Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 8

Hvers vegna er mikilvægt að sýna þakklæti?

Hvers vegna er mikilvægt að sýna þakklæti?

„Verið þakklát.“ – KÓL. 3:15.

SÖNGUR 46 Við þökkum þér, Jehóva

YFIRLIT *

1. Hvernig sýndi Samverji nokkur þakklæti fyrir að Jesús skyldi lækna hann?

MENNIRNIR tíu voru úrkula vonar. Þeir voru holdsveikir og horfurnar voru ekki bjartar. En dag einn komu þeir auga á Jesú, kennarann mikla. Þeir höfðu heyrt að Jesús læknaði alls kyns sjúkdóma og voru sannfærðir um að hann gæti læknað þá líka. Þeir hrópuðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Mennirnir tíu urðu alheilir. Þeir voru eflaust allir þakklátir fyrir það sem Jesús gerði. En einn þeirra gerði meira en að finna til þakklætis – hann tjáði Jesú þakklæti sitt. * Þessi Samverji, sem fékk lækningu meina sinna, fann sig knúinn til að lofa Guð „hárri raustu“. – Lúk. 17:12-19.

2-3. (a) Hvers vegna gæti okkur yfirsést að sýna þakklæti? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

2 Rétt eins og Samverjinn viljum við sýna þeim þakklæti sem gera góðverk. En stundum getum við gleymt að tjá þakklæti okkar með orðum eða verkum.

3 Í þessari grein skoðum við hvers vegna er mikilvægt að við sýnum þakklæti í orði og verki. Við drögum lærdóm af nokkrum biblíupersónum sem voru þakklátar og öðrum sem voru vanþakklátar. Síðan ræðum við hvernig við getum sýnt þakklæti á mismunandi vegu.

 HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ TJÁ ÞAKKLÆTI OKKAR?

4-5. Af hverju ættum við að sýna þakklæti?

4 Jehóva er besta fyrirmyndin um að sýna þakklæti. Hann gerir það meðal annars með því að launa þeim sem hann hefur velþóknun á. (2. Sam. 22:21; Sálm. 13:6; Matt. 10:40, 41) Biblían hvetur okkur til að vera „eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans“. (Ef. 5:1) Aðalástæðan fyrir því að við ættum að sýna þakklæti er því sú að við viljum líkja eftir Jehóva.

5 Skoðum aðra ástæðu fyrir því að við ættum að tjá þakklæti okkar. Þakklæti er eins og góð máltíð – það er ánægjulegra þegar fleiri fá að njóta þess með okkur. Það gleður okkur þegar við finnum að aðrir kunna að meta okkur. Og við gleðjum aðra þegar við sýnum að við kunnum að meta þá. Sá sem hefur gert eitthvað fyrir okkur eða gefið okkur eitthvað veit að það var ekki til einskis ef við tjáum honum þakklæti. Þannig styrkjast vináttuböndin okkar á milli.

6. Hvað eiga þakkir sameiginlegt með gulleplum?

6 Þakklæti okkar er mikils virði þegar við tjáum það öðrum. Í Biblíunni segir: „Gullepli í silfurskálum, svo eru vel valin orð.“ (Orðskv. 25:11) Ímyndaðu þér hve verðmætt gullepli í silfurskál er. Og þar að auki er það fallegt. Þér fyndist eflaust ómetanlegt að fá slíka gjöf. Það getur verið alveg jafn verðmætt fyrir aðra að heyra þig tjá þakklæti þitt. Hugsaðu líka um þetta: Gullepli getur enst afar lengi. Þegar þú tjáir öðrum þakklæti þitt geta þeir að sama skapi minnst þess með hlýju það sem eftir er ævinnar.

