Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 6

Verum ráðvönd!

Verum ráðvönd!

„Ég verð ráðvandur þar til ég dey.“ – JOB. 27:5, NW.

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

YFIRLIT *

1. Hvernig tóku vottarnir þrír afstöðu með Jehóva?

SJÁÐU fyrir þér eftirfarandi þrjár aðstæður þar sem vottar Jehóva eiga hlut að máli. (1) Ung stúlka er í skólanum þegar kennarinn biður alla í bekknum að taka þátt í hátíðarhöldum. Stúlkan veit að Guð hefur ekki velþóknun á þessari hátíð og neitar því kurteislega að taka þátt í henni. (2) Feiminn ungur bróðir er að boða trúna hús úr húsi. Hann veit að í næsta húsi býr skólafélagi sem hefur áður gert grín að vottum Jehóva. Ungi bróðirinn fer engu að síður upp að húsinu og bankar upp á. (3) Fjölskyldufaðir vinnur hörðum höndum við að framfleyta fjölskyldunni. Dag einn biður yfirmaðurinn hann að gera nokkuð sem er óheiðarlegt eða ólöglegt. Þótt það gæti kostað hann vinnuna útskýrir hann fyrir yfirmanninum að hann verði að vera heiðarlegur og löghlýðinn því að Guð krefst þess af þjónum sínum. – Rómv. 13:1-4; Hebr. 13:18.

2. Hvaða spurningar ætlum við að skoða og af hverju?

2 Hvaða eiginleika tekurðu eftir hjá þessum þrem vottum? Kannski tekurðu eftir nokkrum, svo sem hugrekki og heiðarleika. En einn eiginleiki, sem þau sýndu, er sérstaklega mikilvægur – ráðvendni. Þau voru öll Jehóva trú. Þau voru staðráðin í að hvika ekki frá meginreglum hans. Ráðvendni var hvötin á bak við það sem þau gerðu. Jehóva er án efa stoltur af þeim öllum fyrir að sýna þennan eiginleika. Við viljum sömuleiðis gera föður okkar á himnum stoltan. Skoðum því eftirfarandi spurningar: Hvað er ráðvendni? Hvers vegna þurfum við að vera ráðvönd? Og hvernig getum við orðið enn ákveðnari í að vera ráðvönd á þessum erfiðu tímum?

 HVAÐ ER RÁÐVENDNI?

3. (a) Hvernig sýna þjónar Guðs ráðvendni? (b) Hvaða dæmi hjálpa okkur að skilja hvað ráðvendni merkir?

3 Hvernig sýna þjónar Guðs ráðvendni? Með því að elska hann af öllu hjarta og sýna honum órjúfanlega tryggð. Það gera þeir með því að setja vilja hans framar öllu öðru þegar þeir taka ákvarðanir. Skoðum aðeins hvernig orðið „ráðvendni“ er notað í Biblíunni. Hebreska orðið, sem er þýtt „ráðvendni“, merkir meðal annars að vera heilbrigður, lýtalaus og heill. Ísraelsmenn færðu Jehóva dýrafórnir en lögin kváðu á um að dýrin þyrftu að vera lýtalaus. * (3. Mós. 22:21, 22) Þjónar Guðs máttu ekki fórna dýri sem á vantaði löpp, eyra eða auga og það mátti ekki vera sjúkt. Það skipti Jehóva miklu máli að dýrið væri heilbrigt, lýtalaust og heilt. (Mal. 1:6-9) Það er ekki erfitt að skilja hvers vegna Jehóva vill hafa hlutina þannig. Þegar við kaupum eitthvað, svo sem ávöxt, bók eða verkfæri, viljum við ekki að það sé rotið, götótt eða að hluta af því vanti. Við viljum að það sé lýtalaust og heilt. Jehóva vill líka að trúfesti okkar og kærleikur til hans sé þannig.

4. (a) Hvers vegna geta ófullkomnir menn verið ráðvandir? (b) Hvers krefst Jehóva af okkur, samkvæmt því sem segir í Sálmi 103:12-14?

4 Ættum við að hugsa sem svo að við þurfum að vera fullkomin til að geta verið ráðvönd? Okkur gæti fundist við vera langt frá því að vera lýtalaus, jafnvel stórgölluð. Skoðum tvær ástæður fyrir því að við þurfum ekki að hugsa þannig. Í fyrsta lagi einblínir Jehóva ekki á galla okkar. Í orði hans segir: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálm. 130:3) Jehóva veit að við erum ófullkomin og syndug og hann fyrirgefur okkur ríkulega. (Sálm. 86:5) Í öðru lagi þekkir hann takmörk okkar og ætlast ekki til meira af okkur en við getum. (Lestu Sálm 103:12-14.) Að hvaða leyti getum við þá verið lýtalaus og heil í augum hans?

