Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júlí 2017

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Væri við hæfi fyrir kristinn mann að eiga skotvopn, svo sem skammbyssu eða riffil, til að verja hendur sínar?

Þjónar Jehóva fara eftir meginreglum Biblíunnar þegar þeir ákveða hvaða leiðir þeir velja til að tryggja öryggi sitt Þessar meginreglur ráða fólki frá að nota vopn á borð við skammbyssur, riffla eða önnur skotvopn til að verja sig gegn öðrum mönnum. Lítum á eftirfarandi:

Lífið er heilagt í augum Jehóva – sérstaklega mannslífið. Sálmaskáldið Davíð vissi að Jehóva er „uppspretta lífsins“. (Sálm. 36:10) Ef þjónn Guðs ákveður að gera hæfilegar ráðstafanir til að verja sjálfan sig eða eigur sínar reynir hann umfram allt að forðast blóðskuld, það er að segja að verða öðrum manni að bana. – 5. Mós. 22:8; Sálm. 51:16.

Nú er það svo að hægt er að beita ýmiss konar verkfærum til að bana fólki og baka sér blóðskuld, en ef menn grípa til skotvopna eykur það hættuna til muna að verða öðrum að bana, annaðhvort fyrir slysni eða af ásetningi. * Þar við bætist að árásarmaðurinn er trúlega taugaspenntur fyrir, og sjái hann byssu í höndum annars manns er meiri hætta á að einhver týni lífi.

Jesús sagði fylgjendum sínum að taka með sér sverð síðasta kvöldið sem hann var á lífi hér á jörð. Það var þó ekki hugsað til sjálfsvarnar. (Lúk. 22:36, 38) Jesús ætlaði sér að kenna þeim með áþreifanlegu dæmi að þeir ættu ekki að grípa til ofbeldis, ekki einu sinni andspænis vopnuðum  mannfjölda. (Lúk. 22:52) Eftir að Pétur greip til sverðs og hjó til þjóns æðstaprestsins sagði Jesús við hann: „Slíðra sverð þitt!“ Síðan gaf Jesús fylgjendum sínum meginreglu sem þeir hafa haft að leiðarljósi allt fram á þennan dag: „Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.“ – Matt. 26:51, 52.

Þjónar Guðs „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“ í samræmi við Míka 4:3Þetta er einkennandi fyrir sannkristna menn og kemur heim og saman við einlæga hvatningu Páls postula: „Gjaldið engum illt fyrir illt ... Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ (Rómv. 12:17, 18) Páll lifði í samræmi við þessi innblásnu orð þótt hann lenti stundum „í háska af völdum ræningja“. (2. Kor. 11:26) Hann fór aldrei á svig við meginreglur Biblíunnar til að tryggja eigið öryggi. Hann treysti Guði og vissi að viturleg ráð Biblíunnar voru „betri en hervopn“. – Préd. 9:18.

Þjónar Guðs álíta lífið miklu meira virði en efnislegar eigur. „Enginn þiggur líf af eigum sínum.“ (Lúk. 12:15) Ef mildileg orð duga ekki til að stöðva vopnaðan ræningja er skynsamlegt að fara eftir meginreglunni sem kemur fram í orðum Jesú: „Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein.“ Það getur jafnvel útheimt að maður láti af hendi kyrtil sinn og yfirhöfn ef svo má að orði komast. (Matt. 5:39, 40; Lúk. 6:29) * Best er auðvitað að fyrirbyggja eftir föngum að verða fyrir barðinu á glæpamönnum. Það getur til dæmis verið okkur til verndar að forðast „allt oflæti vegna eigna“ og vera þekktir í samfélaginu sem friðsamir vottar Jehóva. – 1. Jóh. 2:16; Orðskv. 18:10.

Þjónar Guðs virða samvisku annarra. (Rómv. 14:21) Sumir í söfnuðinum gætu hneykslast ef þeir kæmust að raun um að trúsystkini ætti byssu til að geta varið hendur sínar. Ef við elskum trúsystkini okkar tökum við hag þeirra fram yfir okkar eigin, jafnvel þótt það þýði að við neitum okkur um eitthvað sem við teljum okkur eiga lagalegan rétt á. – 1. Kor. 10:32, 33; 13:4, 5.

Þjónar Guðs vilja vera til fyrirmyndar. (2. Kor. 4:2; 1. Pét. 5:2, 3) Ef einhver í söfnuðinum ætti byssu til sjálfsvarnar myndu öldungar safnaðarins leiðbeina honum með hjálp Biblíunnar. Ef hann ákvæði að halda byssunni eftir sem áður væri hann ekki talinn til fyrirmyndar og ekki hæfur til að gegna ábyrgðarstarfi í söfnuðinum eða fá nein verkefni. Hið sama gildir um safnaðarmann sem heldur áfram að bera skotvopn í vinnunni. Það væri betra fyrir hann að finna sér annað starf. *

Í meginatriðum er það auðvitað persónulegt mál hvernig þjónar Guðs ákveða að verja sjálfa sig, fjölskyldu sína og eigur, og hið sama er að segja um þá vinnu sem þeir velja sér. En meginreglur Biblíunnar endurspegla visku Guðs og kærleika til okkar. Í ljósi þeirra kjósa vottar, sem eru þroskaðir í trúnni, að eiga ekki skotvopn til að verjast árásum annarra. Þeir vita að ef þeir treysta Guði og fylgja meginreglum Biblíunnar hljóta þeir varanlegt öryggi um alla eilífð. – Sálm. 97:10; Orðskv. 1:33; 2:6, 7.

Þjónar Guðs treysta á Jehóva í þrengingunni miklu og reyna ekki að verja hendur sínar.

^ gr. 3 Þjónn Guðs gæti kosið að eiga skotvopn (riffil eða haglabyssu) til að veiða sér til matar eða til að verjast villidýrum. Þegar byssan er ekki í notkun er þó best að hún sé óhlaðin, jafnvel tekin í sundur, og geymd í læstri hirslu. Í löndum þar sem skotvopn eru bönnuð eða leyfisskyld fer þjónn Guðs að sjálfsögðu að lögum. – Rómv. 13:1.

^ gr. 2 Í greininni „How to Prevent Rape“ í Vaknið! á ensku 8. mars 1993 er bent á leiðir til að verjast nauðgun.

^ gr. 4 Nánari leiðbeiningar um atvinnu þar sem ætlast er til að starfsmaður beri vopn má finna í Varðturninum 1. febrúar 1984, bls. 16-17, og í enskri útgáfu blaðsins 1. nóvember 2005, bls. 31.