ARTHUR, faðir minn, hafði allt frá unga aldri elskað Guð. Hann langaði til að verða meþódistaprestur en áform hans breyttust þegar hann fór að lesa rit Biblíunemendanna og sækja samkomur hjá þeim. Hann lét skírast árið 1914, þá 17 ára. Fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi og hann var kvaddur í herinn. Þar sem hann vildi ekki bera vopn var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi og afplánaði dóminn í Kingston-fangelsinu í Ontario í Kanada. Eftir að pabbi losnaði úr fangelsi gerðist hann farandbóksali eins og boðberar í fullu starfi voru kallaðir í þá daga.

Pabbi gekk að eiga móður mína, Hazel Wilkinson, árið 1926 en móðir hennar hafði kynnst sannleikanum árið 1908. Ég fæddist 24. apríl 1931, annar í röðinni af fjórum systkinum. Við lærðum af pabba að bera mikla virðingu fyrir Biblíunni. Líf okkar snerist um að tilbiðja Jehóva og við tókum reglulega þátt í að boða fagnaðarerindið hús úr húsi sem fjölskylda. – Post. 20:20.

ÉG VAR HLUTLAUS OG GERÐIST BRAUTRYÐJANDI EINS OG PABBI

Síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 og árið eftir var starf Votta Jehóva bannað í Kanada. Þjóðernisathafnir voru haldnar í skólum sem reknir voru af ríkinu. Þær voru meðal annars fólgnar í því að hylla fánann og syngja þjóðsönginn. Við Dorothy, eldri systir mín, vorum látin yfirgefa skólastofuna meðan á þessum athöfnum stóð. Mér til undrunar reyndi kennarinn minn að gera lítið úr mér einn daginn. Hann sagði að ég væri raggeit. Nokkrir bekkjarfélagar réðust á mig eftir skóladaginn og börðu mig niður. En þessi árás styrkti mig bara í þeim ásetningi að ,hlýða Guði framar en mönnum‘. – Post. 5:29.

 Ég var skírður í vatnsgeymi á bóndabæ í júlí 1942. Ég var þá 11 ára. Þegar árleg skólaleyfi voru fannst mér gaman að vera frítímabrautryðjandi (nú kallað aðstoðarbrautryðjandi). Eitt árið fór ég með þrem öðrum bræðrum á óúthlutað svæði í norðurhluta Ontario til að vitna fyrir skógarhöggsmönnum.

Ég gerðist brautryðjandi 1. maí 1949. Stuttu síðar var ég beðinn að aðstoða við byggingarframkvæmdir við deildarskrifstofuna í Kanada og 1. desember var ég orðinn Betelíti. Mér var falið að vinna í prentsmiðjunni og lærði að stjórna einni af prentvélunum. Ég vann vikum saman á næturvöktum við að prenta smárit um ofsóknir sem þjónar Jehóva urðu fyrir í Kanada á þeim tíma.

Síðar starfaði ég í þjónustudeildinni og tók þá viðtöl við brautryðjendur sem ætluðu að starfa í Quebec en þar voru harðar ofsóknir á þeim tíma. Einn þessara brautryðjenda var Mary Zazula frá Edmonton í Alberta. Þau Joe, eldri bróðir hennar, höfðu verið rekin að heiman af því að þau vildu ekki hætta biblíunámi sínu en foreldrar þeirra tilheyrðu rétttrúnaðarkirkjunni og voru heittrúað fólk. Mary og Joe höfðu skírst í júní 1951 og gerst brautryðjendur hálfu ári síðar. Mér duldist ekki að Mary þótti ákaflega vænt um Jehóva. Ég sagði við sjálfan mig: ,Ef ekkert miður gott kemur í ljós held ég að ég vilji giftast þessari stúlku.‘ Við giftum okkur níu mánuðum síðar, hinn 30. janúar 1954. Viku síðar var okkur boðið að fá þjálfun fyrir farandstarf, og næstu tvö árin störfuðum við á farandsvæði í norðurhluta Ontario.

Boðunin færðist nú í vöxt um allan heim og óskað var eftir fleiri trúboðum til starfa. Við hugsuðum sem svo að við hlytum að geta spjarað okkur við hvaða aðstæður sem er fyrst við gátum afborið ískalda veturna í Kanada og óþolandi mýflugurnar á sumrin. Við útskrifuðumst með 27. nemendahópi Gíleaðskólans í júlí 1956, og í nóvember vorum við komin á nýja starfssvæðið okkar – Brasilíu.