5. Hvernig er kærleikur lykillinn að ráðvendni þjóna Jehóva?

5 Kærleikur er lykillinn að því að þjónar Jehóva geti verið ráðvandir. Kærleikur okkar til Guðs og tryggð við hann sem föður okkar á himnum þarf að vera lýtalaus og heil. Ef kærleikur okkar er þannig, jafnvel þegar við verðum fyrir prófraunum, verðum við ráðvönd. (1. Kron. 28:9; Matt. 22:37) Hugsum aftur um vottana þrjá í byrjun greinar. Af hverju brugðust þeir þannig við? Langar stúlkuna ekki að það sé skemmtilegt í skólanum? Vill ungi bróðirinn að gert sé grín að sér? Eða vill fjölskyldufaðirinn missa vinnuna? Auðvitað ekki. Þau vita öllu heldur að meginreglur Jehóva eru réttlátar og vilja umfram allt þóknast honum. Þau elska hann og setja því vilja hans í fyrsta sæti þegar þau taka ákvarðanir. Þannig sýna þau að þau eru ráðvönd.

HVERS VEGNA ÞURFUM VIÐ AÐ VERA RÁÐVÖND?

6. (a) Hvers vegna þarftu að sýna ráðvendni? (b) Hvernig sýndu Adam og Eva að þau voru ekki ráðvönd?

6 Hvers vegna þurfum við hvert og eitt að vera ráðvönd? Þú þarft að sýna ráðvendni af því að Satan hefur ásakað Jehóva og hann hefur líka ásakað þig. Í Edengarðinum gerði þessi  uppreisnargjarni engill sig að Satan, það er að segja „andstæðingi“. Hann kom óorði á Jehóva með því að gefa í skyn að hann sé lélegur, eigingjarn og óheiðarlegur stjórnandi. Því miður tóku Adam og Eva afstöðu með Satan og gerðu uppreisn gegn Jehóva. (1. Mós. 3:1-6) Í Eden höfðu þau ótal tækifæri til að styrkja kærleikann til Jehóva. En kærleikur þeirra reyndist ekki lýtalaus og heill þegar Satan reyndi þau. Síðar meir kviknaði önnur spurning: Yrði nokkur maður Jehóva Guði trúfastur vegna kærleika til hans? Með öðrum orðum: Geta mennirnir verið ráðvandir? Þessi spurning kviknaði á dögum Jobs.

7. Hvernig litu Jehóva og Satan á ráðvendni Jobs, eins og sjá má af Jobsbók 1:8-11?

7 Job var uppi á þeim tíma þegar Ísraelsmenn voru í Egyptalandi. Enginn maður var jafn ráðvandur og hann. Engu að síður var hann ófullkominn eins og við og gerði mistök. En Jehóva elskaði Job fyrir ráðvendni hans. Líklegt er að Satan hafi þegar hæðst að Jehóva fyrir ótrúmennsku mannanna. Jehóva beindi því athygli hans að Job. Líf Jobs sannaði að Satan væri lygari. Satan fór þá fram á að ráðvendni Jobs yrði reynd. Jehóva treysti Job, vini sínum, og leyfði Satan að reyna hann. – Lestu Jobsbók 1:8-11.

8. Hvernig réðst Satan á Job?

8 Satan er grimmur og hann er morðingi. Hann rændi Job öllu sem hann átti, drap þjóna hans og eyðilagði mannorð hans. Hann réðst á fjölskyldu Jobs og drap ástkær börnin hans tíu. Síðan sneri hann sér að líkama Jobs. Hann rændi hann heilsunni með því að slá hann sársaukafullum  kýlum frá hvirfli til ilja. Kona Jobs varð viti sínu fjær og gagntekin af sorg. Hún sagði honum að gefast upp, formæla Guði og deyja. Job óskaði þess sjálfur að deyja en lét þó ekki af ráðvendni sinni. Þá reyndi Satan aðra aðferð. Hann notaði þrjá menn sem voru vinir Jobs. Mennirnir heimsóttu Job og dvöldust hjá honum dögum saman. En í stað þess að hughreysta hann lásu þeir honum pistilinn og ávítuðu hann miskunnarlaust. Þeir fullyrtu að Guð væri valdur að þjáningum hans og að honum stæði á sama um ráðvendni hans. Þeir héldu því meira að segja fram að Job væri vond manneskja sem ætti skilið þá ógæfu sem dundi yfir hann. – Job. 1:13-22; 2:7-11; 15:4, 5; 22:3-6; 25:4-6.