 ÞEIR TJÁÐU ÞAKKLÆTI SITT

7. Hvernig sýndi Davíð þakklæti sitt, eins og sjá má af Sálmi 30:13, svo og fleiri sálmaritarar?

7 Margir þjónar Guðs til forna sýndu þakklæti. Davíð var einn þeirra. (Lestu Sálm 30:13.) Hann hafði miklar mætur á hreinni tilbeiðslu og sýndi þakklæti sitt í verki. Hann gaf til dæmis stóran hluta af auðæfum sínum til byggingar musterisins. Afkomendur Asafs létu í ljós þakklæti sitt með því að yrkja sálma, eða lofsöngva. Í einum þeirra þökkuðu þeir Jehóva og lofuðu hann fyrir ,undraverk hans‘. (Sálm. 75:2) Davíð og afkomendur Asafs vildu greinilega sýna Jehóva hve mikils þeir mátu þá ríkulegu blessun sem hann hafði veitt þeim. Hvernig getur þú líkt eftir þessum sálmariturum?

Hvað lærum við af bréfi Páls til Rómverja um að sýna þakklæti? (Sjá 8. og 9. grein.) *

8-9. Hvernig sýndi Páll postuli að hann mat trúsystkini sín að verðleikum og hvaða áhrif hefur það án efa haft?

8 Páll postuli mat trúsystkini sín að verðleikum og lét það í ljós þegar hann talaði um þau. Hann þakkaði Guði stöðugt fyrir þau í bænum sínum. Hann tjáði þeim líka þakklæti sitt bréflega. Í 16. kafla Rómverjabréfsins nefnir Páll 27 trúsystkini sín á nafn í fyrstu 15. versunum. Hann minnist þess sérstaklega að Priska og Akvílas hafi „stofnað lífi sínu í hættu“ fyrir hann og segir að Föbe hafi verið „bjargvættur margra“, þar á meðal hans sjálfs. Hann hrósaði þessum ástkæru og duglegu bræðrum og systrum. – Rómv. 16:1-15.

9 Páll var meðvitaður um að trúsystkini sín væru ófullkomin en í lokaorðum Rómverjabréfsins kaus hann að beina athyglinni að góðum eiginleikum þeirra. Hugsaðu þér hve uppörvandi það hefur verið fyrir þessa bræður og systur að heyra kveðjur Páls lesnar upp fyrir söfnuðinn. Það hefur án efa styrkt vináttu þeirra við hann. Hrósar þú reglulega trúsystkinum í söfnuðinum þínum fyrir það góða sem þau segja og gera?

10. Hvernig tjáði Jesús fylgjendum sínum þakklæti og hvað getum við lært af því?

10 Þegar Jesús lét rita nokkrum söfnuðum í Litlu-Asíu lét hann í ljós þakklæti sitt fyrir það sem fylgjendur hans gerðu. Hann hóf til dæmis erindi sitt til safnaðarins í Þýatíru með þessum orðum: „Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk þín eru meiri en hin fyrri.“ (Opinb. 2:19) Jesús nefndi bæði að safnaðarmenn hefðu aukið starf sitt og hrósaði þeim fyrir þá eiginleika sem bjuggu að baki góðum verkum þeirra. Þó að hann hafi þurft að leiðbeina sumum í Þýatíru hóf hann bæði mál sitt og endaði á hvatningu. (Opinb. 2:25-28) Hugsaðu um valdið sem Jesús hefur sem höfuð allra safnaða. Hann þarf ekki að þakka okkur fyrir það sem við gerum fyrir hann. Engu að síður finnst honum mikilvægt að tjá þakklæti sitt. Hann er öldungunum frábær fyrirmynd.

ÞEIR VORU VANÞAKKLÁTIR

11. Hvernig leit Esaú á það sem var heilagt, eins og sjá má af Hebreabréfinu 12:16?

11 Sumir sem sagt er frá í Biblíunni voru vanþakklátir. Esaú ólst upp hjá foreldrum sem elskuðu og virtu Jehóva en hann kunni þó ekki að meta það sem var heilagt. (Lestu Hebreabréfið 12:16.) Hvernig kom vanþakklæti hans í ljós? Í fljótfærni seldi hann Jakobi, yngri bróður sínum, frumburðarréttinn fyrir eina  skál af baunakássu. (1. Mós. 25:30-34) Síðar sá Esaú verulega eftir því. En hann kunni ekki að meta það sem hann átti og hafði því engan rétt á að kvarta yfir að hafa ekki hlotið blessunina sem fylgdi frumburðarréttinum.

12-13. Hvernig sýndu Ísraelsmenn vanþakklæti og með hvaða afleiðingum?