TRÚBOÐSSTARF Í BRASILÍU

Við fórum að læra portúgölsku eftir að við komum til deildarskrifstofunnar í Brasilíu. Eftir að hafa lært einfaldar kveðjur og lagt á minnið einnar mínútu blaðakynningu var okkur boðið að fara út í boðunina. Ef húsráðandi sýndi áhuga var lagt til að við læsum ritningarstaði sem lýsa lífinu undir stjórn ríkis Guðs. Kona nokkur hlustaði af athygli fyrsta daginn sem við tókum þátt í boðuninni þannig að ég las Opinberunarbókina 21:3, 4 – og síðan leið yfir mig. Ég var ekki búinn að aðlagast heitu og röku loftslaginu, og það reyndist áskorun fyrir mig lengi vel.

 Okkur hjónunum var falið að starfa í borginni Campos. Núna eru 15 söfnuðir í borginni en þegar við komum þangað var aðeins einn einangraður hópur þar ásamt trúboðsheimili. Á trúboðsheimilinu voru fjórar systur: Esther Tracy, Ramona Bauer, Luiza Schwarz og Lorraine Brookes (nú Wallen). Ég hafði það verkefni á heimilinu að aðstoða við þvottinn og útvega eldivið til að við gætum matreitt. Eitt mánudagskvöldið fengum við óvæntan gest eftir Varðturnsnámið. Konan mín hafði lagst í sófa til að hvíla sig meðan við röbbuðum um liðinn dag. Þegar hún lyfti höfðinu af púðanum og settist upp skreið snákur undan honum. Það varð uppi fótur og fit þar til ég drap hann!

Ég var útnefndur farandhirðir eftir að hafa lært portúgölsku í eitt ár. Lífið til sveita var einfalt. Þar var ekki rafmagn, við sváfum á mottum á gólfinu og ferðuðumst um í hestvagni. Á boðunarferð um óúthlutað svæði fórum við með lest til bæjar uppi til fjalla og leigðum herbergi á gistiheimili. Deildarskrifstofan sendi okkur 800 blöð til að nota í boðuninni. Við þurftum að fara allmargar ferðir á pósthúsið til að sækja blaðakassana og bera þá heim á gistiheimilið.

Árið 1962 var Ríkisþjónustuskólinn haldinn út um alla Brasilíu handa bræðrum og trúboðssystrum. Ég ferðaðist milli skóla um sex mánaða skeið – en án Mary. Ég kenndi í Manaus, Belém, Fortaleza, Recife og Salvador. Ég sá um að skipuleggja umdæmismót í frægu óperuhúsi í Manaus. Miklar rigningar menguðu drykkjarvatn að mestu leyti og við höfðum ekki boðlega aðstöðu fyrir mötuneyti á mótinu. (Í þá daga var borinn fram matur á mótunum.) Ég hafði samband við herinn og vinsamlegur liðsforingi gerði fúslega ráðstafanir til að sjá okkur fyrir drykkjarvatni meðan á mótinu stóð og sendi hermenn til að reisa tvö stór tjöld undir eldhús og mötuneyti.

Meðan ég var á faraldsfæti starfaði Mary á fyrirtækjasvæði þar sem fjöldi fólks frá Portúgal vann. Það hafði ekki áhuga á neinu öðru en að græða peninga. Henni tókst ekki að ræða við einn einasta mann um Biblíuna og sagði því við nokkra Betelíta: „Ekki gæti ég hugsað mér að búa í Portúgal.“ En síst áttum við von á bréfinu sem við fengum skömmu síðar. Okkur var nefnilega boðið að flytjast til Portúgals. Á þeim tíma var starf okkar bannað þar en við þáðum boðið þrátt fyrir að Mary væri brugðið í fyrstu.

FYRSTA VERKEFNI OKKAR Í PORTÚGAL

Við komum til Lissabon í Portúgal í ágúst 1964. Bræður og systur máttu þola miklar ofsóknir af hendi portúgölsku leynilögreglunnar. Af þeim  sökum var best að enginn tæki á móti okkur og við hefðum ekki samband við trúsystkini okkar á svæðinu. Við bjuggum á gistiheimili meðan við biðum eftir dvalarleyfi en leigðum okkur íbúð eftir að hafa fengið leyfið. Í janúar 1965 höfðum við loksins samband við deildarskrifstofuna. Það var mikill gleðidagur þegar við sóttum fyrstu samkomuna eftir fimm mánaða hlé.

Við komumst að raun um að lögreglan gerði húsleitir daglega hjá bræðrum og systrum. Þar sem ríkissölum hafði verið lokað voru safnaðarsamkomur haldnar á einkaheimilum. Vottar voru yfirheyrðir í hundraðatali á lögreglustöðvum. Bræðrum og systrum var misþyrmt til að reyna að fá þau til að gefa upp nöfn þeirra sem stjórnuðu samkomunum. Þau vöndu sig því á að ávarpa hvert annað með skírnarnafni, svo sem José eða Paulo, en ekki með eftirnafni. Við fórum að dæmi þeirra.

