúið sér aftur að dagsins önn. „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ (Orðskv. 17:17) Trúsystkini geta veitt þeim sem syrgja mikla huggun allan þann tíma sem það tekur þá að takast á við sorgina. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 3:7.

18 Ýmislegt getur endurvakið sársauka þeirra sem syrgja. Það getur verið brúðkaupsafmæli, ákveðin tónlist, ljósmyndir, eitthvað sem þeir gera eða jafnvel viss ilmur, hljóð eða árstíð. Það getur reynt sérstaklega á þann sem syrgir maka sinn að gera ýmislegt einn í fyrsta skipti, svo sem að sækja mót eða minningarhátíð. „Ég bjóst við því að fyrsta brúðkaupsafmælið yrði mjög erfitt,“ segir bróðir nokkur, „og það reyndi á. En nokkrir bræður og systur skipulögðu lítið boð með nánustu vinum mínum þannig að ég yrði ekki einn.“

19 Höfum þó í huga að þeir sem syrgja þurfa ekki bara á uppörvun að halda við sérstök tækifæri. „Mér hefur fundist mjög gott þegar einhver býður fram aðstoð eða veitir mér félagsskap án þess að sérstakt tilefni sé til þess,“ segir Junia. „Þessar óvæntu stundir eru afar dýrmætar og ég hef fengið mikla huggun af þeim.“ Við getum auðvitað ekki tekið burt sorgina eða fyllt algerlega upp í tómarúmið sem verður þegar ástvinur deyr, en með því að hjálpa syrgjendum á ýmsa vegu getum við veitt vissa huggun og hughreystingu. (1. Jóh. 3:18) Gaby segir: „Ég er Jehóva ákaflega þakklát fyrir kærleiksríka öldungana sem voru mér til halds og trausts í öllum erfiðleikum mínum. Þeir hafa sannarlega hjálpað mér að finna hvernig Jehóva heldur utan um mig í kærleika sínum.“

20. Hvers vegna veita loforð Jehóva mikla huggun?

20 Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva, Guð allrar huggunar, afmáir alla sorg og veitir huggun fyrir fullt og allt þegar „allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Krists] og ganga fram“. (Jóh. 5:28, 29) Guð lofar að „afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jes. 25:8) Í stað þess að þurfa að ,gráta með grátendum‘ munu allir jarðarbúar ,fagna með fagnendum‘. – Rómv. 12:15.

^ gr. 8 Síðast er minnst á Jósef þegar Jesús var 12 ára. Þegar Jesús gerði fyrsta kraftaverkið og breytti vatni í vín var ekkert minnst á Jósef – og reyndar aldrei eftir það. Og þegar Jesús hékk á kvalastaurnum fól hann Jóhannesi postula að annast Maríu, en það hefði hann væntanlega ekki gert hefði Jósef enn verið á lífi. – Jóh. 19:26, 27.

^ gr. 11 Mörgum hefur líka fundist hughreystandi að lesa Sálm 20:2, 3; 31:8; 38:9, 10, 16; 55:23; 121:1, 2; Jesaja 57:15; 66:13; Filippíbréfið 4:13 og 1. Pétursbréf 5:7.

^ gr. 14 Sjá einnig greinina „Comfort the Bereaved, as Jesus Did“ í Varðturninum á ensku 1. nóvember 2010.