9. Hvað gerði Job ekki þrátt fyrir erfiðleika sína?

9 Hvernig brást Job við öllu mótlætinu? Hann var ekki fullkominn. Hann sagði falsvinum sínum til syndanna og sagði ýmislegt sem hann viðurkenndi síðar að hefði verið mælt í gáleysi. Honum var meira umhugað um eigið réttlæti en réttlæti Guðs. (Job. 6:3; 13:4, 5; 32:2, Biblían 1981; 34:5) En Job snerist ekki gegn Guði, ekki einu sinni þegar honum leið hvað verst. Hann neitaði að trúa lygum falsvina sinna. Hann sagði: „Það hvarflar ekki að mér að kalla ykkur réttláta! Ég verð ráðvandur þar til ég dey.“ (Job. 27:5, NW) Þetta er veigamikil yfirlýsing. Job hvikaði ekki frá ráðvendni sinni og við getum gert hið sama.

10. Hvernig snertir það þig að Satan skuli hafa véfengt ráðvendni Jobs?

10 Sakirnar, sem Satan bar á Job, snerta þig líka. Hvernig þá? Hann ber þig sömu sökum. Hann segir efnislega að þú elskir ekki Jehóva Guð, að þú myndir hætta að þjóna honum til að bjarga eigin skinni og að þú getir ekki verið ráðvandur. (Job. 2:4, 5; Opinb. 12:10) Hvað finnst þér um það? Er það ekki særandi? En hugsaðu um þetta: Jehóva treystir þér nógu vel til að gefa þér einstakt tækifæri. Hann leyfir Satan að reyna ráðvendni þína. Jehóva er fullviss um að þú getir verið ráðvandur og sannað Satan lygara. Hann lofar líka að hjálpa þér að gera það. (Hebr. 13:6) Hvílíkur heiður að alvaldur Drottinn alheims skuli bera slíkt traust til þín! Sérðu hvers vegna ráðvendni er svo mikilvæg? Hún gerir okkur kleift að hrekja lygar Satans, verja orðstír föður okkar og styðja stjórnarfar hans. Hvernig getum við verið enn staðráðnari í að vera ráðvönd?

HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ RÁÐVÖND Á ÞESSUM ERFIÐU TÍMUM?

11. Hvað getum við lært af Job?

11 Satan hefur hert árásir sínar á þessum erfiðu „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1) Hvernig getum við verið enn ákveðnari í að vera ráðvönd á þessum myrku tímum? Enn og aftur getum við lært margt af Job. Hann hafði þegar sýnt ráðvendni löngu áður en Satan reyndi hann. Lítum á þrennt sem við getum lært af Job til að byggja okkur upp þannig að við getum verið ráðvönd.

Hvernig getum við orðið enn ákveðnari í að vera ráðvönd? (Sjá 12. grein.) *

12. (a) Hvernig fylltist Job aðdáun og lotningu fyrir Jehóva, eins og sjá má af Jobsbók 26:7, 8 og 14? (b) Hvernig getum við fyllst aðdáun á Guði?

12 Job elskaði Jehóva heitar eftir því sem hann fylltist meiri lotningu fyrir honum. Job gaf sér góðan tíma til að hugleiða undur sköpunarverksins. (Lestu Jobsbók 26:7, 8, 14.) Hann fylltist djúpri lotningu og aðdáun þegar hann hugsaði um jörðina, himininn, skýin og  þrumurnar. En hann viðurkenndi þó að hann vissi mjög lítið um allt það sem Jehóva hafði skapað. Orð Jehóva fylltu hann líka lotningu. „Í brjósti mér varðveitti ég orðin úr munni hans,“ sagði hann. (Job. 23:12) Job dáðist að Jehóva og bar lotningu fyrir honum. Hann elskaði himneskan föður sinn og vildi þóknast honum. Fyrir vikið varð hann enn ákveðnari í að vera honum ráðvandur. Við þurfum að líkja eftir Job. Við vitum mun meira um undur sköpunarverksins en fólk á dögum Jobs gerði. Auk þess höfum við Biblíuna í heild til að hjálpa okkur að kynnast Jehóva eins og hann í raun er. Allt sem við lærum getur fyllt okkur lotningu. Því meira sem við dáumst að Jehóva og virðum hann þeim mun meira elskum við hann. Þannig verðum við fúsari til að hlýða honum og staðráðnari í að vera honum ráðvönd. – Job. 28:28.

Við verðum enn ákveðnari í að vera ráðvönd með því að horfa ekki á klám. (Sjá 13. grein.) *

13-14. (a) Hvernig sýndi Job hlýðni, samanber Jobsbók 31:1? (b) Hvernig getum við líkt eftir Job?