Það var ákaflega mikilvægt að sjá bræðrum og systrum fyrir andlegri fæðu. Mary hafði það verkefni að vélrita námsgreinar Varðturnsins og annað efni á stensla til að hægt væri að fjölrita það.

AÐ VERJA FAGNAÐARERINDIÐ FYRIR DÓMSTÓLUM

Þýðingarmikil réttarhöld fóru fram í Lissabon í júní 1966. Allir þeir 49, sem tilheyrðu Feijó-söfnuðinum, voru ákærðir fyrir að hafa sótt ólöglega samkomu á einkaheimili. Ég bjó bræður og systur undir réttarhöldin með því að gagnspyrja þau eins og saksóknari. Við vissum að við myndum tapa málinu en líka að það myndi vekja mikla athygli enda var fjallað talsvert um það í fjölmiðlum. Lögfræðingurinn okkar lauk varnarræðu sinni með því að vitna djarfmannlega í Gamalíel frá fyrstu öld. (Post. 5:33-39) Vottarnir 49 voru dæmdir til fangavistar, allt frá 45 dögum upp í fimm og hálfan mánuð. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að lögfræðingurinn okkar þáði biblíunámskeið og sótti samkomur áður en hann féll frá.

Í desember 1966 var ég skipaður umsjónarmaður deildarskrifstofunnar. Ég notaði mikinn tíma til að sinna lögfræðilegum málum. Við lögðum okkur fram við að færa lagaleg rök fyrir því að það ætti að leyfa vottum Jehóva að njóta trúfrelsis í Portúgal. (Fil. 1:7) Okkur var að lokum veitt lagaleg viðurkenning 18. desember 1974. Bræðurnir Nathan Knorr og Frederick Franz komu frá aðalstöðvunum til að gleðjast með okkur á sögulegri og fjölmennri samkomu sem haldin var í Óportó og Lissabon. Alls voru 46.870 manns viðstaddir.

Jehóva sá einnig til þess að boðunin færðist í vöxt á nokkrum eyjum þar sem portúgalska  er töluð, þar á meðal Asoreyjum, Grænhöfðaeyjum, Madeira og Saó Tóme og Prinsípe. Með fleiri boðberum þurfti stærra húsnæði undir deildarskrifstofuna. Nýtt húsnæði var vígt 23. apríl 1988. Bróðir Milton Henschel flutti vígsluræðuna að viðstöddum 45.522 áhugasömum áheyrendum. Tuttugu bræður og systur, sem höfðu verið trúboðar í Portúgal, komu sérstaklega til að vera viðstödd þennan merkisatburð.

TRÚFESTI ANNARRA VAR OKKUR TIL HVATNINGAR

Það hefur auðgað líf okkar mikið á langri ævi að vera með trúföstum þjónum Guðs. Það var lærdómsríkt fyrir mig að aðstoða bróður Theodore Jaracz þegar hann heimsótti eina af deildarskrifstofunum. Bræðurnir í deildarnefndinni höfðu gert allt sem þeir mögulega gátu til að leysa alvarlegan vanda sem við var að glíma. Bróðir Jaracz sagði þessi hughreystandi orð við þá: „Nú skulum við gefa heilögum anda svigrúm til að vinna sitt verk.“ Fyrir nokkrum áratugum vorum við hjónin í heimsókn í Brooklyn og áttum þá kvöldstund með bróður Franz og fáeinum öðrum. Bróðir Franz var beðinn að segja fáein orð að lokum um áralanga þjónustu sína við Jehóva. Hann sagði þá: „Ég mæli með eftirfarandi: Haldið ykkur við söfnuð Jehóva í blíðu og stríðu. Þetta er eini söfnuðurinn sem vinnur það verk sem Jesús fól lærisveinum sínum – að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs.“

Við Mary höfum haft yndi af því að gera það. Við fengum stundum það verkefni að heimsækja deildarskrifstofur í öðrum löndum og eigum góðar minningar um þær. Í þessum heimsóknum hittum við dygga þjóna Jehóva á öllum aldri og fengum tækifæri til að segja þeim hve mikils virði þjónusta þeirra væri. Við hvöttum þau alltaf til að halda áfram að þjóna Jehóva.

Tíminn hefur flogið. Við erum bæði komin yfir áttrætt og Mary er orðin slæm til heilsunnar. (2. Kor. 12:9) Þær prófraunir, sem hafa orðið á vegi okkar, hafa styrkt trúna og gert okkur enn ákveðnari í að vera Guði trú. Þegar við lítum um öxl er deginum ljósara að Jehóva hefur sýnt okkur einstaka góðvild á ótal vegu. *

^ gr. 29 Douglas Guest lést 25. október 2015 meðan þessi grein beið útgáfu. Hann var trúfastur Jehóva allt til dauðadags.