12 Ísraelsmenn höfðu margar ástæður til að sýna þakklæti. Þeir voru leystir úr ánauð eftir að Jehóva sendi plágurnar tíu yfir Egyptaland. Síðan bjargaði hann þeim með því að tortíma öllum her Egypta í Rauðahafinu. Ísraelsmenn voru svo þakklátir að þeir sungu Jehóva lofsöng um sigurinn. En entist þakklætið?

13 Þegar nýir erfiðleikar urðu á vegi Ísraelsmanna voru þeir fljótir að gleyma öllu því góða sem Jehóva hafði gert fyrir þá. Þeir urðu vanþakklátir. (Sálm. 106:7) Hvernig létu þeir það í ljós? „Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni.“ Í raun voru þeir að mögla gegn Jehóva. (2. Mós. 16:2, 8) Þjóðin olli honum vonbrigðum með vanþakklæti sínu. Síðar sagði Jehóva fyrir að öll þessi kynslóð Ísraelsmanna myndi deyja í eyðimörkinni, að Jósúa og Kaleb undanskildum. (4. Mós. 14:22-24; 26:65) Skoðum nú hvernig við getum varast að fylgja þessum slæmu fordæmum og líkt eftir þeim góðu.

SÝNUM ÞAKKLÆTI

14-15. (a) Hvernig geta hjón sýnt að þau kunni að meta hvort annað? (b) Hvernig geta foreldrar kennt börnum sínum að sýna þakklæti?

14 Í fjölskyldunni. Öll fjölskyldan nýtur góðs af því þegar hver og einn sýnir þakklæti. Það styrkir hjónabandið þegar hjón eru þakklát hvort öðru. Það auðveldar þeim líka að fyrirgefa mistök hvort annars. Eiginmaður, sem kann að meta konuna sína, tekur ekki aðeins eftir því góða sem hún segir og gerir heldur hrósar henni fyrir það. (Orðskv. 31:10, 28) Og skynsöm eiginkona segir manni sínum hvað hún kann að meta í fari hans.

15 Foreldrar, hvernig getið þið kennt börnunum ykkar að sýna þakklæti? Munið að börnin líkja eftir því sem þið segið og gerið. Setjið þeim því gott fordæmi með því að þakka þeim þegar þau gera eitthvað fyrir ykkur. Kennið þeim  líka að þakka fyrir sig þegar aðrir gera eitthvað fyrir þau. Sýnið þeim fram á að þakklæti þarf að koma frá hjartanu og að orð þeirra geta haft mikið að segja. Ung kona, sem heitir Clary, segir: „Mamma stóð skyndilega ein uppi með þrjú börn til að ala upp, aðeins 32 ára. Þegar ég varð 32 ára hugsaði ég til þess hve erfitt það hlýtur að hafa verið fyrir hana á þeim aldri. Ég sagði henni hve þakklát ég væri fyrir allt sem hún hafði fórnað til að ala mig og bræður mína upp. Nýlega sagði hún mér hve vænt henni hefði þótt um að heyra það, að hún hugsi oft um það sem ég sagði og að það gleðji hana í hvert sinn.“

Kennið börnunum að sýna þakklæti. (Sjá 15. grein.) *

16. Nefndu dæmi um hvernig þakklæti getur verið öðrum hvatning.

16 Í söfnuðinum. Það er hvetjandi fyrir bræður okkar og systur þegar við tjáum þeim þakklæti okkar. Tökum Jorge, 28 ára öldung, sem dæmi. Hann veiktist alvarlega og gat ekki sótt samkomur í heilan mánuð. Og þegar hann byrjaði aftur að mæta réð hann ekki við að taka að sér verkefni. Hann segir: „Mér fannst ég einskis virði af því að ég gat ekki sinnt verkefnum í söfnuðinum eins og áður. En eftir eina samkomu sagði bróðir við mig: ,Mig langar til að þakka þér fyrir að vera okkur fjölskyldunni svona góð fyrirmynd. Þú getur ekki ímyndað þér hvað við höfum haft mikla ánægju af ræðunum þínum síðustu árin. Þær hafa styrkt okkur í trúnni.‘ Ég fékk kökk í hálsinn og táraðist. Þetta var einmitt það sem ég þurfti að heyra.“

