Páll postuli skrifaði að Jehóva ,láti ekki reyna okkur um megn fram‘. (1. Kor. 10:13) Þýðir það að Jehóva meti fyrir fram hvað við getum staðist og velji síðan þær raunir sem við göngum í gegnum?

Veltu fyrir þér hvaða áhrif það hefði á líf okkar ef því væri þannig farið. Bróðir nokkur átti son sem svipti sig lífi. Hann spurði: „Ákvað Jehóva fyrir fram að við hjónin gætum tekist á við sonarmissinn? Gerðist það vegna þess að Guð mat það svo að við gætum tekist á við það?“ Er rökrétt að ætla að Jehóva stjórni atburðum í lífi okkar á þennan hátt?

Við nánari athugun á orðum Páls í 1. Korintubréfi 10:13 komumst við að þessari niðurstöðu: Það er engin biblíuleg ástæða til að ætla að Jehóva meti fyrir fram hvað við getum þolað og velji þannig hvaða raunir henda okkur. Skoðum fjórar ástæður fyrir því að við komumst að þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi gaf Jehóva mönnunum frjálsan vilja. Hann vill að við veljum sjálf hvaða leið við förum í lífinu. (5. Mós. 30:19, 20; Jós. 24:15) Ef við veljum réttu leiðina getum við beðið Jehóva um að stýra skrefum okkar. (Orðskv. 16:9) En ef við veljum ranga leið þurfum við að taka afleiðingunum. (Gal. 6:7) Væri Jehóva ekki að takmarka frjálsan vilja okkar ef hann veldi hvaða raunir við þyrftum að þola?

Í öðru lagi kemur Jehóva ekki í veg fyrir að ,tími og tilviljun hitti okkur fyrir‘. (Préd. 9:11) Við gætum lent í hræðilegu slysi, kannski með skelfilegum afleiðingum, ef við erum á röngum stað á röngum tíma. Jesús talaði um harmleik þar sem 18 manns létu lífið þegar turn féll yfir þá. Hann tók það skýrt fram að Guð var ekki valdur að dauða þeirra. (Lúk. 13:1-5) Er ekki órökrétt að halda að Guð ákveði fyrir fram hver lifir og hver deyr í ófyrirsjáanlegum atburðum?

Í þriðja lagi varðar deilan um ráðvendni mannsins hvert og eitt okkar. Munum að Satan hefur véfengt ráðvendni allra þjóna Jehóva. Hann heldur því fram að við reynumst ekki trúföst Jehóva þegar erfiðleika ber að garði. (Job. 1:9-11; 2:4; Opinb. 12:10) Liti ekki út fyrir að Satan hefði á réttu að  standa ef Jehóva kæmi í veg fyrir þær raunir sem hann teldi okkur um megn?

Í fjórða lagi þarf Jehóva ekki að vita fyrir fram allt sem hendir okkur. Sú hugmynd að Guð velji fyrir fram hvaða erfiðleikum við verðum fyrir gefur til kynna að hann hljóti að vita allt um framtíð okkar. En það samræmist ekki því sem Biblían kennir. Guð getur vissulega séð fyrir ókomna atburði. (Jes. 46:10) Af Biblíunni sjáum við hins vegar að hann er vandlátur þegar hann kýs að sjá fyrir framtíðaratburði. (1. Mós. 18:20, 21; 22:12) Hann notar því ekki alltaf mátt sinn til að sjá fram í tímann af því að hann ber virðingu fyrir frjálsum vilja okkar. Er við öðru að búast af Guði sem virðir frelsi okkar og sýnir alltaf fullkomið jafnvægi? – 5. Mós. 32:4; 2. Kor. 3:17.

Hvernig ber okkur þá að skilja orð Páls: „Guð ... lætur ekki reyna ykkur um megn fram“? Páll er ekki að lýsa því hvað Jehóva gerir áður en erfiðleika ber að garði heldur meðan á þeim stendur. Orð postulans bera með sér að sama hvaða raunir kunna að henda okkur sér Jehóva fyrir okkur ef við treystum honum. (Sálm. 55:23) Hughreystandi orð Páls eru byggð á tveimur grundvallarsannindum.

Í fyrsta lagi eru raunir okkar ekki meiri en „það sem menn geta þolað“. Þær eru þær sömu og gengur og gerist meðal fólks. Slíkar raunir eru okkur ekki ofviða – svo lengi sem við treystum á Guð. (1. Pét. 5:8, 9) Fyrr í 10. kafla 1. Korintubréfs vitnar Páll í prófraunirnar sem Ísraelsmenn urðu fyrir í eyðimörkinni. (1. Kor. 10:6-11) Engin þessara rauna var mönnum um megn eða þess eðlis að trúfastir Ísraelsmenn gætu ekki staðist þær. Páll sagði fjórum sinnum að sumir þeirra hefðu óhlýðnast. Því miður létu sumir Ísraelsmenn undan röngum löngunum því að þeir treystu ekki á Guð.

Í öðru lagi er ,Guð trúr‘. Af samskiptum Guðs við þjóna sína sjáum við að hann sýnir óbrigðulan kærleika þeim „sem elska hann og halda boðorð hans“. (5. Mós. 7:9) Við sjáum líka að Guð stendur alltaf við loforð sín. (Jós. 23:14) Í ljósi þessa geta þeir sem elska hann og hlýða honum treyst því að hann haldi þetta tvíþætta loforð þegar þeir lenda í raunum: (1) Hann leyfir ekki að nein raun verði svo þung að við getum ekki staðist hana og (2) hann sér um að við ,komumst út úr henni‘. – Biblían 1912.

Jehóva ,hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘.

Hvernig sér Jehóva um að þeir sem treysta á hann komist út úr raunum sínum? Hann getur auðvitað fjarlægt raunina ef hann vill. En munum að Páll sagði: ,Jehóva mun einnig sjá um að þér komist út úr henni og fáið staðist.‘ (Biblían 1912) Hann sér þess vegna oft til þess að við ,komumst út úr‘ raunum okkar með því að veita okkur það sem við þurfum til að geta haldið út. Lítum á nokkrar undankomuleiðir sem Jehóva getur séð okkur fyrir:

  • Hann ,hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘. (2. Kor. 1:3, 4) Jehóva getur róað huga okkar, hjarta og tilfinningar með orði sínu, heilögum anda og andlegu fæðunni sem trúi og hyggni þjónninn lætur okkur í té. – Matt. 24:45; Jóh. 14:16; Rómv. 15:4.

  • Hann getur leiðbeint okkur fyrir milligöngu heilags anda. (Jóh. 14:26) Þegar við lendum í raunum getur heilagur andi hjálpað okkur að muna frásögur Biblíunnar og meginreglur þannig að við getum tekið viturlegar ákvarðanir.

  • Hann getur notað engla sína í okkar þágu. – Hebr. 1:14.

  • Hann getur hjálpað okkur fyrir milligöngu trúsystkina sem geta verið okkur styrkur með orðum sínum og verkum. – Kól. 4:11.

Hvað höfum við þá lært af orðum Páls í 1. Korintubréfi 10:13? Jehóva velur ekki hvaða raunum við verðum fyrir. En þegar við lendum í raunum megum við vera viss um þetta: Ef við treystum Jehóva fullkomlega leyfir hann aldrei að raunir okkar fari yfir mannleg þolmörk. Hann sér okkur alltaf fyrir undankomuleið svo að við getum staðist þær. Það er sannarlega hughreystandi tilhugsun.