13 Job styrkti ráðvendni sína með því að vera hlýðinn í einu og öllu. Job vissi að ráðvendni útheimtir hlýðni. Í hvert sinn sem við hlýðum Jehóva verðum við enn staðráðnari í að vera ráðvönd. Job gerði sitt ýtrasta til að hlýða Jehóva alla daga. Hann gætti til dæmis að því hvernig hann kom fram við konur. (Lestu Jobsbók 31:1.) Hann var kvæntur maður og vissi að það væri óviðeigandi að sýna öðrum en eiginkonu sinni rómantískan áhuga. Í heiminum nú til dags eru kynferðislegar freistingar á hverju strái. Erum við staðráðin í að líkja eftir Job og sýna engum óviðeigandi athygli sem er ekki maki okkar? Erum við ákveðin í að horfa ekki á klúrar eða klámfengnar myndir, sama hvar þær kunna að birtast? (Matt. 5:28) Ef við sýnum slíka sjálfstjórn á hverjum degi verðum  við ákveðnari í að láta aldrei af ráðvendni okkar.

Við verðum enn ákveðnari í að vera ráðvönd með því að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta. (Sjá 14. grein.) *

14 Job hlýddi Jehóva einnig með því að sjá efnislega hluti í réttu ljósi. Hann vissi að það væri alvarleg og refsiverð synd að setja traust sitt á efnislegar eigur. (Job. 31:24, 28) Við búum í heimi þar sem efnishyggja er allsráðandi. En við verðum enn ákveðnari í að vera ráðvönd ef við tileinkum okkur rétt viðhorf til peninga og efnislegra hluta eins og Biblían hvetur til. – Orðskv. 30:8, 9; Matt. 6:19-21.

Við verðum enn ákveðnari í að vera ráðvönd með því að halda voninni lifandi. (Sjá 15. grein.) *

15. (a) Hvaða von hjálpaði Job að vera ráðvandur? (b) Hvernig er það okkur til góðs að hafa í huga vonina sem Jehóva gefur okkur?

15 Job einbeitti sér að voninni um að Guð myndi launa honum og það hjálpaði honum að vera ráðvandur. Hann trúði því að ráðvendni hans skipti Guð máli. (Job. 31:6, NW) Þótt hann þyrfti að þola miklar raunir var hann fullviss um að Jehóva myndi launa honum að lokum. Sú fullvissa hjálpaði honum að vera ráðvandur. Ráðvendni Jobs gladdi Jehóva svo mikið að hann launaði honum ríkulega þegar hann var enn ófullkominn. (Job. 42:12-17; Jak. 5:11) Og Job á enn ríkulegri laun í vændum. Trúir þú því statt og stöðuglega að Jehóva launi þér ráðvendni þína? Guð okkar hefur ekki breyst. (Mal. 3:6) Við getum haldið voninni um bjarta framtíð ljóslifandi í hjörtum okkar ef við höfum hugfast að hann hefur mætur á ráðvendni okkar. – 1. Þess. 5:8, 9.

16. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

16 Vertu því staðráðinn í að hvika aldrei frá ráðvendni þinni. Stundum gæti þér fundist þú einn á báti í þeim efnum. En þú verður aldrei einn. Þú verður meðal milljóna ráðvandra þjóna Guðs víðs vegar um heiminn. Þannig líkirðu líka eftir trúföstum körlum og konum forðum daga sem voru ráðvönd, jafnvel þótt það kostaði sum þeirra lífið. (Hebr. 11:36-38; 12:1) Verum öll staðráðin í að lifa í samræmi við orð Jobs: „Ég verð ráðvandur.“ Megum við heiðra Jehóva með ráðvendni okkar um alla eilífð!

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

^ gr. 5 Hvað er ráðvendni? Af hverju hefur Jehóva mætur á ráðvendni þjóna sinna? Hvers vegna er mikilvægt að við séum ráðvönd? Greinin hjálpar okkur að finna svör Biblíunnar við þessum spurningum. Hún sýnir líka skýrt fram á hvernig við getum orðið enn ákveðnari í að vera ráðvönd dag frá degi en það hefur mikla blessun í för með sér.

^ gr. 3 Hebreska orðið, sem er þýtt „lýtalaust“, er skylt orðinu sem er þýtt „ráðvendni“. Fyrra orðið er notað í tengslum við dýr en hið síðara í tengslum við menn.

^ gr. 50 MYND: Við sjáum Job sem ungan föður fræða nokkur af börnum sínum um undur sköpunarverksins.

^ gr. 52 MYND: Bróðir neitar að horfa á klám með vinnufélögunum.

^ gr. 54 MYND: Bróðir stenst freistinguna að kaupa stórt og dýrt sjónvarp sem hann hvorki þarf né hefur efni á.

^ gr. 56 MYND: Bróðir tekur sér tíma til að biðja og hugleiða vonina um paradís.