17. Hvernig getum við sýnt Jehóva að við kunnum að meta örlæti hans, samkvæmt Kólossubréfinu 3:15?

17 Örlátum Guði okkar. Jehóva gefur okkur andlega fæðu í ríkum mæli. Við fáum til dæmis gagnleg ráð á samkomum, í blöðunum okkar og á vefnum. Hefurðu einhvern tíma heyrt ræðu, lesið grein eða horft á efni í Sjónvarpi safnaðarins og hugsað með þér að þetta væri einmitt það sem þú þurftir? Hvernig getum við sýnt Jehóva að við kunnum að meta þessar gjafir? (Lestu Kólossubréfið 3:15.) Ein leið er að þakka honum oft fyrir þær í bænum okkar. – Jak. 1:17.

Að hjálpa til við að þrífa ríkissalinn er frábær leið til að sýna þakklæti okkar. (Sjá 18. grein.)

18. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta ríkissalinn okkar?

18 Við sýnum Jehóva líka þakklæti með því að halda samkomuhúsum okkar  hreinum og snyrtilegum. Við hjálpumst að við að ræsta ríkissalinn reglulega og halda honum við og þeir sem nota tækjabúnað safnaðarins fara vel með hann. Ríkissalirnir endast lengur þegar við höldum þeim vel við og þá þarf sjaldnar að ráðast í miklar endurbætur. Þannig verður meira fjármagn eftir til að byggja eða endurnýja ríkissali um heim allan.

19. Hvað lærðir þú af frásögunni af farandhirðishjónunum?

19 Þeim sem leggja hart að sér í okkar þágu. Við getum breytt því hvernig aðrir líta á erfiðleika sína með því að tjá þeim þakklæti okkar. Tökum sem dæmi farandhirðishjón nokkur. Eftir langan vetrardag í boðuninni sneru þau úrvinda aftur þangað sem þau gistu. Það var svo kalt að konan svaf í kápunni sinni. Morguninn eftir sagði hún manninum sínum að hún treysti sér ekki til að halda áfram í farandstarfinu. Seinna sama morgun barst þeim bréf frá deildarskrifstofunni stílað á hana. Í bréfinu var henni hrósað hlýlega fyrir úthald sitt í þjónustunni. Nefnt var hve erfitt það getur verið að flytjast á nýjan stað í hverri viku. Maðurinn hennar segir: „Hrósið snart hana svo djúpt að hún nefndi aldrei aftur að hana langaði til að hætta í farandstarfinu. Reyndar hvatti hún mig oft til að halda áfram þegar ég hugsaði um að hætta.“ Hjónin voru hátt í 40 ár í farandstarfi.

20. Hvað ættum við að gera á hverjum degi og hvers vegna?

20 Leggjum okkur fram um að sýna þakklæti á hverjum degi með orðum okkar og verkum. Hugulsemi okkar gæti verið einmitt það sem einhver þarf til að komast í gegnum daginn í þessum vanþakkláta heimi. Ef við sýnum þakklæti getum við myndað vináttubönd sem vara að eilífu. Og það sem mestu máli skiptir er að við líkjum eftir Jehóva, föður okkar sem er bæði örlátur og þakklátur.

SÖNGUR 20 Þú gafst þinn kæra son

^ gr. 5 Hvernig getum við lært að sýna þakklæti af Jehóva, Jesú og holdsveikum Samverja? Í greininni ræðum við um fordæmi þeirra og annarra. Við ræðum hvers vegna það er svo mikilvægt að sýna þakklæti og skoðum nokkur dæmi um hvernig við getum gert það.

^ gr. 1 ORÐASKÝRING: Ef maður er þakklátur fyrir eitthvað kann maður að meta það. Þakklæti getur verið mjög innileg og sterk tilfinning í garð einhvers.

^ gr. 55 MYND:Bréf Páls er lesið upp í söfnuðinum í Róm. Akvílas, Priskilla, Föbe og fleiri gleðjast yfir því að heyra nafn sitt nefnt.

^ gr. 57 Mynd: Móðir kennir dóttur sinni að sýna eldri systur þakklæti fyrir að vera góð fyrirmynd.